Mosfellingur/Hilmar

Blikastaðir eru „fallegasta byggingarland við innanverðan Faxaflóa“

„Notaleg“ laxveiði, æðardúnn í eina sæng á ári og næstu nágrannar huldufólk í hóli og kerling í bæjarfjallinu. Blikastaðir, ein fyrsta jörðin sem Viðeyjarklaustur eignaðist á 13. öld, á sér merka sögu. Á Blikastaðanesi má til dæmis finna helstu minjar um sjósókn Mosfellinga og jafnvel fornan verslunarstað. Þar sem áður var eitt stærsta kúabú landsins og ættfaðir íslenska holdnautastofnsins ólst upp er nú áformað að byggja heimili fyrir þúsundir manna. „Það verður gott að byggja á Blikastaðatúnum,“ sagði Sigsteinn Pálsson, bóndi á Blikastöðum til áratuga, er hann stóð á tíræðu. „Þar fauk aldrei hey og fólki kemur til með að líða vel þarna.“

Bíl­arnir æða á milli hring­torg­anna á Vest­ur­lands­vegi. Á aðra hönd er Hamra­hlíðin í Úlf­ars­felli með sín snar­bröttu kletta­belti og á hina útsýni yfir sundin blá og til Snæ­fells­jök­uls þegar skyggni er gott. Það er hvasst undir hlíð­inni og grasnálin sem loks hefur náð að skjóta sér upp úr fölri sin­unni hneigir sig í vind­in­um. Neðan við veg­inn vermir síð­deg­is­sólin þegar iðja­græn tún og speglar sig í úfnum hafflet­in­um. Á þessum tíma dags sýnir kerl­ingin í Hamra­hlíð­inni sig og snýr stór­skornu and­lit­inu að helsta kenni­leiti svæð­is­ins: Esj­unni.

Bæj­ar­húsin að Blika­stöðum með sínum ein­kenn­andi burstum standa á áber­andi stað milli fjalls og fjöru. Þau kunna að virð­ast á ber­angri þegar augum er gjóað á þau á hrað­ferð um Vest­ur­lands­veg­inn en eru það einmitt ekki – kannski full­kom­lega stað­sett í skjóli Esj­unnar fyrir norð­an­átt­inni. Böðuð sól frá morgni til kvölds – þegar sú elska lætur sjá sig.

Og það er meðal ann­ars af þessum sökum sem þetta stærsta óbyggða land innan vaxta­marka höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins gæti orðið ein­stakt bygg­ing­ar­land líkt og nú er stefnt að með sam­komu­lagi eig­anda þess, Arion banka, og sveit­ar­fé­lags­ins sem það til­heyr­ir, Mos­fells­bæj­ar. Til stendur að byggja 3.500-3.700 íbúðir sem og atvinnu­hús­næði.

Blika­staða­bær­inn, byggður að mestu á milli­stríðs­ár­un­um, fær að standa, mun öðl­ast nýtt hlut­verk og verður „hjarta“ þessa nýja hverfis sem mun eitt og sér tvö­falda núver­andi íbúa­fjölda Mos­fells­bæj­ar. „Þetta er áreið­an­lega fal­leg­asta bygg­ing­ar­land við inn­an­verðan Faxa­fló­a,“ sagði Sig­steinn Páls­son, bóndi á Blika­stöðum til ára­tuga, í við­tali við sveit­unga sinn, Bjarka Bjarna­son, árið 2005, þá orð­inn hund­rað ára. „Það er veð­ur­sæld þarna. Fal­leg fjalla­sýn og ekki snjó­þung­t.“

Alta

Sumir hafa lýst Blika­stöðum sem „óbyggðri eyju“ í bygg­ing­ar­land­inu – skarði milli nyrstu hverfa Reykja­víkur og þeirra syðstu í Mos­fells­bæ. En það er auð­velt að líta öðru­vísi á það. Sjá sög­una drjúpa af hverju strái, velta fyrir sér líf­inu á einu mesta stór­býli 20. ald­ar­innar og kot­býlum þess sem og fólks­ins er stund­aði sjó­sókn og við­skipti við strönd­ina fyrr á öld­um. Her­mönn­unum sem byggðu skot­byrgi við sjó­inn í síð­ari heims­styrj­öld. Hlusta á fugla­kvak­ið. Öldu­gjálfrið. Sömu sef­andi hljóðin og hljó­mað hafa í eyrum allra sem þar hafa farið um til þessa dags.

Blika­­staðir hafa trú­lega verið teknir í ábúð snemma á mið­öldum en þeirra er fyrst getið í rit­uðum heim­ildum á þrett­ándu öld. Þá hafði verið stofnað klaustur í Viðey sem hóf fljót­lega að leggja undir sig bújarðir í grennd eyj­ar­inn­ar. Alls eign­að­ist Við­eyj­arklaustur 28 jarðir í Mos­fells­sveit, um 80 pró­sent allra jarða sveit­ar­inn­ar, áður en yfir lauk og voru Blika­staðir þeirra á með­al.

Drengur við störf eða leik á Blikastöðum, líklega við upphaf fimmta áratugs síðustu aldar.
Lára Gunnarsdóttir/Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar

Í bókum kirkju og klaust­urs árið 1234 er reyndar talað um eign­ar­hald á „Blacka­stod­um“ og í árið 1313 er skrifað um góðan hey­feng af „bleika­stod­um“. Í Fógeta­reikn­ingum áranna 1547-1552 sem rit­aðir eru af Dönum er jörðin svo kölluð „Blecke­stedom“ en í Jarða­bók Árna Magn­ús­sonar og Páls Vídalíns frá 1704 er hún nefnd „Blikastader“.

Ýmsar kenn­ingar hafa verið settar fram um nafnið og hvort hið upp­runa­lega hafi ef til vill verið „Blakka­stað­ir“ en algengt var að kenna bæj­ar­nöfn í Nor­egi við „Blakk“ eða „Blakka“ fyrr á öld­um.

Sig­steinn bóndi hafði hins vegar engar efa­semdir um upp­runann og fleiri hafa tekið undir það: Nafnið Blika­staðir er dregið af æðar­blikum enda æðar­varp þekkt á jörð­inni í ald­ir.

Engar þakkir fyrir lán á hrossum

Við siða­skiptin á 16. öld söls­aði Dana­kon­ungur klaust­urs­jarð­irnar undir sig og settar voru kvað­ir, oft miklar, á ábú­end­ur. Ein þeirra var sú að lána „Bessa­staða­mönn­um“ hesta dytti þeim í hug að leggja land undir fót. Í Mos­fells­bær: Saga byggðar í 1100 ár, sem Bjarki Bjarna­son og Magnús Guð­munds­son skrif­uðu, er rifjað upp að í byrjun átj­ándu aldar hafi bónd­inn á Blika­stöðum þurft að lána hesta sína í nítján skipti á fimmtán ára tíma­bili, þar af fimmtán sinnum vegna ferða kon­ungs­manna til Alþing­is. Hvorki hafi komið þökk né greiðsla frá Bessa­stöðum fyrir slíkt. „Þess voru dæmi að láns­hestar skil­uðu sér ekki aftur eða komu holgrafnir og drápust af illri með­ferð skömmu eftir heim­komu,“ segir í bók­inni.

Uppdráttur af Blikastöðum frá árinu 1916.
Mosfellsbær

Fjórir gamlir sauðir

Blika­staðir voru enn kon­ungs­eign er jarða­tal var tekið árið 1704. Þá var ábú­and­inn einn en heim­il­is­menn tólf. Í bústofn­inum voru „níu kýr, tvö geld­naut, ein kvíga tvæ­vet­ur, eitt naut vet­ur­gam­alt, 29 ær með lömbum, fjórir gamlir sauð­ir, sex þre­vetr­ir, átta tvæ­vetr­ir, 23 vet­ur­gaml­ir, þrír hestar, tvö hross og ein ung­hryssa, en fóðr­ast gátu sex kýr, 20 lömb og einn hest­ur,“ líkt og það er orðað í Jarða­bók Árna og Páls.

En það var ekki alltaf sældin ein að búa að Blika­stöðum þótt þar væru ýmis hlunn­indi, svo sem lax­veiði í Úlf­arsá og dún­tekja. Þrátt fyrir tölu­verða fjar­lægð frá Skaft­ár­eldum sem hófust árið 1783 fóru bændur í Mos­fells­sveit ekki var­hluta af móðu­harð­ind­un­um. Hey voru rýr, nytin féll niður í kúnum og búsmali drapst ýmist úr hungri eða veik­ind­um. Ári eftir að Skaft­ár­eldar hefj­ast hafði Sveinn bóndi á Blika­stöðum misst allt sitt búfé nema eina kú, segir í byggða­sögu þeirra Bjarka og Magn­ús­ar.

Árið 1855 lýsir séra Stefán Þor­­valds­­son, prestur að Mos­felli, jörð­inni Blika­stöðum með þessum hætti: „…sá bær stendur á lág­­lendu mýr­lendi, skammt fyrir norðan Lág­a­fells­hamra, aust­an­vert við Korp­­úlfs­­staðaá, sunnan til við Leiru­voga, gagn­vart Víð­i­­nesi. Þessi jörð hefir góðan útheyja­hey­­skap…“ og er 15 hund­r­aða, eins og þar stend­ur.

Blikastaðir fyrir miðju, Esjan í baksýn. Myndin er tekin af toppi Úlfarsfells, bæjarfells býlisins, líklega við upphaf fimmta áratugar síðustu aldar.
Lára Gunnarsdóttir/Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar

Blika­staðir voru meðal helstu sjáv­ar­jarða í Mos­fells­sveit og fremst á Blika­staða­nesi má finna merkar minjar um sjó­sókn á fyrri öld­um; nú frið­lýstar rústir og grjót­hlaðnar leifar af smá­hýsum og görð­um. Nesið til­heyrði Blika­stöðum lengi en eig­endur létu það af hendi til Mos­fells­bæjar í upp­hafi þess­arar aldar og þangað teygir golf­völlur sig í dag.

Rúst­irnar á nes­inu benda til þess að þar hafi verið útræði. Í Jarða­bók Árna og Páls stendur til að mynda að þar hafi verið upp­sátur fyrir skip við sjó og „heim­ræði á haust þá fiskur gekk inn á sund“.

Í upp­hafi níunda ára­tugar síð­ustu aldar gerði Krist­ján Eld­járn forn­leifa­fræð­ingur athugun á Blika­staða­nesi og leiddi að því líkur að þar hefði verið sjó­búð og fisk­byrgi. Einnig var það ályktun hans að gerðin hefðu verið hlaðin á síð­mið­öldum í tengslum við fis­verk­un. Hann útlok­aði ekki að á Blika­staða­nesi hefði verið kaup­stefnu­staður og að rúst­irnar væru frá tíð kaup­manna á þessum slóð­um. Þá gætu skip hafa legið við mynni Úlf­arsár, árinnar sem aðskildi lönd Blika­staða og Korp­úlfs­staða, og vörur ferjaðar að og frá landi.

Í Blikastaðakró við Blikastaðanes er fjölskrúðugt lífríki enda rennur Úlfarsá þar til sjávar.
Umhverfisstofnun

Árið 1909, lík­ast til að sum­ri, kom fjár­hóp­ur, vænt­an­lega nokkuð lúinn, í túnin að Blika­stöðum eftir lang­ferð þvert yfir landið frá Húna­vatns­sýslu. Þetta var búsmal­inn hans Magn­úsar Þor­láks­son­ar, bróður Jóns Þor­láks­­sonar for­­sæt­is­ráð­herra, sem ákveðið hafði að flytja ásamt fjöl­skyldu sinni frá bernsku­slóð­unum á Vest­ur­hóps­hólum og að Blika­stöð­um. „Þá var býlið kot eitt, nytja­lítið á hverja lund,“ líkt og Guð­mundur Jósafats­son skrif­aði árið 1963. „Sjálf­sagt hefur hann verið um margt mun fremri en sveit­ungar hans yfir­leitt,“ skrifar hann um Magn­ús. „En um tvennt mun hann hafa mjög borið höfuð og herðar yfir þá og enda þótt víðar væri leit­að. Hann kunni að plægja og hann hafði dug til að nýta þá kunn­áttu til slíkra afreka, að enn sér þar mjög til merkja“.

Magnús rækt­aði smám saman upp mela og mýrar í Blika­staða­land­inu og beitti þar m.a. þúfna­bana svoköll­uð­um, þeim fyrsta sem til lands­ins kom. Enn í dag er flötin sem með honum var unnin kennd við þessi merku tíma­mót: Þúfna­bana­flöt. Magnús var á marga vísu fram­sýnn. Einka­sími var til að mynda kom­inn á Blika­staði á öðrum ára­tug 20. ald­ar­inn­ar, mun fyrr en á flestum bæj­um.

Í byggð­ar­sögu Mos­fells­bæjar segir m.a. um dugnað Magn­úsar að eftir því hafi verið tekið hvernig hann bar sig að við að dreifa áburði á tún. Gekk hann um með poka framan á sér og jós á báðar hend­ur.

Heyskapur að Blikastöðum á árunum 1940-45. Þá voru Blikastaðir orðnir stórbýli.
Lára Gunnarsdóttir/HerMos

Brjánn á Blika­stöðum

Og stundum tók Magnús ákvarð­anir sem höfðu ekki aðeins áhrif á Blika­staði heldur Ísland allt og fram­tíð­ina, líkt og dæmi sem greint er frá í bók Bjarka og Magn­ús­ar, sann­ar. Sum­arið 1933 voru flutt inn til lands­ins fjögur naut og ein kálfa­full kvíga frá Skotlandi. Grip­irnir voru af Gall­owa­y-kyni og var komið fyrir í Þerney á Kjal­ar­nesi. Grun­semdir kvikn­uðu fljót­lega um að dýrin væru með smit­sjúk­dóm og var þeim lóg­að. Þá hafði kýrin borið kálfi sem fékk að halda lífi og var gefið nafnið Brjánn.

„Ör­lög bola­kálfs­ins vöfð­ust mjög fyrir mönnum en Magnús Þor­láks­son bóndi á Blika­stöðum tók af skar­ið, flutti kálfinn heim að Blika­stöð­um, hélt honum í ein­angrun um vet­ur­inn og reynd­ist hann full­komn­lega heil­brigð­ur,“ segir í byggð­ar­sögu Mos­fells­bæj­ar. „Magnús sem var þá í for­ystu­sveit bænda sætti mik­illi gagn­rýni fyrir þetta til­tæki sitt en kálf­ur­inn Brjánn var fluttur austur í Gunn­ars­holt á Rang­ár­völlum og síðan að Hvann­eyri og er hann ætt­faðir íslenska holda­nauta­stofns­ins.“

Fann glufur í lögum

Blika­staða­búið stækk­aði jafnt og þétt í búskap­ar­tíð Magn­ús­ar. Hann var klókur í við­skiptum og fann smugu í mjólk­ur­sam­sölu­lögum sem sett voru á fjórða ára­tugnum og komu í veg fyrir að bændur utan Reykja­víkur gætu selt mjólk beint til neyt­enda. Magnús kom sér upp „úti­búi“ frá Blika­stöðum á Mela­völlum í Reykja­vík, lít­illi bújörð sem stóð þar sem gatan Rauða­gerði er í dag. Þangað flutti Magnús sínar bestu tutt­ugu mjólk­ur­kýr hverju sinni og gat þar með selt afurðir sínar beint til neyt­enda. Þeir sköff­uðu sjálfir ílátin og mjólk­ur­póstur fór svo um alla borg og skil­aði af sér mjólk­inni. Sumir keyptu einn lítra í einu en stærsti kaup­and­inn var far­sótt­ar­heim­il­ið.

Sigsteinn Pálsson var valinn Mosfellingur ársins 2005. Á því ári varð hann hundrað ára. Skjáskot: Mosfellingur

Magnús bjó á Blika­stöðum þar til hann lést árið 1942 en þá tóku Helga dóttir hans og Sig­steinn eig­in­maður hennar við búinu. Sig­steinn hafði áður verið bústjóri Magn­úsar að Mela­völl­um. Tún voru um 42 hekt­arar er þau tóku við og á næstu árum bættu þau um betur og voru hekt­ar­arnir orðnir 70 tals­ins er þau létu af búskap árið 1973. Þá voru á jörð­inni 60 mjólk­­ur­kýr og sam­tals 90 gripir í fjósi.

Helga var um tveggja ára er for­eldrar hennar fluttu með fjöl­skyld­una að Blika­stöð­um. Hún minnt­ist bernsku sinnar þar síðar og sagði þá m.a. frá því að huldu­fólk byggi í Sauð­hóli sem var skammt frá bæn­um. Fannst börn­unum á Blika­stöðum stundum vera ljós í honum á kvöld­in. Sig­steinn sagð­ist hins vegar í við­tali ekk­ert kann­ast við þessa meintu nágranna, huldu­fólk­ið, eða minnt­ist sér­stak­lega sagna um slíkt.

Er Magnús Sveins­son, odd­viti Mos­fells­hrepps, féll skyndi­lega frá árið 1958 tók Helga á Blika­stöðum við starf­inu og gegndi því í fjögur ár. Hún var því fyrsta konan sem varð odd­viti hrepps­ins.

Sig­steinn varð hrepp­stjóri árið 1964 og gegndi því emb­ætti í tvo ára­tugi. Nafn hans er skrifað í sögu­bæk­urnar líkt og Helgu en þó með öðrum hætti. Hann var einn af stofn­fé­lögum Lions­klúbbs Kjal­ar­nes­þings, seinna Lions­klúbbs Mos­fells­bæj­ar, og er hann varð tíræður árið 2005 var hann heiðr­aður af alheims­sam­tökum Lions­manna sem elsti starf­andi Lions­fé­lag­inn í heimi.

Á hluta Blikastaðalandsins stendur til að reisa atvinnukjarna. Umhverfisstofnun hefur minnt byggingaraðila á að Úlfarsá sé friðuð og velja þurfi þá starfsemi sem í nágrenni hennar fær að vera af kostgæfni.
Verkís

Úlf­arsá fellur úr Hafra­vatni og lið­ast um lág­lendið til sjávar í litla vík sem nefn­ist Blika­staða­kró. Að hluta er hún nefnd Korp­úlfs­staðaá eða Korpa. Blika­staðir eiga veiði­rétt­indi í ánni og hefur hún oft gefið ágæt­lega. Við hana er auð­ugt líf­ríki og gróð­ur­far og fjöl­breytt fugla­líf.

Kerlingin í Kerlingarskarði í Úlfarsfelli birtist í kvöldsólinni. Til hægri á myndinni! Mynd: Sunna Ósk Logadóttir

„Þessi jörð hefir … nota­lega lax­veiði í svo­nefndri Blika­staða­kró, sem er fjöru­bás einn lít­ill með stand­klettum á 3 vegu og með garði fyrir framan með hliði á, sem sjór fellur út og inn um með útfalli og aðfalli, en með flóð­inu er net dregið fyrir hliðið á garð­in­um, svo það byrgist inni, sem inn er kom­ið,“ stendur í sókn­ar­lýs­ingu séra Stef­áns Þor­valds­sonar sem rituð var fyrir miðja síð­ustu öld.

700 laxar eitt sum­arið

Sig­steinn bóndi lýsti því eitt sinn í við­tali að eitt árið hefðu 700 laxar komið á land. Þegar áburð­ar­verk­smiðjan tók hins vegar til starfa í Gufu­nesi var kæli­vatn fyrir hana tekið úr Úlf­arsá. Við það rýrn­aði veiðin mik­ið, sagði Sig­steinn. Með­al­veiði und­an­farin ár er 200 lax­ar.

Í þessu sama við­tali var Sig­steinn spurður um æðar­varp­ið, það hið sama og Blika­staðir voru kenndir við. „Það gaf í eina sæng á ári,“ svar­aði Sig­steinn um þessi hlunn­indi en hreiðrin voru í seinni tíð um átta­tíu. Barna­börnin fengu þessar æða­dúnsængur í ferm­ing­ar­gjöf.

„Það verður gott að byggja á Blika­staða­tún­um,“ sagði Sig­steinn í við­tali er hann stóð á tíræðu árið 2005. Hann hafði þá nýverið selt jörð­ina og til stóð að þar myndi brátt rísa íbúða­byggð. „Þar fauk aldrei hey og fólki kemur til með að líða vel þarna.“

Blikastaðabærinn mun fá nýtt hlutverk, hvert sem það verður, en hann er hugsaður sem hjartað í hinu nýja hverfi.
Alta

Blika­staða­jörðin stóð hins vegar að mestu óhreyfð næstu árin og Sig­steinn lifði það ekki að sjá byggð rísa í tún­unum sem hann og tengda­faðir hans höfðu sinnt af mik­illi natni á síð­ustu öld. Útlit er fyrir að senn verði þar loks stungið niður skóflu og að á næstu árum muni mann­fólk flytja inn í hvert húsið á fætur öðru. Búa undir vök­ulu auga kerl­ingar í fugla­bjarg­inu í Hamra­hlíð, skammt frá tærri Úlf­arsánni og í vari fyrir verstu norð­an­átt­inni. Við sundin fag­ur­blá. Og ef til vill sjá ljós í Sauð­hóli ef vel verður að gáð.

Heim­ild­ir:

Við skrif þess­arar greinar var víða leitað fanga. Bestu heim­ild­irnar eru orð Sig­steins Páls­sonar sjálfs, sem varð­veitt eru í við­tölum og á upp­tök­um. Saga sveit­ar­innar hans, Mos­fells­bær: Saga byggðar í 1100 ár eftir þá Bjarka Bjarna­son og Magnús Guð­munds­son, er skil­merki­lega fram­sett og skemmti­lega skrif­uð, með ótal til­vís­unum í allra handa skjöl og heim­ildir fyrri tíma auk þess að geyma frá­sagnir frá lið­inni tíð og fjölda ljós­mynda og korta.

Höf­undur þess­arar greinar tók við­tal við Sig­steinn árið 2005. Hann bjó þá á öldr­un­ar­heim­il­inu Hlað­hömrum, bauð upp á vín­ar­brauð og sagði frá líf­inu á Blika­stöðum enda stálminn­ugur þrátt fyrir að vera orð­inn hund­rað ára. Er hann varð 104 ára náði hann þeim merku tíma­mótum að vera elsti íslenski karl­mað­ur­inn.

Hann lést nokkrum dögum fyrir 105 ára afmæl­is­dag­inn sinn.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar