Færðu sig úr fullkominni kannabisframleiðslu í fiskútflutning
Feðgar sem gripnir voru fyrir kannabisframleiðslu árið 2016 settu ári seinna á fót fiskútflutningsfyrirtæki sem hefur undanfarin tvö ár velt nærri tveimur milljörðum króna. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í sumar upp dóm yfir feðgunum þremur fyrir kannabisframleiðslu og peningaþvætti, en þeir fengu þriggja og tveggja og hálfs árs langa skilorðsbundna dóma.
Feðgar sem stofnuðu og koma að rekstri fiskútflutningsfyrirtækisins Arctic Ocean Seafood voru í sumar dæmdir fyrir aðild að umfangsmikilli kannabisframleiðslu og peningaþvætti, sem lögregla komst á snoðir um árið 2016. Um er að ræða þá Hákon Elfar Guðmundsson, Fannar Örn Hákonarson og Ómar Hákonarson.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu er ónafngreinanlegur, en Kjarninn hefur heimildir fyrir því að feðgarnir séu þeir sem á sínum tíma voru hnepptir í gæsluvarðhald vegna málsins og sömuleiðis þeir sem þyngsta dóma hlutu í málinu, eða þriggja ára og tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi. Tveir einstaklingar til viðbótar fengu vægari skilorðsbundna dóma í málinu.
Eiginkona Hákonar, sem er eini hluthafi Arctic Ocean Seafood í dag samkvæmt síðasta ársreikningi, var hins vegar sýknuð í málinu, auk annarrar konu sem tengist fjölskyldunni. Eiginkonan var ákærð af embætti héraðssaksóknara fyrir þátttöku í peningaþvætti, þar sem hún var skráð fyrir fasteignakaupum með fé sem dómnum þótti sannað að væri afrakstur fíkniefnaframleiðslunnar. Dómnum þótti hins vegar ósannað að eiginkonan hefði haft skýra vitneskju um að féð sem nýtt var til fasteignakaupa í hennar nafni væri afrakstur brotastarfseminnar.
Samkvæmt svörum sem Kjarninn fékk frá Héraðsdómi Reykjavíkur var sýkna hennar og hinnar konunnar og fjölskyldutengsl flestra ákærðra í málinu ástæðan fyrir því að dómara í málinu þótti rétt að dómurinn yrði settur ónafngreinanlegur í birtingu.
Stórfelld ræktun
Nokkuð var fjallað um málið í fjölmiðlum á sínum tíma, enda kannabisræktunin sögð ein sú stærsta og fullkomnasta sem lögregla hafði náð til hér á landi. Alls voru gerðar upptækar á sjötta hundrað kannabisplöntur, rúm níu kíló af tilbúnum kannabisefnum og yfir 17 kíló af kannabislaufum auk 110 gróðurhúsalampa og annars búnaðar sem nauðsynlegur er til framleiðslu kannabisefna.
Framleiðslan fór fram í iðnaðarbili við Smiðjuveg í Kópavogi. Frá lögreglu fengu fjölmiðlar þau svör að þeir sem stóðu að baki framleiðslunni á kannabisefnunum ættu ekki fyrri sögu hjá lögreglu. Ákæra í málinu var ekki lögð fram af hálfu héraðssaksóknara fyrr en á síðari hluta árs 2021, eða um fimm árum eftir upp komst um ræktunina. Í dómi héraðsdóms segir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi farið með rannsókn málsins í fyrstu, en að rannsóknin hafi á síðari stigum færst yfir til embættis héraðssaksóknara sem fór yfir peningaþvættisanga málsins.
Velta nú hátt í tveimur milljörðum í fiskútflutningi
Árið 2017, eða árið eftir að feðgarnir þrír sættu gæsluvarðhaldi fyrir kannabisframleiðsluna, stofnuðu þeir fyrirtækið Arctic Ocean Seafood, sem samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins flytur nú út ýmsar fisktegundir frá Íslandi um allan heim.
Samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins árið 2017 átti hver þeirra þriggja um þriðjungshlut í félaginu, en í ársreikningnum ári seinna var eiginkona Hákonar orðinn eini hluthafinn í félaginu og hefur hún verið það síðan.
Í dómi héraðsdóms frá því í sumar kom fram að það væri mat dómsins að ýmislegt í málinu benti til þess að konan væri í raun nokkuð upp á Hákon komin í fjárhagslegu tilliti og að hún stæði „höllum fæti, þar með talið varðandi ákvarðanatöku um fjárhagsleg málefni“.
Fyrirtækinu hefur vaxið fiskur um hrygg síðan það var sett á fót árið 2017, en veltan á öðru starfsári félagsins nam 727 milljónum, fór svo upp í 1,74 milljarða árið 2019, 1,92 milljarða árið 2020 og nam svo 1,88 milljörðum króna í fyrra.
Hagnaður félagsins hefur verið myndarlegur síðustu tvö ár, eða um 35 milljónir króna eftir skatta. Hrein eign félagsins í lok árs 2021 nam 65,5 milljónum króna.