Hvað er svona merkilegt við Mauna Loa?
Það er stærsta virka eldfjall jarðar þrátt fyrir að hafa ekki gosið í tæp fjörutíu ár. Allt þar til fyrir nokkrum dögum er ólgandi hraunið tók að flæða upp úr 180 metra djúpri öskjunni. Eldfjallið Mauna Loa þekur um helming stærstu eyju Hawaii.
Þjóðsagan segir að Pele, eldgyðja Hawaii, hafi verið hrakin að heiman af eldri systur sinni, Na-maka-o-kaha‘i. Systirin sakaði hana um að táldraga eiginmann sinn og Pele varð því að finna sér nýtt heimili. Það reyndist henni þrautin þyngri því systirin, verandi gyðja vatna og hafs, sá til þess að í hvert sinn sem hún valdi sér nýjan bústað á eyjum Hawaii og hóf að gera eldstæði risu öldur hafsins og vatn flæddi á land og slökkti eldana.
Pele flýði að lokum til Stóru-Eyju, þeirrar stærstu í Hawaii-eyjaklasanum og ákvað að setjast að á fjallinu Mauna Lua, Langafjalli, sem var svo stórt og svo hátt að flóðin sem systir hennar kallaði yfir náðu ekki að slökkva elda sem hún kveikti. Þess vegna settist Pele að í hlíðum Mauna Loa.
Það er ekki úr lausu lofti gripið að kalla stærsta virka eldfjall heims Langafjall (Mauna Loa á tungu frumbyggja Hawaii). Það þekur yfir helming Stóru-eyju, um 5.300 ferkílómetra, og rís hæst rúmlega 4.000 metra yfir sjávarmáli. Segja má að rætur þess séu hafsbotni og frá þeim og til hæsta tinds eru hvorki meira né minna en 9.170 metrar. Í þeim skilningi er Mauna Loa hærra en Everest.
Mauna Loa er ekki bara stærst heldur einnig í hópi virkustu eldfjalla jarðar. Frá árinu 1833 hefur það gosið 34 sinnum. 33. skiptið var árið 1984. Svo virtist það liggja í dvala í tæp fjörutíu ár eða allt þar til það hóf að gjósa fyrir nokkrum dögum síðan. Hraun að vella upp úr gíg þess og svo sprungur að myndast í hlíðunum sem 1000 gráðu heitt hraunið flæddi út um, stundum í allt að 40 metra háum strókum og svo í tignarlegum taumum niður hlíðarnar.
Allt er þetta mikilfengleg sjón, ekki síst þegar dimma tekur og glóandi hraunið sést liðast niður hlíðar Langafjall.
Með nokkurri vissu má segja að ekkert fjall í heiminum er undir jafn mikilli smásjá vísindamanna og Mauna Loa. Á því er að finna fullkomna jarðskjálftamæla, hallamæla, GPS-mæla og önnur tæki og tól – búin nýjustu tækni sem völ er á. Þegar til kastanna kom var hægt að spá fyrir um að gos væri að hefjast með klukkustundar fyrirvara. Yfirvöld reyndu í ofboði að greina hvar mesta hættan væri fyrir hendi og senda skilaboð til íbúa í grennd. Það er jafnvægis kúnst, segja vísindamennirnir, að koma nákvæmum upplýsingum til fólks án þess að skapa óþarfa ótta.
En hlutverk vísindanna er ekki aðeins að meta hættuna heldur vilja þeir leysa ráðgátur þessa mikla fjalls. „Við erum að fá einstakt tækifæri til að fylgjast með því sem er að gerast innan í eldfjallinu,“ segir Gabi Laske, eldfjallafræðingur við Háskólann í Kaliforníu.
Stóra-eyja er mynduð af röð fimm eldfjalla. Undir þeim er svokallaður heitur reitur, þar sem bráð vellur upp úr möttli jarðar og flyst til yfirborðs í eldgosi.
Svefninn óvenju langi
Frá fyrsta skrásetta gosinu í Mauna Loa árið 1843 hefur það að meðaltali gosið á rúmlega fimm ára fresti. En hvers vegna blundaði það í tæpa fjóra áratugi og vaknaði síðan einmitt núna?
Þrátt fyrir að allt hafi virst með rólegasta móti á yfirborði hefur kvika verið á hreyfingu inni í Mauna Loa síðasta áratuginn. Eitthvað vantaði hins vegar upp á svo að hún kæmist upp á yfirborðið. Ný kynslóð eldfjallafræðinga fær því það hlutverk að rannsaka hegðun eldsumbrotanna í Langafjalli eftir hinn langa svefn.
Eldgos í Mauna Loa eru alla jafna ekki hættuleg íbúum Hawaii. Í fjallinu verður ekki sprengigos og hraunið er tiltölulega seigfljótandi og ryðst því ekki fram af ofsa eins og stundum er. Hraunstraumurinn nú liggur í norðausturátt og ógnar því engri byggð. Ekki er því útlit fyrir að Mauna Loa valdi eignatjóni, að minnsta kosti í þetta skiptið.
Eyjur Hawaii eru í rúmlega 3.000 kílómetra fjarlægð frá næstu flekaskilum og jarðvirkni þeirra hefur í aldir vakið undrun jarðfræðinga. Það var ekki fyrr en árið 1963 að sú kenning var fyrst sett fram að eyjurnar væru ofan á kvikustróki – heitum reit. Slíkan strók er einnig að finna djúpt í jörðinni undir Íslandi en sá munur er á að hér er einnig að finna flekaskil svo jarðfræðin er jafnvel enn flóknari.
Margar sögur eru til um Pele og veru hennar á Mauna Loa. Ein þeirra segir að Pele hafi átt hvítan hund sem hún sendi af stað til að vara mannfólk við að gos væri í vændum. Margir hafa í gegnum áratugina talið sig sjá hvítan hund á þvælingi í hlíðum eldfjallsins, m.a. starfsmenn rannsóknarstofu NOAA, haf- og loftlagsstofnun Bandaríkjanna, sem þar er staðsett.
Árið 1959 sögðust þeir koma auga á hundinn. Þeir reyndu að vingast við hann, lokka hann til sín, en allt kom fyrir ekki. Síðar þetta sama ár hóf Kilauea, annað eldfjall á Stóru-eyju að gjósa. Eftir það sást ekki til hvíta hundsins lengi vel.
Fólk taldi sig sjá hundinn aftur næstu ár á eftir. Hann virtist birtast skyndilega og hverfa jafn skyndilega. Eftir eldgos árið 1966 hvarf hann. Og hefur ekki sést síðan.