Nöturlegur aðbúnaður barna fanga – „Þetta er allt rekið á horriminni“
Ryðgaður gámur sem er opinn milli kl. 12.30 og 15.30 á virkum dögum. Engar upplýsingar eða fróðleikur fyrir börn, engir barnafulltrúar og engar gistiheimsóknir. Illa er búið að börnum fanga á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin.
Ísland er mikill eftirbátur annarra Norðurlanda þegar kemur að aðstæðum barna sem eiga foreldra í fangelsi. Enginn veit hvað þessi börn eru mörg því upplýsingum um þau er ekki safnað. Í fangelsunum starfa engir barnafulltrúar, engin samtök gæta hagsmuna þeirra sérstaklega og aðstaða til að taka á móti þeim í fangelsunum er almennt fábrotin, ef hún er til staðar yfir höfuð.
Margir fangar á Sogni vilja ekki fá börnin sín í heimsókn, m.a. vegna þess að þar er „allt morandi“ í mönnum sem sitja inni fyrir að brjóta kynferðislega á börnum. Fangar í hinu nýja fangelsi á Hólmsheiði vilja sumir ekki hitta börnin vegna þess að heimsóknaríbúðin er inni í sjálfu fangelsinu. Föngum á Litla-Hrauni býðst að hitta sín börn í svokölluðu Barnakoti milli klukkan 12.30 og 15.30 á virkum dögum. Kotið er ryðgaður gámur en hann þó skömminni skárri en heimsóknaraðstaðan inni á Litla-Hrauni þar sem „skíthrædd“ börn þurftu að hlusta á fólk í næsta herbergi „lifa hjónalífi“.
Börn fanga eru „viðkvæmur og mjög gleymdur“ hópur á Íslandi, sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, á fundi í Odda í gær þar sem kynntar voru sláandi niðurstöður tveggja rannsókna á stöðu barna sem eiga foreldri í fangelsi hér á landi. Þessi hópur býr við lakari aðstæður að öllu leyti en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum, hvort sem það varðar aðstöðu til heimsókna í fangelsunum sjálfum, upplýsingagjöf sem hentar þeirra þroska, stuðning eða jafningjafræðslu.
Allt saman rétt
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, sagði ástæðuna vera síendurtekna kröfu stjórnvalda um niðurskurð. „Það er óþægilegt að heyra þetta,“ sagði hann um niðurstöðurnar, „en þetta er allt saman rétt.“ Hann viðurkenndi að fangelsismál hefðu hingað til lítið verið hugsuð út frá hagsmunum barna. „Þannig að þetta vekur mann.“ Hins vegar benti ekkert í máli hans til þess að hægt væri að bregðast við og bæta aðstæður fyrir börnin. Til þess skorti peninga.
Hann benti á að þrír félagsráðgjafar sinntu um þúsund manna hópi fólks innan fangelsiskerfisins, sagði yfirvöldum í gegnum tíðina hafa verið „nákvæmlega sama“ um innihald fangelsisvistar, fangelsin væru yfirfull af gæsluvarðhaldsföngum og „burðardýrum sem einhverra hluta vegna fara í fangelsi og eru þar endalaust“ en á sama tíma væri gerð krafa um enn frekari hagræðingu.
„Börn fanga eru jaðarsettur hópur í viðkvæmri stöðu sem þarfnast sérstakrar verndar,“ sagði Lilja Katrín Ólafsdóttir, lögfræðingur sem kynnti á fundinum lagalega greiningu sína á réttindum og stöðu barna sem eiga foreldra í fangelsum. Hún minnti á að skyldur foreldra gagnvart börnum falla ekki niður í fangelsum þótt afplánunin geri þeim vissulega erfiðara um vik að sinna þeim. „Þess vegna er mikilvægt að það sé gripið til sérstakra aðgerða til að gera foreldrum kleift að rækja þessar skyldur sínar eftir fremsta megni.“
Barn á ekki að þjást vegna gjörða fullorðinna
Í barnalögum, barnasáttmálunum og tilmælum Evrópuráðsins er kveðið á um rétt barna til að umgangast foreldri sem það býr ekki hjá og vikið að skyldum yfirvalda til að virða rétt barns til sambands við fangelsað foreldri. „Það á að hvetja og gera foreldrum kleift að viðhalda reglulegu og þýðingarmiklu sambandi við börn sín,“ sagði Lilja Katrín, „og barn ætti ekki að þjást eða vera refsað vegna takmarkana eða agaviðurlaga sem sett eru á foreldra þess.“
Fangelsi ættu, samkvæmt tilmælum Evrópuráðsins frá árinu 2018, að hafa sérstaka barna- eða fjölskyldufulltrúa. Slíkir fulltrúar starfa við flest fangelsi á hinum Norðurlöndunum og gegna mikilvægu hlutverki við að skipuleggja heimsóknir, styðja við samband barns og foreldris og gæta hagsmuna barns á ýmsum fleiri sviðum. Engan slíkan er að finna í íslenskum fangelsum.
Þá hefur Evrópuráðið einnig áréttað að heimsóknir barna í fangelsi eigi ekki að trufla aðra þætti í lífi þess, s.s. mætingu í skóla. Þessu er ekki framfylgt í öllum fangelsum á Íslandi.
Í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi eru starfrækt hagsmunasamtök fyrir börn fanga með hjálparlínum og spjallborðum, boðið upp á sérstök heimsóknarherbergi sérsniðin að þörfum barna og jafnvel heimsóknarhús þar sem börn geta gist ásamt foreldri sínu. Í öllum þessum löndum hafa fangelsismálayfirvöld gefið út upplýsingar og fróðleik fyrir börn fanga, t.d. hvernig það er að koma í heimsókn í fangelsið og þar fram eftir götunum.
Staða barna fanga veikust á Íslandi
„Löggjöf og framkvæmd Norðurlandanna á sviði fullnustu refsinga er sambærileg að mörgu leyti,“ sagði Lilja Katrín. Misjafnt er vissulega hversu mikil áhersla er lögð á réttindi barna fanga „en það er þó ljóst að staða þessa hóps er hvað veikust á Íslandi“.
Mikilvægt sé að yfirvöld skrái þegar við upphaf afplánunar hvort fangi eigi barn. „Það er nauðsynlegt að bera kennsl á umfangið til að hægt sé að veita börnum þá vernd og gæta hagsmuna þeirra eins og barnasáttmálinn krefst af okkur.“
Börn fanga eru hin þöglu fórnarlömb fangelsisvistunar, sagði Daníel Guðjónsson, nemi í menningartengdi afbrotafræði við háskólann í Lundi, sem heimsótti fangelsin á Íslandi í sumar, lagði spurningalista fyrir fanga og tók viðtöl við þá og starfsmenn.
Börn fanga finna fyrir sorg og missi, skömm og fordómum, sagði Daníel. Þar af leiðandi finna þau sig oft knúin til að fela eða ljúga til um aðstæður foreldra sinna. Rannsóknir sýndu hins vegar að góð tengsl og umgengni barns við foreldri í fangelsi komi báðum til góða og minnki líkur á andlegum veikindum og einmanaleika.
Hann fór því næst yfir aðstöðu í fangelsunum.
Sogn og Kvíabryggja
Engin sérútbúin aðstaða til að taka á móti börnum er í opnu fangelsunum að Kvíabryggju og Sogni. Við Kvíabryggju er þó hús sem kallað er „einbýlið“ og það er oft nýtt til heimsókna og á Sogni er „Hjáleigan“ gjarnan nýtt í sama tilgangi. „En það eru dæmi, alveg nokkur, að fangar vilji ekki fá börnin sín í heimsókn á Sogn vegna viðveru kynferðisafbrotamanna þar,“ sagði Daníel, eða líkt og einn fanginn orðaði það við hann: Þar væri „allt morandi“ í mönnum sem hefðu brotið á börnum.
Í júlí voru fjórir af 22 föngum að afplána dóma vegna slíkra brota að Sogni. Fangar, makar þeirra og fjölskyldur tóku fram að þau væru ekki sátt við að börn þyrftu að deila sama rými og slíkir fangar og dæmi um að makar hafi tekið fyrir frekari heimsóknir barna sinna þangað af þessum sökum. „Þegar ég var inni á Litla-Hrauni komu börnin mín vikulega,“ sagði einn fanganna. „Svo fór ég á Sogn. Þegar barnsmóðir mín vissi af fjölda manna á Sogni sem voru þar fyrir að brjóta á börnum hættu heimsóknir alveg. Eftir það hitti ég bara börnin í dagsleyfum einu sinni í mánuði.“
Líkt og á Sogni vantar sértækt heimsóknarrými fyrir börn á Kvíabryggju. Þá töluðu fangarnir um skort á leiktækjum í og við fangelsið, að þar mættu líka vera til taks snjóþotur og fleiri leikföng.
Litla-Hraun
„Hérna sjáið þið Barnakot. Þetta er kannski ekki fallegasti gámur í heimi,“ sagði Daníel er hann varpaði mynd af heimsóknargámi við Litla-Hraun upp á tjaldið í Odda. Gámurinn er þó skárri en hið hefðbundna heimsóknarrými sem er inni í fangelsisbyggingunni sjálfri, bætti hann við. Sumir fangar vilji hreinlega ekki fá börn sín í heimsókn vegna þess rýmis.
Hann hafði eftir einum fanganna: „Það er ekkert gaman að vera með barn lokað inni í herbergi í 2-3 tíma. Það er ekkert útisvæði, leiksvæði, eða neitt fyrir þau. Þetta er bara hálfgerð aukarefsing.“
Barnakot kom til sögunnar árið 2015. Vissulega betri aðstaða en var fyrir, hún er ekki innan veggja fangelsisins, en hins vegar aðeins opin milli kl. 12.30 og 15.30 á virkum dögum. „Þetta ætti að vera þveröfugt,“ sagði einn fanganna við Daníel. „Fólk þarf að taka sér frí í vinnu og börnin úr skóla til að koma í heimsókn.“
Opnunartími hentar hvorki börnum né þeim sem fylgja þeim í fangelsin „og það kemur bara niður á börnunum,“ sagði Daníel. „Einn sem ég talaði við hafði ekki hitt börnin sín í átta mánuði bara vegna þess að þau voru búsett úti á landi.“
Hólmsheiði
Í hinu nýja fangelsi á Hólmsheiði er sérstök íbúð fyrir fanga til að taka á móti gestum. Fangar segja rýmið gott og að þar sé næði. Í íbúðinni eru kojur og rúm en Daníel benti á að það skortir heimild til þess að gista þar líkt og staðið hefði til og boðið er upp á í fangelsum á öðrum Norðurlöndum.
Gagnrýnin á fyrirkomulagið er einnig sú að íbúðin er inni í fangelsinu og dæmi eru um að fólk vilji ekki koma með eða fá börn þangað inn. Fangaverðir segja íbúðina ekki hafa verið notaða jafn mikið og vonir stóðu til.
„Eina fangelsið á Íslandi sem er í notkun í dag og er byggt sem fangelsi er einmitt fangelsið á Hólmsheiði sem kemur skást út úr þessum samanburði,“ sagði Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, sem sat í pallborði eftir framsögur Lilju Katrínar og Daníels. „Hin fangelsin voru aldrei hönnuð sem fangelsi. Þetta er bóndabær. Þetta er gamalt sjúkrahús og svo framvegis. Yfirvöldum hefur verið nákvæmlega sama almennt í gegnum tíðina hvert innihald vistarinnar er. Það er bara flöt niðurskurðarkrafa á þennan málaflokk.“
Hann sagði allt sem bent væri á í rannsóknunum rétt „algjörlega hárrétt. Við viljum gera betur, það er ótrúlega margt að hjá okkur“.
En hann vildi einnig að tekið yrði inn inn í myndina hver staðan var fyrir aðeins fáum árum. „Við vorum að reka fangelsi á undanþágu heilbrigðisyfirvalda. Hegningarhúsið var handónýtt. Fólk var með sveppasýkingar. Fangelsið fyrir konur í Kópavogi var við hliðina á leikskóla. Allir fangarnir voru til sýnis þar. Þetta var hræðileg staða sem við vorum í, bara fyrir 10-15 árum síðan.“
Hann telur líka að gæta verði raunsæis í því hvaða breytingum hægt sé að ná fram. Bráðum verði ráðist í breytingar á Litla-Hrauni og í þeim tekið tillit til þess að „fangar eiga börn sem eiga rétt á því að koma í fangelsið án þess að verða skíthrædd“.
Hann sagði ástæðuna fyrir því að Barnakot – „þessi gámur“ eins og hann orðaði það – væri á Litla-Hrauni þá að börn hafi áður þurft fara fara inn í heimsóknaraðstöðu og „hlusta á annað fólk lifa hjónalífi. Það var staðreynd. Það glymur þarna á milli. Þetta var ekkert hannað fyrir börn. Þetta kerfi, eins og það er uppbyggt síðustu áratugina er til skammar en við erum að vinda ofan af því“.
Salvör sagði að svo virtist sem fangelsismál á Íslandi væri ekki hugsuð út frá réttindum barna í neinu tilliti. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði, rifjaði upp þegar hann kom heim úr námi skömmu fyrir 1990 og spurði yfirvöld fangelsismála um aðgang barna að föngum. „Og vitiði hvert svarið var? Að fangarnir hefðu átt að hugsa um það fyrr. Þetta var sem sagt bara hluti af refsingunni. Þarna var barnið ekki til. Það var bara fanginn og refsingin.“
Og meiri niðurskurður
Salvör spurði hvers vegna gögnum um börn fanga væri ekki safnað. Páll sagði að áður fyrr hafi verið teknar svokallaðar innkomuskýrslur af öllum föngum þar sem slíkar upplýsingar komu fram. „Það var hreinlega út af niðurskurði sem við lögðum það af,“ sagði hann.
Hann sér ekki fyrir sér að hægt verði að ráða barnafulltrúa eða setja upplýsingar sniðnar að börnum á vef Fangelsismálastofnunar líkt og nágrannalöndin hafa gert. „Þetta er bara spurning um fjármagn. Ekkert annað.“
Er þetta ekkert sem þið sjáið breytast í náinni framtíð? spurði Salvör.
„Nei,“ svaraði Páll, „ef ég á að segja alveg eins og er.“ Ár eftir ár sé gerð niðurskurðarkrafa. „Þetta er harkalegt en svona er þetta.“
Fundargestir vildu vita af hverju opnunartími Barnakots væri svo stuttur sem raun ber vitni. „Bara niðurskurður, ekkert annað,“ svaraði Páll.
Til umræðu hefði verið að fangar á Litla-Hrauni gætu líka nýtt íbúðina á Hólmsheiði. „En málið er bara, eins og staðan er núna, að það er allt að verða vitlaust. Hér er endalaust af gæsluvarðhaldi. Fangelsin eru alveg troðfull, miklu meira heldur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er allt að fyllast af burðardýrum hérna sem einhverra hluta vegna fara í fangelsi og eru þar endalaust. Þú þarft smá svigrúm til að færa einstakling af Litla-Hrauni yfir á Hólmsheiði.“ Því sé ekki að fagna.
„Hefur þú vilja til að breyta þessu?“ spurði einn fundargesta.
„Já,“ svaraði Páll ákveðinn að bragði. „Ég væri mjög hrifinn af því að hafa til dæmis barnafulltrúa. En ég myndi líka vilja hafa iðjuþjálfa. Ég myndi vilja hafa félagsráðgjafa sem væru að sinna öllum föngum, sálfræðinga og svo framvegis. Staðan er bara svona.“
Vanræksla?
Auður Jónsdóttir rithöfundur var meðal fundargesta og spurði í ljósi yfirlýsinga Páls um lítinn pólitískan vilja hvort um vanrækslu gagnvart börnum væri að ræða af hálfu ríkisins.
„Ég er ekki alveg viss um að þetta sé meðvitað,“ svaraði Páll. Stjórnvöld virðist ekki gera sér grein fyrir því eða gleyma að þegar eitthvað athæfi er gert refsivert, s.s. að leggja tveggja ára fangelsisrefsingu við því að aka rafskútu undir áhrifum áfengis, bæta svo við löggæsludeildum og dómstólum að „þetta endar allt í einhverri afurð og afurðin er hjá Fangelsismálastofnun“.
Niðurskurðarkrafan beinist ekki eingöngu gegn börnum líkt og einhverjir fundargesta veltu fyrir sér. „Það er allt rekið á horriminni,“ sagði hann.
Áhersla stjórnvalda væri mjög skýr: Nýtingin á að vera 100 prósent í fangelsunum, refsingar ekki að fyrnast og biðtími eftir afplánun stuttur. „Við eigum á sama tíma að skera niður. Við höfum verið að loka fangelsum, fækka fangavörðum, fækka sérfræðingum, fækka í yfirstjórn. Þetta kemur alls staðar niður. Ekkert af því er gott. Þetta hefur endað með ofbeldi og árásum innan fangelsanna og svo framvegis. Þetta er bara slæmt.“
Styrking fjölskyldubanda lykillinn
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, sat einnig í pallborði og sagði að gera þyrfti grundvallarbreytingu í fangelsismálunum. „Við þurfum að hætta með refsistefnuna og taka upp endurhæfingarstefnuna. Og einn af aðallyklunum er styrking fjölskyldubanda. Börn og fjölskyldur fanga. Þetta mun draga úr kostnaði, ekki auka hann. En þetta er bara spurning um þennan pólitíska vilja. Og þar af leiðandi gerist ekki neitt.“
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, sem átti frumkvæði að rannsóknunum og fundinum, sagðist sannarlega vona að eitthvað færi að gerast í kjölfar útgáfu skýrslunnar. Að hún vekti fólk til umhugsunar og væri upphafið að „einhverri góðri vegferð“. Hennar embætti ætlaði sannarlega ekki að láta sitt eftir liggja og halda áfram að vinna að málefninu því „börn fanga eru hópur sem virkilega þarf að taka utan um“.