Skyndilega nýr tónn hjá ráðherra – „Við höfum alltaf staðið í þeirri trú að það yrði útboð“
Dómsmálaráðuneytið hefur ítrekað sagt Rauða krossinum, síðast í byrjun mánaðarins, að til stæði að bjóða út talsmannaþjónustu við umsækjendur um vernd. Ráðherrann mætti hins vegar í fjölmiðla í vikunni og sagði aðrar leiðir líklegar. Rauði krossinn hefur sinnt þjónustunni frá 2014 og átt farsælt samtarf við stjórnvöld en óttast nú að skjólstæðingarnir, oft berskjaldað fólk úr erfiðum aðstæðum, fái ekki þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. „Það er raunveruleg hætta á því að fólk verði fyrir ákveðnum réttarspjöllum,“ segir yfirlögfræðingur hjá félaginu.
Þegar dómsmálaráðherra sagði í fréttum í vikunni að lögfræðiþjónusta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, svokölluð talsmannaþjónusta, væri ekki útboðsskyld og að til greina kæmi að fela sjálfstætt starfandi lögmönnum eða lögmannsstofu hana, voru það ný tíðindi í eyrum starfsfólks Rauða kross Íslands, „því við höfum alltaf staðið í þeirri trú að það yrði útboð enda hefur það komið fram hjá ráðuneytinu ítrekað og Rauði krossinn hafði hugsað sér að taka þátt í því,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri á alþjóðasviði Rauða krossins, í samtali við Kjarnann. Miðað við orð ráðherrans virðist nú „eitthvað allt annað vera uppi á teningnum,“ segir Guðríður Lára Þrastardóttir, yfirlögfræðingur og teymisstjóri teymis um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum.
Fulltrúum Rauða krossins hafði ítrekað verið sagt, síðast í byrjun febrúar, að þjónustan yrði boðin út, þjónusta sem Rauði krossinn hefur veitt frá árinu 2014 samkvæmt samningi við dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun. Sá samningur átti að renna út í lok febrúar og djúpt var á svörum um hvort stjórnvöld hygðust framlengja hann, líkt og heimilt er, þegar Rauði krossinn spurðist fyrir í haust.
Atli segir „aldrei hafa verið til umræðu af hálfu ráðuneytisins“ að framlengja ekki samningnum. Ekkert í svörum ráðuneytisins hafi gefið til kynna að það stæði til. Félagið vildi engu að síður hafa vaðið fyrir neðan sig, fá að vita framhaldið í tíma, enda hópur starfsmanna og sjálfboðaliða sem þar starfa eingöngu við þetta verkefni á grundvelli samningsins.
Fyrstu svörin voru þau að bíða þyrfti eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar. Í byrjun desember bárust svo þau svör, eftir ítrekaða fyrirspurn, að færa ætti ákveðin verkefni milli ráðuneyta, m.a. félagsþjónustu við hælisleitendur og flóttafólk, sem Rauði krossinn sinnir einnig. Því taldi dómsmálaráðuneytið að forsendur samningsins væru brostnar.
Framlengt um tvo mánuði
Síðar í desember fengust svo loks þau formlegu svör að ekki stæði til að framlengja samninginn en til stæði að bjóða verkefnið út, líkt og gert hafði verið árið 2017. Í byrjun janúar var fullyrt að útboðsgögn yrðu gerð opinber innan nokkurra daga eða vikna. Þá voru aðeins um tveir mánuðir þar til samningurinn félli úr gildi og því vildi ráðuneytið semja um tímabundna framlengingu í tvo mánuði sem það taldi nóg til undirbúningsins. Rauði krossinn féllst á það eftir að ráðuneytið hafnaði þeirri tillögu að framlengja um ár og nýta þann tíma til að tryggja að yfirfærsla verkefna til nýs aðila, hver svo sem það yrði, myndi ganga vel og örugglega fyrir sig. „Okkur fannst þetta eðlileg leið,“ segir Atli um tillögu Rauða krossins, „og eðlilegur endir á farsælu samstarfi. En ráðuneytið ákvað að fara aðra leið.“
Af þessum sökum varð Rauði krossinn að segja upp talsmönnunum fimmtán í lok janúar og ljúka þeir að óbreyttu störfum sínum hjá félaginu í lok apríl.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra greindi fyrst frá því í fjölmiðlum að stjórnvöldum væri ekki skylt að bjóða þjónustuna út, hún væri „ekki það umfangsmikil“ og til greina kæmi að deila verkefnunum samkvæmt fyrirfram ákveðinni verðskrá niður á „lögmannsstofur eða lögmenn eða hvernig sem við högum því“.
Þegar samið var við Rauða krossinn á sínum tíma var sagt að áður en kæmi að breytingum á þátttöku félagsins myndi fara fram samtal allra aðila „til að byggja upp kerfi og ferla svo að það væri hægt að skila verkefninu fullbúnu til annarra þjónustuaðila,“ segir Atli en hann kom að mótun verkefnisins í upphafi. „Það samtal hefur ekkert farið fram, hvorki nú né áður. Og núna eru rétt rúmir tveir mánuðir þar til okkar aðkomu lýkur. Það sem situr í okkur er hættan á því að sú þekking, reynsla og þeir verkferlar sem við höfum byggt upp fari forgörðum og að þeir sem líði fyrir það verði skjólstæðingarnir.“
Raunveruleg hætta
Guðríður segist ekki sjá fyrir hvernig tilfærslan eigi að ganga upp með svona stuttum fyrirvara án þess að það verði rof á þjónustunni við umsækjendur. „Það er raunveruleg hætta á því að fólk verði fyrir ákveðnum réttarspjöllum,“ segir hún og tekur sem dæmi kærufresti sem þurfi að standa skil á. „Á meðan mál einstaklinga er að fara á milli okkar og nýs aðila þá eru ágætis líkur á því, í ljósi fjölda mála, að kærufrestir renni út.“
Það mun líka taka nýja aðila tíma að setja sig inn í mál enda sum málin mjög flókin „og mjög margt sem þarf að líta til“.
Það er ekki þannig að Rauði krossinn hafi hugsað talsmannaþjónustuna hjá sér til allrar framtíðar. Stefna félagsins er að koma á fót og fóstra verkefni margvísleg, t.d. Konukot svo dæmi sé tekið, en fela þau svo stjórnvöldum.
Atli segir fullkomlega eðlilegt að stjórnvöld velti fyrir sér þeim verkefnum sem þau útvista hverju sinni og jafnvel ákveði að fara aðrar leiðir „og við gerum engar athugasemdir við það“.
Það sem hann gagnrýni er að ekkert hafi verið rætt við Rauða krossinn um yfirfærsluna. Stjórnvöld hafi ekki leitað í þann mikla þekkingarbrunn sem byggður hefur verið upp á síðustu árum er ákvörðun um breytinguna var tekin. „Og tveir og hálfur mánuður er ekki langur tími.“
Hann segir verkefni Rauða krossins síbreytileg og mörg grundvallast á stoðhlutverki Rauða krossins við stjórnvöld. „Þau stækka og minnka á víxl. En við teljum að þetta mál hafi sérstöðu því að við erum ekki að bakka út úr verkefni sem við vitum að er full unnið heldur er það að frumkvæði stjórnvalda sem verkefnið er að hætta. Við erum því ekki eins tilbúin að ganga frá borði eins og við oft erum.“
Áður en Rauði krossinn tók þjónustuna að sér fyrir sjö árum var hún í höndum sjálfstætt starfandi lögmanna og því mjög mismunandi. Ástæða þess að Rauði krossinn tók verkefnið upphaflega að sér var að þjónusta lögmanna við umsækjendur var mjög misjöfn að gæðum og því vildu stjórnvöld og Rauði krossinn breyta. Sjá til þess að hælisleitendur, fólk sem oft er í mjög viðkvæmri stöðu, fengju þá aðstoð og þjónustu sem þeir ættu rétt á og að hún væri alltaf jafn góð.
Þegar ráðuneytið gerði fyrsta samninginn við Rauða krossinn árið 2014 talaði þáverandi ráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, um tímamót í málefnum útlendinga á Íslandi og horfði sérstaklega til Rauða krossins sem hefði bæði þekkingu og reynslu í málaflokknum og að með hans aðkomu yrði hægt að bæta meðferð hælisumsókna og á sama tíma stytta málsmeðferðartímann. Þannig yrði ávinningur fyrir alla hlutaðeigandi.
„Þetta hvort tveggja hefur tekist með miklum ágætum myndi ég segja,“ segir Atli og minnir á að almennt séð séu umsækjendur um vernd berskjaldað fólk sem er að koma úr erfiðum aðstæðum. Því hafi aðkoma Rauða krossins þótt mikilvæg því flestir þekkja merki hans og bera til hans traust.
Samlegðaráhrif þess að Rauði krossinn veiti bæði félagslega- og lögfræðilega þjónustu eru mikil. Starfsmenn og sjálfboðaliðar vinna þétt saman og nálgast mál fólks heildrænt. En ef talsmannaþjónustan fer til annarra aðila „erum við komin í svolítið sama farið og við vorum í fyrir 2014 þegar stjórnvöldum þótti ríkt tilefni til úrbóta,“ segir Atli.
En hvað felst í talsmannaþjónustunni?
Með þjónustunni er umsækjendum um alþjóðlega vernd fylgt í gegnum allt ferlið,“ segir Guðríður. Það hefst á tilkynningu frá Útlendingastofnun þegar fólk sækir um vernd hér á landi. Þegar umsækjandi hefur verið boðaður í viðtal hjá stofnuninni fær hann talsmanni úthlutað, fær hjá honum ráðgjöf og stuðning í viðtalinu og að því loknu skrifar talsmaðurinn ítarlega greinargerð og aflar til hennar ýmissa gagna, m.a. heilsufarsgagna.
Þegar kemur að birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar er talsmaðurinn viðstaddur. „Ef ákvörðunin er jákvæð þarf viðkomandi ekki lengur á talsmanni að halda. En ef hún er neikvæð aðstoðar talsmaðurinn umsækjandann líka á kærustigi.“
Greiður aðgangur að talsmönnum
Guðríður segir að í öllu ferlinu hafi skjólstæðingarnir greiðan aðgang að talsmönnum, bæði í gegnum síma og í viðtalstímum í Reykjanesbæ og Reykjavík. „Ef fólk fær synjun hjá kærunefnd þá leiðbeinum við því hvað varðar möguleikann á að leita til sjálfstætt starfandi lögmanna og fara með mál sín fyrir dómstóla. Ef fólk velur það erum við lögmanni þeirra innan handar.“
Guðríður segir leitast við að veita fólki hlutlausar upplýsingar og réttindi þess og skyldur og „við hvetjum fólk auðvitað ekki út í einhverja vitleysu“.
Nú eru um 750 einstaklingar í kerfinu sem notfæra sér þjónustu Rauða krossins að verulegu leyti, þar af um 500 umsækjendur sem enn eiga umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar hjá Útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála.
Hingað til hefur talsmannateyminu að sögn Guðríðar tekist að anna eftirspurninni eftir þjónustunni þótt álagið sé vissulega oft mikið. Málin séu misjöfn, sum mjög flókin en önnur einfaldari. Þá séu aðstæður þeirra sem hér sækja um vernd einnig mjög mismunandi. „Það er ekki alltaf hægt að telja mínútur þegar þú ert að sinna skjólstæðingum sem eru að koma úr erfiðum aðstæðum. Þá er ómetanlegt að starfa innan kerfis Rauða krossins.“
Sérhæfing á ýmsum sviðum
Lögfræðingarnir í teyminu hafa í gegnum árin sérhæft sig á ákveðnum sviðum innan málaflokksins og þannig hefur orðið til margþætt reynsla og þekking sem deilt er innan teymisins. Stundum vinna þeir saman að málum ef svo ber undir og áður en talsmaður sendir út frá sér greinargerð er hún nær undantekningarlaust lesin yfir af öðrum talsmanni „til að passa upp á að það sé ekkert að gleymast og reynum með þessum hætti að tryggja ákveðin gæði,“ útskýrir Guðríður.
Hún starfaði áður sem héraðslögmaður og þekkir því vel umhverfið á lögmannsstofum sem hún segir „allt, allt annað“ en hjá Rauða krossinum. „Að vera með aðgengi að sérfræðingum til dæmis í áföllum og allan annan félagslegan stuðning og menningarlæsi sem Rauði krossinn hefur er magnað. Allt þetta er mjög verðmætt fyrir lögfræðinga. Áfallahjálp er ekki kennd í lögfræðinni.“
Finnst stjórnvöldum þið kannski ganga of langt í þessu talsmannahlutverki?
„Ég mundi ekki ætla stjórnvöldum það,“ svarar Atli. „Ef við lítum aðeins til baka, þegar fyrsti samningurinn við okkur var gerður, þá var markmiðið að tryggja vandaða og skilvirka málsmeðferð umsækjenda. Og það hefur tekist mjög vel. Ein birtingarmynd þess er að verndarhlutfallið hefur hækkað og málsmeðferð hefur styst á sama tíma og umsækjendum hefur fjölgað mikið. Þannig að það hlýtur alltaf að vera markmið stjórnvalda að komast að réttri niðurstöðu í hverju máli fyrir sig. Og ég held að það markmið hafi tekist mjög vel með okkar aðkomu. Við höfum unnið mjög vel með stjórnvöldum en alltaf með hagsmuni okkar skjólstæðinga að leiðarljósi.“
Guðríður segist ekki vita til þess að gerðar hafi verið athugasemdir við vinnu Rauða krossins í málaflokknum „nema síður sé“, hvorki frá ráðuneytinu, Útlendingastofnun né skjólstæðingum.
„Við verðum að vona að dómsmálaráðuneytið og ríkisstjórnin hafi undirbúið þetta vel þótt okkur sé algjörlega ókunnugt um það,“ segir Atli, „og að umsækjendur um vernd, fólk sem oft er berskjaldað og þolir ekki mikið rask, fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.“