Talsmannaþjónusta Rauða krossins
Atli Viðar Thorstensen, Jón Gunnarsson og Guðríður Lára Þrastardóttir.

Skyndilega nýr tónn hjá ráðherra – „Við höfum alltaf staðið í þeirri trú að það yrði útboð“

Dómsmálaráðuneytið hefur ítrekað sagt Rauða krossinum, síðast í byrjun mánaðarins, að til stæði að bjóða út talsmannaþjónustu við umsækjendur um vernd. Ráðherrann mætti hins vegar í fjölmiðla í vikunni og sagði aðrar leiðir líklegar. Rauði krossinn hefur sinnt þjónustunni frá 2014 og átt farsælt samtarf við stjórnvöld en óttast nú að skjólstæðingarnir, oft berskjaldað fólk úr erfiðum aðstæðum, fái ekki þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. „Það er raunveruleg hætta á því að fólk verði fyrir ákveðnum réttarspjöllum,“ segir yfirlögfræðingur hjá félaginu.

Þegar dóms­mála­ráð­herra sagði í fréttum í vik­unni að lög­fræði­þjón­usta fyrir umsækj­endur um alþjóð­lega vernd, svokölluð tals­manna­þjón­usta, væri ekki útboðs­skyld og að til greina kæmi að fela sjálf­stætt starf­andi lög­mönnum eða lög­manns­stofu hana, voru það ný tíð­indi í eyrum starfs­fólks Rauða kross Íslands, „því við höfum alltaf staðið í þeirri trú að það yrði útboð enda hefur það komið fram hjá ráðu­neyt­inu ítrekað og Rauði kross­inn hafði hugsað sér að taka þátt í því,“ segir Atli Viðar Thorsten­sen, sviðs­stjóri á alþjóða­sviði Rauða kross­ins, í sam­tali við Kjarn­ann. Miðað við orð ráð­herr­ans virð­ist nú „eitt­hvað allt annað vera uppi á ten­ingn­um,“ segir Guð­ríður Lára Þrast­ar­dótt­ir, yfir­lög­fræð­ingur og teym­is­stjóri teymis um mál­efni umsækj­enda um alþjóð­lega vernd hjá Rauða kross­in­um.

Full­trúum Rauða kross­ins hafði ítrekað verið sagt, síð­ast í byrjun febr­ú­ar, að þjón­ustan yrði boðin út, þjón­usta sem Rauði kross­inn hefur veitt frá árinu 2014 sam­kvæmt samn­ingi við dóms­mála­ráðu­neytið og Útlend­inga­stofn­un. Sá samn­ingur átti að renna út í lok febr­úar og djúpt var á svörum um hvort stjórn­völd hygð­ust fram­lengja hann, líkt og heim­ilt er, þegar Rauði kross­inn spurð­ist fyrir í haust.

Atli segir „aldrei hafa verið til umræðu af hálfu ráðu­neyt­is­ins“ að fram­lengja ekki samn­ingn­um. Ekk­ert í svörum ráðu­neyt­is­ins hafi gefið til kynna að það stæði til. Félagið vildi engu að síður hafa vaðið fyrir neðan sig, fá að vita fram­haldið í tíma, enda hópur starfs­manna og sjálf­boða­liða sem þar starfa ein­göngu við þetta verk­efni á grund­velli samn­ings­ins.

Fyrstu svörin voru þau að bíða þyrfti eftir myndun nýrrar rík­is­stjórn­ar. Í byrjun des­em­ber bár­ust svo þau svör, eftir ítrek­aða fyr­ir­spurn, að færa ætti ákveðin verk­efni milli ráðu­neyta, m.a. félags­þjón­ustu við hæl­is­leit­endur og flótta­fólk, sem Rauði kross­inn sinnir einnig. Því taldi dóms­mála­ráðu­neytið að for­sendur samn­ings­ins væru brostn­ar.

Fram­lengt um tvo mán­uði

Síðar í des­em­ber feng­ust svo loks þau form­legu svör að ekki stæði til að fram­lengja samn­ing­inn en til stæði að bjóða verk­efnið út, líkt og gert hafði verið árið 2017. Í byrjun jan­úar var full­yrt að útboðs­gögn yrðu gerð opin­ber innan nokk­urra daga eða vikna. Þá voru aðeins um tveir mán­uðir þar til samn­ing­ur­inn félli úr gildi og því vildi ráðu­neytið semja um tíma­bundna fram­leng­ingu í tvo mán­uði sem það taldi nóg til und­ir­bún­ings­ins. Rauði kross­inn féllst á það eftir að ráðu­neytið hafn­aði þeirri til­lögu að fram­lengja um ár og nýta þann tíma til að tryggja að yfir­færsla verk­efna til nýs aðila, hver svo sem það yrði, myndi ganga vel og örugg­lega fyrir sig. „Okkur fannst þetta eðli­leg leið,“ segir Atli um til­lögu Rauða kross­ins, „og eðli­legur endir á far­sælu sam­starfi. En ráðu­neytið ákvað að fara aðra leið.“

Af þessum sökum varð Rauði kross­inn að segja upp tals­mönn­unum fimmtán í lok jan­úar og ljúka þeir að óbreyttu störfum sínum hjá félag­inu í lok apr­íl.

Jón Gunn­ars­son dóms­mála­ráð­herra greindi fyrst frá því í fjöl­miðlum að stjórn­völdum væri ekki skylt að bjóða þjón­ust­una út, hún væri „ekki það umfangs­mik­il“ og til greina kæmi að deila verk­efn­unum sam­kvæmt fyr­ir­fram ákveð­inni verð­skrá niður á „lög­manns­stofur eða lög­menn eða hvernig sem við högum því“.

Þegar samið var við Rauða kross­inn á sínum tíma var sagt að áður en kæmi að breyt­ingum á þátt­töku félags­ins myndi fara fram sam­tal allra aðila „til að byggja upp kerfi og ferla svo að það væri hægt að skila verk­efn­inu full­búnu til ann­arra þjón­ustu­að­ila,“ segir Atli en hann kom að mótun verk­efn­is­ins í upp­hafi. „Það sam­tal hefur ekk­ert farið fram, hvorki nú né áður. Og núna eru rétt rúmir tveir mán­uðir þar til okkar aðkomu lýk­ur. Það sem situr í okkur er hættan á því að sú þekk­ing, reynsla og þeir verk­ferlar sem við höfum byggt upp fari for­görðum og að þeir sem líði fyrir það verði skjól­stæð­ing­arn­ir.“

Raun­veru­leg hætta

Guð­ríður seg­ist ekki sjá fyrir hvernig til­færslan eigi að ganga upp með svona stuttum fyr­ir­vara án þess að það verði rof á þjón­ust­unni við umsækj­end­ur. „Það er raun­veru­leg hætta á því að fólk verði fyrir ákveðnum rétt­ar­spjöll­u­m,“ segir hún og tekur sem dæmi kæru­fresti sem þurfi að standa skil á. „Á meðan mál ein­stak­linga er að fara á milli okkar og nýs aðila þá eru ágætis líkur á því, í ljósi fjölda mála, að kæru­frestir renni út.“

Það mun líka taka nýja aðila tíma að setja sig inn í mál enda sum málin mjög flókin „og mjög margt sem þarf að líta til“.

Það er ekki þannig að Rauði kross­inn hafi hugsað tals­manna­þjón­ust­una hjá sér til allrar fram­tíð­ar. Stefna félags­ins er að koma á fót og fóstra verk­efni marg­vís­leg, t.d. Konu­kot svo dæmi sé tek­ið, en fela þau svo stjórn­völd­um.

Atli segir full­kom­lega eðli­legt að stjórn­völd velti fyrir sér þeim verk­efnum sem þau útvista hverju sinni og jafn­vel ákveði að fara aðrar leiðir „og við gerum engar athuga­semdir við það“.

Það sem hann gagn­rýni er að ekk­ert hafi verið rætt við Rauða kross­inn um yfir­færsl­una. Stjórn­völd hafi ekki leitað í þann mikla þekk­ing­ar­brunn sem byggður hefur verið upp á síð­ustu árum er ákvörðun um breyt­ing­una var tek­in. „Og tveir og hálfur mán­uður er ekki langur tím­i.“

Hann segir verk­efni Rauða kross­ins síbreyti­leg og mörg grund­vall­ast á stoð­hlut­verki Rauða kross­ins við stjórn­völd. „Þau stækka og minnka á víxl. En við teljum að þetta mál hafi sér­stöðu því að við erum ekki að bakka út úr verk­efni sem við vitum að er full unnið heldur er það að frum­kvæði stjórn­valda sem verk­efnið er að hætta. Við erum því ekki eins til­búin að ganga frá borði eins og við oft erum.“

Fólk sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi er oft að koma úr mjög erfiðum aðstæðum.
EPA

Áður en Rauði kross­inn tók þjón­ust­una að sér fyrir sjö árum var hún í höndum sjálf­stætt starf­andi lög­manna og því mjög mis­mun­andi. Ástæða þess að Rauði kross­inn tók verk­efnið upp­haf­lega að sér var að þjón­usta lög­manna við umsækj­endur var mjög mis­jöfn að gæðum og því vildu stjórn­völd og Rauði kross­inn breyta. Sjá til þess að hæl­is­leit­end­ur, fólk sem oft er í mjög við­kvæmri stöðu, fengju þá aðstoð og þjón­ustu sem þeir ættu rétt á og að hún væri alltaf jafn góð.

Þegar ráðu­neytið gerði fyrsta samn­ing­inn við Rauða kross­inn árið 2014 tal­aði þáver­andi ráð­herra, Hanna Birna Krist­jáns­dótt­ir, um tíma­mót í mál­efnum útlend­inga á Íslandi og horfði sér­stak­lega til Rauða kross­ins sem hefði bæði þekk­ingu og reynslu í mála­flokknum og að með hans aðkomu yrði hægt að bæta með­ferð hæl­is­um­sókna og á sama tíma stytta máls­með­ferð­ar­tím­ann. Þannig yrði ávinn­ingur fyrir alla hlut­að­eig­andi.

„Þetta hvort tveggja hefur tek­ist með miklum ágætum myndi ég segja,“ segir Atli og minnir á að almennt séð séu umsækj­endur um vernd ber­skjaldað fólk sem er að koma úr erf­iðum aðstæð­um. Því hafi aðkoma Rauða kross­ins þótt mik­il­væg því flestir þekkja merki hans og bera til hans traust.

Fólk um allan heim þekkir merki Rauða krossins og treystir starfsmönnum þess.
EPA

Sam­legð­ar­á­hrif þess að Rauði kross­inn veiti bæði félags­lega- og lög­fræði­lega þjón­ustu eru mik­il. Starfs­menn og sjálf­boða­liðar vinna þétt saman og nálg­ast mál fólks heild­rænt. En ef tals­manna­þjón­ustan fer til ann­arra aðila „erum við komin í svo­lítið sama farið og við vorum í fyrir 2014 þegar stjórn­völdum þótti ríkt til­efni til úrbóta,“ segir Atli.

En hvað felst í tals­manna­þjón­ust­unni?

Með þjón­ust­unni er umsækj­endum um alþjóð­lega vernd fylgt í gegnum allt ferlið,“ segir Guð­ríð­ur. Það hefst á til­kynn­ingu frá Útlend­inga­stofnun þegar fólk sækir um vernd hér á landi. Þegar umsækj­andi hefur verið boð­aður í við­tal hjá stofn­un­inni fær hann tals­manni úthlut­að, fær hjá honum ráð­gjöf og stuðn­ing í við­tal­inu og að því loknu skrifar tals­mað­ur­inn ítar­lega grein­ar­gerð og aflar til hennar ýmissa gagna, m.a. heilsu­fars­gagna.

Þegar kemur að birt­ingu ákvörð­unar Útlend­inga­stofn­unar er tals­mað­ur­inn við­stadd­ur. „Ef ákvörð­unin er jákvæð þarf við­kom­andi ekki lengur á tals­manni að halda. En ef hún er nei­kvæð aðstoðar tals­mað­ur­inn umsækj­and­ann líka á kæru­stig­i.“

Greiður aðgangur að tals­mönnum

Guð­ríður segir að í öllu ferl­inu hafi skjól­stæð­ing­arnir greiðan aðgang að tals­mönn­um, bæði í gegnum síma og í við­tals­tímum í Reykja­nesbæ og Reykja­vík. „Ef fólk fær synjun hjá kæru­nefnd þá leið­beinum við því hvað varðar mögu­leik­ann á að leita til sjálf­stætt starf­andi lög­manna og fara með mál sín fyrir dóm­stóla. Ef fólk velur það erum við lög­manni þeirra innan hand­ar.“

Guð­ríður segir leit­ast við að veita fólki hlut­lausar upp­lýs­ingar og rétt­indi þess og skyldur og „við hvetjum fólk auð­vitað ekki út í ein­hverja vit­leysu“.

Nú eru um 750 ein­stak­lingar í kerf­inu sem not­færa sér þjón­ustu Rauða kross­ins að veru­legu leyti, þar af um 500 umsækj­endur sem enn eiga umsókn um alþjóð­lega vernd til með­ferðar hjá Útlend­inga­stofnun eða kæru­nefnd útlend­inga­mála.

Hingað til hefur tals­mannateym­inu að sögn Guð­ríðar tek­ist að anna eft­ir­spurn­inni eftir þjón­ust­unni þótt álagið sé vissu­lega oft mik­ið. Málin séu mis­jöfn, sum mjög flókin en önnur ein­fald­ari. Þá séu aðstæður þeirra sem hér sækja um vernd einnig mjög mis­mun­andi. „Það er ekki alltaf hægt að telja mín­útur þegar þú ert að sinna skjól­stæð­ingum sem eru að koma úr erf­iðum aðstæð­um. Þá er ómet­an­legt að starfa innan kerfis Rauða kross­ins.“

Sér­hæf­ing á ýmsum sviðum

Lög­fræð­ing­arnir í teym­inu hafa í gegnum árin sér­hæft sig á ákveðnum sviðum innan mála­flokks­ins og þannig hefur orðið til marg­þætt reynsla og þekk­ing sem deilt er innan teym­is­ins. Stundum vinna þeir saman að málum ef svo ber undir og áður en tals­maður sendir út frá sér grein­ar­gerð er hún nær und­an­tekn­ing­ar­laust lesin yfir af öðrum tals­manni „til að passa upp á að það sé ekk­ert að gleym­ast og reynum með þessum hætti að tryggja ákveðin gæð­i,“ útskýrir Guð­ríð­ur.

Hún starf­aði áður sem hér­aðs­lög­maður og þekkir því vel umhverfið á lög­manns­stofum sem hún segir „allt, allt ann­að“ en hjá Rauða kross­in­um. „Að vera með aðgengi að sér­fræð­ingum til dæmis í áföllum og allan annan félags­legan stuðn­ing og menn­ing­ar­læsi sem Rauði kross­inn hefur er magn­að. Allt þetta er mjög verð­mætt fyrir lög­fræð­inga. Áfalla­hjálp er ekki kennd í lög­fræð­inn­i.“

Bára Huld Beck

Finnst stjórn­völdum þið kannski ganga of langt í þessu tals­manna­hlut­verki?

„Ég mundi ekki ætla stjórn­völdum það,“ svarar Atli. „Ef við lítum aðeins til baka, þegar fyrsti samn­ing­ur­inn við okkur var gerð­ur, þá var mark­miðið að tryggja vand­aða og skil­virka máls­með­ferð umsækj­enda. Og það hefur tek­ist mjög vel. Ein birt­ing­ar­mynd þess er að vernd­ar­hlut­fallið hefur hækkað og máls­með­ferð hefur styst á sama tíma og umsækj­endum hefur fjölgað mik­ið. Þannig að það hlýtur alltaf að vera mark­mið stjórn­valda að kom­ast að réttri nið­ur­stöðu í hverju máli fyrir sig. Og ég held að það mark­mið hafi tek­ist mjög vel með okkar aðkomu. Við höfum unnið mjög vel með stjórn­völdum en alltaf með hags­muni okkar skjól­stæð­inga að leið­ar­ljósi.“

Guð­ríður seg­ist ekki vita til þess að gerðar hafi verið athuga­semdir við vinnu Rauða kross­ins í mála­flokknum „nema síður sé“, hvorki frá ráðu­neyt­inu, Útlend­inga­stofnun né skjól­stæð­ing­um.

„Við verðum að vona að dóms­mála­ráðu­neytið og rík­is­stjórnin hafi und­ir­búið þetta vel þótt okkur sé algjör­lega ókunn­ugt um það,“ segir Atli, „og að umsækj­endur um vernd, fólk sem oft er ber­skjaldað og þolir ekki mikið rask, fái þá þjón­ustu sem þeir eiga rétt á.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent