„Þetta var versta nótt lífs míns – eins og martröð“
„Það var komið fram við okkur eins og glæpamenn. Þeir lömdu fatlaðan bróður minn sem var í hjólastólnum og hinn bróðir minn þegar hann reyndi að verja hann. Þeir börðu hann og tóku hann.“ Þannig lýsir ung kona frá Írak því sem hún kallar „verstu nótt lífs síns“. Fimm manna fjölskylda er nú allslaus í Grikklandi eftir að hafa verið sett í fjötra í flugvél frá Íslandi, umkringd lögreglumönnum.
Við sitjum hérna á götunni í Grikklandi. Ástandið er slæmt,“ segir Yismen Hussien, ung kona úr fimm manna fjölskyldu frá Írak sem flutt var með leiguflugi í lögreglufylgd frá Íslandi eldsnemma í morgun ásamt fleiri umsækjendum um alþjóðlega vernd. Bróðir hennar er alvarlega veikur og notast við hjólastól. Fjölskyldan er peningalaus, að sögn Yismen, sem Kjarninn ræddi við síðdegis í dag. „Þeir leyfðu okkur ekki að taka neitt með okkur. Ég er komin til Grikklands með skólatöskuna mína og nokkrar skólabækur. Ekkert meira.“
Eftir komuna til Grikklands var hópurinn, sem telur fimmtán manns, hreinlega skilinn eftir við flugstöðina. „Þeir skildu okkur eftir og fóru,“ segir Yismen. „Gerið það, hjálpið okkur, gerið það. Dauði er betri fyrir mig en að dvelja hér. Litla systir mín reyndi að svipta sig lífi því hún er svo örvingluð.“
Vinir þeirra á Íslandi, fólk sem starfar við skólann sem hún hefur stundað íslenskunám í, hefur veitt þeim aðstoð svo að þau geta verið á hóteli í nótt. „En ég veit ekki hvað bíður mín á morgun.“
Vísað á brott eftir tveggja ára dvöl
Yismen hafði verið á Íslandi í um tvö ár. Hingað kom hún, sem og móðir hennar, systir og tveir bræður, í leit að vernd. Þar sem þau höfðu áður fengið vernd í Grikklandi, ákváðu íslensk stjórnvöld að synja þeim um vernd hér og vísa af landi brott. Mál þeirra var þó ekki útkljáð fyrir dómstólum því þann 18. nóvember, eftir aðeins örfáa daga, á að taka fyrir í héraðsdómi mál bróður hennar, Hassein Hussien, gegn íslenska ríkinu. Með frávísuninni kemur íslenska ríkið hins vegar í veg fyrir að Hussein geti sótt þingstað og sagt frá sinni upplifun.
Kærð eru brot Útlendingastofnunar á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og brot gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Með því að frávísa honum til Grikklands er, samkvæmt upplýsingum frá stuðningsfólki hans og réttargæslumanni á Íslandi, brotið gegn einni af meginreglu samningsins sem felur í sér frelsi fatlaðs fólks til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr. Þeir telja ljóst að hann hafi ekkert slíkt frelsi í Grikklandi vegna skorts á stuðningi þar. Þá virðir Ísland, samkvæmt kærunni, ekki þau markmið sem felast í 1. gr. samningsins sem fela m.a. í sér að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.
Yismen hafði líkt og bróðir hennar bundið vonir við að dómsmálið myndi breyta öllu. Að hann og fjölskyldan fengi vernd á Íslandi, eftir að hafa reynt að fá slíka í tvö ár.
„Þegar ég og systir mín komum heim úr skólanum í gær þá beið lögreglan eftir okkur,“ segir Yismen við Kjarnann. Hún segir lögregluna hafa tekið á bróður hennar sem hafi setið í hjólastólnum. Eldri bróðir hennar hafi þá reynt að verja hann en þá hafi lögreglan slegið hann. „Þeim var ýtt og hent niður,“ lýsir hún uppákomunni sem tók verulega á hana. Þeir hafi síðan báðir verið handteknir og fluttir á lögreglustöð. „Og þeir tóku símana af okkur öllum.“
Mæðgurnar voru fluttar á hótel í Reykjanesbæ, þar sem lögreglumenn vöktuðu þær, og þaðan út á Keflavíkurflugvöll í nótt. Þær gátu ekkert tekið með sér úr íbúðinni, að sögn Yismen. Engin föt. Ekki neitt.
Þau hafi verið leidd inn í flugvélina í hópum. Hún hafi verið „full af lögreglumönnum, eins og við værum glæpamenn“.
Sett í fjötra
„Ég sá ekki bróður minn fyrr en um borð í flugvélinni,“ útskýrir hún. Þegar hún hafi sagt lögreglunni að hún vildi hitta bróður sinn áður en hún færi um borð í flugvélina þá hafi hún verið fjötruð á höndunum. Sömu sögu hafi verið að segja um aðra hælisleitendur sem voru um borð. „Okkur líður öllum hræðilega illa. Þetta var versta nótt lífs míns, eins og martröð.“
Yismen segist ekki sjá hvernig hún ætti að komast aftur til Íslands, verði niðurstaða máls bróður hennar á þann veg að hann fái vernd og fjölskyldan þá jafnvel líka. Það er þó það sem hún þráir. Að komast hingað aftur, halda áfram að læra íslensku og byggja upp líf sitt til framtíðar. „En í staðinn mun ég búa á götunni.“
„Mér þykir þetta leitt. Mér þykir þetta svo leitt.“
„Gerðu það, ekki senda mig og fjölskyldu mína í burtu,“ heyrist önnur systirin úr Hussien-fjölskyldunni segja á upptöku frá því að lögreglan handtók fjölskylduna í gærkvöldi. Yismen leyfði blaðamanni Kjarnans að heyra upptökuna sem er átakanleg. Hana er að finna hér að neðan.
Unga konan: „Ég vil ekki fara til Grikklands!“
Lögreglukona talar róandi við hana og segir: „Já, ég veit, ég veit. En ég get engu breytt.“
Unga konan: „Nei, þú veist það ekki.“ (Hún segir eitthvað sem ekki heyrist vegna örvæntingarfulls gráturs.) „Ég bið þig, ég bið þig!“
Lögreglukonan: „Ég heyri hvað þú segir en ég get ekkert gert.“
Konan: „Af hverju ekki?“
Lögreglukonan: „Því það er ekki mín ákvörðun að taka. Mér þykir það mjög leitt. Mér þykir það svo leitt.“