Skjáskot/Sema Erla Hussein handtaka
Skjáskot/Sema Erla

„Þetta var versta nótt lífs míns – eins og martröð“

„Það var komið fram við okkur eins og glæpamenn. Þeir lömdu fatlaðan bróður minn sem var í hjólastólnum og hinn bróðir minn þegar hann reyndi að verja hann. Þeir börðu hann og tóku hann.“ Þannig lýsir ung kona frá Írak því sem hún kallar „verstu nótt lífs síns“. Fimm manna fjölskylda er nú allslaus í Grikklandi eftir að hafa verið sett í fjötra í flugvél frá Íslandi, umkringd lögreglumönnum.

Við sitjum hérna á göt­unni í Grikk­landi. Ástandið er slæmt,“ segir Yis­men Hussi­en, ung kona úr fimm manna fjöl­skyldu frá Írak sem flutt var með leiguflugi í lög­reglu­fylgd frá Íslandi eldsnemma í morgun ásamt fleiri umsækj­endum um alþjóð­lega vernd. Bróðir hennar er alvar­lega veikur og not­ast við hjóla­stól. Fjöl­skyldan er pen­inga­laus, að sögn Yis­men, sem Kjarn­inn ræddi við síð­degis í dag. „Þeir leyfðu okkur ekki að taka neitt með okk­ur. Ég er komin til Grikk­lands með skóla­tösk­una mína og nokkrar skóla­bæk­ur. Ekk­ert meira.“

Eftir kom­una til Grikk­lands var hóp­ur­inn, sem telur fimmtán manns, hrein­lega skil­inn eftir við flug­stöð­ina. „Þeir skildu okkur eftir og fóru,“ segir Yis­men. „Gerið það, hjálpið okk­ur, gerið það. Dauði er betri fyrir mig en að dvelja hér. Litla systir mín reyndi að svipta sig lífi því hún er svo örvingl­uð.“

Vinir þeirra á Íslandi, fólk sem starfar við skól­ann sem hún hefur stundað íslensku­nám í, hefur veitt þeim aðstoð svo að þau geta verið á hót­eli í nótt. „En ég veit ekki hvað bíður mín á morg­un.“

Vísað á brott eftir tveggja ára dvöl

Yis­men hafði verið á Íslandi í um tvö ár. Hingað kom hún, sem og móðir henn­ar, systir og tveir bræð­ur, í leit að vernd. Þar sem þau höfðu áður fengið vernd í Grikk­landi, ákváðu íslensk stjórn­völd að synja þeim um vernd hér og vísa af landi brott. Mál þeirra var þó ekki útkljáð fyrir dóm­stólum því þann 18. nóv­em­ber, eftir aðeins örfáa daga, á að taka fyrir í hér­aðs­dómi mál bróður henn­ar, Hassein Hussi­en, gegn íslenska rík­inu. Með frá­vís­un­inni kemur íslenska ríkið hins vegar í veg fyrir að Hussein geti sótt þing­stað og sagt frá sinni upp­lif­un.

Kærð eru brot Útlend­inga­stofn­unar á ákvæðum samn­ings Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi fatl­aðs fólks og brot gegn jafn­ræð­is­reglu 11. gr. stjórn­sýslu­laga. Með því að frá­vísa honum til Grikk­lands er, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá stuðn­ings­fólki hans og rétt­ar­gæslu­manni á Íslandi, brotið gegn einni af meg­in­reglu samn­ings­ins sem felur í sér frelsi fatl­aðs fólks til þess að velja sér búsetu­stað og hvar og með hverjum það býr. Þeir telja ljóst að hann hafi ekk­ert slíkt frelsi í Grikk­landi vegna skorts á stuðn­ingi þar. Þá virðir Ísland, sam­kvæmt kærunni, ekki þau mark­mið sem fel­ast í 1. gr. samn­ings­ins sem fela m.a. í sér að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mann­rétt­inda og grund­vall­ar­frelsis og að efla virð­ingu fyrir eðl­is­lægri reisn þess.

Yis­men hafði líkt og bróðir hennar bundið vonir við að dóms­málið myndi breyta öllu. Að hann og fjöl­skyldan fengi vernd á Íslandi, eftir að hafa reynt að fá slíka í tvö ár.

„Þegar ég og systir mín komum heim úr skól­anum í gær þá beið lög­reglan eftir okk­ur,“ segir Yis­men við Kjarn­ann. Hún segir lög­regl­una hafa tekið á bróður hennar sem hafi setið í hjóla­stóln­um. Eldri bróðir hennar hafi þá reynt að verja hann en þá hafi lög­reglan slegið hann. „Þeim var ýtt og hent nið­ur,“ lýsir hún upp­á­kom­unni sem tók veru­lega á hana. Þeir hafi síðan báðir verið hand­teknir og fluttir á lög­reglu­stöð. „Og þeir tóku sím­ana af okkur öll­u­m.“

Mæðgurnar voru fluttar á hótel í Reykja­nes­bæ, þar sem lög­reglu­menn vökt­uðu þær, og þaðan út á Kefla­vík­ur­flug­völl í nótt. Þær gátu ekk­ert tekið með sér úr íbúð­inni, að sögn Yis­men. Engin föt. Ekki neitt.

Þau hafi verið leidd inn í flug­vél­ina í hóp­um. Hún hafi verið „full af lög­reglu­mönn­um, eins og við værum glæpa­menn“.

Sett í fjötra

„Ég sá ekki bróður minn fyrr en um borð í flug­vél­inn­i,“ útskýrir hún. Þegar hún hafi sagt lög­regl­unni að hún vildi hitta bróður sinn áður en hún færi um borð í flug­vél­ina þá hafi hún verið fjötruð á hönd­un­um. Sömu sögu hafi verið að segja um aðra hæl­is­leit­endur sem voru um borð. „Okkur líður öllum hræði­lega illa. Þetta var versta nótt lífs míns, eins og martröð.“

Lögreglan bað starfsmenn á Keflavíkurflugvelli að beina sterkum ljósum að fjölmiðlamönnum svo þeir gætu ekki fylgst með aðgerðum við að flytja fólkið upp í flugvélina.

Yis­men seg­ist ekki sjá hvernig hún ætti að kom­ast aftur til Íslands, verði nið­ur­staða máls bróður hennar á þann veg að hann fái vernd og fjöl­skyldan þá jafn­vel líka. Það er þó það sem hún þrá­ir. Að kom­ast hingað aft­ur, halda áfram að læra íslensku og byggja upp líf sitt til fram­tíð­ar. „En í stað­inn mun ég búa á göt­unn­i.“

„Mér þykir þetta leitt. Mér þykir þetta svo leitt.“

„Gerðu það, ekki senda mig og fjöl­skyldu mína í burt­u,“ heyr­ist önnur systirin úr Hussi­en-­fjöl­skyld­unni segja á upp­töku frá því að lög­reglan hand­tók fjöl­skyld­una í gær­kvöldi. Yis­men leyfði blaða­manni Kjarn­ans að heyra upp­tök­una sem er átak­an­leg. Hana er að finna hér að neð­an.

Unga kon­an: „Ég vil ekki fara til Grikk­lands!“

Lög­reglu­kona talar róandi við hana og seg­ir: „Já, ég veit, ég veit. En ég get engu breytt.“

Unga kon­an: „Nei, þú veist það ekki.“ (Hún segir eitt­hvað sem ekki heyr­ist vegna örvænt­ing­ar­fulls grát­ur­s.) „Ég bið þig, ég bið þig!“

Lög­reglu­kon­an: „Ég heyri hvað þú segir en ég get ekk­ert gert.“

Kon­an: „Af hverju ekki?“

Lög­reglu­kon­an: „Því það er ekki mín ákvörðun að taka. Mér þykir það mjög leitt. Mér þykir það svo leitt.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent