Ekki síðra að skapa söguna en skrifa hana

Guðni Th. Jóhannesson er einn helsti sérfræðingur landsins þegar kemur að forsetaembættinu. Eftir atburðarás síðasta mánaðar setti hann sér endanlega það markmið að taka við keflinu á Bessastöðum og segist fullviss um að geta sinnt því embætti vel, hvort sem það snúi að erfiðum stjórnarkreppum eða endurskoðun stjórnarskránnar.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur býður sig fram til embættis forseta Íslands.
Mynd: Birgir Þór
ræðir við forsetaframbjóðendur
ræðir við forsetaframbjóðendur

Guðni Thor­lacius Jóhann­es­son sagn­fræð­ingur hefur lengi verið álits­gjafi fjöl­miðla þegar kemur að umfjöll­unum um störf for­­seta Íslands og emb­ættið sem slíkt. Hann hefur stundað kennslu við ýmsa háskóla, gefið út fjölda fræði­rita og bóka og starfar í dag sem dós­ent í sagn­fræði við Há­­­skóla Íslands. Hann hefur haldið sig utan flokks­bund­innar póli­­tíkur allan sinn feril og virð­ist sækja fylgi bæði til vinstri og hægri. Fyrir rúmum mán­uði útskýrði Guðni atburð­ar­rás­ina eftir Panama­skjöl­in ­fyrir sjón­varps­á­horf­end­um í margra klukku­tíma beinni útsend­ingu þegar for­seti neit­aði for­sæt­is­ráð­herra um þing­rof. Í kjöl­farið fór að bera meira á eft­ir­spurn­inni eftir Guðna sjálfum á Bessa­stað­i. 

Guðni Th. Jóhannesson Fæddur í Reykjavík þann 26. júní árið 1968 og verður því 48 ára daginn eftir kjördag. Foreldrar hans eru Margrét Thorlacius, kennari og blaðamaður, og Jóhannes Sæmundsson, íþróttakennari og íþróttafulltrúi. Guðni er kvæntur Elizu Reid og saman eiga þau fjögur börn og búa við Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi. Guðni á eina dóttur með fyrrverandi eiginkonu sinni. Hann er með sagn­fræði­próf frá Warwick háskóla í Englandi, MS gráðu í sagn­fræði frá Háskóla Íslands, hvar hann lærði einnig rússnesku, MSt gráðu í sögu frá Oxford og doktorsgráðu í sagn­fræði frá Uni­versity of London. Hann sagði sig úr kaþólsku kirkjunni eftir afhjúpanir um kynferðisbrot innan kirkjunnar víða um heim og stendur utan trúfélaga.

„Það var skorað á mig og ég tók þeim áskor­un­um, en ákvörð­unin var auð­vitað mín og Elizu, kon­unnar minn­ar. Mér finnst að í for­seta­kjöri þurfi kjós­endur að hafa ákveðið val og sú sýn á emb­ættið sem ég hef er þannig að mér finnst gott að hún sé í boði. Mér finnst ég hafa stefnu og sjón­ar­mið sem mega heyr­ast í þess­ari kosn­inga­bar­átt­u,“ segir hann. 

Var viss um að fólk vildi konu

En atburð­ar­rás síð­ustu vikna var þó ekki fyrsta kveikjan að hug­myndum Guðna um fram­boð.  

„Það var nefnt fyrir ára­mót hvort ég vildi gefa kost á mér, færi svo að Ólafur Ragnar hætti. Þegar hann ákvað að hverfa á braut færð­ist smá þungi í það, en ég gaf það frá mér. Ég var nokkuð viss um að þjóðin vildi fá konu í fram­boð og ég sá ekki fyrir mér að ég mundi vilja sækj­ast fast eftir þessu núna. Ég sagði við fólk að það ætti að tala við mig eftir 12 ár, þá væri ég til í slag­inn. Og sagði það meira að segja hálf­part­inn í gamni, en líka í alvöru,“ segir hann. „En svo gerð­ist þetta bara. Ég lenti í þessu kast­ljósi fjöl­miðl­anna og þurfti að tala um mál sem ég hafði sér­þekk­ingu á, og þá breytt­ist allt. Ég fékk bylgju áskor­ana og fólk út um allt hvatti mig til þess að fara í fram­boð. Ég þurfti ekki að sann­færa sjálfan mig um það að ég gæti valdið þessu emb­ætti, ég vissi það alveg. Og ég vissi að ég þekki sög­una, veit til hvers er ætl­ast af for­seta og treysti mér til þess að gegna emb­ætt­inu þannig að sómi sé að.“

„Sitj­andi for­seti sigrar alltaf“

Guðni seg­ist þá hafa þurft að hug­leiða hvort hann hefði eitt­hvað fram að færa sem væri ekki í boði nú þeg­ar. 

„Maður þurfti líka að meta líkur á sigri. Ég hefði ekki viljað fara í fram­boð ein­göngu til þess að kynna mín stefnu­mál og ég komst að þeirri nið­ur­stöðu að ég hefði erindi og gæti haft sig­ur. Þannig að sunnu­dag einn vorum við í start­hol­unum og ætl­uðum að fara að til­kynna fram­boð, en dag­inn eftir sner­ist Ólafi Ragn­ari hug­ur. Og þá varð maður að doka við um stund og hugsa með sér hvort maður vildi bjóða sig fram gegn sitj­andi for­seta. Helgi emb­ætt­is­ins er í mínum huga ennþá slík að það er að minnsta kosti ekki sjálf­gef­ið. „Sitj­andi for­seti sigrar alltaf“ lét ég nú hafa eftir mér ein­hvern tím­ann - og ætl­aði maður þá að storka örlög­unum eða bíða vísan ósig­ur? Þannig að ég þurfti að hugsa mitt ráð. Og ég komst að því að þótt sitj­andi for­seti hafi alltaf sigrað hingað til, þá hefur eng­inn boðið sig fram sex sinnum svo þetta lög­mál á ekk­ert endi­lega við. Og sá for­seti sem for­sæt­is­ráðherra styður tapar alltaf og Sig­urður Ingi hafði verið svo góður við mig að lýsa yfir stuðn­ingi við Ólaf. En fyrst og fremst ætl­aði ég ekki að láta ein­hvern annan ákveða fyrir mig hvað ég gerði. Þannig að þegar ég hafði haft nægan tíma til að líta yfir svið­ið, þá ákvað ég að láta samt slag standa. Svo þró­uð­ust hlut­irnir þannig að Ólafur dró sig í hlé og annar af hans kyn­slóð kom í stað­inn, Davíð Odds­son. Þannig að maður spyr sig bara hvað ger­ist næst, því enn eru nokkrir dagar til stefn­u.“

Guðni segist hafa þurft að meta líkurnar á því að hann stæði uppi sem sigurvegari í forsetakosningum áður en hann lýsti yfir framboði. Hann hafi ekki viljað bjóða sig fram eingöngu til að kynna stefnumál sín.
Mynd: Håkon Broder Lund

Skrif sög­unnar hans líf og yndi

Eins og áður segir þekkir Guðni hlut­verk og skyldur íslenska for­seta­emb­ætt­is­ins betur en flestir aðr­ir, sem og kosti þess og galla. Hann svarar um hæl þegar hann er spurður hvort hann langi ein­læg­lega að verða for­seti Íslands.  

„Já. Ann­ars væri ég ekki að þessu. Það hefur verið mitt líf og yndi að skrifa sög­una, fátt veit ég skemmti­legra. En að taka þátt í að skapa hana væri senni­lega ekki síðra. Nái ég kjöri, verður erfitt stundum að sitja á Bessa­stöð­um, þó að ég hafi ekki leitt hug­ann mikið að því núna. Ég vil taka þetta eitt skref í ein­u.“

Það hefur verið mitt líf og yndi að skrifa söguna, fátt veit ég skemmtilegra. En að taka þátt í að skapa hana væri sennilega ekki síðra.

Til­bú­inn að glíma við stjórn­ar­kreppu

Hann seg­ist full­kom­lega undir það búinn að taka þátt í, og leiða til lykta, erf­iðar stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­ur. 

„For­dæm­in, hefðin og sagan eru þannig að það er nauð­syn­legt að kunna skil á öllu sem gengið hefur á. Venjur og hefðir eru líka sjón­ar­mið sem þarf að virða og þetta er atburð­ar­rás sem þarf að ganga vel og hratt fyrir sig. Þetta þekki ég mjög vel og væri svo sann­ar­lega til­bú­inn að glíma við eitt stykki erf­iða stjórn­ar­kreppu. Það sama gildir um synjun laga, við vitum hvernig emb­ættið hefur breyst í þeim efn­um. Hér áður var synj­un­ar­valdið álitið dauður bók­staf­ur, en Ólafur Ragnar vakti þann dauða bók­staf til lífs­ins og það verður ekk­ert aftur snúið með það. Það hefur skap­ast nýr raun­veru­leiki á Bessa­stöð­u­m,“ segir Guðni. Annað skref sé hins vegar að færa þann rétt frá for­seta einum og til fólks­ins í land­in­u. 

„Við þurfum að koma því í stjórn­ar­skrá að til­tek­inn hluti kjós­enda geti kraf­ist þjóð­ar­at­kvæðis um umdeild mál. Þarna ætla ég bein­línis að beita mér því þetta lítur svo beint að störfum for­seta.“

Venjur og hefðir eru líka sjónarmið sem þarf að virða og þetta er atburðarrás sem þarf að ganga vel og hratt fyrir sig. Þetta þekki ég mjög vel og væri svo sannarlega tilbúinn að glíma við eitt stykki erfiða stjórnarkreppu.

Ekki auð­velt að end­ur­skoða for­setakafl­ann

Guðni seg­ist líka ætla að beita sér fyrir því að kafl­inn í stjórn­ar­skrá um völd og verk­svið for­seta Íslands verði færður í nútíma­horf og end­ur­spegli betur raun­veru­leik­ann en nú er. 

„Núna höfum við gömlu bráða­birgða­stjórn­ar­skrána sem var samin með það í huga að hún yrði tekin gagn­gerrar end­ur­skoð­un­ar. Þeir sem sömdu stjórn­ar­skránna og sam­þykktu árið 1944 þótt­ust vita að suma kafla hennar yrði að minnsta kosti að end­ur­skoða og það gildir um for­setakafl­ann. Og þarna held ég reyndar að nær allir sem láta sig stjórn­ar­skrár­mál nokkru varða séu mér sam­mála. Það þarf að vinna í þeim kafla, en auð­vitað verður það ekk­ert auð­velt. Það takast á and­stæð sjón­ar­mið og mörg sjón­ar­mið, en þó að eitt­hvað sé erfitt þá þýðir það ekki að maður eigi að forð­ast það.“ 

„Við skulum rétt vona að það verði kosið í haust,“ segir Guðni sem álítur það kost ef næsti forseti kunni stjórnarmyndunarferlið eftir Alþingiskosningar.
Mynd: Birgir Þór

Vonar að kosið verði til Alþingis í haust

Nýr for­seti verður kos­inn 25. júní og tekur við emb­ætti 1. ágúst. Allt bendir til þess að kosið verði til Alþingis í haust, þó að end­an­leg tíma­setn­ing sé enn ekki ljós. Færa má rök fyrir því að tím­inn sé naumur fyrir nýjan for­seta að setja sig í stell­ingar áður en mögu­lega þarf að mynda nýja rík­is­stjórn.  

„Við skulum rétt vona að það verði kosið í haust. Og ég held að það sé kostur fyrir næsta for­seta, hver sem það verð­ur, að þekkja í þaula það ferli sem fer í gang þegar stjórn fer frá völdum og mynda þarf aðra,“ segir hann og er fljótur að setja sig í stell­ingar fræði­manns­ins þegar talið berst að kom­andi kosn­ing­um. 

„Skoð­ana­kann­anir benda til að það séu nokkrir kostir í stöð­unni núna í sam­bandi við tveggja flokka stjórn­ir. Það gerir leik­inn auð­vitað auð­veld­ari. En það gæti vel gerst að það væri ill­mögu­legt að mynda stjórn tveggja flokka,“ segir hann. „Síð­ast sáum við það árið 1987 að það var ein­göngu hægt að mynda stjórn þriggja flokka og við tók löng og erfið stjórn­ar­kreppa og lá um skeið við að for­seti þyrfti að taka í taumana og að minnsta kosti hóta utan­þings­stjórn, ef ekki mynda hana. Allt þetta þarf að hafa í huga.“

Guðni bendir á að und­an­farið hafi þró­unin að vísu verið þannig að það hefur gengið sífellt betur að mynda rík­is­stjórn­ir. 

„Hér áður fyrr gátu stjórn­ar­mynd­anir dreg­ist á margar vik­ur. En í seinni tíð hefur þetta gengið mun hrað­ar, til dæmis þegar Davíð var í stjórn­ar­ráð­inu og réð því sem hann vildi. Og þá sagði hann að það væri algjör óþarfi að raska ró for­seta og mynd­aði bara sínar stjórnir til hægri og vinstri.“

Í seinni tíð hefur þetta gengið mun hraðar, til dæmis þegar Davíð var í stjórnarráðinu og réði því sem hann vildi. Og þá sagði hann að það væri algjör óþarfi að raska ró forseta og myndaði bara sínar stjórnir til hægri og vinstri.

„Its the economy, stupid“

Þó að lín­urnar hafi verið skýrar hingað til, gæti það breyst í þessum kosn­ingum með til­komu fylgis Pírata.  

„Píratar eru hug­sjóna­fólk og það ber að virða. En það getur verið erfitt fyrir hug­sjóna­fólk að miðla málum og vilji þeir kom­ast í rík­is­stjórn gætu þeir þurft að sætt­ast á mála­miðl­anir sem féllu kannski illa í kramið hjá bak­landi þeirra. En það sama gildir líka um Sjálf­stæð­is­menn og Sam­fylk­ing­una, verði Sam­fylk­ingin enn til, þar gætu tek­ist á mjög and­stæð sjón­ar­mið í sam­bandi við stjórn­ar­skrár­mál og Evr­ópu­mál. En reyndar held ég að í aðdrag­anda Alþing­is­kosn­inga verði Evr­ópu­mál og stjórn­ar­skrár­mál ekki endi­lega í brennid­epli. Ég held að við getum tekið undir með Clinton og hans mönnum þegar þeir útskýrðu hvernig hann hafði betur gegn Bush eldri á sínum tíma: „It‘s the economy, stupid.“ Bush hamp­aði sigri í Persaflóa­stríð­inu fyrra og það gilti lítt þegar efna­hags­málin voru ann­ars veg­ar, þannig að það er mín til­finn­ing að stjórn­ar­skrár­mál og ESB verði ekk­ert endi­lega mál mál­anna.“

Ótt­ast ekki fylg­is­sveiflur  

Guðni hefur verið að mæl­ast vel í könn­unum og verið langefstur und­an­far­ið, með um 70 pró­senta fylgi í þremur könn­unum í röð. Hann seg­ist ekki ótt­ast fylg­is­sveifl­ur. 

„Fylgið mun lík­lega fara á fleygi­ferð þegar Ólafur Ragnar er horf­inn á braut og ein­hverjir sem gátu ekki hugsað sér að kjósa hann völdu kannski mig bein­línis út af því. Samt er ég nú ekk­ert að velta vöngum yfir því. Númer eitt, tvö og þrjú hjá mér er að kynna mín sjón­ar­mið, kynna mig sjálfan, reyna að hitta sem flesta og ná til sem flestra á sam­fé­lags­miðlum og í fjöl­miðl­um, og fá fólk þannig til þess að kjósa mig og það sem ég stend fyr­ir, en ekki til þess að kjósa ekki ein­hvern ann­an. Og ég bið alla að hugsa ekki þannig, heldur að fylgja sinni sann­fær­ing­u.“

Guðni segist styðja þann í embætti forseta Íslands sem fær mest fylgi í kosningum, ef það verður ekki hann sjálfur.
Mynd: Birgir Þór

Sættir sig við þann sem þjóðin vel­ur 

En hvern vill Guðni sjá sem næsta for­seta Íslands, ef það verður ekki hann sjálf­ur? 

„Þann fram­bjóð­anda sem fær mest fylgi. Það er ekk­ert flókn­ara en það. Davíð Odds­son var stór­brot­inn stjórn­mála­mað­ur, einn umdeild­asti stjórn­mála­maður síð­ustu ald­ar. Vilji þjóðin kjósa hann til nýrra ábyrgð­ar­starfa þá er það dómur sem ég sætti mig við. Andri Snær er mik­ill hug­sjóna­maður sem ég ber mikla virð­ingu fyrir og okkur Andra hefur alltaf komið mjög vel saman og ég þekki fólkið í kring um hann. Hann mundi sóma sér vel á Bessa­stöð­um. Höllu þekki ég líka, hún hefur unnið með kon­unni minni, Elizu. Sturla Jóns­son, talandi um að hafa hug­sjón­ir, ég virði hann og hlakka til að hlusta á hann lýsa stjórn­ar­skránni með sínu nefi. Og þetta er ekki frumraun Ást­þórs á þessum vett­vangi svo maður veit svona aðeins að hverju maður gengur þar. Margt varð­andi þetta fólk hugn­ast mér, en ekki svo mikið að ég ætli að kjósa þau,“ segir Guðni og hlær. „Það er fólkið sem velur for­set­ann, það er bara svo ein­falt. Það slag­orð var notað í for­seta­kjör­inu árið 1952, fyrsta for­seta­kjör­inu á Íslandi þegar fólk skund­aði á kjör­stað og kaus sér for­seta. Þetta er enn í góðu gild­i.“

Það verða bara allir, gjörið svo vel, að arka á kjörstað og kjósa þann sem þeim líst best á.

Guðni segir kosn­ingu mikil for­rétt­indi sem fólk megi ekki gleyma.  

„Á næst­unni fáum við, að því er virð­ist, í tvígang að ganga til lýð­ræð­is­legra kosn­inga og það megum við ekki van­meta. Sér­stak­lega verður að leggja áherslu á þetta við unga fólk­ið, sem tekur því kannski sem gefnu að þetta séu sjálf­sögð mann­rétt­indi og nýtir þau þess vegna ekki. Það verða bara all­ir, gjörið svo vel, að arka á kjör­stað og kjósa þann sem þeim líst best á.“

Kjarn­inn birtir við­töl yfir Hvíta­sunnu­helg­ina við þá for­seta­fram­bjóð­endur sem hafa mælst best í skoð­ana­könn­unum und­an­far­ið. Tekið skal fram að Davið Odds­son hafn­aði beiðni Kjarn­ans um við­tal.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal