Ekki síðra að skapa söguna en skrifa hana

Guðni Th. Jóhannesson er einn helsti sérfræðingur landsins þegar kemur að forsetaembættinu. Eftir atburðarás síðasta mánaðar setti hann sér endanlega það markmið að taka við keflinu á Bessastöðum og segist fullviss um að geta sinnt því embætti vel, hvort sem það snúi að erfiðum stjórnarkreppum eða endurskoðun stjórnarskránnar.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur býður sig fram til embættis forseta Íslands.
Mynd: Birgir Þór
ræðir við forsetaframbjóðendur
ræðir við forsetaframbjóðendur

Guðni Thorlacius Jóhannesson sagnfræðingur hefur lengi verið álits­gjafi fjöl­miðla þegar kemur að umfjöll­unum um störf for­seta Íslands og emb­ættið sem slíkt. Hann hefur stundað kennslu við ýmsa háskóla, gefið út fjölda fræðirita og bóka og starfar í dag sem dós­ent í sagn­fræði við Há­­skóla Íslands. Hann hefur haldið sig utan flokks­bund­innar póli­tíkur allan sinn feril og virð­ist sækja fylgi bæði til vinstri og hægri. Fyrir rúmum mánuði útskýrði Guðni atburðarrásina eftir Panamaskjölin fyrir sjónvarpsáhorfendum í margra klukkutíma beinni útsendingu þegar forseti neitaði forsætisráðherra um þingrof. Í kjölfarið fór að bera meira á eftirspurninni eftir Guðna sjálfum á Bessastaði. 

Guðni Th. Jóhannesson Fæddur í Reykjavík þann 26. júní árið 1968 og verður því 48 ára daginn eftir kjördag. Foreldrar hans eru Margrét Thorlacius, kennari og blaðamaður, og Jóhannes Sæmundsson, íþróttakennari og íþróttafulltrúi. Guðni er kvæntur Elizu Reid og saman eiga þau fjögur börn og búa við Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi. Guðni á eina dóttur með fyrrverandi eiginkonu sinni. Hann er með sagn­fræði­próf frá Warwick háskóla í Englandi, MS gráðu í sagn­fræði frá Háskóla Íslands, hvar hann lærði einnig rússnesku, MSt gráðu í sögu frá Oxford og doktorsgráðu í sagn­fræði frá Uni­versity of London. Hann sagði sig úr kaþólsku kirkjunni eftir afhjúpanir um kynferðisbrot innan kirkjunnar víða um heim og stendur utan trúfélaga.

„Það var skorað á mig og ég tók þeim áskorunum, en ákvörðunin var auðvitað mín og Elizu, konunnar minnar. Mér finnst að í forsetakjöri þurfi kjósendur að hafa ákveðið val og sú sýn á embættið sem ég hef er þannig að mér finnst gott að hún sé í boði. Mér finnst ég hafa stefnu og sjónarmið sem mega heyrast í þessari kosningabaráttu,“ segir hann. 

Var viss um að fólk vildi konu

En atburðarrás síðustu vikna var þó ekki fyrsta kveikjan að hugmyndum Guðna um framboð.  

„Það var nefnt fyrir áramót hvort ég vildi gefa kost á mér, færi svo að Ólafur Ragnar hætti. Þegar hann ákvað að hverfa á braut færðist smá þungi í það, en ég gaf það frá mér. Ég var nokkuð viss um að þjóðin vildi fá konu í framboð og ég sá ekki fyrir mér að ég mundi vilja sækjast fast eftir þessu núna. Ég sagði við fólk að það ætti að tala við mig eftir 12 ár, þá væri ég til í slaginn. Og sagði það meira að segja hálfpartinn í gamni, en líka í alvöru,“ segir hann. „En svo gerðist þetta bara. Ég lenti í þessu kastljósi fjölmiðlanna og þurfti að tala um mál sem ég hafði sérþekkingu á, og þá breyttist allt. Ég fékk bylgju áskorana og fólk út um allt hvatti mig til þess að fara í framboð. Ég þurfti ekki að sannfæra sjálfan mig um það að ég gæti valdið þessu embætti, ég vissi það alveg. Og ég vissi að ég þekki söguna, veit til hvers er ætlast af forseta og treysti mér til þess að gegna embættinu þannig að sómi sé að.“

„Sitjandi forseti sigrar alltaf“

Guðni segist þá hafa þurft að hugleiða hvort hann hefði eitthvað fram að færa sem væri ekki í boði nú þegar. 

„Maður þurfti líka að meta líkur á sigri. Ég hefði ekki viljað fara í framboð eingöngu til þess að kynna mín stefnumál og ég komst að þeirri niðurstöðu að ég hefði erindi og gæti haft sigur. Þannig að sunnudag einn vorum við í startholunum og ætluðum að fara að tilkynna framboð, en daginn eftir snerist Ólafi Ragnari hugur. Og þá varð maður að doka við um stund og hugsa með sér hvort maður vildi bjóða sig fram gegn sitjandi forseta. Helgi embættisins er í mínum huga ennþá slík að það er að minnsta kosti ekki sjálfgefið. „Sitjandi forseti sigrar alltaf“ lét ég nú hafa eftir mér einhvern tímann - og ætlaði maður þá að storka örlögunum eða bíða vísan ósigur? Þannig að ég þurfti að hugsa mitt ráð. Og ég komst að því að þótt sitjandi forseti hafi alltaf sigrað hingað til, þá hefur enginn boðið sig fram sex sinnum svo þetta lögmál á ekkert endilega við. Og sá forseti sem forsætisráðherra styður tapar alltaf og Sigurður Ingi hafði verið svo góður við mig að lýsa yfir stuðningi við Ólaf. En fyrst og fremst ætlaði ég ekki að láta einhvern annan ákveða fyrir mig hvað ég gerði. Þannig að þegar ég hafði haft nægan tíma til að líta yfir sviðið, þá ákvað ég að láta samt slag standa. Svo þróuðust hlutirnir þannig að Ólafur dró sig í hlé og annar af hans kynslóð kom í staðinn, Davíð Oddsson. Þannig að maður spyr sig bara hvað gerist næst, því enn eru nokkrir dagar til stefnu.“

Guðni segist hafa þurft að meta líkurnar á því að hann stæði uppi sem sigurvegari í forsetakosningum áður en hann lýsti yfir framboði. Hann hafi ekki viljað bjóða sig fram eingöngu til að kynna stefnumál sín.
Mynd: Håkon Broder Lund

Skrif sögunnar hans líf og yndi

Eins og áður segir þekkir Guðni hlutverk og skyldur íslenska forsetaembættisins betur en flestir aðrir, sem og kosti þess og galla. Hann svarar um hæl þegar hann er spurður hvort hann langi einlæglega að verða forseti Íslands.  

„Já. Annars væri ég ekki að þessu. Það hefur verið mitt líf og yndi að skrifa söguna, fátt veit ég skemmtilegra. En að taka þátt í að skapa hana væri sennilega ekki síðra. Nái ég kjöri, verður erfitt stundum að sitja á Bessastöðum, þó að ég hafi ekki leitt hugann mikið að því núna. Ég vil taka þetta eitt skref í einu.“

Það hefur verið mitt líf og yndi að skrifa söguna, fátt veit ég skemmtilegra. En að taka þátt í að skapa hana væri sennilega ekki síðra.

Tilbúinn að glíma við stjórnarkreppu

Hann segist fullkomlega undir það búinn að taka þátt í, og leiða til lykta, erfiðar stjórnarmyndunarviðræður. 

„Fordæmin, hefðin og sagan eru þannig að það er nauðsynlegt að kunna skil á öllu sem gengið hefur á. Venjur og hefðir eru líka sjónarmið sem þarf að virða og þetta er atburðarrás sem þarf að ganga vel og hratt fyrir sig. Þetta þekki ég mjög vel og væri svo sannarlega tilbúinn að glíma við eitt stykki erfiða stjórnarkreppu. Það sama gildir um synjun laga, við vitum hvernig embættið hefur breyst í þeim efnum. Hér áður var synjunarvaldið álitið dauður bókstafur, en Ólafur Ragnar vakti þann dauða bókstaf til lífsins og það verður ekkert aftur snúið með það. Það hefur skapast nýr raunveruleiki á Bessastöðum,“ segir Guðni. Annað skref sé hins vegar að færa þann rétt frá forseta einum og til fólksins í landinu. 

„Við þurfum að koma því í stjórnarskrá að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um umdeild mál. Þarna ætla ég beinlínis að beita mér því þetta lítur svo beint að störfum forseta.“

Venjur og hefðir eru líka sjónarmið sem þarf að virða og þetta er atburðarrás sem þarf að ganga vel og hratt fyrir sig. Þetta þekki ég mjög vel og væri svo sannarlega tilbúinn að glíma við eitt stykki erfiða stjórnarkreppu.

Ekki auðvelt að endurskoða forsetakaflann

Guðni segist líka ætla að beita sér fyrir því að kaflinn í stjórnarskrá um völd og verksvið forseta Íslands verði færður í nútímahorf og endurspegli betur raunveruleikann en nú er. 

„Núna höfum við gömlu bráðabirgðastjórnarskrána sem var samin með það í huga að hún yrði tekin gagngerrar endurskoðunar. Þeir sem sömdu stjórnarskránna og samþykktu árið 1944 þóttust vita að suma kafla hennar yrði að minnsta kosti að endurskoða og það gildir um forsetakaflann. Og þarna held ég reyndar að nær allir sem láta sig stjórnarskrármál nokkru varða séu mér sammála. Það þarf að vinna í þeim kafla, en auðvitað verður það ekkert auðvelt. Það takast á andstæð sjónarmið og mörg sjónarmið, en þó að eitthvað sé erfitt þá þýðir það ekki að maður eigi að forðast það.“ 

„Við skulum rétt vona að það verði kosið í haust,“ segir Guðni sem álítur það kost ef næsti forseti kunni stjórnarmyndunarferlið eftir Alþingiskosningar.
Mynd: Birgir Þór

Vonar að kosið verði til Alþingis í haust

Nýr forseti verður kosinn 25. júní og tekur við embætti 1. ágúst. Allt bendir til þess að kosið verði til Alþingis í haust, þó að endanleg tímasetning sé enn ekki ljós. Færa má rök fyrir því að tíminn sé naumur fyrir nýjan forseta að setja sig í stellingar áður en mögulega þarf að mynda nýja ríkisstjórn.  

„Við skulum rétt vona að það verði kosið í haust. Og ég held að það sé kostur fyrir næsta forseta, hver sem það verður, að þekkja í þaula það ferli sem fer í gang þegar stjórn fer frá völdum og mynda þarf aðra,“ segir hann og er fljótur að setja sig í stellingar fræðimannsins þegar talið berst að komandi kosningum. 

„Skoðanakannanir benda til að það séu nokkrir kostir í stöðunni núna í sambandi við tveggja flokka stjórnir. Það gerir leikinn auðvitað auðveldari. En það gæti vel gerst að það væri illmögulegt að mynda stjórn tveggja flokka,“ segir hann. „Síðast sáum við það árið 1987 að það var eingöngu hægt að mynda stjórn þriggja flokka og við tók löng og erfið stjórnarkreppa og lá um skeið við að forseti þyrfti að taka í taumana og að minnsta kosti hóta utanþingsstjórn, ef ekki mynda hana. Allt þetta þarf að hafa í huga.“

Guðni bendir á að undanfarið hafi þróunin að vísu verið þannig að það hefur gengið sífellt betur að mynda ríkisstjórnir. 

„Hér áður fyrr gátu stjórnarmyndanir dregist á margar vikur. En í seinni tíð hefur þetta gengið mun hraðar, til dæmis þegar Davíð var í stjórnarráðinu og réð því sem hann vildi. Og þá sagði hann að það væri algjör óþarfi að raska ró forseta og myndaði bara sínar stjórnir til hægri og vinstri.“

Í seinni tíð hefur þetta gengið mun hraðar, til dæmis þegar Davíð var í stjórnarráðinu og réði því sem hann vildi. Og þá sagði hann að það væri algjör óþarfi að raska ró forseta og myndaði bara sínar stjórnir til hægri og vinstri.

„Its the economy, stupid“

Þó að línurnar hafi verið skýrar hingað til, gæti það breyst í þessum kosningum með tilkomu fylgis Pírata.  

„Píratar eru hugsjónafólk og það ber að virða. En það getur verið erfitt fyrir hugsjónafólk að miðla málum og vilji þeir komast í ríkisstjórn gætu þeir þurft að sættast á málamiðlanir sem féllu kannski illa í kramið hjá baklandi þeirra. En það sama gildir líka um Sjálfstæðismenn og Samfylkinguna, verði Samfylkingin enn til, þar gætu tekist á mjög andstæð sjónarmið í sambandi við stjórnarskrármál og Evrópumál. En reyndar held ég að í aðdraganda Alþingiskosninga verði Evrópumál og stjórnarskrármál ekki endilega í brennidepli. Ég held að við getum tekið undir með Clinton og hans mönnum þegar þeir útskýrðu hvernig hann hafði betur gegn Bush eldri á sínum tíma: „It‘s the economy, stupid.“ Bush hampaði sigri í Persaflóastríðinu fyrra og það gilti lítt þegar efnahagsmálin voru annars vegar, þannig að það er mín tilfinning að stjórnarskrármál og ESB verði ekkert endilega mál málanna.“

Óttast ekki fylgissveiflur  

Guðni hefur verið að mælast vel í könnunum og verið langefstur undanfarið, með um 70 prósenta fylgi í þremur könnunum í röð. Hann segist ekki óttast fylgissveiflur. 

„Fylgið mun líklega fara á fleygiferð þegar Ólafur Ragnar er horfinn á braut og einhverjir sem gátu ekki hugsað sér að kjósa hann völdu kannski mig beinlínis út af því. Samt er ég nú ekkert að velta vöngum yfir því. Númer eitt, tvö og þrjú hjá mér er að kynna mín sjónarmið, kynna mig sjálfan, reyna að hitta sem flesta og ná til sem flestra á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, og fá fólk þannig til þess að kjósa mig og það sem ég stend fyrir, en ekki til þess að kjósa ekki einhvern annan. Og ég bið alla að hugsa ekki þannig, heldur að fylgja sinni sannfæringu.“

Guðni segist styðja þann í embætti forseta Íslands sem fær mest fylgi í kosningum, ef það verður ekki hann sjálfur.
Mynd: Birgir Þór

Sættir sig við þann sem þjóðin velur 

En hvern vill Guðni sjá sem næsta forseta Íslands, ef það verður ekki hann sjálfur? 

„Þann frambjóðanda sem fær mest fylgi. Það er ekkert flóknara en það. Davíð Oddsson var stórbrotinn stjórnmálamaður, einn umdeildasti stjórnmálamaður síðustu aldar. Vilji þjóðin kjósa hann til nýrra ábyrgðarstarfa þá er það dómur sem ég sætti mig við. Andri Snær er mikill hugsjónamaður sem ég ber mikla virðingu fyrir og okkur Andra hefur alltaf komið mjög vel saman og ég þekki fólkið í kring um hann. Hann mundi sóma sér vel á Bessastöðum. Höllu þekki ég líka, hún hefur unnið með konunni minni, Elizu. Sturla Jónsson, talandi um að hafa hugsjónir, ég virði hann og hlakka til að hlusta á hann lýsa stjórnarskránni með sínu nefi. Og þetta er ekki frumraun Ástþórs á þessum vettvangi svo maður veit svona aðeins að hverju maður gengur þar. Margt varðandi þetta fólk hugnast mér, en ekki svo mikið að ég ætli að kjósa þau,“ segir Guðni og hlær. „Það er fólkið sem velur forsetann, það er bara svo einfalt. Það slagorð var notað í forsetakjörinu árið 1952, fyrsta forsetakjörinu á Íslandi þegar fólk skundaði á kjörstað og kaus sér forseta. Þetta er enn í góðu gildi.“

Það verða bara allir, gjörið svo vel, að arka á kjörstað og kjósa þann sem þeim líst best á.

Guðni segir kosningu mikil forréttindi sem fólk megi ekki gleyma.  

„Á næstunni fáum við, að því er virðist, í tvígang að ganga til lýðræðislegra kosninga og það megum við ekki vanmeta. Sérstaklega verður að leggja áherslu á þetta við unga fólkið, sem tekur því kannski sem gefnu að þetta séu sjálfsögð mannréttindi og nýtir þau þess vegna ekki. Það verða bara allir, gjörið svo vel, að arka á kjörstað og kjósa þann sem þeim líst best á.“

Kjarninn birtir viðtöl yfir Hvítasunnuhelgina við þá forsetaframbjóðendur sem hafa mælst best í skoðanakönnunum undanfarið. Tekið skal fram að Davið Oddsson hafnaði beiðni Kjarnans um viðtal.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal