Bestu íslensku kvikmyndirnar
Hverjar eru bestu kvikmyndir Íslandssögunnar? Hér er ein tillaga.
Það er merkilegt hvað jafn fámenn þjóð og Ísland getur haldið úti svo blómlegri kvikmyndagerð. Framan af 20. öld voru afar fáar kvikmyndir framleiddar hér og fengu þær ekki mikla athygli. En það breyttist í kringum árið 1980. Síðan þá hefur verið mikill stígandi í geiranum og nú koma út um fjórar til átta kvikmyndir á hverju ári í fullri lengd. Tækni og fagmennska hefur einnig aukist til muna og Ísland er orðinn álitlegur staður fyrir erlenda kvikmyndagerðarmenn til að taka upp. Íslenskar kvikmyndir eru auður sem komandi kynslóðir geta lært af og gengið að. Hér eru þær 10 eftirminnilegustu.
10. Frost
Allt frá því að Húsið kom út árið 1983 hafa íslenskir kvikmyndagerðarmenn mátað sig við hryllinginn með misjöfnum árangri. Frost frá árinu 2012 er nýstárleg að því leyti að sagan er sögð með upptökum persónanna sjálfra. Þetta er nokkuð algengt form í hryllingsmyndagerð ytra. Það hófst með myndum á borð við Cannibal Holocaust (1980) og náði miklum vinsældum með myndum á borð við The Blair Witch Project (1999) og Paranormal Activity (2007). Frost er langt frá því að vera fullkomin mynd en tilraunin er skemmtileg. Hún gerist upp á jökli og sagan er nær alfarið sögð frá sjónarhóli leikaranna Önnu Gunndísar Guðmundsdóttur og Björns Thors. Að einhverju leyti kemur hryllingsmynd Johns Carpenters The Thing (1982) upp í hugann vegna staðsetningarinnar en hryllingurinn í Frosti er þó mun duldari. Óhugnaðurinn sem aðalleikararnir vekja minna mann í raun frekar á verk rithöfundarins H.P. Lovecraft en best er að segja ekki of mikið.
9. Hross í oss
Kvikmyndin Hross í oss frá árinu 2013 er einn einkennilegasti bræðingur í íslenskri kvikmyndasögu. Hún er samansafn smásagna sem gerast í sömu sveit og tengjast allar hestum á einhvern (eða mikinn) hátt. Myndin er ákaflega stutt, einungis um 80 mínútur, en engu að síður rúmast margar frábrugðnar sögur í henni. Hrossin og sögusviðið skipa veigamikinn sess en myndin er þó borin á herðum ákaflega litríkra og skemmtilegra persóna og frábærra leikara. Má þar helst nefna tvo erlenda leikara, Charlotte Bøving frá Danmörku (sem er gift leikstjóra myndarinnar Benedikti Erlingssyni) og Juan Camillo Roman Estrada frá Kólumbíu. Sá síðarnefndi leikur í ógleymanlegu atriði þar sem hann skríður innan í hestslík í stormi til að bjarga lífi sínu, atriði sem er augljóslega lotning til Stjörnustríðs.
8. Myrkrahöfðinginn
Myrkrahöfðinginn frá 1999 er lauslega byggð á galdramáli Kirkjubólsfeðga í Ísafjarðarsýslu frá árinu 1656. Þar voru Jón Jónsson eldri og yngri brenndir á báli fyrir tilstuðlan Jóns Magnússonar prests á Eyri. Presturinn, sem leikinn er af Hilmi Snæ Guðnasyni, taldi feðgana orsakavalda af meintum krankleikum sínum. Hrafn Gunnlaugsson leikstýrði myndinni og ber hún þess merki. Hún er skítug, þrúgandi og uppfull af annarlegum órum og kenndum. Málfarið er líka skítugt. „Þið eruð ekkert annað en saurslettur úr endaþarmi Satans!“ er lína sem gleymist seint. Hrafn nær einnig einstaklega vel að ná fram því andrúmslofti sem myndast í galdrafári, ekki bara hér heldur almennt. Samfélagið allt virðist haldið móðursýki og heimsku og enginn vill eða þorir að benda á allsberan keisarann. Í slíku andrúmslofti geta viljasterkir einstaklingar náð sínu fram án mikillar mótspyrnu.
7. Reykjavík-Rotterdam
Það er ekki oft sem Íslendingum tekst vel til að búa til góða spennumynd en Reykjavík-Rotterdam frá árinu 2008 er alveg einstaklega vel heppnuð. Myndin fjallar um Kristófer, leikinn af Baltasar Kormáki, sjómann sem flækist inn í umsvifamikið sprúttsmygl á fraktskipi. Sagan gerist að hluta til í Rotterdam eins og titillinn gefur til kynna og þar kemur fram hinn frábæri hollenski leikari Victor Löw. Ólíkt flestum íslenskum spennumyndum og þáttum þá nær Reykjavík-Rotterdam að halda andliti allan tímann og er bara þó nokkuð kúl og trúverðug. Óskar Jónasson leikstýrði myndinni en Baltasar amerísku endurgerðinni Contraband frá 2012. Þá var sögusviðið aftur á móti New Orleans og leikararnir öllu stærri stjörnur, þ.e. Mark Wahlberg, Kate Beckinsale o.fl.
6. Á annan veg
Gamanmyndin Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, Á annan veg, frá árinu 2011 fékk sennilega meiri athygli utan landssteinanna en hér heima. Hún er smá í sniðum og mestmegnis borinn á herðum tveggja leikara, Hilmars Guðjónssonar og Sveins Ólafs Gunnarssonar, sem leika vegamálara úti á landi á níunda áratugnum. Það má þó segja að leikarinn Þorsteinn Bachmann steli senunni í litlu hlutverki sem vörubílsstjóri. Hans karakter virðist vera frá allt öðrum tíma og manni grunar jafnvel að hann sé draugur. Styrkur myndarinnar er þó fyrst og fremst samband aðalleikaranna sem eru ákaflega ólíkir og útkoman er vægast sagt bráðfyndin. Myndin var sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim og hlaut ýmis verðlaun. Árið 2013 var hún endurgerð í Bandaríkjunum sem Prince Avalanche en sögusviðið þá fært til Texas. Líkt og með frummyndina var aðsóknin á þá mynd hógvær. Á annan veg er engu að síður falinn fjársjóður sem vert er að kynna sér.
5. Agnes
Myndin er byggð á morðunum á Illugastöðum í Vestur Húnavatnssýslu árið 1828 og seinustu aftökum Íslandsögunnar sem fram fóru á Þrístöpum tveimur árum síðar. Málið er eitt þekktasta sakamál sem upp hefur komið hér á landi og hefur verið nokkuð í deiglunni nýverið eftir að ástralski rithöfundurinn Hannah Kent skrifaði sögulega skáldsögu byggða á atburðunum, Burial Rites frá árinu 2013. Agnes, sem er frá árinu 1995, er samkvæm sögunni í stærstu atriðunum, þ.e. ástarmálunum sem leiddu að atburðunum, morðunum sjálfum og aftökunum. En þó er hún vel krydduð og samúð áhorfandans á vissulega að vera hjá aðalpersónunni Agnesi Magnúsdóttur, sem leikin er af Maríu Ellingsen. Myndin er dramatísk með eindæmum og einstaklega falleg í alla staði, sérstaklega hvað varðar leikmynd og kvikmyndatöku. Lokaatrði myndarinnar lætur engan ósnortinn.
4. Skytturnar
Skytturnar var fyrsta kvikmynd leikstjórans Friðriks Þórs Friðrikssonar í fullri lengd en áður hafði hann leikstýrt stuttmyndum og heimildarmyndum á borð við Rokk í Reykjavík (1982). Myndin fjallar um Grím og Bubba, tvo hvalveiðimenn sem halda til Reykjavíkur eftir að veiðitímabilinu lýkur. Þar fara þeir á fyllerí sem tekur óvænta stefnu og endar loks með skotbardaga við víkingasveitina í Sundhöll Reykjavíkur. Myndin er lágstemmd og hráslagaleg og minnir um margt á kvikmyndir finnska leikstjórans Aki Kaurismaki. Tiltölulega lítt þekktir leikarar fara með aðalhlutverkin í myndinni, þeir Þórarinn Óskar Þórarinsson og Eggert Guðmundsson, sem gefa henni skemmtilegan blæ. Tónlistin vakti einnig töluverða athygli, þar sem m.a. Bubbi Morthens og Sykurmolarnir koma fram.
3. Sódóma Reykjavík
Enginn íslensk kvikmynd hefur náð viðlíka költ-status og Sódóma Reykjavík frá 1992. Allir Íslendingar á fertugs og fimmtugsaldri hafa séð hana margoft og geta þulið utanbókar helstu frasana úr henni. „Af hverju ertu svona blá?“ „Tókstu fjarstýringuna? Nei.......ég meina jú“ og svo auðvitað „DÚFNAHÓLAR 10!!!“. Sem betur fer eru Dúfnahólar 10 ekki til, því það væri óbærilegt fyrir íbúana. Myndin er hreinn farsi sem fjallar um ungt fólk í leit að fjarstýringu. Inn í söguþráðinn fléttast svo ótrúlega lélegir smáglæpamenn, sem stýrt er af Agga flinka (eða Agga Pó) sem leikinn er snilldarlega af Eggerti Þorleifssyni. Í myndinni leika meðlimir þungarokkssveitarinnar HAM og hún verður ávallt samtvinnuð helsta smelli þeirra Partíbæ.
2. Hrútar
Hrútar er margverðlaunuð kvikmynd Gríms Hákonarsonar frá árinu 2015. Hún gerist í Bárðardal í Suður Þingeyjarsýslu og fjallar um bræðurna Kidda og Gumma sem leiknir eru af Theódóri Júlíussyni og Sigurði Sigurjónssyni. Þeir eru metnaðarfullir sauðfjárbændur sem keppa iðulega á hrútasýningum en talast ekki við jafnvel þó að þeir búi í nokkurra skrefa fjarlægð frá hvorum öðrum. Myndin er einstaklega íslensk, þ.e. hún er bæði tregafull og jafnvel dramatísk en einnig fyndin á ákaflega þurran hátt. Einmanaleiki er sterkt þema í myndinni og hjá bræðrunum brýst hann út í óvenju innilegum tengslum við búféð, þeir hætta jafnvel lífi sínu fyrir það. Einn helsti styrkleiki myndarinnar er leikur Theódórs og Sigurðar sem er hreint afbragð og einnig leikkonunnar Charlotte Bøving sem leikur héraðsdýralækninn í sveitinni.
1. Hrafninn flýgur
Kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar frá árinu 1984, Hrafninn flýgur, er fyrsta íslenska kvikmyndin sem fékk verulega athygli utan landsteinanna. Hugtakið „Þungur hnífur“ er einnig orðið fyrirbæri út af fyrir sig. Myndin gerist á fyrstu árum Íslandsbyggðar og er sú fyrsta í hinum svokallaða víkinga-þríleik Hrafns; með Í skugga hrafnsins (1988) og Hvíta víkingnum (1991). Hún fjallar um írskan mann sem kemur til Íslands til að hefna fyrir ódæði tveggja víkinga og fóstbræðra, sem leiknir eru eftirminnilega af Helga Skúlasyni og Flosa Ólafssyni. Sögulegt gildi myndarinnar er lítið en það er heldur ekki takmarkið. Hún á í raun mun meira skylt við spagettí vestra Sergio Leone og samúræja myndir Akira Kurosawa frá sjötta og sjöunda áratug seinustu aldar. Myndin skartar magnþrungnum senum þar sem persónur horfast lengi í augu undir vel viðeigandi tónlist. Hrafninn flýgur er hreinlega einstök í íslenskri kvikmyndasögu.