Varði mánuðum með sjálfsmorðssprengjumönnum
Í nýjustu mynd sinni fylgist Pål Refsdal, norskur kvikmyndagerðarmaður, með ungum mönnum sem bíða þess að fórna lífi sínu í sjálfsmorðssprengjuárásum Al-Kaída í Sýrlandi. Kjarninn spjallaði við Refsdal um myndina Dugma - The Button.
Pål Refsdal er norskur kvikmyndagerðarmaður sem á nokkuð magnaða sögu, og hefur meðal annars upplifað að vera rænt af talibönum í Afganistan þegar hann vann að heimildarmynd um þá.
Þegar Osama bin-Laden var drepinn fannst nafn Refsdal í fórum hans, þar sem einhver Al-Kaída maður hafði sent bin-Laden bréf þar sem mælt var með Refsdal, þessum norska blaðamanni sem hafði gert heimildarmynd um talibana. Meðmælin notaði hann til að komast inn undir hjá Jabhat al-Nusra, sýrlenska armi Al-Kaída á þeim tíma.
Hann varði mánuðum með lágt settum bardagamönnum þeirra í stríðinu í Sýrlandi og afraksturinn er myndin Dugma - the Button, sem sýnd var á norrænu kvikmyndahátíðinni sem er nýlokið í Norræna húsinu.
Í myndinni er fylgst með fjórum mönnum sem bíða þess að sprengja sig í loft upp. Hvers vegna ákvað hann að gera slíka mynd? „Síðustu sextán ár hafa uppreisnarhóparnir verið óvinir okkar og ég hef tekið eftir því á hverju ósanngjarnan hátt þeir eru málaðir upp í fjölmiðlum. Myndin er kannski um Al-Kaída menn í Sýrlandi, en fyrir mig er þetta meira spurning um ímynd okkar af óvininum.“
„Ég reyndi að gera myndina eins og ég hefði gert hana um okkar herlið. Sýna hversdagslífið, ekki ritskoða eða neitt slíkt og leyfa þeim bara að tala fyrir sig,“ segir Refsdal, en hann starfaði líka eitt sinn fyrir norska herinn. Hann segir að hann hafi ekki haft áhuga á sprengingunum og æsingnum, heldur bara hversdeginum.
En hvernig komst hann í samband við hryðjuverkasamtökin?
„Þú getur ekki bara sent þeim tölvupóst eða Whatsapp-skilaboð. Ég þurfti að fara til Sýrlands og byrjaði á því að verja tíma með öðrum uppreisnarhópum til að reyna að ná til Jabhat al-Nusra.“ Jabhat al-Nusra var þá sýrlenskur armur Al-Kaída. „Það tók mig um fjóran og hálfan mánuð í þeim hluta Sýrlands sem uppreisnarmenn stjórnuðu að fá leyfi til að vinna með þeim. Þeir sögðu við mig að ég ætti að skrifa umsókn, með ferilskrá og meðmælum, bara eins og starfsumsókn, og eftir nokkrar vikur sögðu þeir að ég gæti komið.“ Og það var þarna sem meðmælabréfið til Osama bin-Laden kom að góðum notum.
„Ég fór í tvær ferðir, 2014 og 2015. Ég var ekki með neitt plan um það hvernig mynd ég vildi gera. Ég vissi að ég vildi fylgjast með lágt settum bardagamönnum, hafði ekki áhuga á hærra settum, og ég vissi að mig langaði að fylgjast með þeim eins lengi og mögulegt var.“
Ein aðalpersónan í myndinni er sádi-arabískur maður að nafni Abu Qaswara, en hann átti alls ekki að vera í aðalhlutverki fyrst. „Þegar ég hitti hann fyrst átti hann að sprengja sig í loft upp nokkrum dögum seinna svo ég hugsaði að hann yrði ekki í myndinni. En svo kom ég aftur seinna og hann var ennþá á lífi.“
Önnur aðalpersóna er breskur maður sem heitir nú Al Basir al Britani. Hann hét áður Lucas Kinney og hefur verið mikið fjallað um hann í fjölmiðlum í Bretlandi eftir að upp komst að hann hefði gengið til liðs við Al-Kaída. Refsdal fannst hann ekki sérstaklega áhugaverður heldur fyrst þegar þeir hittust, en í myndinni kemur fram hvað það var sem breytti þeirri skoðun.
Al-Kaída sögðu við mig að ég ætti að skrifa umsókn, með ferilskrá og meðmælum.
Refsdal hefur heyrt gagnrýnina um að með því að gera mynd sem sýnir hryðjuverkamenn í jákvæðu ljósi sé hann að ýta undir hegðun af þessu tagi. Því er hann ekki sammála og hefur sagt að myndin hans muni ekki ýta við neinum sem langi að fremja voðaverk af þessu tagi. En hann gerir mikinn greinarmun á mönnunum sem hann dvaldi með í Sýrlandi og öðrum hópum, til að mynda Íslamska ríkinu svokallaða. „Al-Kaída og Íslamska ríkið eru í stríði. Ég hefði ekki gert mynd með Íslamska ríkinu,“ segir hann.
Mennirnir sem hann dvaldi með fremja bara sjálfsmorðssprengjuárásir gagnvart öðrum stríðandi fylkingum, og þá sýrlenska stjórnarhernum helst. Hann segir að vissulega hafi óbreyttir borgarar látist, en það sé ekki ætlunin. Innan við 400 óbreyttir borgarar hafi látist í árásum þeirra, á meðan stjórnarherinn hafi drepið hundruði þúsunda. „Þeir eru að gera það sem uppreisnarhópar gera. Þeir eru að berjast við stjórnarherinn, í stríði.“
Refsdal segir þetta allt annað en það sem Íslamska ríkið geri, það er að herja sérstaklega á óbreytta borgara. Hann skilur Al-Kaída mennina, en samþykkir samt ekki það sem þeir eru að gera, og ekki heldur trúarlegu réttlætinguna á bak við hana. Sjálfur gerðist hann múslimi þegar honum var haldið af talibönum í Afganistan. „Sjálfsmorð eru bönnuð innan íslam, þótt þeir réttlæti það með versi úr Kóraninum.“