erla 3

Það sem ekki brýtur þig gerir þig sterkari

Erla Hlynsdóttir hefur þrívegis unnið mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Hún upplifði málaferlin sem tilraun fólks til að sýna að það gæti stjórnað umræðunni, lenti á vanskilaskrá án þess að vita af því og segir dóma íslenskra dómstóla sýna algjöran skort á þekkingu á starfi blaðamanna. Erla upplifði aldrei að hafa gert neitt rangt heldur hafi hún einungis verið að sinna starfi sínu. Enda komast kurteisar konur ekki í sögubækurnar.

Tjáningarfrelsi og frjálsir fjölmiðlar eru meðal hornsteina lýðræðisríkja. Íslenskir dómstólar virtust á tímabili ekki átta sig almennilega á því um hvað tjáningarfrelsi og blaðamennska snerust. Ítrekað voru blaðamenn dæmdir fyrir meiðyrði jafnvel þótt ummælin væru orðrétt höfð eftir viðmælendum. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að íslenskir dómstólar hafi brotið 10. grein mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna í dómum sínum yfir blaðamönnum. Erla Hlynsdóttir blaðamaður er einn fárra einstaklinga sem unnið hefur þrjú mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og er eini Íslendingurinn sem lagt hefur íslenska ríkið þrisvar sinnum.

Gaman að koma breytingum af stað 

,,Það er bara ótrúlega gaman að breyta íslenska dómskerfinu,“ segir Erla sem vill að það komi skýrt fram að hún eigi ekki ein heiðurinn af því. Gunnar Ingi Jóhannsson hrl. og Lögmenn Höfðabakka unnu mál hennar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Birtingur, útgefandi DV, studdi Erlu og Blaðamannafélag Íslands gerði það í fyrsta málinu sem fór fyrir dómstólinn. Það mál var rekið samhliða máli Bjarkar Eiðsdóttur fyrir mannréttindadómstólnum

Erla Hlynsdóttir segir það hafa verið ,,tískubylgja á þessum tíma að kæra. Ótrúlega algengt að fara í mál við blaðamann frekar en ritstjóra, fólk hefur kannski hugsað með sér að það sé auðveldara að hræða blaðamann frekar en útgáfuna, fara þá í rauninni frekar í ungan blaðamann”. Hún upplifði kærurnar sem tilraunir til þess að þagga niður í blaðamönnum. ,,Fólk hefur kannski talið að það væri árangursríkara að að þagga niður í blaðamönnum með því að fara í dómsmál, en það virkaði aldeilis ekki.“

Beint í djúpu laugina

Erla útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 2007 með BA í félagsfræði og fjölmiðlafræði sem aukagrein. Hún hóf fljótlega eftir útskrift störf á DV þar sem henni var hent beint í djúpu laugina. Tvær greinar sem Erla skrifaði á fyrstu þremur mánuðum í starfi urðu þess valdandi að tæpu ári seinna fékk hún á sig kærur vegna meintra meiðyrða. Annars vegar í svo kölluðu Kókaínmáli og hins vegar í Byrgismálinu. Tveimur árum seinna var Erla kærð fyrir meiðyrði í máli kennt við skemmtistaðinn Strawberry

Fyrsta mál Erlu þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi íslenska ríkið fyrir brot á tjáningarfrelsi var Strawberry máliðByrgismálið vann Erla hjá Mannréttindadómstólnum árið 2014 og Kókaínmálið árið 2015.

Breiðhyltingurinn sem lagði íslenska ríkið 

Hver er þessi kona sem í þrígang hefur lagt íslenska ríkið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu? Erla er fædd í Reykjavík 1978, hún ólst upp í Hólunum í Breiðholti hjá móður sinni Sigrúnu Ólafsdóttur. Erla á tvo bræður sem eru nokkuð eldri en hún. Erla bjó til níu ára aldurs í Breiðholtinu og á góðar minningar þaðan. ,,Alltaf úti að leika og svo kallaði mamma mann inn í mat, mér finnst þetta alveg yndislegt að hugsa til þess hvernig þetta var.“ Erla bætir við að hún komi ekki oft í Breiðholtið en sér finnist alltaf notalegt að koma þangað ,,fæ alltaf svona góða tilfinningu.“

Móðir Erlu starfaði við ýmis störf, lengst starfaði hún við veitingasölu í Norræna húsinu. Á sumrin rak hún hótel á Laugarhóli í Bjarnarfirði og þangað fór Erla með henni. ,,Mamma var mjög sjálfstæð, ákveðin, svakalega dugleg og góð fyrirmynd.“ 

Þegar Erla var níu ára ákvað mamma hennar að söðla um og keypti hótel Snæfell á Seyðisfirði. Þangað fluttu þær mæðgurnar en bræðurnir urðu eftir í Reykjavík. ,,Þetta var erfitt. Ég var sterk námslega, ég var ekki sterk félagslega, þannig að það var alveg erfitt að flytja. Um tíu ára aldurinn kom upp sú hugmynd innan skólans að færa mig upp um bekk vegna þess hversu vel mér gekk námslega en á endanum var fallið frá þeirri hugmynd vegna þess hversu veik ég var félagslega. Útkoman var sú að mér leiddist alltaf afskaplega mikið í skóla þar sem ég upplifði engar námslegar áskoranir. Svo fluttum við aftur til Reykjavíkur þegar ég var 13 ára. Þannig að þetta voru miklar umbreytingar. Eftir á að hyggja var ég alveg ótrúlega þakklát fyrir að hafa eytt þessum árum í litlu þorpi úti á landi. Labbaði bæinn á enda og upp í fjall.“ 

Tveir pólar

Flutningar og breytingar mótuðu Erlu. ,,Ég var rosalega feimin, ég var alveg týpan þegar við vorum að lesa upp í skólanum þá roðnaði ég og stamaði. En seinna tók ég mig á, svona seinna á unglingsárunum því ég vildi ekki vera þessi óframfærna manneskja og tók sjálfa mig bara í gegn enda væri ég ekki það sem ég er í dag ef ég hefði ekki gert það.“ 

Á unglingsárunum var Erla í mikilli leit. ,,Fór að vesenast niðri í bæ með vinkonum mínum, við vorum stundum kallaðar pönkarar af skólafélögunum. Ég hugsa að ástæða rótleysis míns þegar kemur á unglingsárin hafi verið hversu feimin ég var og átti erfitt með að fóta mig félagslega.“ 

Hinn pólinn eins og Erla orðar það voru stundir sem hún átti með vinkonu sinni sem var Votta Jehovi. Erla bað vinkonu sína um að lesa með sér Biblíuna þar sem hún þekkti hana. Erla leit á Biblíuna sem bókmenntalestur frekar en trúarbrögð og tók eftir því að það hallaði mikið á konur. ,,Stundum var ég að vesenast niðri í bæ eða með vinkonu minni að lesa Biblíuna, lesa tískublöð og baka.“

Rosalega feimin

Þegar Erla var 13 ára fluttu mæðgurnar aftur til Reykjavíkur. Þar hélt Erla áfram í sjálfsleitinni. ,,Ég var rosalega feimin og átti erfitt með að eignast vini, fór í MH og hélt mér við sömu vinina. En þá fór ég að ögra sjálfri mér og langaði að hætta að vera feimin og hætta að vera óframfærin. Fór ítrekað að gera hluti sem ég þorði ekki að gera. Halda stuttar ræður og koma fram.“ Erlu kveið fyrir í hvert einasta skipti og oft klúðraðist eitthvað en svo fóru hlutirnir að ganga aðeins betur. 

Erla hélt alltaf áfram að finna verkefni sem ögruðu henni. ,,Þetta var alveg nokkurra ára ferli þar sem ég var að vinna í sjálfri mér og verða betri útgáfa af mér.“ Það var löngunin til að breytast sem keyrði Erlu áfram ,,ég gerði mig oft að fífli og allt.“ Vinnan skilaði sér og í dag er Erla með gott sjálfstraust.

Fannst gaman að skrifa ritgerðir og skipti um fag

Nýmálabraut MH varð fyrir valinu þegar að framhaldsskóli var valinn. Auk dönsku og ensku lærði Erla frönsku og þýsku. Áhugann á þýsku átti hún ekki langt að sækja. Faðir hennar Hlynur Þór Magnússon, fyrrverandi blaðamaður, kenndi þýsku. ,,Þegar ég heimsótti pabba, hann sem sagt býr úti á landi, þá var hann að kenna mér þýsku í aukatímum.“

Erla ásamt Lovísu, dóttur sinni.

Erla skráði sig í sálfræði í HÍ án þess að vita nokkuð hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. Fannst það mjög gaman en það átti eftir að breytast þegar vinkonur hennar sem voru í félagsfræði báðu hana um að lesa yfir ritgerðir. ,,Mér fannst svo svakalega gaman að skrifa ritgerðir.“ Í sálfræði er meira um skýrsluskrif. Erla skipti því yfir til í félagsfræði til þessa fá að skrifa ritgerðir í skólanum. ,,Algjör draumur að geta skrifað svona mikið af ritgerðum.“

Allt leit út fyrir að Erla myndi útskrifast með félagsfræði sem aðalfag og sálfræði sem aukafag. Með skóla vann Erla fyrst á Kleppi og síðar á BUGL. ,,Það var samstarfsmaður minn á Bugl sem þekkti pabba sem í rauninni kom fyrst inn þeirri hugmynd hjá mér að ég ætti að verða blaðamaður.“ Þrátt fyrir að starfið á BUGL væri,,ótrúlega gefandi” voru launin léleg. Erla fékk betri laun sem byrjandi í blaðamennsku en eftir sjö ára vinnu á geðdeildum. Hún ákvað því að taka fjölmiðlafræði sem aukafag. 

Sendi Reyni Traustasyni sms

Erla byrjaði að sækja um á fjölmiðlum áður en námi lauk. ,,Ég var búin að senda umsókn á alla fjölmiðla landsins nánast og fékk aldrei svar frá neinum. Las síðan í einhverju svona Sandkorni í einhverju dagblaði að Reynir Traustason væri að fara af stað með nýtt blað. Það stóð ekkert meira um það. Ég þekkti Reyni ekki neitt, sendi honum sms og sagði honum hvað ég héti, hvað ég væri að læra og langaði að vera blaðamaður og svona.“ 

,,Þremur mánuðum seinna svarar hann sms-inu. Þá er hann farinn af stað með tímaritið Ísafold og það er þar sem ég skrifa mína fyrstu blaðagrein sem „freelance“ blaðamaður og er þá enn í skóla.“ Með þessu tókst Erlu að skrifa nokkrar greinar til þess að sýna hvað hún gæti, þegar hún sótti um vinnu eftir að námi lauk. Sumarið 2007 var Erla ráðin til DV undir stjórn Sigurjóns Magnúsar Egilssonar og fær fastráðningu þá um haustið. Hún vinnur á DV þar til hún fer í fæðingarorlof í árslok 2009. 

Að loknu fæðingarorlofi fór Erla að vinna hjá 365 miðlum, þar til hún fór yfir á Fréttatímann árið 2013. Þar undi Erla sér vel og skrifaði eitt árið yfir 30 forsíðuviðtöl. Rétt fyrir eigendaskipti á Fréttatímanum árið 2015 fékk Erla óvænta uppsögn. 

Síðan þá hefur hún mestmegnis verið sjálfstætt starfandi, en var um tíma ritstjóri bæjarblaðanna Hafnarfjörður&Garðabær og Kópavogur sem Vefpressan gaf út. ,,Mikið starfsóöryggi er í þessum bransa og flestum blaðamönnum sem hafa verið starfandi í einhvern tíma hefur verið sagt upp einu sinni eða oftar. Maður lendir því gjarnan í því að kveðja samstarfsfélaga sem er sagt upp og vinna síðan aftur með þeim á öðrum miðli nokkrum árum seinna.“ Erla ætlar að sjá hvert sjálfstæður rekstur leiðir hana. ,,Voðalegt hark, rosalegt frelsi að vera sjálfstætt starfandi.“ 

Ofboðslega heppin með barn 

Erla er einstæð móðir með dóttur sína Lovísu. ,,Ég reyni að ala hana upp sem mjög sjálfstæða stelpu. Ég held að það tengist því líka að alast upp hjá einstæðu foreldri að verða sjálfstæð, það er bara ekki jafn mikill tími til þess að gera allt fyrir þau. Í þessari stöðu fer maður held ég ósjálfrátt að forgangsraða betur og hugsa um hvað það er sem skiptir mestu máli í uppeldinu.“ Erla telur sig vera ,,ofboðslega heppin með barn, hún er mjög dugleg sjálfstæð og klár.“ 

Það voru viðburðaríkir dagar þegar einkadóttirin Lovísa hóf nám í 5 ára bekk Ísaksskóla. 

,,Ég var í ástarsorg, var hágrátandi daginn áður og um morguninn, mætti meira að segja of seint í vinnuna daginn sem mér var sagt upp því ég var að reyna að ná að hætta að gráta áður en ég mætti. En ég reyndi auðvitað að líta á björtu hliðarnar og eftir að ég fékk uppsagnarbréfið þá nánast gleymdi ég ástarsorginni. Og síðan gaf það mér mikið að fylgjast með fyrstu skóladögum dóttur minnar. En þessir tveir dagar eiga alltaf eftir að lifa í minningunni. Kosturinn við að vera „freelance“ er að ég get mætt á alla viðburði í skólanum.“ Ísaksskóli kemur vel út úr skólakönnunum og í skólanum er lögð mikil áhersla á lestur og söng. ,,Einu sinni í viku er söngur í sal sem ég mæti alltaf á. Í fyrra táraðist ég að heyra stelpuna mína syngja Heyr himnasmiður,“ segir stolt mamman.

Öll erfið eða óvænt reynsla nýtist

Erla segist hafa tekist á við atvinnumissinn með hörkunni. ,,Ég í rauninni lít þannig á að öll erfið eða óvænt reynsla nýtist manni í gagnabankann í reynslubankann. Byrjaði að hugsa svona sem unglingur. Í öllum erfiðleikum getur maður fundið eitthvað til að styrkja sig. 

Það sem ekki brýtur mig það gerir mig sterka, það hugsa ég ef mér finnst einhverjir erfiðleikar vera óyfirstíganlegir.“

Erla telur að sjálfsvinnan sem hún hóf á unglingsárunum hafa gert hana sjálfstæða og það að hún hafi að hluta til alist upp sem einbirni. ,,Ég elst upp í kvenlægu umhverfi, ég man alveg eftir því að hafa ung farið að velta fyrir mér kynjamisrétti, veit ekki hvort það tengist aðstæðum en fannst víða hallað á konur.“

Það þarf sterk bein til þess að standa af sér kærur og dómsmál. Erla gerir lítið úr áhrifum dómsmálanna á hana. „Það  halda kannski  margir að þetta hafi haft meiri áhrif mig en það gerði, málið er mér fannst þetta bara svo ósanngjarnt. Í rauninni fannst  mér það svo fáránlegt, það er ekki eins og ég hafi gert eitthvað af mér og það hafi komist upp um mig og ég hafi verið dæmt eða eitthvað slík. Ég upplifið aldrei að ég hefði gert neitt rangt, mér fannst þetta fyrst og fremst þetta vera ósanngjarnir dómar, alltaf.“

Súrrealískt að vera kasólétt í dómsal

Erla á sér lífsmottó sem eignað er Lauren Thatcher Pulizer verðlaunahafa. Það er: ,,Well behaved women seldome make history”. Erla hefur snarað þessu yfir á íslensku: ,,Kurteisar konur komast ekki í sögubækurnar“. Það eru líklega meira en tíu ár síðan ég rakst á þessa tilvitnun og fannst hún ógurlega töff, vera hvatning fyrir konur til að fara út fyrir boxið sem samfélagið setur þær í. Ég reiknaði auðvitað aldrei með því að komast í neinar sögubækur“. Erla Hlynsdóttir komst í sögubækurnar sem ein af örfáum sem unnið hefur þrívegis mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. 

„Það halda kannski margir að þetta hafi haft meiri áhrif mig en það gerði, málið er mér fannst þetta bara svo ósanngjarnt. Í rauninni fannst mér það svo fáránlegt, það er ekki eins og ég hafi gert eitthvað af mér og það hafi komist upp um mig og ég hafi verið dæmt eða eitthvað slík. Ég upplifið aldrei að ég hefði gert neitt rangt, mér fannst þetta fyrst og fremst þetta vera ósanngjarnir dómar, alltaf,“ segir Erla sem hefur þrívegis sigrað fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
EPA

Erla var allan tíman viss í sinni sök og segir málaferlin ekki hafa tekið af sér neinn toll, hún hafi þó haft smá fjárhagsáhyggjur. ,,Ég bara vissi það ég hafði vandað vel til verka og unnið vel sem blaðamaður. Fannst þetta algjörlega fáránlegt allir þessir dómar og eitt af því súrrelalískasta sem ég hef upplifað er að vera kasólétt í dómssal.“

Hverja telur Erla vera ástæðu þess að íslenskir dómstólar dæmdu eins og þeir gerðu í hennar málum? ,,Held að það hljóti bara að stafa af einhverri vanþekkingu, það hefur skinið í gegn í dómum gegn blaðamönnum að það virtist algjörlega skorta þekkingu á starfi blaðamanna og starfsumhverfi og í raun hlutverki blaðamanna fyrst og fremst.“

Hverju breyttu dómarnir að mati Erlu? ,,Að blaðamenn geta betur sinnt sinni skyldu og fjallað um það sem þarf að fjalla um hvort sem þau mál eru óþægileg fyrir einhver eða ekki.“

,,Þetta er svo miklu stærra en ég”  

Erla Hlynsdóttir telur að dómar Mannréttindadómstóls Evrópu sé sigur tjáningarfrelsisins. Hún þakkar Gunnari Inga Jóhannssyni hrl. og starfsmönnum Lögmanna Höfðabakka sigurinn og gerir ekki mikið úr sínum hlut. ,,Ég lít ekki á þetta sem dómana mína, þetta er svo miklu stærra en ég.“

Það vekur athygli að Erla hefur aldrei verið kærð til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. En hefur Erla einhverja skýringu á því? ,,Ég upplifi það þannig að fólk er að gera tilraun til að sýna eitthvað vald að það geti stjórnað umræðunni. Í rauninni til þess að hafa áhrif á fjölmiðla og koma í veg fyrir að fjallað sé um þá á einhvern hátt sem þeim líkar ekki.“  

Erlu voru dæmdar bætur en þær fóru allar í að endurgreiða málskostnað og lítið sat eftir. Hún fékk þó að finna fyrir afleiðingum málaferlanna tímabundið. ,,Ég hef alltaf staðið í skilum með allt. Ári seinna er ég að fara til útlanda með rosalitlum fyrirvara og ætla að hækka yfirdráttinn, ég fæ bara synjun á að hækka yfirdráttinn, var búin að vera á vanskilaskrá án þess að vita af því, ótrúlega ósanngjarnt.“

Ágætt að upplifa það að vera fréttaefni 

Dómar Erlu vöktu að vonum athygli og mikið var um þá fjallað. Sérstaklega þriðja og síðasta dóminn. Erla upplifði það að vera hinum megin við borðið. ,,Það var ágætt fyrir mig sem blaðamann að upplifa það að vera fréttaefni, dagurinn fór bara í þetta, gat ekki sinnt vinnunni minni þá daga sem dómarnir féllu.“

Það eru fleiri en Erla sem telja sig órétti beittir af dómstólum og nokkrir hafa leitað til hennar. 

,,Sumir kannast við mig eftir þetta, fólk sem ég þekki ekkert eða lítið hefur samband og lýsir því yfir hvað þetta sé frábært og skiptir miklu máli.“ Þegar Erla er spurð hvernig fara eigi með mál fyrir Mannréttindadómstól svarar hún á þennan veg: ,,Þetta kostar rosalega mikinn pening, tekur rosalega mikinn tíma og litlar líkur á að vinna.“ 

Tvisvar fengið líflátshótanir

,,Ég hugsa að flestir blaðamenn hafi fengið, ja ekki endilega líflátshótanir kannski, en einhverskonar hótanir. Eins fáránlegt og það er að segja það þá er þetta hluti af starfinu og það má bara ekki hætta við einhverja umfjöllun út af hótunum.“

,,Ég hef tvisvar fengið líflátshótanir. Ég hafði ekki samband við lögreglu af því að það er svo algengt að blaðamenn fái svona hótanir. Ég man alveg eftir mínum kollegum sem höfðu fengið líflátshótanir og voru jafnvel með upptökur af þeim og höfðu samband við lögreglu. Lögreglan sagði einfaldlega bara: hafðu samband ef hann hringir aftur eða hann segist aftur ætla að drepa þig. Mér fannst bara algjört tilgangsleysi að hafa samband við lögregluna, þannig að ég gerði það ekki.“ 

Erla segist hafa talað við fréttastjórann sinn í annað skiptið sem henni var hótað. ,,Maðurinn sem ég er hérna að skrifa um í þessu máli ætlaði að drepa mig ef ég myndi birta þessa frétt. Það snérist allt um það að stjórna umfjölluninni. Manni er auðvitað brugðið.“ Fyrri hótunina túlkaði Erla meira sem reiðiviðbrögð og hafði kannski ekki trú á því að hann myndi í alvörunni drepa sig. „Í seinna skiptið var það mjög umsvifamikill glæpamaður sem að hótaði þessu og rauninni sagði hann þetta ekki við mig.“ Viðkomandi hafði samband við fréttastjóra Erlu eftir að hafa öskrað á hana í síma og skellt svo á. ,,Hann sagði ef fréttin sem ég var að vinna yrði birt þá myndi hann láta hálshöggva mig, ég skal alveg viðurkenna að ég var smeyk eftir það, eins og ég segi þetta var alræmdur glæpamaður. Þegar ég var að koma heim á kvöldin þá horfði ég alveg í kringum mig. Innst inni vildi ég ekki trúa því að hann ætlaði í alvöru að drepa mig.“

Maður getur verið alveg óþolandi  

Þegar Erla er spurð hvað prýði góðan blaðamann, stendur ekki á svarinu. ,,Heiðarleiki, í raun heiðarleiki fyrst og fremst og ég held að það sé ekkert sem að toppi það. Ekki láta eigin fordóma trufla sig við að vinna fréttir og viðtöl.“ Að vera trúr sannfæringu sinni telur Erla vera kost en segist þó vera hlynnt því að brjóta reglurnar ef tilgangurinn helgar meðalið.

,,Það sem mér finnst skemmtilegast við starfið er að hitta fólk, hitta allskonar fólk, með allskonar bakgrunn í allskonar aðstæðum með allskonar sögur, miklu skemmtilegra að hitta fólk en tala við það í síma. Alltaf skemmtilegast bara þegar ég næ að hitta fólk í staðinn fyrir að hringja.“

Það er ekki fyrir alla að vera blaðamenn segir Erla. ,,Blaðamennskan er einskonar lífsstíll, ég held að flestir séu sammála um það. Maður er að fylgjast með öllu og er alltaf vakandi fyrir umfjöllunarefnum. Maður getur verið alveg óþolandi.“ Erla leggur áherslu á að verja heimildarmenn og fjalla ekki um mál sem tengjast blaðamanni.

Erla, blaðamanna-Erla og mömmu-Erla

Spurð um áhugamál utan fréttamennsku, svarar Erla: ,,áhugamál mitt er fyrst og fremst fólk, hvernig fólk er, hvernig fólk á samskipti, í rauninni tengist þetta starfinu.“ Það þarf sterkan karakter og ákveðna fagmennsku til þess að geta skilið sig frá starfinu. Erla gerir það með þremur Erlum. ,,Þegar ég er í vinnunni þá er ég bara blaðamanna-Erla og svo bara Erla, svo er ég rosalega mikið mömmu-Erla,“ segir konan sem trúir því að erfiðleikar og mótlæti styrki fólk. 

Konan sem komst í sögubækurnar þegar hún lagði íslenska ríkið þrisvar sinnum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Erla var kölluð á fund Allsherjar- og menntamálanefndar síðast liðin þriðjudag til að fræða nefndarmenn um stöðu mála. Fundurinn var haldinn í kjölfar nýfallins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þar íslenska ríki braut enn á ný á tjáningarfrelsi blaðamanna í þetta sinn á Steingrími Sævari Ólafssyni.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk