Hver á að lýsa okkur nú?
Jón Kalman Stefánsson fjallar um stjórnmálin, veltir fyrir sér hversu vel okkur hefur tekist að skapa heiðarlegt samfélag og hvað framtíðin ber í skauti sér.
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er þjóðmenningu gert nokkuð hátt undir höfði. Og slík er áherslan, slíkur er áhuginn, slíkur er viljinn að standa við þau orð, að Sigmundur Davíð lét færa Þjóðminjasafnið frá menntamálaráðuneytinu og undir forsætisráðuneytið. Að baki þeirri ákvörðun virtist persónulegur áhugi Sigmundar á málaflokknum vega þyngst, því engin fagleg rök studdu hana. Kostnaðurinn vel á annað hundrað milljónir, og Þjóðminjasafnið hálfgert vandræðabarn innan forsætisráðuneytis þar sem, eðlilega, engin þekking var fyrir á málefni þess og innri starfsemi. Snemma á síðasta ári úthlutaði forsætisráðherra síðan rúmlega 200 milljónum til ýmissa verkefna sem tengdust minjavernd, án samráðs við viðkomandi fagaðila; sumum styrkjunum, sem hlupu á nokkrum milljónum, var úthlutað með smáskilaboðum úr síma ráðherrans. „Bæði þessi mál“, skrifaði Bergsveinn Þórsson, formaður íslenskra safna og safnamana, „vekja upp spurning um framtíð safna, starfsumhverfi þeirra og fagleg vinnubrögð.“
Vel stæð en veruleikafirrt þjóð?
Við erum fámenn en efnuð þjóð, búum að miklum auðlindum í hafi, jarðvarma, fallvatni, menningu, síðustu árin hefur straumur ferðamanna þyngst ákaflega og tekjunar af þeim orðnar verulegar. Allar ytri aðstæður til fyrirmyndar, og góður meirihluti landsmanna einhuga um að hér eigi að ríkja jöfnuður, að samfélagið dragi dám af norræna velferðakerfinu, með öflugu heilbrigðiskerfi þar sem allir hafi jafnan aðgang, og að hér skuli ríkja fagmennska í öllu.
Undanfarin misseri hafa verið með eindæmum góð fyrir sjávarútveginn, stóru fyrirtækin skila svimandi gróða, á sama tíma er heilbrigðiskerfið þó á öruggri niðurleið, aðstaðan á Landspítalanum ekki boðleg meðan einkareksturinn styrkist og hinir efnameiri fá mun betri þjónustu en aðrir. „Vel stæð þjóð með afgang á fjárlögum“ skrifar Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði, yfirlæknir læknadeild Háskóla Íslands og geðsviði Landspítalans, „á ekki að sætta sig við heilbrigðiskerfi sem sífellt berst í bökkum.“ Engilbert bendir á að heilbrigðiskerfið, þar með þjónustan, hafi skerst töluvert á undanförnum árum, og að við nálgumst hættumörkin.
Eldri kona sem ég þekki, nýhætt að vinna eftir að hafa unnið af trúfestu ýmis verkamanna- og umönnunarstörf í hálfa öld, þarf að fara í augnsteinaskipti. Heimilislæknirinn tjáði henni að það væri allt að tveggja ára bið eftir aðgerð, nema, bætti læknirinn við, þú eigir nokkur hundruð þúsund krónur á lausu: Þá kemstu að eftir örfáar vikur.
Þetta er samfélagið sem við búum við.
Íslenskt lýðveldi verður 73 ára þegar næsta ríkisstjórn tekur við völdum. Við höfum því haft rúma sjö áratugi til að byggja upp gott samfélag að norrænni fyrirmynd, þar sem jöfnuður og fagmennska ríkir.
Hið unga fólk sem nú stjórnar landinu, Sigmundur Davíð, Bjarni, Vigdís Hauksdóttir og fleiri, er óhrætt við að stíga fast til jarðar í yfirlýsingum, fljót að finna sökudólga. Vigdís finnur fjármuni til bjargar heilbrigðiskerfinu hjá öryrkjum og skattsvikurum, Sigmundur segir að íslenska þjóðin sé veruleikafirrt komi hún ekki auga á hversu vel ríkisstjórninni gangi að stjórna landinu. Þetta sama unga fólk hefur lækkað auðlegðarskatt og veiðigjöldin, afnumið raforkuskattinn og komið þannig til móts við fyrirtæki á borð við Rio Tinto: þessi þrjú forgangsmál þeirra kosta ríkissjóð um 15 milljarða á ári. Það má vinna kraftaverk í heilbrigðiskerfinu fyrir þá upphæð. Vigdís nefnir það aldrei, ekki heldur Sigmundur, hvað þá Bjarni.
Það er hættulegt að borða íslenskt kjöt
Íslenskt lýðveldi verður 73 ára þegar næsta ríkisstjórn tekur við völdum. Við höfum því haft rúma sjö áratugi til að byggja upp gott samfélag að norrænni fyrirmynd, þar sem jöfnuður og fagmennska ríkir.
En okkur hefur mistekist.
Spilling samfélagsins, frændhyglin, sláandi völd hagsmunaafla, vanmegnugir stjórnmálamenn, veikburða fjölmiðlar: allt þetta blasti átakanlega við okkur í kjölfar hrunsins. En þá virtist líka skýr vilji hjá þjóðinni til að bæta úr: fimm árum síðar kusum við hins vegar Framsóknarflokkinn, leiddan af þjóðernissinnuðum Sigmundi Davíð með stóryrt loforð um betri tíma, og Sjálfstæðisflokkinn, leiddan af Bjarna Benediktssyni, með sáralítinn vilja til breytinga.
Framsóknarmenn spiluðu mjög á þjóðræknina í kosningabaráttunni; þeir ætluðu til að mynda með kylfu og haglabyssu á fund erlendra aðila sem þeir uppnefndu „hrægamma“, en var ólíkur hópur fólks sem varð innlyksa með eignir á Íslandi. Undirliggjandi þau skilaboð að útlendingar væru vondir, þeir stæðu í vegi fyrir að allt yrði gott hér á ný. Andúð, ótti eða tortryggni gagnvart útlendingum kom víðar fram en í fjármálum, því minnst í tvígang fullyrti Sigmundur Davíð, og núverandi umhverfismálaráðherra tók undir, að það væri hættulegt fyrir Íslendinga að borða útlent kjöt.
Hversvegna er í lagi að æðsti valdamaður Íslands tali þannig? Afhverju reis þjóðfélagið ekki á fætur og mótmælti? Hversvegna kröfðust fjölmiðlar þess ekki að hann drægi orð sín til baka? Orð sem lýsa makalausri þröngsýni, andúð og ótta gagnvart umheimnum, en líka þeirri skoðun að Ísland sé á einhvern hátt æðra, Íslendingar fremri – stef sem fóstri hans, forseti Íslands, spilaði ósjaldan fyrir hrun. Hversvegna má æðsti maður landsins daðra við þjóðernisfasisma án þess að þurfa að gjalda fyrir?
Kannski vegna þess að við erum vön bullinu, og búumst ekki við að valdamenn landsins vinni að fagmennsku?
Gerum ráð fyrir að frændhyglin ráði ríkjum.
Eða hversvegna reis þjóðin ekki upp í reiði þegar Sigmundur og Bjarni létu það vera sitt alfyrsta verk að lækka skatta á auðmenn, sem þeir sjálfir tilheyra, og veiðgjöldin á útveginn, þrátt fyrir að við hefðum þeirra eigin orð fyrir að ríkissjóður stæði illa og nú þyrfti að skera niður?
Var það vegna þess að við gerðum hvort sem er ráð fyrir að þeir störfuðu fyrst fyrir auðstéttina og hagsmunaöflin, síðan þjóðina?
Vegna þess að við höfum gefið það upp á bátinn að íslenskt samfélag öðlist þá festu, fagmennsku og gegnsæi sem hefur í áratugi verið við lýði í þeim löndum sem við berum okkur saman við, og þessvegna flýr unga, menntaða fólkið landið, það hefur misst tiltrú á samfélagið?
Fyrr á öldum var hungrið, vosbúðin og íhaldssemin okkar skæðasti óvinur. Nú er það skortur á fagmennsku, þar með stöðugleika.
Íslenskt samfélag er hamstur
Það er eitthvað átakanlega táknrænt við það, að Þjóðminjasafnið, safn þjóðarinnar – þar sem fortíð okkar býr – hafi orðið fórnarlamb hins algera skorts á fagmennsku. Fært á milli ráðuneyta, með miklum tilkostnaði, eingöngu vegna persónulegs áhuga forsætisráðherrans. Ég veit af fólki sem hefur keypt sér kampavínsflösku til að opna þegar Sigmundur Davíð fer frá völdum. Ekki mun ég gráta þá brottför, en Sigmundur, með sín þjóðernissinnuðu, gamaldags viðhorf, sinn grímulausa populisma, og hinir ungu ráðherra hans sem haga sér eins og gamlir, frekir hreppstjórar, eru einfaldlega afurð þess samfélags sem við sjálf berum ábyrgð á. Fyrr á öldum var hungrið, vosbúðin og íhaldssemin okkar skæðasti óvinur. Nú er það skortur á fagmennsku, þar með stöðugleika. Íslensku lýðveldi var hróflað upp í flýti í júnímánuði 1944, meðan heimurinn brann, Danir varnarlausir undir hæl nasisma. Við slógum upp veislu meðan milljónir dóu. Og eftir þá veislu er eins og við höfum aldrei litið við, bara ætt áfram, með gamla, danska stjórnarskrá upp á vasann. Íslenskt samfélag eins og hamstur inni í hjóli, hamstur sem telur sig vera á mikilli ferð, en er alltaf á sama stað. Orkan sem hann framleiðir fer í drífa áfram eigin neyslu, og lýsa upp bankahvelfingar kvótaveldisins og annarra efnamanna.
Núverandi ríkisstjórn á eftir að sitja að völdum í eitt og hálft ár. Við vitum ekki hvaða flokkar mynda næstu stjórn, en það virðist ekki ólíklegt að vígreifir Píratar komist í oddastöðu með mikinn vilja til að umturna öllu. Gott og vel, kannski eigum við bara að gefa þeim tækifæri. En í hrifningu okkar á Pírötum kristallast höfuðvandinn í íslensku samfélagi þar sem hver ný ríkisstjórn breytir stóru og smáu eftir sínu höfði, þeim hagsmunaöflum sem standa á bak við hana, eða persónulegu áhugasviði hvers ráðherra fyrir sig. Hér vantar allan botn og þessvegna vitum við tæpast til hvaða dags við munum vakna á morgun. Vitum ekki hvort Landspítalinn verði sveltur, lífi efnaminni sjúklinga stefnt í hættu meðan einkageirinn bólgnar út, höfum ekkert um það að segja hvort þeir sem græða ævintýralega á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar greiði sanngjörn gjöld eða ekki, höfum ekki hugmynd um hvort við vöknum upp við nýja stjórnarskrá eða ekki, hvort Ríkisútvarpið verði lagt niður eða Sigmundur Davíð gerður að útvarpsstjóra.
En komist Píratar í oddastöðu í næstu ríkisstjórn, verður mörgum nýjum hugmyndum hrint í framkvæmd. Núverandi stjórnarflokkar, með hagsmunaöflin og gríðarlegt fjölmiðlaveldi á bak við sig, munu hamast gegn öllum breytingum, ala á ósætti, tortryggni, komast aftur til valda vorið 2021 – og taka til við að afturkalla ákvarðanir Pírata.
Á meðan hömumst við inni í hjólinu okkar, muldrandi ljóðlínur sænska skáldsins: „Segið, sérfræðingar í myrkri/hver á að lýsa okkur nú?“