Hvaða erindi á fjölgyðistrú frá bronsöld við Íslendinga?

Zúistar stálu senunni í trúmálum undir lok árs, þegarþúsundir manns skráðu sig í þetta áður óþekkta trúfélag. Tilgangur þess er að endurgreiða sóknargjöld og fullur aðskilnaður ríkis og allra trúfélaga.

Við hjá Zúistum höfum ítrekað verið spurð hvað það er sem við raunverulega viljum. Svarið er einfalt: Við viljum trúarlegt jafnrétti og raunverulegt trúfrelsi. Við viljum löggjöf án forréttinda handa trúfélögum umfram önnur félög. Við viljum að hið opinbera hafi engin bein afskipti af trúarlífi fólks og að trúlausir gjaldi ekki sérstaklega fyrir það að vera trúlausir.

Trúfélög á skrá hins opinbera eru einstök meðal félaga að því leyti að ríkið greiðir þeim árlega styrk með hverjum félagsmanni 16 ára og eldri. Á næsta ári verður þessi styrkur um 10.800 kr. á mann. Trúfélög þurfa því ekki að innheimta eigin félagsgjöld.

Í síðari hluta nóvember fórum við Zúistar af stað með kynningarherferð á Facebook til að vekja athygli á því að fólk getur breytt trúfélagaskráningu sinni og að það skiptir máli hvar það er skráð. Markmiðið er að gera fólk meðvitaðara um trúfélagakerfið sem hér er við lýði, óháð því hvort fólk kýs að ganga í félag Zúista. Í kjölfarið fékk félagið mikla umfjöllun í fjölmiðlum og þúsundir einstaklinga gengu í það. Árangur okkar stafaði meðal annars af því að við buðum upp á kost fyrir þá sem engan kost höfðu. Við lofuðum að bæta líf fólks í þessu lífi, sem er nokkuð sérstakt meðal trúfélaga, með því að ráðstafa sóknargjöldunum aftur til fólksins. Fjöldi þeirra sem skráðu sig gefur til kynna að málstaðurinn eigi sér góðan hljómgrunn meðal Íslendinga. Áhuginn á framtakinu fór fram úr okkar björtustu vonum. Fjallað hefur verið um Zúista og íslenska trúfélagakerfið í tugum fjölmiðla um allan heim. Einnig höfum við fengið fjölmargar fyrirspurnir frá einstaklingum á alþjóðavísu um hvernig þeir geti stutt við málstaðinn. Leitum við nú leiða til að verða við þeim óskum.

Núverandi löggjöf um trú- og lífskoðunarfélög er óréttlát. Hún mismunar trúlausum og hún mismunar trúfélögum öðrum en ríkistrúfélaginu. Hún felur í sér þá afstöðu ríkisins að göfugra sé að vera trúuð manneskja en trúlaus. Ef þú ert í trúfélagi þá borgar ríkið með þér, jafnvel þótt þú borgir ekkert til ríkisins. Kjósir þú hins vegar að standa utan trúfélaga þá greiðir þú hlutfallslega meira fyrir grunnþjónustu, því enginn kemst hjá þátttöku í þessu kerfi. Þar að auki taka þeir tugþúsundir Íslendinga sem játa aðra trú, eða enga trú, þátt í að borga framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar. Óréttlæti af þessu tagi er afleiðing þess að eitt trúfélag er jafnara en önnur. Hvað ef allir Íslendingar væru skyldaðir til að borga koddagjald til Tannálfsins vegna þess að trúarleg stofnun um hann væri stjórnarskrárvarin? Íslendingar utan þjóðkirkjunnar eru settir í þær aðstæður.

Núverandi löggjöf um trú- og lífskoðunarfélög er óréttlát. Hún mismunar trúlausum og hún mismunar trúfélögum öðrum en ríkistrúfélaginu. Hún felur í sér þá afstöðu ríkisins að göfugra sé að vera trúuð manneskja en trúlaus.

Á vefsíðu Zúista, zuistar.is, er að finna ítarlega umfjöllum um áhersluatriði okkar en við látum þó fylgja með nokkur af okkar helstu baráttumálum:

  • Það er óréttlátt að trú- og lífsskoðunarfélög fái styrki frá ríkinu sem félögum af öðru tagi stendur ekki til boða. Af hverju getur fólk ekki ánafnað ríkisstyrk sínum til íþrótta- og æskulýðsfélaga með sama hætti? Eða björgunarsveita? Þá er óboðlegt að þeir skattgreiðendur sem kjósa að standa utan trúfélaga borgi þar af leiðandi hlutfallslega meira fyrir grunnþjónustu.
  • Það er óeðlilegt og jafnvel hættulegt að ríkið krefji fólk um að gefa upp trúarskoðanir sínar. Að mati Zúista er þetta álíka galið og ef ríkið ræki gagnagrunn um kynhneigð fólks eða stjórnmálaskoðanir. Trú er mjög persónuleg í eðli sínu og hver og einn ætti að fá að iðka sína trú án afskipta yfirvalda.
  • Á Íslandi býr fjölbreyttur hópur fólks af ólíkum trúarlegum- og menningarlegum uppruna. Hér eru fleiri en 40 skráð trú- og lífsskoðunarfélög, til að virða jafnræðisregluna og trúfrelsi getur ríkið ekki hyglt einu trúfélagi og þar með lagt þyngri byrði á trúlausa. Ef jafnrétti trúfélaga á að nást er óumflýjanlegt að breyta öllum lögum og stjórnarskrárákvæðum sem veita sumum félögum afslátt á Forréttindabarnum.

En hvernig haga Zúistar þá trúariðkun sinni? Sem dæmi má nefna sólstöðuhátíð Zúista, en hún fer fram með svipuðum hætti og sambærilegar hátíðir annarra Íslendinga. Við hefjum hátíðina í september með því að blóta IKEA í sand og ösku fyrir að leyfa okkur ekki að syrgja sumarið almennilega áður en skrúfað er frá jólaauglýsingakrananum. Í nóvember er svo fárast yfir jólalögum og alltof snemmbúnum skreytingum á Laugaveginum. Þegar nær dregur jólum mildumst við þó aðeins og í desember hellist hátíðarandinn yfir okkur þegar við tilbiðjum skurðgoð á borð við neyslusamfélagið, jólasveina (þessa rauðu sem drekka bara kókakóla), og konfekt. Á aðfangadag opnum við gjafir sem eru faldar undir sýnishorni úr barrskógabeltinu, rétt eins og Jesús gerði forðum. Við hlustum einnig mikið á ítölsk júróvisjónlög sem eru sungin á íslensku af BÓ. Fyrst og fremst njótum við þó kyrrðarinnar á milli kaupæðanna og reynum að vera með fjölskyldunni, eins og flestir gerðu áður en þeir skráðu sig í Zuism.

Að lokum má geta þess að enginn kostnaður fellur á félagsmenn fyrir utan umsýslukostnað við endurgreiðslu. Til að tryggja að stjórnin hafi engan aðgang að fjármunum félagsins mun löggiltur endurskoðandi einn fara með prókúru félagsins. Endurskoðandinn greiðir ríkisstyrki beint til félagsmanna og góðgerðarfélaga án milligöngu stjórnar félagsins. Í lögum Zúista er ákvæði um að félagið skuli lagt niður þegar markmiðum þess hefur verið náð. Þangað til munum við halda ótrauð áfram og vonandi vekja frekari athygli á þeirri tímaskekkju sem núverandi trúfélagakerfi er.

Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiÁrið 2015