Tæknispá ársins 2016
Hver verða aðalatriðin í tæknigeiranum árið 2016? Hjálmar Gíslason hefur tekið saman tæknispá sína og þar telur hann gervigreind og sýndarveruleika eiga mestan séns.
Ég hef stundum (2006, 2008, 2009, 2010, 2014, 2015) gert það að gamni mínu í upphafi árs að spá fyrir um hluti sem muni einkenna komandi ár í tæknigeiranum, þá sérstaklega frá íslensku sjónarhorni. Þetta hefur gengið upp og ofan og dæmi hver fyrir sig, en ég er að minnsta kosti ekki enn af baki dottinn. Hér koma nokkur atriði sem ég tel að muni einkenna komandi ár:
Gervigreind
Það eru vægast sagt ótrúlegir hlutir að gerast í heimi gervigreindar þessi misserin. Þetta á eftir að vera stóra sagan í tækniheiminum öllum á komandi árum og á eftir að hafa áhrif á allt! Ég ætla bara að nota stóru orðin: Þetta mun hafa að minnsta kosti jafn mikil - ef ekki meiri - áhrif á heiminn en tilkoma internetsins. Í stuttu máli er það sem hefur gerst að menn eru að ná svo góðum tökum á djúpum tauganetum (e. deep neural networks) að það jafnast á við getu mannsheilans þegar kemur að tilteknum, afmörkuðum verkefnum. Auðveldast er að hugsa þetta þannig að allt sem menn geta þjálfað sig til að gera „án umhugsunar“ (hugsun sem á sér stað í „System 1“ fyrir þá sem hafa lesið Thinking Fast and Slow eftir Kahneman) verður hægt að þjálfa tölvur til að gera - og í mörgum tilfellum betur en menn. Allt frá því að keyra bíla (sem raunar er svo gott sem leyst vandamál nú þegar), til þess að þekkja fólk á myndum, til þess að „diktera“ talað mál jafn vel og mennskur ritari, til þess að greina sjúkdómseinkenni útfrá röntgenmynd. Allt! Þetta mun hafa gríðarleg áhrif og gerbreyta mörgu í okkar nánasta umhverfi á næstu 10 árum. Heilt yfir er þetta þróun sem er til hins góða, en það munu verða heilmikil samfélagsleg áhrif af því líka þegar fjöldinn allur af ósérhæfðum störfum verður betur leystur með tölvu en með fólki. Ég ætla ekki að halda því fram að áhrifin á nýhöfnu ári verði mjög áberandi. Þó munum við mörg hafa rekið okkur á eitthvað sem nýtir þessa tækni áður en árið er úti. Hins vegar verður þetta allra heitasta sviðið í nýsköpunarheiminum, og við munum sjá fjöldan allan af fyrirtækjum spretta upp sem nýta þessa nýju tækni, sem öfugt við margar fyrri tæknibylgjur byggir nær algerlega á opnum hugbúnaði. Kapphlaupið núna snýst að mörgu leyti ekki um tæknina sjálfa, heldur um bestu gögnin til að þjálfa þessa tækni til margvíslegra verka og þar er enn og verður talsvert um gögn í einkaeigu sem munu gera þeim fyrstu og bestu kleift að eigna sér tiltekin svið í þessum geira. Mér vitanlega eru mjög fáir að veita þessu sviði athygli á Íslandi enn sem komið er, og er það mjög miður.
Sjónvarp framtíðarinnar - loksins
Fyrir bráðum 10 árum skrifaði ég pistil sem nefndist „Afþreying framtíðarinnar“. Þar lagði ég útfrá þáttunum Rockstar Supernova þar sem „Magni okkar“ dró þjóðina með sér í eitt af sínum alræmdu æðum. Undirliggjandi var þetta: Í framtíðinni mun línuleg dagskrá leggjast af og fólk horfa á það efni sem það vill, þegar það vill, með þeirri undantekningu að beinar útsendingar, hvort heldur frá íþróttaviðburðum, skemmtidagskrá eða fréttaviðburðum, sem og frumsýningar á vinsælu efni munu enn sameina áhorfendur og þá jafnvel í auknum mæli á heimsvísu en ekki bara innan landa. Þetta er auðvitað orðið að veruleika að allnokkru leyti, en stækkað útbreiðslusvæði Netflix er stórt skref í þessa átt. Bandaríski efnisrisinn HBO (sem framleiðir margar af vinsælustu þáttaröðum veraldar, allt frá Game of Thrones til Simpsons) steig líka skref í þessa átt á liðnu ári hér í Bandaríkjunum og fór að selja áskriftir yfir netið óháð kapal- og útsendingarmiðlum. Ef þeir feta í fótspor Netflix og hefja dreifingu á heimsvísu, þá fyrst má Jón Gnarr fara að hafa áhyggjur af því að áskrifendur leiti til alþjóðlegra veitna, frekar en íslenskra dreifingaraðila.
Íslenska VR-ið
Einn af spádómum síðasta árs var að við myndum heyra mikið frá íslenskum fyrirtækjum sem væru að fást við sýndarveruleika, og nefndi þar meðal annars Valkyrieleikinn frá CCP, Sólfar, Aldin og Mure. Það má segja að þetta hafi gengið eftir. CCP tók nokkuð afgerandi kúrs í þessa átt og fékk samhliða stærstu fjárfestingu sem íslenskt sprotafyrirtæki í tölvugeiranum hefur fengið, eða um 30 milljónir dollara frá hinum virta sjóði NEA. Skömmu síðar sást til Mark Zuckerberg prófa og mæra Gunjack leikinn þeirra og hafa margir haft stór orð um þá upplifun sem þessir nýju leikir CCP eru. Sólfar fékk jafnframt góða fjármögnun og hefur vakið athygli, einkum fyrir sýndarveruleikaupplifun af Everest*. Aldin og Mure hafa jafnframt verið að gera góða hluti og við munum heyra meira frá þeim báðum á árinu. Hér er því að verða vísir að þekkingarklasa á nýju og allspennandi sviði og vonandi að háskólarnir sem og stærri fyrirtæki innlend - og jafnvel erlend - sjái sér hag í að tengja sig þeirri þróun og efla hana þar með. Samspil sprotafyrirtækja, stærri fyrirtækja, háskóla og fjárfestingasjóða er akkúrat það sem þarf til að upphaf af þessu tagi festi rætur og beri ávöxt.
Íslenska umhverfið
Heilt yfir er íslenska tækniumhverfið í ágætri stöðu og 2016 mun að líkindum bæta þar enn úr.
Létting gjaldeyrishafta mun hafa mikið að segja með möguleika íslenskra félaga til að sækja sér erlent fjármagn - og þá þekkingu sem því getur fylgt. Ég óttast þó að enn muni líða allmörg ár þar til hefðbundnir alþjóðlegir áhættufjárfestingasjóðir verði tilbúnir að fjárfesta í íslenskum félögum - og kemur þar reyndar fleira til. Þangað til svo er mun sá tími koma fyrr eða síðar í lífi flestra okkar nýsköpunarfyrirtækja að þau þurfa að koma móðurfélögum sínum, hugverkum og þar með stærstum hluta hagnaðar fyrir erlendis.
Mannekla er viðloðandi í hugbúnaðargeiranum og verður ekkert lát á miðað við allt það sem er í gangi. Þetta á ekki bara við um forritara, heldur nánast öll þau störf sem að hugbúnaðargerð, rekstri tæknifyrirtækja og svo auðvitað sölu og markaðssetningu tæknilausna. Enn eru of fáir að útskrifast úr þessum fögum þrátt fyrir mikla aukningu á undanförnum árum og eins eru þeir sem útskrifast ef til vill með helst til einsleita þekkingu. Eins er alveg stórundarlegt að enn sé mjög flókið og tímafrekt mál fyrir sérfræðinga á þessum sviðum að fá hér atvinnu- og dvalarleyfi komi þeir frá löndum utan EES.
Starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja í þessum geira á Íslandi er nánast engin. Það er mikilvægt í bland við það sem hér sprettur upp að fólk hafi tækifæri að vinna hjá stórum, öflugum, alþjóðlegum fyrirtækjum. Bæði eykur það úrval starfa og möguleika fyrir fólk í geiranum, en ekki síður eykur það reynslu fólksins í tæknigeiranum af slíku umhverfi - með öllum sínum kostum og göllum - öllum til hagsbóta. Ég er stoltur af þeirri uppbyggingu sem Qlik hefur staðið fyrir hér eftir kaupin á DataMarket í fyrra, en við þurfum fleiri, stærri og fjölbreyttari fyrirtæki hingað til að skapa meiri breidd og „dínamík“ í íslenska tækniumhverfið. Ég spái því að hafin verði vinna við að laða slík fyrirtæki hingað á árinu.
Stóru vaxtarfjárfestingasjóðirnir þrír Frumtak II, Eyrir Sprotar og Brunnur fjárfestu talsvert á nýliðnu ári, en eiga enn umtalsverða fjármuni sem þeir þurfa að koma í vinnu fyrr en síðar. Nú eru sjóðirnir komnir vel af stað og 2016 verður því líklega stærsta ár Íslandssögunnar þegar kemur að framtaksfjármögnun íslenskra tæknifyrirtækja. Húrra fyrir því!
* Tek fram að ég er hluthafi í Sólfari í gegnum fjárfestingasjóðinn Investa. Höfundur er einnig stjórnarformaður Kjarnans.