Þegar ríkt fólk er handvalið til að græða peninga
Þeir viðskiptavinir einkabankaþjónustu og markaðsviðskipta Arion banka sem fengu að kaupa hlut í Símanum á undirverði geta nú selt bréfin með hundruð milljóna króna hagnaði. Um er að ræða best stæðu viðskiptavini bankans.
Í gær, 15. janúar 2016, mátti hópur vildarviðskiptavina Arion banka selja fimm prósent hlut sinn í Símanum. Hlutinn fékk hópurinn að kaupa á undirverði nokkrum dögum áður en bankinn seldi hluti í félaginu í útboði. Miðað við gengi bréfa í Símanum í byrjun dags í gær nemur hagnaður þessa hóps 343 milljónum króna. Þann hagnað gátu umræddir vildarviðskiptavinir leyst út ef þeir vildu.
Hópurinn sem fékk að kaupa þennan hlut var handvalinn. Um var að ræða þá viðskiptavini bankans sem eru með mesta fjármagnið í stýringu hjá bankanum. Ríkustu viðskiptavinirnir, sem borga hæstu þóknanatekjurnar, fengu að kaupa á þessu verði. Aðrir ekki.
Arion banki lánaði til kaupanna að hluta
Hópurinn fékk að kaupa hlutinn á 2,8 krónur á hlut. Í útboðinu, sem fór fram nokkrum dögum síðar, var fimmföld umframeftirspurn. Arion banki fjármagnaði kaup viðskiptavinanna að hluta. Ekki hefur fengist uppgefið hversu stór þessi hópur er né hverjir það eru sem tilheyra honum.
Miðað við upphafsgengi bréfanna á markaði í gær, sem var 3,44 krónur á hlut, hafði virði hlutar hópsins hækkað um 343 milljónir króna. Á 92 dögum hafði þessi óskilgreindi hópur ríkustu viðskiptavina einkabankaþjónustu og markaðsviðskipta Arion banka, sem var valinn til kaupa á félagi sem bankinn var sjálfur að selja í útboði sem hann sá sjálfur um, grætt 3,7 milljónir króna á dag.
Þessi sala var harðlega gagnrýnd í haust, meðal annars á Alþingi. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sagði söluna vera klúður sem engin þolinmæði væri fyrir í samfélaginu. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýsla ríkisins sem fer með 13 prósent eignarhlut íslenska ríkisins í Arion banka, sagðist hafa fullan skilning á þeirri umræðu sem fram færi í samfélaginu vegna sölunnar. Hann vildi þó ekki setjast í dómarasæti í málinu. Aðrir viðskiptavinir í einkabankaþjónustu og markaðsviðskiptum hjá bankanum, sem fengu ekki að kaupa í Símanum á sérkjörum, voru ekki síður ósáttir með að hann sé að mismuna sínum eigin viðskiptavinum með þessum hætti.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sagði söluna vera klúður sem engin þolinmæði væri fyrir í samfélaginu.
Aðrir leikendur á fjármálamarkaði, sér í lagi smærri fjármálafyrirtæki, hafa einnig gagnrýnt söluna. Það skekki samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja sem reki einkabankaþjónustu eða sinni markaðsviðskiptum ef stór banki sé að verðlauna sína viðskiptavini umfram aðra. Þar sem stóru bönkunum hafi verið falin endurskipulagning flestra þeirra fyrirtækja sem rati á markað, og sjái nánast alltaf sjálfir um skráningar á „sínum“ fyrirtækjum, sé alltaf minni og minni hvati til þess að vera í þjónustu hjá öðrum aðilum.
Varað við ástandinu í skýrslu 2013
Sá aðstöðumunur sem er uppi milli stóru bankanna og annarra fyrirtækja á fjármálamarkaði er ekki nýr af nálinni. Og við honum hefur verið varað mjög harkalega áður, án þess að það hafi skilað árangri.
Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins, Fjármálamarkaður á krossgötum, frá árinu 2013 var sérstakur kafli helgaður áhyggjum af yfirburðastöðu viðskiptabanka á markaðnum. Þar sagði að minni fjármálafyrirtæki sem stundi verðbréfaþjónustu hafi bent Samkeppniseftirlitinu á að almennt gæti að þeirra mati mikils aflsmunar milli verðbréfafyrirtækja og banka. Samkeppnisstaða minni fjármálafyrirtækja væri veik og það væri mikið áhyggjuefni. „Bankarnir séu í yfirburðastöðu þar sem þeir séu í aðstöðu til að bjóða viðskiptavinum upp á alhliða viðskipti. Þeir gnæfi yfir aðra samkeppnisaðila sé litið til stærðar efnahagsreiknings og umsvifa. Í krafti stærðar geti þeir boðið þjónustu, verð og skilmála sem minni fyrirtæki eigi erfitt með að keppa við. Heildarþjónusta bjóði jafnframt upp á þá hættu að einn þjónustuþáttur sé notaður til að niðurgreiða aðra þjónustuþætti þar sem samkeppni er meiri. Þá hafa verðbréfafyrirtækin áhyggjur af því hvernig viðskiptabankar komi fram gagnvart aðilum sem minni fjármálafyrirtækin eru að leitast við að fá til sín í viðskipti. Bankarnir hafi sterk ítök í mörgum fyrirtækjum, hvort heldur sem er vegna viðamikillar skuldsetningar eða í gegnum eignarhald.“
Viðmælendur Kjarnans í bankakerfinu og viðskiptalífinu segja að lítið hafi dregið úr þessari yfirburðarstöðu síðan að skýrslan kom út.
Auk þess kvarta margir yfir því að tækifæri minni fjármálafyrirtækja, og í raun allra á markaði nema stóru bankanna þriggja, til að ná til sín stórum viðskiptavinum í einkabankaþjónustu eða markaðsviðskipti séu nánast engin. Það sé ekki hægt að keppa við þau fjárfestingatækifæri sem samlegðin hjá stóru bönkunum býður þeim upp á.
Það dæmi sem flestir viðmælendur minnast á sem skýrasta dæmið um þetta er ofangreind sala Arion banka á fimm prósent hlut í Símanum til valdra viðskiptavina sinna nokkrum dögum fyrir almennt útboð á bréfum í félaginu á niðursettu verði.
Samkeppniseftirlitið segir ástæðu til að hafa áhyggjur
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að það sé klárt að þau áhyggjuefni sem eftirlitið dró fram í skýrslunni árið 2013 séu að verulegu leyti enn til staðar. „Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvernig aðstæður minni keppinauta eru á markaðnum og þar með nýrra aðila til að koma inn á hann. Það er mikilvægt að bankarnir passi upp á að skilja á milli ólíkra hagsmuna sinna þegar þeir eru að eiga viðskipti við fyrirtæki. Sú hætta, að þeir beiti aflsmunum sínum og skerði með því samkeppnisstöðu minni aðila, er augljóslega fyrir hendi. Bankarnir eru í þeirri stöðu að vera að bjóða upp á alhliða fjármálaþjónustu á meðan að minni fyrirtæki hafa ekki kost á því með sambærilegum hætti. Þeir þurfa að fara mjög varlega í að blanda mismunandi viðskiptahagsmunum sínum saman og nýta sér viðskiptatengsl á einu sviði til að afla sér viðskipta á öðrum.“
Ráðstafanir Arion banka voru að þessu leyti ekki til þess fallnar að draga úr þeirri tortryggni í garð viðskiptabankanna þriggja, sem á liðnum árum hafa endurspeglast í kvörtunum og ábendingum til Samkeppniseftirlitsins.
Aðspurður hvort Samkeppniseftirlitið sé að rannsaka þessa stöðu segir Páll Gunnar að salan Arion banka á hlutabréfum í Símanum til valinna viðskiptavina sé ekki sérstaklega til skoðunar. Eftirlitið eigi þó í reglulegum samræðum við fjármálamarkaðinn um þetta ástand. „Bankarnir verða að passa afar vel upp á að háttsemi þeirra raski ekki samkeppni og aðferðir að þessu tagi geta vissulega gert það vegna þess að þarna er hugsanlega verið að afla viðskiptatengsla með aðferðum sem sett hafa verið spurningamerki við eins og umræðan ber vott um. Ráðstafanir Arion banka voru að þessu leyti ekki til þess fallnar að draga úr þeirri tortryggni í garð viðskiptabankanna þriggja, sem á liðnum árum hafa endurspeglast í kvörtunum og ábendingum til Samkeppniseftirlitsins.“
Stjórnendur og meðfjárfestar keyptu líka fyrir útboð
Líkt og flestir vita sem fylgst hafa með sölu á hlut Arion banka í Símanum fyrir útboð vita þá voru vildarviðskiptavinir Arion banka ekki þeir einu sem fengu að kaupa. Hópur stjórnenda, undir forystu forstjórans Orra Haukssonar, og nokkrir innlendir og erlendir fjárfestar fengu einnig að kaupa fimm prósent hlut í félagið áður en almennt útboð fór fram. Þeir fengu að kaupa á genginu 2,5 krónur á hlut. Um þau kaup var tilkynnt í ágúst. Á meðal þeirra sem voru í hópnum voru íslenskir fjárfestar með litla sérþekkingu á fjarskiptum. Sá hópur, sem samanstendur Sigurbirni Þorkelssyni, Árna Haukssyni og Hallbirni Karlssyni, keypti raunar stærstan hluta þess sem Arion banki ákvað að selja á þeim tíma.
Arion banki hefur greint frá því að samkomulagið við fjárfestahópinn sem keypti fyrst hafi verið gert í maí. Bankinn segir að sú töf sem orðið hafi á að upplýsa um kaupin hafi verið „óheppileg“. Verðmatið hafi á þeim tíma, í maí, verið svipað og á Vodafone, hinu skráðu fjarskiptafyrirtækinu.
Stjórnendur Símans keyptu einnig 0,5 prósent hlut til viðbótar við þau fimm prósent sem áður hafði verið greint frá, á sama verði. Samtals keypti hópurinn því 5,5 prósent hlut. Miðað við gengi Símans í dag hefur virði hlutar þeirra hækkað um 38 prósent. Söluhömlur eru á fyrstu fimm prósentunum til 1. janúar 2017. Stjórnendur Símans mega hins vegar selja 0,5 prósent hlut sinn strax í mars á þessu ári, eftir rúma fjóra mánuði.
Arion varði ákvörðunina
Arion banki varði framan af ákvörðun sína um að selja báðum þessum hópum hluti í Símanum áður en útboð fór fram. Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs bankans, skrifaði grein í Morgunblaðið 13. október þar sem kallaði gagnrýni á hana „eftiráspeki“. Í greininni sagði m.a. „Þeir sem gagnrýna mikinn hagnað af þessari fjárfestingu horfa fram hjá því að ekki er um innleystan hagnað að ræða og ómögulegt að sjá fyrir hvert hlutabréfaverðið verður.“
Tíu dögum síðar sendi Arion banki frá sér tilkynningu þar sem bankinn viðurkenndi að gagnrýni á söluna til vildarviðskiptavina hefði verið réttmæt. Bankinn sagði að ekki hafi verið að „veita viðskiptavinum afslátt frá verðinu heldur[...]að gefa þeim kost á að kaupa nokkru stærri hlut en ella[...]Sú gagnrýni að ekki hafi allir setið við sama borð hefur ekki farið framhjá stjórnendum bankans. Ekki var heppilegt að selja til viðskiptavina bankans svo skömmu fyrir útboðið á gengi sem svo reyndist nokkuð lægra en niðurstaða útboðsins. Bankinn vanmat hina miklu eftirspurn sem raun varð á. Þessi tilhögun er til skoðunar í bankanum og verður tekið mark á gagnrýninni“.
Arion banki taldi hins vegar, og telur enn, að salan á fimm prósent hlut til stjórnenda Símans og meðfjárfesta þeirra hafi verið réttmæt.