Fréttaskýring#Bandaríkin#Stjórnmál
Breytt landslag í forvali repúblikana
Forval stóru flokkanna í Bandaríkjunum fyrir forsetakosningarnar þar í landi heldur áfram í næstu viku þegar kosið verður í New Hampshire. Útlit er fyrir að Donald Trump muni ekki halda sínu mikla fylgi því Ted Cruz og Marco Rubio sækja á.
Setið var á sófabrúninni langt fram á nótt yfir kosningavöku sjónvarpstöðvanna hér í Bandaríkjunum á mánudagskvöldið. Til að fylgjast gaumgæfilega með hverjum einasta frambjóðanda lagði pistlahöfundur það á sig, að skrá sig á póstlista hjá öllum helstu frambjóðendum og kepptust þeir við að senda vinsamlegar ábendingar um ágæti sitt alla vikuna auk þess sem þeir buðu upp á þá þjónustu að gefa þeim peninga. Þegar niðurstaðan lá loks ljós fyrir í Iowa var ljóst að hún boðaði nokkuð breytt landslag, sérstaklega í forvali repúlikana. Fram á síðustu stundu benti allt til þess í skoðanakönnunum að Donald Trump, fasteignamógullinn frá New York, myndi sigra nokkuð örugglega og komu úrslitin því nokkuð á óvart með sigri Ted Cruz, öldungadeildarþingmanninsins og teboðsliðsmansins frá Texas. Til að auka á spennuna fylgdi Marco Rubio, hinn ungi öldungadeildarþingmaður frá Flórída, fast á hæla Trump og endaði naumlega í þriðja sætinu. En forvöl flokkanna eru þó aðeins rétt að byrja og á þriðjudag verður kosið í New Hampshire. Þar benda kannanir til þess að Trump hafi sigur úr bítum hjá repúblikönum og Bernie Sanders hjá demókrötum en eftir þessi óvæntu tíðindi mánudagsins virðist allt geta gerst.
Eftir niðurstöðurnar frá Iowa urðu ljósar, beindust sjónir manna hér vestra að miklu leiti að Rubio sem undir lok mánudagskvöldsins, hélt innblásna sigurræðu sem fer seint úr minni, þrátt fyrir að hafa lent í þriðja sæti. Mörgum þykir hann vera sá kandídat repúblikana sem hefur mesta möguleika til að sigra Hillary Clinton eða Sanders, þar sem hann er líklegur til að ná til miðjufylgisins sem þarf ef tryggja á að flokkurinn eigi raunverulegan möguleika á sigri í nóvember. Niðurstöðurnar hjá demókrötunum voru nokkuð óljósari, þar sem þau Sanders og Clinton komu nærri jöfn í mark og hinn geðþekki Martin O’Malley fékk lítið sem ekkert fylgi. Þegar leið á kvöldið tilkynnti hann stuðningsmönnum sínum að hann myndi draga sig úr framboði.
Hverjir kjósa?
Talið er um að fjöldi þeirra sem tóku þátt í forvali flokkanna í gær séu 0,1 til 0,2 prósent af þeim sem búi í öllum Bandaríkjunum og aðeins um tíu prósent þeirra þriggja milljóna sem búa í Iowa. Ríkið er að auki nokkuð einsleitt og því langsótt að ætla að niðurstöðurnar endurspegli hug allra landsmanna í þessum efnum. Aftur á móti hefur byggst upp mikil spenna í samfélaginu síðustu mánuði, eða allt frá því að kappræður flokkanna hófust, og því var beðið í ofvæni víða eftir að leikar myndu hefjast.
Í könnunum hefur komið á óvart hversu mikið fylgi Trump mælist með og hafa margir verið skeptískir á að hann gæti skilað því fylgi á kjörstað. Þeir sem þekkja til hins flókna kosningakerfis í Bandaríkjunum vita að það er eitt að koma vel út úr könnunum og allt annað að sigra kosningar. Öllu máli skiptir að velja réttu leikáætlunina fyrir hvern frambjóðanda og beina kröftum þeirra á réttu svæðin sem líklegust eru til að skila sem flestum atkvæðum. Þetta krefst reynslu og krafta rétta fólksins sem og úthalds.
Ted Cruz | Donald Trump | Marco Rubio | |
---|---|---|---|
Skoðanakannanir á landsvísu | 17,4% | 35,8% | 11,6% |
Kannanir í Iowa | 23,9% | 28,6% | 16,4% |
Niðurstaða í Iowa | 27,7% | 24,4% | 23,1% |
Munur milli kannana og niðurstöðu | +3,8 | -4,2 | +7,0 |
Kannanir í New Hampshire | 12,0% | 32,6% | 11,4% |
Þrátt fyrir mikla umfjöllun um stjórnmálin í fjölmiðlum er kjörsókn almennt afar slök í Bandaríkjunum. Í spennandi forsetakosningum hefur kjörsókn náð í kringum fimmtíu prósent. Í venjulegum þingkosningum kýs að jafnaði rétt tæplega fjórðungur. Það er því oft frekar fámennur hópur sem hefur áhrif á lokaniðurstöðu kosninga, ekki síst þegar mjótt er á munum í við lok forvala.
Á þriðjudag féll kjörsóknarmet í Iowa hjá repúblikönum og því reiknaði fólk með því að Donald Trump, sem vakið hefur allra mestu athyglina upp á síðkastið, væri að laða nýja kjósendur á kjörstað. Reglurnar í Iowa voru þannig að skráðir kjósendur repúblikana máttu kjósa en hægt var að skrá sig á staðnum í flokkinn og kjósa svo. Oft eru svona nýskráningar meðal kjósenda í yngri kantinum, en það vakti athygli að útgönguspár bentu til þess að Trump væri með lang minnsta fylgið meðal 17 til 29 ára kjósenda eða um 17 prósent, en í heildina hlaut hann 24 prósent atkvæða.
Til samanburðar við þetta nýtur Bernie Sanders stuðnings 84 prósent kjósenda í sama aldurshópi. Þessi yngri hópur skilaði sér helmingi verr á kjörstað en hópur 45 til 64 ára sem kaus kaus Clinton í auknum mæli og áhrifin því mun meiri. Til að sigra er mikilvægt að ná stuðningi hjá þeim hópum sem skila sér best á kjörstað. Þannig er eldra fólk í raun dýrmætari kjósendahópur sem og konur. Aftur á móti kjósa konur frekar demókrata en karlar. Þá þarf að taka inn í reikninginn að mjög stór hluti kjósenda er af suður-amerískum uppruna og kýs sá þjóðfélagshópur frekar til vinstri. Svona mætti lengi halda áfram.
Þessi margumræddi Trump
Donald Trump hefur litla reynslu úr stjórnmálum og hefur töluvert af reynslulitlu fólki sér til aðstoðar sé það borið saman við aðra frambjóðendur. Trump sendir skráðum „kjósendum“ síður tölvupósta og er sá eini sem ekki hefur beðið um krónu eftir að hafa boðið undirritaða velkomna í hóp þeirra sem „ætla að endurreisa Ameríku“, í takt við kjörorð hans.
Eftir að Trump lenti í öðru sæti á mánudag, gerði hann þau mistök að halda fremur slaka ræðu sem bæði var stutt og efnisrýr. Hann hefði vel getað verið kokhraustur þrátt fyrir að lenda í öðru sæti og vakti það sérstaka athygli. Um miðja síðustu viku fór stemmingin í forvali repúblikana svo að líkjast íslensku prófkjöri þegar Trump sendi færslu á Twitter þar sem hann sakaði Cruz um að hafa svindlað í Iowa með því að koma þeim skilaboðum til kjósenda að Ben Carson, mótframbjóðandi þeirra, væri að hætta baráttunni. Carson hefur enn ekki gefist upp og vill Trump meina að þetta hafi fylkt kjósendum Carson að baki Cruz í miklum mæli.
En hver er þessi sérkennilega greiddi 69 ára maður í raun og veru? Við þekkjum hann aðeins af snaggarlegum fréttum síðustu áratugi þar sem hann er annað hvort ríkasti maður heims eða í gjaldþrotaskiptum, nýgiftur með pompi og prakt eða að skilja með tilheyrandi hneykslismálum á forsíðu slúðurblaðanna. Hverjir eru það sem reyna að stöðva framgöngu hans? Hvers vegna stendur svona mörgum stuggur af honum?
Trump er fyrst og fremst umdeildur vegna þeirra öfgafullu skoðana sem hann keyrir framboð sitt að miklu leiti á. Hann lætur sér ekki nægja að tala digurbarklega um hvernig hann muni „gera Bandaríkin frábær aftur“ (e. „Make America Great Again“), heldur ætlar hann að knésetja alla sem ætla sér að verða á vegi hans eins og hann lætur ítrekað hafa eftir sér. Verði hann forseti ætlar hann að meina múslimum inngöngu inn í landið og reisa múr þvert á landamærin við Mexíkó, vísa á brott úr landinu öllum þeim milljónum ólöglegu innflytjendum sem nú búa í Bandaríkjunum. Til viðbótar við þetta lætur hann reglulega hafa eftir sér rasísk og kvenfjandsamleg ummæli án þess að blikna.
Það er þó óumdeilt að þann hefur hæfileika til að tala hreint út og vera algjörlega laus við skrúðmælgina sem stjórnmálamenn festast svo gjarnan í. Hann staðsetur sig og sinn málflutning líka þannig að hann sé fyrir utan kerfið, hann sé maður fólksins. Á einhvern undraverðan hátt hefur hann líka sannfært marga um að hann sé besta dæmið um „ameríska drauminn“ sem snýst um að sýna dugnað og vinnusemi og þá eigi allir að geta orðið ríkir. Sjálfur fæddist Trump þó inn í efnaða fjölskyldu. Flestir stuðningsmenn Trump eru hvítir, með fremur lágar tekjur, litla menntun og eru komnir með „nóg“ af hefðbundnum stjórnmálamönnum.
Það er óhætt að segja að Donald Trump sé eldklár, fljótfær, einlægur, sjálfumglaður og honum leiðist ekki athygli, jafnvel þó hún sé neikvæð. Í heimildamynd sem sýnd var á sjónvarpstöðinni MSNBC í vikunni var farið í saumana á ævi hans. Trump er fæddur og uppalinn í New York og þegar hann var á táningsaldri lenti hann í vandræðum í skólanum og var færður í sérstakan herskóla. Bróðir hans glímdi við áfengissýki sem seinna varð honum að aldurtila og hefur Trump því aldrei reykt né drukkið áfengi. Hann hefur verið giftur í þrígang og á með fyrrverandi konum og núverandi konu fimm börn á aldrinum 10 til 39 ára. Þekktust er líklega Ivana sem var umsjónamanneskja í raunveruleikaþáttunum Apprentice þar sem Trump var sjálfur í aðalhlutverki sem viðskiptaráðgjafi fólks sem keppti í að vera best í viðskiptum.
Eftir námið fór hann að vinna fyrir fyrirtæki föður síns sem hafði verið farsælt. Viðskipti Trump hafa verið margvísleg í gegnum árin. Hann hefur átt fasteignir, spilavíti og golfvelli um allan heim auk þess að hann hefur fjárfest í allskyns óvenjulegum viðskiptaeiningum eins og íþróttafélögum og eigin sjónvarpsframleiðslu um sjálfan sig. Trump átti lengi vel hluti í fegurðarsamkeppnunum Ungfrú Ameríka, Ungfrú alheimur, og Ungfrú unglingsfegurð þar til árið 2015.
Viðskipti Trump hafa hins vegar ekki alltaf gengið stóráfalla laust fyrir sig og fyrirtæki hans hafa nokkrum sinnum orðið gjaldþrota. Honum hefur þó alltaf tekist að koma sér aftur á lappirnar.
Stuðningur hans við bandarísku stjórnmálaflokkana tvo hefur farið fram og aftur í gegnum tíðina. Trump hefur í nokkur skipti sagts ætla bjóða sig fram og í tvígang hafið baráttuna, einu sinni fyrir Endurreisnarflokkinn árið 2000 og svo árið 1999 fyrir repúblikana en hann hætti framboði sínu þegar ljóst var að hann ætti enga möguleika á að sigra. Flokkaflakkið hefur haft áhrif skoðanir hans og þær sveiflast allt frá því að hafa verð fylgjandi réttindum kvenna til að ráða yfir eigin líkama þegar kemur að fóstureyðingum yfir í að vilja banna þær alfarið. Hann hefur talið Hillary Clinton vera frábæran samningamann fyrir Bandaríkin gegn Írönum en skipt um skoðun og sagt að samningurinn við Íran sem nýverið var samþykktur sé „ömurlegasti samningur sem hann hafi nokkurn tímann augum litið“.
Flokkarnir og Trump | |
---|---|
- 1987 | Demókrati |
1987-1999 | Repúblikani |
1999-2001 | Endurreisnarflokkurinn |
2001-2009 | Demókrati |
2009-2011 | Óháður |
2012- | Repúblikani |
Afstaða Trump snýst mikið um að staðsetja sig „réttu megin“ við þau mál sem repúblikanakjósendur velja mikið eftir, svo sem að herða á innflytjendalöggjöfinni, verja rétt manna til að eiga og kaupa skotvopn óáreiddir, gegn fóstureyðingum, gegn vígðri sambúð samkynhneigðra og lækka tekjuskatt í Bandaríkjunum verulega, eitthvað sem gagnrýnendur hans benda á að myndi setja ríkisfjármálin í mikinn vanda. Trump ætlar sér hinsvegar líka að skera rækilega niður í opinbera kerfinu.
Kosningabarátta Trump hefur að ráða 13 milljónum dollara í sem eru bara smáaurar miðað við virði veldi hans, sem hann segir vera 10 milljarða dollara. Mest allur peningurinn í kosningasjóðnum kemur úr hans eigin vasa.
Andstæðingarnir
Ted Cruz og Marco Rubio eru þeir sem eru líklegastir til að fella Donald Trump í forvali repúblikana. Þeir eru báðir rétt ríflega fertugir og eiga nokkuð fátæklegan feril að baki þegar þeir eru bornir saman við ævintýralega ævi Trump. Þrátt fyrir að mennirnir þrír séu allir frekar íhaldsamir er Ted Cruz líklega sá sem teygir sig lengst í þá veru.
Teboðshreyfing Cruz frá Texas
Þegar undirrituð skráði sig á póstlista Ted Cruz barst svar frá framboðinu með hvatningu um að sýna hugrekki og standa með íhaldsömum gildu. Þar var einnig óskað eftir peningum í leiðinni.
Cruz er 45 ára, giftur og á tvö börn. Hann er fæddur í Kanada (eitthvað sem Trump mun án efa halda áfram að minna kjósendur á) en hann kallar Cruz núorðið Ted „Kanada“ í ræðum sínum því deilt hefur verið um hvort hann sé í raun og veru kjörgengur. Cruz er hins vegar fæddur bandaríkjamaður, því foreldrar hans höfðu bæði bandarískt ríkisfang þegar hann fæddist.
Cruz er sonur kúbversk föðurs og bandarískrar móður. Hann er uppalinn í Texas og nam lögfræði við Harvard. Hann starfaði fyrir ríkisstjórn Bush yngri en var svo kosinn sem fulltrúi Texas og fulltrúi Teboðsins í Öldungadeild bandaríska þingsins árið 2012. Hann hefur sterkar skoðanir og þykir frekar óvinsæll í Washington, bæði innan flokksins og utan, því hann þykir ósamvinnuþýður og óhagganlegur í skoðununum sínum. Þetta vinnur hins vegar með Cruz í kosningabaráttunni þar sem hann getur með þessu staðsett sig utan kerfsins í Washington, sem er gríðarlega óvinsælt hjá almenningi. Hann nýtur dyggs stuðning evangelista og má greina sterkt trúarlegt stef í ræðum hans.
Cruz hefur lýst því yfir að hann muni vilja banna fóstureyðingar alfarið verði hann forseti. Hann hefur í lögfræðistörfum sínum varið NRA, helstu hagsmunasamtök byssueigenda, og styður óhindraðan aðgang landsmanna að því að kaupa vopn og bera í almenningsrými. Hann vill leggja af heilbrigiðistryggingakerfið sem Obama kom á og vill einkavæða félagstryggingakerfið, svo fátt eitt sé nefnt. Hann boðar einnig mjög umdeildar efnahagstillögur sem flestir telja að muni helst gagnast þeim sem eiga mest, en ekki hinni margumtöluðu millistétt sem þykir aðþrengd efnahagslega. Cruz hefur notið ríkulegs stuðnings fjársterkra aðila og hafa söfnunarhópar merktir honum safnað 42 milljónum miðað við framboðið hans sem safnað hefur 47 milljónum dollara.
Ungi íhaldsami Flórídabúinn með kúbverskar rætur
Marco Rubio er aðeins 44 ára gamall, giftur og á fjögur börn. Hann er sonur kúbverskra innflytjenda og er alinn upp í Flórída þar sem hóf nokkuð hefðbundinn tröppugang í stjórnmálum. Hann byrjaði í Miami-borg, tók því næst sæti á ríkisþinginu, var svo kjörinn í fulltrúadeild bandaríska þingsins fyrir Flórída og því næst sem öldungadeildarþingmaður ríkisins.
Rubio er svo sannarlega íhaldssamur, en hann er þó aðeins nær miðjunni en flokksbróðir hans Cruz. Hann er andvígur fóstureyðingum eftir 20. viku og segist viðurkenna dóm hæstaréttar um að að hjónavígsla samkynhneigðra sé fest í lög. Þó hann segist sjálfur líta svo á að hjónaband eigi að vera milli karls og konu. Hann hefur talað fyrir því að sett verði upp leið til þess að ólöglegir innflytjendur sem hafa verið í mörg ár í Bandaríkjunum og eiga jafnvel börn geti sótt um ríkisborgararétt með lögmætum hætti en dregið mjög í land með þessa skoðun sína frá því að hann hóf forsetaframboð sitt. Hann er ósammála sumum frambjóðendum repúblikana um að einkavæða félagslega kerfið. Hann er geðþekkur í viðtölum og í samanburði við þá Trump og Cruz og virðist vera nokkuð hefðbundnari frambjóðand; er klókur og með gott bakland Hann á einnig töluvert góða möguleika á að höfða til fólks af spænskumælandi ættum sem er sá kjósendahópur sem stækkar hraðast í dag.
Hann þykir einnig vera líklegur að ná til til þeirra sterku peningaafla sem hafa hingað til stutt Jeb Bush í forsetaforvalinu en sá mun líklega hætta kosningabaráttunni á næstu vikum. Það kemur sér vel fyrir Rubio sem er ríflega 25 milljónum á eftir Cruz í söfnuninni. Þó er kosningabarátta hans ekki á flæðiskeri stödd og á nú rúmar 51 milljón dollara ef lagðar eru saman eigur hópsafnana merktar honum og fjáröflun framboðsins.
Þess ber að geta að einhverra hluta vegna hefur ekkert svar borist greinahöfundi síðan því hún skráði sig á póstlista Marco Rubio, ólíkt öllum öðrum frambjóðendum.
Hópsöfnun gegn Trump
Í kringum kjörfundina Iowa hóf nýr herferðahópur, PAC, herferð undir yfirskriftinni „Hversu mikið veistu raunverulega um Donald Trump?“. Herferðin gengur að mestu út að að birta auglýsingar gegn honum og er markmið hópsins að stöðva vinsældir Trump. Til þess hefur hópurinn safnað milljónum bandaríkjadala og þegar eytt um 2,5 milljónum.
Auglýsingar á borð við þessar eru hluti af vopnum þeirra gegn Trump, auk þess sem birtar hafa verið auglýsingar í dagblöðum, á netinu og yfir 100 þúsund auglýsingar sendar í pósti.
Áhugavert verður að sjá hvaða áhrif undanfarin vika hefur á framboð og vinsældir Donald Trump fyrir kjörfundinn í New Hampshire. Þar mun reyna á herferð Trump þegar breyta á þessu mælda fylgi úr könnunum í atkvæði á kjörstað kjörstað. Ljóst er að þeir Cruz og Rubio muni herða verulega á baráttunni gegn Trump. Aðrir frambjóðendur munu líklega draga sig í hlé á næstu vikum og hefst þá baráttan um hvert stuðningsmenn þeirra snúa sér.
Hvað sem gerist, hvernig sem fer, verður spennandi að fylgjast með fréttabréfunum rigna inn. Þegar eru fjórir komnir frá Hillary Clinton síðan á mánudag, tveir frá Bernie Sandes, þar af einn þar sem hann tilkynnir formlega að stjórnmálabyltingin sé hafin. Algjör þögn ríkir hins vegar í tölvupóstadeild repúblikana. Það er án efa einungis lognið á undan storminum.