Fréttaskýring#Viðskipti#Bankar#Konur
Karlar stýra nánast ölllum peningum á Íslandi
Konur eru 49,7 prósent landsmanna. Þær stýra samt einungis fimmtungi allra fyrirtækja landsins og sitja í fjórðungi stjórnarsæta. Í efstu lögum fjármálageirans eru þær enn ákaflega sjáldséðar.
Konur eru áfram sjaldséðar í efstu lögum íslenska fjármálageirans. Fyrir hverja níu karla sem stýra peningum á Íslandi er einungis ein kona. Þetta kemur fram í úttekt Kjarnans á æðstu stjórnendum viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og –miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnanna, Kauphallar og íbúðalánasjóða.
Kjarninn tók nú saman upplýsingar um stjórnendurna í þriðja sinn. Í fyrstu úttektinni, sem gerð var í febrúar 2014, voru störfin sem hún náði yfir 88 talsins. Þá sátu 82 karlar í þeim störfum en sex konur. Fyrir ári síðan framkvæmdum við úttektina að nýju. Þá voru stjórnendurnir sem hún náði til 87 talsins, 80 karlar en sjö konur.
Í ár eru störfin sem úttektin nær til 92 talsins. Í þeim sitja 85 karlar en sjö konur. Því eru um 92 prósent allra þeirra sem stýra peningunum í íslensku samfélagi karlar. Og það hlutfall hefur nánast ekkert breyst á undanförnum þremur árum.
Karlar felldu kerfið, en sitja enn við stýrið
Íslenski fjármálageirinn hefur verið sögulega mjög karllægur. Fyrir bankahrun voru karlar í öllum helstu áhrifastöðum. Afrakstur þess kerfis sem byggt var upp á þeim tíma þekkja allir: það molnaði og íslenskt fjármálakerfi sat eftir án nokkurs trúverðugleika.
Það er því ekkert nýtt að fjármálafyrirtæki starfi í anda karllægra gilda. Og það er alþjóðleg stefna sem fest hefur rætur. Í þessum gildum felst áhættusækni, skeytingarleysi, skammsýni, ábyrgarleysi og yfirgangur. Tilgangurinn er að vinna, græða meira. Konur í stjórnunarstöðum hafa hins vegar tilhneigingu til að búa yfir eiginleikum á borð við varfærni, ábyrgð, getuna til að líta í eigin barm og horfa til lengri tíma í stað þess að einblína alltaf á skammtímaáhrif ákvarðanna sinna.
Rannsóknir sýna líka að fyrirtæki með fleiri konum í stjórnunarstöðum skila marktækt betri árangri en fyrirtæki með engar konur í slíkum stöðum. Þetta má meðal annars sjá í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey frá árinu 2013, sem ber heitið „Women Matter 2013: Moving corporate culture, moving boundaries“. Þar segir einnig að það sem hindri framgang kvenna, og hamli þar með árangri fyrirtækjanna sem þær starfa hjá, sé fyrst og síðast fyrirtækjamenning sem sé konum óhliðholl. Karlmenn sæki fast að því að komast í slík störf þar sem þau séu vel borguð, veiti aðgang að valdi og feli í sér aukin tækifæri til að móta eftirsóknarverða framabraut.
Ein kona stýrir banka
Á Íslandi stýrir ein kona banka. Hún heitir Birna Einarsdóttir og er bankastjóri Íslandsbanka. Í framkvæmdastjórn bankans sitja níu manns, fimm karlar og fjórar konur. Arion banka er stýrt af Höskuldi H. Ólafssyni. Í framkvæmdastjórn bankans sitja tíu manns. Kynjahlutföll þar löguðust nýverið þegar að Iða Brá Benediktsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs af Halldóri Bjarkar Lúðvígssyni. Konur eru samt sem áður áfram í minnihluta innan framkvæmdastjórnarinnar, fjórar á móti sex körlum.
Í ríkisbankanum Landsbankanum stýrir karlinn Steinþór Pálsson skútunni. Í framkvæmdastjórn bankans sitja, ásamt Steinþóri, þrjár konur og þrír karlar. Kvika varð til í fyrra þegar Straumur fjárfestingabanki og MP banki runnu í eina sæng. Sigurður Atli Jónsson er forstjóri sameinaðs banka og auk hans sitja fimm aðilar í framkvæmdastjórn hans. Þeir eru allir karlar.
Því hallar á hlut kvenna í framkvæmdastjórnum allra viðskiptabankanna á Íslandi.
Karlar allsráðandi í verðbréfafyrirtækjum og -sjóðum
Sparisjóðir landsins hafa verið að týna tölunni einn af öðrum á undanförnum árum. Í dag standa einungis eftir fjórir, og fækkaði þeim um tvo í fyrra. Ein kona og þrir karlar stýra þessum sjóðum. Konan heitir Anna Karen Arnarsdóttir og er sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður Þingeyinga.
Þónokkur lánafyrirtæki eða –stofnanir eru rekin á Íslandi. Þau eru Borgun, Valitor, Byggðastofnun, Lánasjóður sveitafélaga og auðvitað Íbúðalánasjóður. Fimm þeirra er stýrt af körlum en einu af konu. Hún heitir Lilja Dóra Halldórsdóttir og er forstjóri Lýsingar.
Þegar litið er inn í efstu lög rekstrarfélaga verðbréfa- og fjárfestingasjóða á Íslandi, sem höndla með þúsundir milljarða króna, er staðan heldur ekki beysin út frá kynjajafnréttislegu sjónarmiði. Þessi rekstrarfélög eru mörg hver í eigu viðskiptabankanna og heit nöfnum eins og Stefnir, Íslandssjóðir, Landsbréf, Gamma, Júpíter, Alda og Summa. Af þeim tíu svona félögum sem eru með starfsleyfi samkvæmt Fjármálaeftirlitinu er engu stýrt af konu. Tíu karlar halda um þræðina í þeim öllum. Og langflestir starfsmanna þeirra eru líka karlar.
Staðan er ekkert betri hjá verðbréfafyrirtækjum landsins. Alls lúta tíu slík eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Þau heita nöfnum eins og Virðing, Arctica Finance, Centra, Fossar, H.F. Verðbréf og Jöklar. Öllum tíu er stýrt af körlum. Og starfsmenn þeirra eru upp til hópa að mestu karlar.
Karlar stýra líka einu eftirlitsskyldu verðbréfamiðlun landsins og einu innlánsdeild samvinnufélags (Hjá Kaupfélagi Skagfirðinga) sem starfrækt er á landinu.
Fáar konur í stjórnunarstöðum - 85 karlar, 7 konur
Þúsundum milljarða stýrt af körlum
Lífeyrissjóðir landsins eru langstærstu fjárfestar á Íslandi. Sameiginlegar eignir þeirra, en þeir eru 27 talsins samkvæmt yfirliti Fjármálaeftirlitsins, námu um 3.200 milljörðum króna um síðustu áramót. Þeir eiga, beint og óbeint, allt að helming skráðra hlutabréfa hérlendis og stóran hluta af skuldabréfaútgáfum. Áhrif og völd þeirra sem stýra fjárfestingum sjóðanna eru því gríðarleg.
Tíu stærstu lífeyrissjóðirnir eiga um 80 prósent af öllum eignum íslenska lífeyriskerfisins. Þeim er öllum stýrt af körlum. Alls eru æðstu stjórnendur sjóðanna 23 talsins, en nokkrum þeirra er stýrt saman. Í þessum valdamiklu stöðum sitja tvær konur og 21 karl. Þær eru Gerður Guðjónsdóttir, sem stýrir lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga, og Snædís Ögn Flosadóttir, sem tók við sem framkvæmdastjóri Eftirlaunasjóðs íslenskra atvinnuflugmanna í fyrrasumar. Auður Finnbogadóttir, sem stýrði Lífsverki lífeyrissjóði, lét hins af störfum í fyrra og við starfi hennar tók Jón L. Árnason. Til viðbótar er Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri Framtakssjóðs Íslands, sem er að stórum hluta í eigu íslensku lífeyrissjóðanna. Þórey S. Þórðardóttir er síðan framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, en þau fjárfesta auðvitað ekki.
Allir forstjórar orkufyrirtækja landsins; Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, ON, HS Orku, Orkubús Vestfjarða, Landsnets og Orkusölunnar eru líka allt karlar.
Karlarnir á markaðnum
Mikil vöxtur hefur verið í Kauphöll Íslands á undanförnum árum, en henni er stýrt af karli. Alls eru nú 16 félög skráð á markað. Í 15 þeirra sitja karlar við stjórnvölinn. Einungis einu, VÍS, er stýrt af konu, Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur. Fjögur félög hafa opinberlega sagt að þau stefni að skráningu á markað.
Þau eru Ölgerðin, Advania, Skeljungur auk þess sem 365 sagði í fréttatilkynningu seint á síðasta ári að félagið stefndi á skráningu. Öllum þessum fjórum félögum er stýrt af körlum.
Þá eru ótalin tvö óskráð tryggingafélog og tvær greiðslustofnanir, sem öllum er stýrt af körlum.
Samtals gerir þessi staða það að verkum að af 92 aðilum sem stýra peningum á Íslandi þá eru 85 þeirra karlar en einungis sjö konur.
Þá er vitanlega ótalið að þrír æðstu yfirmenn Seðlabanka Íslands eru karlar, fjármála- og efnahagsráðherra landsins er karl og það er forsætisráðherrann líka. Svo ekki sé minnst á forsetann, en það gæti breyst á allra næstu mánuðum.
Helmingur íbúa en fimmtungur framkvæmdastjóra
Í september 2013 tóku gildi lög hérlendis sem gerðu þær kröfur að hlutfall hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn væri að minnsta kosti 40 prósent. Þetta leiddi til þess að ansi mörg fyrirtæki og lífeyrissjóðir þurftu að ráðast í miklar breytingar á samsetningu stjórna sinna, enda var hlutfall kvenna í stjórnum sem féllu undir löggjöfina einungis 20 prósent í árslok 2009.
Í árslok 2013, eftir að lögin tóku gildi, voru konur orðnar 31 prósent stjórnarmanna í þeim félögum sem þau náðu yfir. Einungis um helmingur fyrirtækjanna sem falla undir lögin uppfylltu skilyrðin á þessum tíma. Konum hefur fjölgað í stjórnum stærri fyrirtækja undanfarin ár og voru þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri í lok árs 2014.
Þegar öll fyrirtæki landsins eru talin saman lækkar hlutfall kvenna í stjórnum þó, en þær sátu í 25,5 prósent stjórnarsæta í lok árs 2014. Enn færri voru stjórnarformenn, eða 23,8 prósent. Þær voru auk þess einungis 21,6 prósent framkvæmdastjóra í öllum fyrirtækjum landsins, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.
Á Íslandi bjuggu 167.410 karlar og 165.340 konur um síðustu áramót. Karlar voru því 50,3 prósent íbúa landsins en konur 49,7 prósent. Því fer fjarri að staðan í atvinnulífinu, og sérstaklega í þeim störfum þarf sem fjármagni er stýrt, endurspegli það hlutfall.