Fréttaskýring#Bandaríkin#Stjórnmál
Trump trónir á toppnum hjá repúblikönum en óvissan eykst hjá demókrötum
Kosið er í tveimur ríkjum í forvali stóru flokkanna í Bandaríkjunum fyrir forsetakosningar þar í haust. Demókratar kjósa í Nevada og repúblikanar í Suður-Karólínu. Bryndís Ísfold metur stöðuna fyrir næstu umferð forvalsins.
Í dag heldur forsetaforvals-maraþonið áfram í Bandaríkjunum og verður þá kosið í tveimur ríkjum. Í Nevada kjósa demókratar en repúblikanar kjósa í Suður-Karólínu. Á þriðjudaginn í næstu viku snýst svo dæmið við. Clinton og Sanders mælast nú með hnífjafnt fylgi og ljóst að bæði framboðin eru hætt að fara mjúkum höndum um hvort annað. Á sama tíma virðist fátt geta hreyft við fylgi Trumps í Suður-Karólínu, en í þessari viku kallaði hann páfann í Róm smánarlegan og sakaði George W. Bush um að hafa logið þjóðina í stríð. Spennustigið hefur því að minnsta kosti hækkað frá því var kosið í New Hampshire fyrr í mánuðunum.
Það var ekki til að létta spennuna í stjórnmálunum þegar tilkynnt var að hæstaréttardómarinn íhaldsami Antonin Scalia hefði látist í síðustu viku. Stjórnarskrá Bandaríkjanna gerir ráð fyrir að sitjandi forseti skipi fljótt annan í stað þess sem hættir eða hreinlega deyr í embætti, eins og er algengara, því skipað er til lífstíðar. Því hefur fátt annað komist að hjá fjölmiðlum en hvern Obama muni skipa í stað hans. Forystumenn í öldungadeildinni, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, voru fljótir að lýsa því yfir að þeir myndu ekki samþykkja neinn sem Obama myndi tilnefna, en samþykki öldungadeildarinnar þarf til að skipa nýjan dómara. Þetta verður í þriðja sinn sem Obama tilnefnir nýjan dómara og mun nýr dómari hafa mikil áhrif á niðurstöður dómsins, ef við hann bætist annar frjálslyndur vinstri sinnaður dómari. Ef öldungadeildin neitar að samþykkja þann sem Obama tilnefnir, sem engin fordæmi eru fyrir, verður hæstiréttur klofinn í fjölda mála en þar sitja að jafnaði níu dómarar, en eftir fráfall Scalia eru þeir átta. Þegar það gerist gildir niðurstaða neðri dómstigsins og hæstaréttur er þannig lamaður í fjölda ágreiningsmála. Forsetaframbjóðendurnir hafa nú þegar blandað sér af fullum krafti í þessa umræðu.
Í fljótu bragði virðist staðan hjá demókrötum vera að breytast á þann veg að Bernie Sanders sé að ná að byggja upp mikla stemmingu í kringum framboð sitt, sem hann lýsir sem pólitískri byltingu, og virðist fylgi hans rjúka upp með hverri könnuninni. Niðurstöðurnar úr fyrstu tveim ríkjunum, þar sem Sanders jafnaði fyrra og sigraði hið síðara með miklum yfirburðum, hafa sett nýjan tón í kosningabaráttuna. Fyrir örfáum mánuðum hafði Hillary Clinton um 30 prósentustiga forskot en það er komið niður í 5-15 prósentustig. Hjá repúblikönum er styrkur Trump í könnunum mjög afgerandi í flestum ríkjum, sem og á landsvísu, en þar mælist hann með 10-30 prósentustiga mun, mismunandi eftir könnunum. Það sem hins vegar eykur á óvissuna er að kannanir hafa ekki verið mjög góðar í að spá fyrir um niðurstöður kosninganna. Sérstaklega átti það við í Iowa forvalinu. Ástæðan er sú að þar er kosningafyrirkomulagið svokallaðir kjörfundir (e. Caucus) þar sem fólk kemur saman í stórum sölum víðsvegar um ríkið og raðar sér saman í hópa eftir því hvern þau ætla að kjósa, auk þess sem óskráðir kjósendur geta skráð sig til að kjósa á kjördag. Erfitt hefur reynst að spá fyrir um slíkar niðurstöður og nú á laugardag munu demókratar einmitt velja á milli Clinton og Sanders með þessari aðferð.
Nevada er næst
Í Nevada búa tæpar þrjár milljónir manna og ólíkt Iowa og New Hampshire er samsetning íbúa fjölbreyttari, en kjósendur af öðrum kynþætti en hvítum eru 39,4% af kjósendum í ríkinu. Þar af eru þeir sem eru af asískum uppruna 11% og þeir sem ættaðir eru frá Rómönsku-Ameríku um 21% kjósenda. Demókratar hafa notið stuðnings fólks af öðrum kynþætti en hvítum í miklum meirihluta, sérstaklega í forsetakosningum síðustu áratugi.
Innflytjendamál skipta marga kjósendur miklu máli. Bæði Clinton og Sanders vilja setja lög sem tryggja ólöglegum innflytjendum, sem eru rúmlega 11 milljónir í Bandaríkjunum, leið til að sækja um ríkisborgararétt á löglegan hátt án þess að þurfa að fara úr landi. Á repúblikanahliðinni er töluvert annað upp á teningnum, en digurbarkalegast talar Trump sem vill hreinlega láta henda öllum ólöglegum innflytjendum út úr landinu og vill láta reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til að halda innflytjendum frá. Til viðbótar vill hann banna múslimum að koma til landsins.
Kjósendur í Nevada hafa gegnum tíðina kosið bæði demókrata og repúblikana sem forseta, þó sögulega hafi þeir verið hliðhollari repúblikönum. Nevada hefur kosið þann sigurvegarann í forsetakosningum nær óslitið síðan 1972, aðeins með einni undantekningu. Kjósendur í Nevada eru um 1,2 milljón, þar af eru 471 þúsund skráðir demókratar og um 423 þúsund skráðir repúblikanar, restin er svo óháð. Árið 2012 sigraði Obama með 531 þúsund atkvæðum á móti 463 þúsund sem Mitt Romney hlaut. Af þeim 17 sýslum (counties) sem eru í Nevada eru vann þó Obama aðeins í tveim, en þær eru langfjölmennastar: Clark þar sem borgin Las Vegas er og í Washoe, sem borgin Reno tilheyrir og dugar sigur í þessum tveim sýslum til að sigra ríkið í heild.
Fáar góðar kannanir hafa verið gerðar þar sem líklegir þátttakendur í kjörfundi demókrata hafa verið spurðir um afstöðu sína um Sanders og Clinton. Ein könnun var tekin í lok desember og sýndi hún Hillary með 23 prósentustiga forskot. Ný könnun sem tekin var fyrstu vikuna í febrúar sýnir hins vegar algjört jafntefli milli þeirra, með 45% hvort um sig.
Hjá repúblikönum í Nevada trónir Trump á toppnum með tæp 40% og tuttugu prósentustigum neðar er Cruz með 20,6%. Cruz er enn að glíma við efasemdafræ sem Trump hefur verið að dreifa um að vegna þess að hann sé fæddur í Kanada sé hann ekki gjaldgengur frambjóðandi. Báðir foreldrar Cruz voru bandarískir ríkisborgarar á þessum tíma en nú hefur dómstóll í Chicago tekið málið upp og ætlar sér að dæma um hvort framboðið sé lögmætt. Stjórnarskrá Bandaríkjanna talar um að frambjóðendur þurfi að vera „natural born citizen“, sem lögskýrendur deila um hvað þýði í raun og veru.
Rubio fylgir fast á hæla Cruz í könnunum með 19%, Kasich, Carson og Bush eru svo með eins stafs tölu hver. Kosið verður næsta þriðjudag.
Súperkjörmenn?
Margir klóruðu sér í kollinum þegar í ljós kom að þrátt fyrir stórsigur Sanders á Clinton í New Hampshire var lítill munur á svokölluðum „kjörmönnum“ sem þau fengu. Þetta skýrist af því að kerfið í forvali flokkanna byggist á afar sérkennilegum reglum. Hvert ríki hefur fjölda kjörmanna í hlutfalli við fjölda íbúa (í raun í hlutfalli við fjölda þingmanna í fulltrúadeildinni, en sú tala helst í hendur við fjölda íbúa auk tveggja öldungadeildafulltrúa). Hjá demókrötum fá frambjóðendur svo kjörmenn í hlutfalli við atkvæðafjölda í hverju ríki. Kjörmennirnir eru svo taldir á landsfundi flokksins sem haldinn verður í sumar. Við þetta bætist svo hið sérkennilega kerfi súperkjörmanna (e. Superdelegates) en það eru kjörmenn sem eru fyrrverandi eða núverandi kjörnir fulltrúar fyrir flokkinn í hverju ríki, sem ákveða hvern þau ætla að styðja og ákvarða þau um einn sjötta af heildaratkvæðamagninu. Þessir aðilar eru því sjálfkjörnir fulltrúar á landsfund flokksins og skila atkvæði sínu þar. Eins og staðan er núna hefur Hillary tryggt sér yfirlýstan stuðning 424 af 712 atkvæðum súperkjörmannana en Sanders aðeins 14. Það er óalgengt að súperkjörmenn skipti um skoðun en þeir hafa fullan rétt á því.
Þetta gerir það að verkum að ef Sanders ætlar að sigra Hillary verður hann að vinna upp þetta forskot Hillary til að fá útnefningu demókrata.
Svikabrögð í Suður Karólínu
Á hinum endanum á landinu verður kosið í forvali repúblikana í Suður-Karólínu. Þar er spennan öllu minni, en tölfræðispekúlantinn Nate Silver spáir því með 70% vissu að Trump sigri. Kannanir hafa sýnt sterkan stuðning við framboð Trumps í ríkinu síðan í byrjun síðasta sumars og mælist hann nú með 36% fylgi, Cruz mælist með næstmesta stuðninginn eða 17% og fast á hæla hans er svo Rubio með 14%. Hann nýtur stuðnings ríkisstjóra Suður-Karólínu. Svo eru þeir Bush og Kasich með sitt hvor 10 prósentin, Carson rekur svo lestina með 5%.
Kjósendur repúblikana í Suður-Karólínu eru að miklum meirihluta trúaðir evangelistar og eru í takt við það mjög íhaldssamir í skoðunum sínum. Þeir eru á móti rétti kvenna til fóstureyðinga, gegn hjónabandi samkynhneigðra, vilja lítil afskipti ríkisins af samfélaginu og svo framvegis. Árið 2012 kusu þeir Newt Gringrich í prófkjöri repúblikana og John McCain árið 2008. Í þrígang hefur ríkið kosið Bush feðga. Í gegnum tíðina hefur ríkið þótt mikilvægt í forvali repúblikana, sem eitt af fyrstu ríkjunum þar sem kosið er, og hafa skítatrixin sem stunduð eru þótt einkenna þá miklu spennu sem þar ríkir.
Árið 2000 fengu kjósendur sem dæmi upphringingar þar sem sagt var frá því að John McCain hefði átt barn utan hjónabands með þeldökkri konu. Það reyndist ósatt. Árið 2007 fengu kjósendur svo jólakort þar sem sagt var frá því að Mitt Romney, sem er mormóni, væri hlynntur fjölkvæni. Það reyndist ósatt líka. Nú segir Trump að Cruz hafi látið hringja í þúsundir kjósenda til að segja þeim að Trump sé ekki í framboði í Suður Karólínu, sem er líka hin argasta della. Vegna þess hversu algeng svona svikabrögð eru hafa kjósendur brugðið á það ráð að búa til app þar sem hægt er að tilkynna um vafasamar aðferðir frambjóðenda og fá það staðfest hvað er í raun rétt og hvað ekki. Í appinu má líka finna yfirlit yfir það sem kjósendur tilkynna inn og er það vægast satt áhugaverð lesning. Fyrir áhugusama er hægt að sækja appið hér.
Trump hélt þessari hefð að beita bolabrögðum þegar hann nýtti sér mistök framboðs Jeb Bush, sem gleymdi að endurnýja lén framboðsins. Trump keypti lénið og ef maður fer á www.jebbush.com flyst maður beint á heimasíðu Trump framboðsins. Næstum því öll Bush fjölskyldan hefur fengið það óþvegið frá Trump þessa vikuna en í byrjun vikunnar sagði hann George W. Bush hefði logið að þjóðinni til að geta farið í stríð. Þrátt fyrir að Bush yngri hafi orðið mjög óvinsæll við lok forsetatíð sinnar þykir það nokkuð áhættusamt fyrir frambjóðanda repúblikana að hjóla í Bush í því ríki sem hann og hans fjölskylda hafa notið einna mests stuðnings frá, en fjölskylda Jebs er einmitt farin að mæta honum til stuðnings dag eftir dag á baráttufundi.
En allt kemur fyrir ekki og virðist þetta hafa haft lítil áhrif á vinsældir hans ef marka má kannanir. Til að bæta gráu ofan á svart greip Trump á fimmtudag orð páfans í Róm um að þeir stjórnmálamenn sem einblíndu á að byggja múra en ekki brýr væru ekki kristilegir, á lofti og sagði páfann smánarlegan. Menn velta fyrir sér hvort þetta sé líklegt til að hreyfa við hinu mjög svo íhaldsama kristilega fylgi í Suður Karólínu. Það kemur væntanlega í ljós á kjördag, í dag.
Enn er öll athygli demókrata í Nevada enda sögulega hafa kjósendur í Suður-Karólínu verið hliðhollari repúblikönum en demókrötum. En samkvæmt nýjustu könnunum virðist Clinton hafa öruggt forskot á Sanders en meðaltal síðustu kannana sýna að Hillary hafi 57,2% stuðning líklegra kjósenda í forvali demókrata, en Sanders 32,4%. Kosið verður hjá demókrötum í Suður-Karólínu laugardaginn 27 febrúar nk.
% | Trump | Rubio | Cruz |
---|---|---|---|
Clinton | 47 / 42,3 | 43,3 / 47,2 | 45,8 / 46 |
Sanders | 49,7 / 40 | 43 / 44 | 45 / 42 |
Miðað við allt og allt, hver er líklegastur til að vinna?
Eins og sagan hefur sýnt er erfitt að treysta því að sá sem virðist vera líklegastur til að vinna útnefningarnar svona snemma í forkosningunum vinni á endanum. Fólk skiptir um skoðun, leyndarmál dúkka upp í fjölmiðlum, gamlar greinar og ummæli valda titringi. Mikil eða lítil kjörsókn getur einnig haft afgerandi áhrif á niðurstöður kosninga. Það er því jafn áreiðanlegt að reikna sig niður á líklegasta sigurvegarann miðað við forsendurnar sem nú liggja fyrir og að fá konu með slæðu á höfðinu og spákúlu til að segja okkur hver vinni á endanum. En til gamans verður hér gerð tilraun til að spá í þau spil sem liggja á borðinu:
Þegar staðan er skoðuð núna út frá forsetakosningunum sjálfum, sem haldnar verða í byrjun nóvember á þessu ári, þegar flokkarnir hafa valið sinn fulltrúa, geta margir þættir haft áhrif á niðurstöðuna. Miðað við síðustu tvennar forsetakosningar eru níu ríki sem hægt er að flokka sem sveifluríki (e. swing state), sem þýðir að þessi ríki geta fallið í hendur hvors flokksins og ekkert öruggt í þeim málum. Kosningakerfið í Bandaríkjunum byggist sem fyrr segir á svokölluðu kjörmannakerfi. Það þýðir að hvert ríki fær úthlutuðum ákveðnum fjölda kjörmanna í takt við íbúafjölda í ríkinu. Kjörmennirnir virka svo í raun eins og atkvæði, nema að sá frambjóðandi sem vinnur meirihluta atkvæða, fær alla kjörmenn ríkisins. Sá sem nær svo fleiri en 270 kjörmönnum á landsvísu hefur sigrað kosningarnar.
Sveifluríki | Kjördagur | Fjöldi kjörmanna |
Nevada | 20. feb & 23. feb | 6 |
Colorado | 1. mars | 9 |
Iowa | 1. feb | 6 |
Wisconsin | 5. apríl | 10 |
Ohio | 15. mars | 18 |
Pennsylvania | 26. apríl | 20 |
Virginia | 1. mars | 13 |
Norður-Karólína | 15. mars | 15 |
Flórída | 15. mars | 29 |
New Hampshire | 9. febrúar | 4 |
Í pottinum | 130 |
Miðað við hvernig staðan er í dag er talið líklegt, út frá því hvaða ríki eru örugg að kjósa annan flokkinn, að demókratar hafi örugga 217 kjörmenn en repúblikanar 191. Það þýðir að 130 kjörmenn eru í pottinum. Sé þetta rétt þyrftu demókratar að bæta við sig 53 kjörmönnum en repúblikanar 79. Eins og áður sagði fer það eftir stærð ríkjanna hvert magn kjörmanna er. Þannig eru stór ríki eins og Flórída með 29 kjörmenn en New Hampshire aðeins með 6. Þessi ríki virðast eins og kannanir líta út núna ætla að kjósa Hillary Clinton sem fulltrúa demókrata, eða í 7 af 9 tilfellum, og Donald Trump sem fulltrúa repúblikana, eða í 8 af 9 tilfellum. Verði þetta niðurstaðan er áhugavert að skoða hvað kannanir segja um hvorn kandídatinn þau myndu velja ef þau tvö væru í framboði.
Hér er mjög mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að þær kannanir eru gerðar á landsvísu og mjög margir óvissuþættir ekki mældir, en til gamans þá er áhugavert að skoða þetta. Nýjustu kannanir sýna að sé fólk spurt hvort það myndi kjósa Clinton eða Trump kemur í ljós að 47% segjast myndu kjósa Hillary en 42% myndu kjósa Trump. Ef demókratar myndu hins vegar velja Sanders sem sinn fulltrúa virðast landsmenn enn líklegri til að kjósa demókrata umfram repúblikana með Trump sem þeirra fulltrúa, þá skilja tæp tíu prósentustig frambjóðendur að samkvæmt nýjustu könnun.
Kosið verður í forvölum flokkanna næstu mánuðina. Flest þessara mikilvægu ríkja sem geta sveiflast í báðar áttir kjósa í mars en það síðasta í lok apríl. Eftir að þau hafa kosið verður myndin orðin skýrari.