Fréttaskýring#Bandaríkin#Stjórnmál
Malt og appelsín á krana á ameríska vísu
Hillary Clinton er líklegust til að verða forseti Bandaríkjanna núna áður en forvali stóru flokkanna er lokið. Bryndís Ísfold, útsendari Kjarnans í Bandaríkjunum, var viðstödd framboðsfund Clinton í New York þar sem þakið ætlaði að rifna af húsinu.
„Secret service“ stóð feitletrað framan á skothelda vesti öryggisgæslumanna í Jacob Javits-ráðstefnuhöllinni, þar sem Hillary Clinton hélt fund með stuðningsmönnum. Það var miðvikudagur eftir súper-þriðjudag og hún var mætt í sitt heimaríki til að ávarpa stuðningsmenn, sjö ríkjum ríkari eftir góðan sigur á þriðjudag. Á meðan verið var að róta í töskunni minni með vasaljósi, gekk ég andspænis fleiri aðilum leyniþjónustunnar. Þessir voru klæddir í ódýr jakkaföt og úr hálskraganum lág hvít hringlaga snúra upp eftir hálsinum og bak við eyrað. Þeir voru þrír og stóðu þarna eins og varnarmenn í fótbolta, tilbúnir að verja sig um miðjuna ef boltinn skyldi óvart rata þangað. Skimandi í allar áttir.
Þegar ég gekk framhjá reyndi ég að gera upp við mig hvort grunsamlegra væri að forðast augnsamband eða horfa þráðbeint í augun á þeim. Ekki hafði ég nokkuð að fela, nema kannski þá staðreynd að ég var þarna á fölskum forsendum, ég hafði ekki einu sinni kosningarétt í landinu, sem líklega fór framhjá framboðinu þegar þau buðu mér sérstaklega á þennan viðburð.
Eftir kjörfundi í tólf ríkjum á súper-þriðjudegi og fimm ríkjum síðastliðinn laugardag er Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, með töluverða yfirburði fram yfir Bernie Sanders öldungadeildarþingmanninn frá Vermont. Ef talin eru með þau atkvæði sem elíta flokksins mun greiða og hefur lofað öðrum hvorum frambjóðandanum á flokksþinginu í júní þá hefur hún 1121 atkvæði en Sanders 481. Án atkvæða elítunnar er Hillary með 663 atkvæði og Sanders 459 atkvæði. Það er því ljóst að það er á brattann að sækja fyrir Sanders ef hann ætlar að sigra Hillary, en alls ekki útilokað.
Hjá repúblikönunum hefur Cruz náð að minnka forystu Trumps sem hefur nú 382 atkvæði eða kjörmenn en Cruz 300. Lestina reka svo þeir Rubio með 128 og Kasich með 35. Sigur Cruz í Texas á þriðjudag, þar sem hann fékk 102 kjörmenn og sigur hans á tveimur ríkjum á laugardag hefur styrkt stöðu hans til muna. Eftir þessa hrinu forvala er ljóst að Rubio á litla sem enga möguleika á útnefningunni en hann hefur, bæði leynt og ljóst, verið vonastjarna forystu flokksins. Þó erfitt sé að segja að hann sé hófsamur í skoðunum hefur hann þó verið talinn líklegri til að ná til miðjunnar. Sem dæmi má nefna að Rubio er, líkt og Cruz og Trump, á móti öllum frekari takmörkunum á byssueign, hefur efasemdir um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum, vill ekki hleypa sýrlenskum flóttamönnum inn í landið og vilja leggja niður Obamacare, sem veitti milljónum bandaríkjamanna heilbrigðistryggingu á síðasta ári.
Cruz er nátengdur svokallaðri teboðshreyfingu og talar mikið um Guð og trú sína í ræðum. Stundum hljómar hann meira eins og predikari í kirkju en frambjóðandi. En Cruz á ekki langt að sækja þessa takta því Rafael Cruz faðir hans, sem einnig er innflytjandi frá Kúbu, er einmitt prestur í kirkju í Dallas, Texas.
Heyra mátti í kappræðum repúblikana að allir frambjóðendur ákalla Guð sér til hjálpar til að fá til liðs við sig fleiri kjósendur. Eini frambjóðandinn sem er líklegur til að tala um allt annað líka er svo Trump, sem lét þau ummæli falla að menn ættu að spá í stærðina á höndunum á sér og gætu þar af leiðandi verið fullvissir um að aðrir líkamspartar væru í stærra lagi líka...
Þrátt fyrir að Trump hafi haldið athygli fjölmiðla með gríni og glensi héldu þeir Rubio og Cruz áfram að sækja að Trump með bærilegum árangri.
Þegar búið var að skanna mig fram og til baka var mér hleypt inn í salinn þar sem smærra svæði innan hans var afmarkað með himinháum fánum, sem teygðu sig úr lofti niður á gólf. Fyrir miðju salarins var lítið svið með púlti á. Á móti púltinu og til hliðar við það voru svo raðir sjónvarpsmyndavéla og ljósmyndarar sátu þétt í neðri röðum bekkjanna og munduðu löngu linsurnar sínar. Fyrir aftan sviðið röðuðu verkalýðshreyfingarnar sér upp í hópum, undir borða sem á stóð „Smiðir fyrir Hillary“ og álíka. Þar voru sterklega vaxnir menn á öllum aldri í rykugum þykkum úlpum, í Caterpillar skóm, með öryggishálma á höfðinu. Hér var engin einsleitni. Hægra megin í salnum var viðskiptafólkið mætt í Armani-jakkfötum og drögtum, fólk af öllum mögulegum uppruna. Eina sem hefði mátt vera meira af var ungt fólk. Það var því líklega sökum „æsku minnar“, sem slær fjóra tugi að ári, að fékk ég úthlutað sæti á besta stað í salnum, sem einnig var þráðbeint fyrir framan myndavélarnar.
Þeldökk kona á níræðisaldri með fallegan fjöðurnældan hatt sat fyrir framan mig og hrópaði reglulega fallega undirtóna með suðurríkjahreim þegar leið á dagskránna: „Aha“, „I say“, “Let them hear it!“.
Það er ekki ofsögum sagt að Hillary nýtur mikils stuðnings meðal svartra kjósenda um allt landið. Á þriðjudaginn síðasta fékk hún mikinn meirihluta atkvæða svartra kjósenda. Stuðningur um 90 prósent stuðningur svartra er mikilvægur á stöðum eins og í Suður-Karólínu þar sem um 55 prósent kjósenda eru svartir. Í þeim ríkjum sem kosið hefur verið nú þegar nýtur hún í flestum tilfellum um 70-95 prósent stuðnings svartra kjósenda, en þeir eru í heildina 12,4 prósent þeirra sem mega kjósa.
Fólk af rómansk-amerískum uppruna með kosningarétt hefur aldrei verið fleira en nú, eða um 27 milljónir eða 11,9 prósent. Það sem er sérstaklega áhugavert við þennan hóp er að 44 prósent þeirra eru fædd eftir 1980. Þessi ungi hópur er síður líklegur til að skrá sig til að kjósa en þeir sem eldri eru. Engu að síður eru áhrif þeirra mikil; Demókratar njóta frekar stuðnings kjósenda af rómansk-amerískum uppruna. Hins vegar, ef Cruz verður frambjóðandi repúblikana, gæti það haft áhrif því hann er sonur innflytjanda frá Kúbu. Fái Trump útnefninguna er ólíklegt að þetta fylgi rati til repúblikana en Trump hefur skapað sér mikla óvild í þessum hóp í kjölfar árása hans á ólöglega innflytjendur og tali um að vísa þeim öllum úr landi.
Allt þetta tal um kjósendur sem hafa rétt til að kjósa en ekki einfaldlega að tala um kjósendur eins og gert er þegar fjallað er um sambærileg mál á Íslandi er vegna tveggja þátta. Annars vegar þarf í flestum ríkjum Bandaríkjanna að skrá sig til að kjósa. Það er æði mismunandi hvenær það þarf að vera búið að skrá sig og hvaða skilríki þarf að sýna til að sanna tilvist sína. Flækjustigið dregur verulega úr því að fólk skráir sig. Eru það sértaklega ómenntaðir, fátæktir og innflytjendur sem hverfa úr skráningarferlinu. Kjörsókn er hins vegar almennt mjög léleg í Bandaríkjunum; aðeins um fjórðungur kýs í kosningum til þings og þegar forsetakosningar eru mjög spennandi kýs um það bil helmingur kjósenda.
Þegar uppruni kjósenda er skoðaður og hlutfall þeirra sem mögulegir kjósendur kemur í ljós að svartir kjósendur mæta best á kjörstað eða 66,6 prósent þeirra. Næst eru kjósendur með hvítan hörundslit, sem mæta í 64,1 prósent tilfella, en fólk af rómansk-amerískum og asískum uppruna mæta í 48 prósent tilfella.
Upptakturinn fyrir stjörnu dagsins var magnaður og það má með sanni segja að það er ekki til sá landsfundur á Íslandi fyrr né síðar sem nær með tærnar þar sem kaninn hefur hælana í að halda uppi stemmingu á svona kosningafundum. Tilfinningin var dáítið eins og Björk, Helga Möller, Bubbi og Pálmi Gunnars stæðu og öskruðu öll í einu „eru ekki allir í stuði“ þúsund sinnum á meðan íslenska handboltaliðið stýrði veifum á Laugardalvellinum, Laxness læsi Sjálfstætt fólk yfir hópnum og þjóðsöngnum væri blastað í bakgrunni. Stórir skjáir með myndum af smábörnum og Gullfoss til skiptis. Kandíflos og SS pylsur, malt og appelsín á krana, fánaborðar í ljós fléttuðu hárinu. Hver myndi ekki dilla sér með í þannig fjöri?
Svona viðburðir eru nánast daglegt brauð hjá öllum foresetaframbjóðendunum og því líklegt að þau sé orðin ansi vön að skapa ógleymanlega stemmingu. En eitthvað kostar að halda svona viðburði, þó mest allur peningur frambjóðendanna fari að jafnaði í auglýsingar, þarf mikla fjármuni til að keyra svona kosningabaráttu, dag eftir dag.
Vefurinn Open Secrets heldur úti yfirliti yfir fjársöfnun frambjóðendanna með mikilli nákvæmni. Á vefnum má sjá að Hillary Clinton er búin að brjóta enn eitt glerþakið því hún hefur safnað mest allra frambjóðenda, eða því sem nemur um 17 milljörðum íslenskra króna sem samsvarar 130 milljón dollurum. Næstur á eftir kemur Sanders með um 96 milljónir dollara, Ted Cruz hefur safnað um 54 milljónum dollara, Rubio 34 milljónum, Trump 25 milljónum (sem hann hefur að mestu tekið úr eigin vasa) og Kasich rekur lestina með átta og hálfa milljón dollara. Eru þá ekki með taldar þær 147 milljónir dollara sem safnað hefur verið fyrir frambjóðendurna í gegnum svokölluð stuðningsfélög eða PACs.
Þar hefur Hillary einnig vinninginn með 57 milljón dollara en Sanders er aðeins með 45 þúsund dollara. Repúblikana megin njóta bæði Cruz og Rubio veglegs stuðnings en Trump fær þar aðeins tæplega tvær milljónir dollara.
Hjá Sanders er mest um smáa styrki að ræða og þar sker hann sig úr hópnum því langflestir sem styðja hann eru einstaklingar með smáar upphæðir. Þannig fékk hann 70 prósent af styrkjum sínum. Hillary sækir aðeins 28 prósent styrkja til smárra upphæða. Hún er einnig eini frambjóðandinn sem nýtur jafns fjárhagsstuðnings frá konum og körlum, allir hinir frambjóðendurnir eru studdir fjárhagslega að mestu af körlum.
Sá hópur sem er svo líklegastur til að gefa peninga til frambjóðenda eru þeir sem eru hættir að vinna og komnir á eftirlaun, fjárfestar og svo fasteignasalar en þaðan koma flestir stuðningsmenn Cruz.
Þegar leikarinn John Leguizamo, sem sumir þekkja sem rödd Sid úr Ísöldinni og Benny Blanco úr Carlito´s Way, var búinn að halda sína ræðu rak hver verkalýðshetjan aðra. Vinsælasti borgarfulltrúinn hélt ræðu, kynnti svo borgarstjórann sem hélt ræðu og kynnti svo talsmann réttinda borgarbúa sem kynnti svo ríkisstjórann sem hélt ræðu og kynnti svo unga konu úr Bronx hverfi sem hafði verið hálf-ættleidd af Hillary fyrir ríflega áratug þegar móðir hennar sem þá var einstæði kynntist Hillary. Þannig lauk tveggja tíma upphitun fyrir „næsta forseta hins frjálsa heims“ eins og unga fósturdóttirin orðaði það. Allt með undirleik mestu stuðtónlistar fyrr og síðar.
Þið skiljið hvers vegna ég var allt í einu farin að klappa og syngja og hrópa eins og innfædd áður en ég vissi af. Ég lét fánann sem mér var réttur reyndar hverfa ofan í tösku. Þegar þjóðsöngurinn var svo sunginn létu allir hendina yfir hjartað á sér, réttu úr bakinu og horfðu opinminntir þráðbeint fram eins og vélmenni. Ég stóð eins og álka, hendurnar á mér virtust allt í einu eins og illa gerðir hlutir og ég var sannfærð um að nú kæmist upp um leyndarmálið mitt. Eins og ofdekraður unglingur í uppreisn stakk ég höndunum í vasann og starði þráðbeint á myndavélahafið andspænis mér. Nú var ég viss um að ég yrði dregin út af leyniþjónustunni. Það var bara þarna sem ég gat ekki leikið hlutverkið til fullustu, ekki vildi ég eiga hættu á að bera ábyrgð á því að Jón Sigurðsson myndi snúa sér í gröfinni.
Svo var hún mætt, forsetafrúin fyrrverandi, öldungadeildarþingmaðurinn og utanríkisráðherrann, 68 ára og mögulega bara rétt að byrja. Þakið ætlaði bókstaflega af húsinu og hljóðhimnan á mér ýlfraði yfir látunum. Veifandi gekk hún upp á sviðið og faðmaði að sér fósturdótturina frá Bronx og hóf ræðu sína. Það verður að segjast eins og er að þessi ræða var bæði efnismikil og ein af þeim betri sem undirrituð hefur séð, en vel má vera að áhrif upphitunarinnar hafi haft áhrif á dómgreindina.
Markverðast í ræðunni var áherslan á lágmarkslaun, að það yrði tryggt að allir í landinu fengju að lágmarki 15 dollara á tímann, að allir sem ynnu fulla vinnu gætu lifað sómasamlegu lífi, en í dag býr stór hluti þjóðarinnar við mikinn efnahagslegan skort. Áhersla á að halda áfram að byggja ofan á heilbryggðistryggjakerfið sem Obama setti á, tekið yrði á lögregluofbeldi gegn svörtum íbúum, launamunur kynjanna tæklaður og stuðningur við ríkin sem vilja tryggja leikskólapláss fyrir öll börn 4 ára og eldri og fleira. Hún eyddi dálítum tíma í að gagnrýna andstæðinga sína en sagði ekki styggðaryrði um meðframbjóðandann sinn, Bernie Sanders. Það var alveg ljóst að það fór ekki ein manneskja út úr þessum sal án þess að vera fullviss um að þetta væri næsti forseti Bandaríkjanna.
Eins og kannanir líta út í dag er það einmitt líklegast að Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna en þó er alls ekki útséð með það. Nokkrir þættir eru taldir geta breytt þessu. Í fyrsta lagi er það kjörsókn í forvölum repúblikana sem hefur verið sögulega há í mörgum fylkjum á meðan kjörsókn hefur verið í lakara lagi hjá demókrötum. Þetta er rakið til þess að Trump virðist ná til fólks sem að jafnaði tekur ekki mikinn þátt í kosningum, í það minnsta ekki í forvölum flokkanna. Fylgi þessi ákafi stuðningur Trump í kosningarnar sjálfar, fái Trump útnefningu flokksins, er erfitt að spá fyrir um niðurstöðuna. En eins og áður kom fram kýs einungis um helmingur þeirra sem hafa rétt til að kjósa. En það gæti verið skekkja í könnunum sem mæla afstöðu fólks því skoðanakannanirnar eru flestar gerðar meðal fólks sem hefur lagt í vana sinn að kjósa.
Enn aðrir benda á að sá mikli stuðningur sem Sanders nýtur sé svo mikill meðal yngri kjósenda en þeir skila sér síður á kjörstað. Á sama tíma er stuðningur Hillary meiri meðal kvenna og eldri kjósenda sem skila sér betur á kjörstað en aðrir. Þyngst vegur að Hillary hefur ríkan stuðning meðal svartra og rómansk-amerísk ættaðra auk hvítra, sem aðrir frambjóðendur hafa ekki náð að krækja í. Þá benda stjórnmálaskýrendur ítrekað á að Hillary sé sá frambjóðandi sem hefur mátt þola mest mótlæti í þau ríflega 20 ár sem hún hefur verið í deiglunni. Þrátt fyrir það nýtur hún mikilla vinsælda og því sé hún líkleg til að geta þolað vel hvað sem verður dregið upp gegn henni í kosingunum sjálfum.
Þegar búið var að klappa og stappa yfir ræðu Hillary í dágóðan hálftíma var stjórnmálaelíta New York-ríkis komin upp á svið. Þegar loks var búið að hylla þau öll með viðeigandi hrópum, sem sessunautur minn tók virkan þátt í þó hún væri orðin of þreytt til að standa, var þessu lokið. Myndavélunum var pakkað ofan í tösku og farið var að brjóta saman stólana og rífa niður borðana.
En sumir sýndu ekkert á sér farasnið og stóðu meðfram girðingu sem afmarkaði sviðið. Ég tók mér stöðu og ákvað að fylgjast með. Flestum að óvörum gekk frambjóðandinn hægum skrefum meðfram hópnum, tók allar þær „selfies“ sem óskað var eftir, spjallaði og var hin allra rólegasta. Fyrir framan hana þræddi leyniþjónustan hópinn með rannsakandi augum, Robin Mook, 37 ára kosningastjóri framboðsins, gekk um gólf í krumpuðum fötum og dálítið úfinn. Djúpt sokkinn ofan í símtal á milli þess sem hann leit upp rannsakandi í kringum sig og gróf sig svo ofaní samtalið á ný. Huma Abedin, sérleg hægri hönd Hillary til margra ára, gekk um og heilsaði fólki pollróleg og skælbrosandi með eldrauðan varalit og í pinnháum hælum. Það var áhugavert að hlusta á frambjóðandann ræða málin í rólegheitunum og gefa sér tíma til að kyssa smábörn og árita bækur eins og hún hefði allan tímann í heiminum.
Þegar hálftími var liðinn og mér farið að leiðast, hélt ég að þessu færi nú að ljúka, en þá átti hún eftir að þræða helminginn af hópnum og það var ekki fyrr en því var lokið, rúmum klukkutíma síðar, sem hún fór loks baksviðs. Á útleið blasti svo við löng röð þar sem fyrirmenni borgarinnar biðu eftir því að komast baksviðs til að heilsa líka upp á Hillary. Þegar frostið mætti mér úti í myrkrinu huggaði ég mig við það að í þetta sinn var það þó sauðsvartur almúginn fékk að hitta frambjóðandann fyrst. Það var þó ljóst að allir sem gengu út eftir þennan fund, jafnvel þeir sem engan kosningaréttinn hafa, voru orðnir harðir stuðningsmenn Hillary Clinton.