Íslam
á Íslandi

Sádí-Arabía greindi frá því fyrir ári síðan að landið hefði áhuga á að styrkja byggingu mosku í Reykjavík. Forseti Íslands hefur m.a. sagt að honum þyki það óæskilegt en engar reglur eða viðmið eru um slíkar styrkveitingar á Íslandi. En er Sádí-Arabía að reyna að hafa áhrif á hugmyndir múslima á Íslandi?

Þann 5. mars 2015 afhenti nýr sendiherra Sádi-Arabíu í Stokkhólmi, Ibrahim S.I. Alibrahim, trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum á fundi með forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, en hann er einnig sendiherra gangvart Íslandi. Á fundinum gat Alibrahim þess að Sádí-Arabía hyggðist styrkja byggingu mosku í Reykjavík og jafnframt að hann hefði skoðað land í Sogamýri sem úthlutað hefur verið til moskubyggingar í Reykjavík. 

Forsetaembættið sagði frá heimsókninni á vef sínum og allir helstu fjölmðilar á Íslandi tóku málið upp. Margir höfðu af þessu nokkrar áhyggjur, ekki síst í ljósi þess að stutt var síðan hryðjuverkaárásir voru gerðar í París og Kaupmannahöfn og hætta á hryðjuverkum á Íslandi hafði farið úr því að vera talin í lítil í að teljast í að vera í meðallagi. Íslam í Evrópu var í eldlínunni. 

Ekki löngu eftir heimsókn Ibrahim S.I. Alibrahim lét forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, þau orð falla í viðtölum við fjölmiðla að hann teldi óæskilegt að þiggja fé frá Sádí-Arabíu og að breyta þyrfti umræðunni og nálgun Íslendinga á það verkefni að finna íslam farveg á Íslandi. Í viðtali við Bítið á Bylgjunni þann 17. nóvember 2015 sagði forsetinn m.a.: „Þessi ákvörðun erlends ríkis að fara að skipta sér af trúarbrögðum á Íslandi á sama hátt og það hefur gert vítt og breytt um veröldina, fjármagnað skóla þar sem öfgakennt islam er ræktað, og ungir karlmenn aldir upp í þeim viðhorfum, er það áminning til okkar Íslendinga að við verðum að hefja nýja umræðu.“

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ásamt Ibrahim S.I. Alibrahim, sendiherra Sádí-Arabíu, á Bessastöðum.

Á því ári sem liðið er síðan Ibrahim S.I. Alibrahim tilkynnti um fjárframlög Sádí-Arabíu til múslima á Íslandi hefur málið orðið flóknara frekar en skýrara. Ekki einvörðungu hefur tortryggni í garð múslima á Íslandi vegna málsins færst í aukana heldur hefur einnig borið á auknum átökum milli múslima á Íslandi í kjölfar peningagjafarinnar. Það eina sem almennt virðist ríkja nokkur sátt um á Íslandi er að framlagið frá Sádí-Arabíu séu nokkurs konar blóðpeningar og til þess ætlaðir að hafa óeðlileg áhrif á þróun íslam á Íslandi. Til þess að kanna forsendur, markmið og afstöðu yfirvalda í Sádí-Arabíu til málsins fékkst samþykki sendiráðs Sádí-Arabíu í Stokkhólmi til þess að svara nokkrum spurningum sem málið varða. Hér á eftir fer umfjöllun sem byggir á svörum sendiráðsins. 

Sænskir múslimar á Íslandi

Ekki lá jóst fyrir í upphafi hverjir hefðu fengið fjármagninu úthlutað. Síðar kom í ljós að það rann til Stofnunar múslima á Íslandi. Svo virðist þó sem það sé ekki alls kostar rétt, því móðurfélag stofnunarinnar The Scandinavian Islamic foundation er sagt móttakandi styrksins í svörum frá sendiráðinu. Stofnun múslima er eins konar útibú frá því félagi sem stýrt er frá Svíþjóð. Bæði starfandi trúfélög múslima á Íslandi eru andsnúin starfsemi hins sænska félags og segja óheppilegt að félag sem stýrt er utan frá sé með afskipti af málefnum múslima á Íslandi. 

Í byrjun febrúar rataði deilan milli Stofnunar múslima og Menningaresturs múslima inn í dómssal hjá héraðsdómi Reykjvíkur, en Stofnun múslima krefst þess að Menningarsetri múslima, sem leigir af þeim Ýmishúsið, verði gert að fjarlægja skilti af húsinu þar sem starfsemi leigjendanna, það er að segja rekstur tilbeiðsluhúss eða mosku, samræmist ekki stefnu húseigenda. 

Í frétt á dv.is um málið þann 8. febrúar segir lögfræðingur Stofnunar múslima, Gísli Kr. Björnsson, að skiltið gefi til kynna að moska sé í húsinu og það samræmist ekki reglum Stofnunar múslima, sem sé ekki trúfélag og hafi ekki heimilað uppsetningu skiltisins. Í viðtali við mbl.is tveimur mánuðum áður staðhæfði Karim Aksari, framkvæmdastjóri Stofnunar múslima, hinsvegar að félagið væri trúfélag og framvísaði því til staðfestingar pappírum frá Reykjavíkurborg þess efnis að félagið væri trúfélag og sem slíkt undanþegið fasteignaskatti. 

Samkvæmt skráningu Hagstofunnar er félagið skráð sem sjálfseignarstofnun.  

Í fyrirspurn til sádí-arabíska sendiráðsins var meðal annars spurt á hvaða forsendum Stofnun múslima eða móðurfélag þess hefði fengið styrknum úthlutað. Í svarinu kemur skýrt fram að framlagið var eingöngu ætlað til byggingar mosku á Íslandi. Orðrétt segir í svari sendiráðsins, í þýðingu blaðamanns: „Í tilviki Íslands var fjárframlagið, að upphæð 10.000.0000 Sádí ryials (um 350 milljónir íkr innsk. blaðamanns) í einni greiðslu, rausnarlegt famlag Abudullah konungs sem hafði fengið beiðni um fjárstuðning frá The Scandinavian Islamic foundation (móðurfélag Stofnunar múslima, innsk. blaðamanns) til moskubyggingar í Reykjavík.“ 

Í þessu ljósi hlýtur það að teljast einkennilegt að það samræmist ekki reglum eða stefnu Stofnunar múslima, sem er skráð sem sjálfseignarstofnun en ekki trúfélag á Íslandi, að reka mosku eða tilbeiðsluhús í Ýmishúsinu.

Auk þessa framlags til að byggja mosku á Íslandi fjármagnaði Sádí-Arabía einnig kaup Stofnunar múslima á Ýmishúsinu við Skógarhlíð.

Úthlutuð lóð í Sogamýri

Félag múslima á Íslandi fór þess á leit við borgarstjórn árið 2000 að félaginu yrði úthlutað lóð til byggingar mosku. Lóðinni var ekki úthlutað fyrr en árið 2013 og um leið gert ráð fyrir mosku í nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt heimildum Kjarnans var forsaga styrkveitinga frá Sádí-Arabíu til múslima á Íslandi sú að þegar fréttir bárust af því að Reykjavíkurborg hefði úthlutað landi til moskubyggingar í Sogamýri eftir áralanga baráttu hafi stjórnandi The Scandinavian Islamic foundation, Hussein Aldaoudi, farið í fjármögnunarherferð í Mið Austurlöndum til þess að fjármagna verkefnið, sem kynnt var sem fyrsta moskubyggin í sögu Íslam á Íslandi. Meðal annars hringdi hann inn á útvarpsstöðu sem útvarpar kóransöng í Sádí-Arabíu og óskaði eftir stuðningi við verkefnið. Abdullah konungur var að hlusta á útvarpið og greip hugmyndina á lofti og gaf þær tæpu 350 milljónir sem sendiráðið hafði svo milligöngu um að semja um við Aldaoudi og The Scandinavian Islamic foundation. Viðtalið, sem er á arabísku, má hlusta á hér.

Eini hængurinn á verkefninu var sá, að það var annað félag sem hafði fengið landinu til moskubyggingar úthlutað og hefur styrkveiting því orðið tilefni til ósættis milli múslima á Íslandi. 

Wikileak skjöl og fundur í Sendiráði Sádí-Arabíu

Í júní 2015 voru birt Wikileak-skjöl sem sýndu fram á að múslimar á Íslandi höfðu verið boðaðir til fundar í sendiráð Sádí-Arabíu í Stokkhólmi vegna þessa ósættis.  Á fundinn mættu Salmann Tamimi formaður Félags múslima, Hussein Aldaoudi stjórnandi The Scandinavian Islamic Foundation, Abdul Rahman Mohammed JUDIA, forveri Ibrahim S.I. Alibrahim í embætti sendiherra, sheikh Hassan Mousa, sendiáðsfulltrúi ráðuneytis Sádí-Arabíu sem fer með málefni Íslam og Taher Khawaj starsmaður sendiráðsins að málefnum Íslam. Í fréttum af málinu á sínum tíma í íslenskum fjölmiðlum mátti skilja það sem svo að með þessum fundi hafi sendiráðið haft í frammi tilburði til þess að sameina múslima á Íslandi undir hatt meintra öfgasamtaka, The Scandinavian Islamic Focundation eða Ar Rhisala sem eru samtök sem Hussein Aldaoudi stýrir einnig, í tilraun til þess að ýta undir óæskilega hugmyndafræði múslima á Íslandi. 

Í viðtali við Stundina þremur árum eftir að fundurinn í sendiráðinu fór fram árið 2012 segir Salmann Tamimi að fundurinn hafi farið fram að beiðni íslenskra stjórnvalda og kvaðst jafnframt undrandi á því að stjórnvöld á Íslandi væru að skipta sér af málefnum múslima með þessum hætti.  

Í svörum sendiráðsins, samkvæmt heimildarmanni sem þekkir til málsins í Svíþjóð og samkomulagi sem drög voru lögð að á fundinum og Kjarninn hefur undir höndum, virðist fundurinn sem Wikileak skjölin fjalla um þó hafa verið liður í samstarfi stjórnvalda á Íslandi og senidráðsins til að miðla málum og vinna gegn ágreiningi milli múslima á Íslandi og The Scandinavian Islamic foundation um þau verkefni sem Sádí-Arabía veitti fjármagni til. 

Í samkomlaginu, sem dagsett er 19. september 2012, og er í átta liðum kemur fram að forsenda styrkveitingarinnar hafi verið að múslimar á Íslandi tileinki sér grunnhugmynd íslam um einingu og vinni samstíga og án ágreinings. Áhersla er lögð á samvinnu, milli múslima á Íslandi og múslima við stjórnvöld og samfélagið á Íslandi á víðum grunni. Í samkomulaginu kemur fram að Sádí-Arabía hafi einnig fjármagnað kaup á Ýmishúsinu, sem er í eigu Stofnunar múslima, og hyggist jafnframt styrkja byggingu mosku í Reykjavík á landi sem Félag múslima fékk úthlutað. Þá segir að þar sem múslimasamfélagið sé lítið á íslandi sé ástæðulaust að reka fleiri en eina mosku og því beri að skoða sölu á Ýmishúsinu þegar moska hafi risið í Sogamýrinni. Þó fleiri en eitt trúfélag starfi á Íslandi og þess sé ekki krafist að þau sameinist eða sinni öllum sínum málum sameiginlega ætti að leggja áherslu á samkomulag um trúarstarf í moskunni og allir múslimar á Íslandi ættu að vinna saman og samstíga að farsælli aðlögun íslam að íslensku samfélagi í samvinnu við stjórnvöld í landinu. 

Skýringin er [...] fyrst og fremst sú að stærstur hluti múslima á Íslandi telur óeðlilegt að félag sem stýrt er frá Svíþjóð sé í oddastöðu í múslimasamfélaginu á Íslandi.

Í samkomlaginu, sem dagsett er 19. september 2012, og er í átta liðum kemur fram að forsenda styrkveitingarinnar hafi verið að múslimar á Íslandi tileinki sér grunnhugmynd íslam um einingu og vinni samstíga og án ágreinings. Áhersla er lögð á samvinnu, milli múslima á Íslandi og múslima við stjórnvöld og samfélagið á Íslandi á víðum grunni. Í samkomulaginu kemur fram að Sádí-Arabía hafi einnig fjármagnað kaup á Ýmishúsinu, sem er í eigu Stofnunar múslima, og hyggist jafnframt styrkja byggingu mosku í Reykjavík á landi sem Félag múslima fékk úthlutað. Þá segir að þar sem múslimasamfélagið sé lítið á íslandi sé ástæðulaust að reka fleiri en eina mosku og því beri að skoða sölu á Ýmishúsinu þegar moska hafi risið í Sogamýrinni. Þó fleiri en eitt trúfélag starfi á Íslandi og þess sé ekki krafist að þau sameinist eða sinni öllum sínum málum sameiginlega ætti að leggja áherslu á samkomulag um trúarstarf í moskunni og allir múslimar á Íslandi ættu að vinna saman og samstíga að farsælli aðlögun íslam að íslensku samfélagi í samvinnu við stjórnvöld í landinu. 

Ekki náðist sátt og samkomulag um verkefnið, einsog átök undafarinna mánaða sýna. Skýringin er samkvæmt heimildum Kjarnans fyrst og fremst sú að stærstur hluti múslima á Íslandi telur óeðlilegt að félag sem stýrt er frá Svíþjóð sé í oddastöðu í múslimasamfélaginu á Íslandi. Sem handhafi og vitðakandi fjármagnsins frá Sádí-Arabíu öðlist The Scandinavian Islamic Foundation stöðu sem einskonar umsjónaraðili, og þá um leið áhrifavaldur í útfærslu þeirra verkefna sem fjármagninu var veitt til. Á það eru Félag múslima og Menningarsetur múslima ekki tilbúin að fallast.

Misvísandi reglur um veitingu og sendinu fjármagns

Samkvæmt svörum sendiráðsins um styrkveitinguna gilda mjög strangar reglur um fjarframlög Sádí-Araba af þessu tagi. Orðrétt segir í svarinu (í þýðingu blaðamanns): „Sendiráðið fullvissar að konungsríkið Sádí-Arabía heimilar ekki fjárframlög frá einkaaðilum eða góðargerðarsamtökum til stuðnings múslimum erlendis. Á grundvelli meginreglu Íslam um einingu styðja yfirvöld trúbræður og systur í  samfélögum erlendis stundum með fjárframlögum til tilbeiðslu, svo sem til þess að gera upp eða byggja moskur. Öll slík fjárframlög til múslima í heiminum fara eftir diplómatíksum leiðum og yfirvöld í Sádí-Arabíu krefjast skriflegs samþykkis þeirra landa sem framlagið rennur til.“  Í svarinu kemur jafnframt fram að slíkt samþykki stjórnvalda á Íslandi liggi fyrir, og sendiráðið undrist því umræðuna á Íslandi þar sem það hafi staðið í þeirr trú að verkefnið væri unnið í góðri samvinnu við stjórnvöld, einsog fundurinn í sendiráðinu og drög að samkomulagi um samstarf múslima á Íslandi virðist staðfesta. Þegar óskað var eftir frekari skýringum á regluverkinu í kringum styrkveitingar af þessu tagi var svar sendiráðsins á þessa leið: „Tilgangur styrkveitinga af þessu tagi er að auðvelda múslimasamfélögum friðsama sambúð og aðlögun að þeim samfélögum sem þeir búa í. Þegar yfirvöld í Sádi Arabíu fá beiðni um fjárframlög frá samtökum erlendis VERÐA viðkomandi samtök að framvísa skriflegu samþykki yfirvalda til þess að taka á móti framlögum frá Sádí-Arabíu í gegnum diplómatíksar leiðir. Sé þessu skilyrði ekki fullnægt tekur Sádí-Arabía umsóknina ekki til efnismeðferðar.“ 

Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn um samþykki stjórnvalda upplýsir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, að borist hafi þrjár fyrirspurnir vegna fyrirhugaðs fjárframlags Saudi-Araba til byggingar mosku; frá Félagi múslima á Íslandi, frá Stofnun múslima á Íslandi og frá sendiráði Saudi-Arabíu gagnvart Íslandi. Í svörum ráðuneytisins í öllum þremur tilvikum segir Urður að hafi verið áréttað að flutningur fjármuna af þessu tagi væri ekki háður leyfi stjórnvalda. Á hinn bóginn þurfi slíkir fjármagnsflutningar að fara fram í samræmi við íslensk lög og reglur og sæti eftirliti Seðlabanka og fjármálastofnana m.a. m.t.t. gjaldeyrishafta, peningaþvættis og framfylgd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.

Af þessu er ljóst að ósamræmi er á annars vegar  regluverki í kringum fjárframlög frá Sádí-Arabíu sem gefenda og hins vegar regluverki í kringum móttöku slíkra framlaga á Íslandi. Sádí-Arabía leggur áherslu á að fjármagni sé ekki streymt nema í samvinnu og samráði við stjórnvöld í móttökulandi, en móttökulandið, Ísland, hefur engar reglur eða viðmið og heimilar styrkveitingu sem þau þó virðast andsnúin, ef marka má ummæli t.d forseta Íslands. Svo virðist þó sem Sádí-Arabía og stjórnvöld á Íslandi hafi gert sameiginlegar varúðarráðstafnir í tilraun til þess að koma í veg fyrir að fjármagnið myndi valda átökum og óróa í múslimasamfélaginu á Íslandi. Óskað var eftir afstöðu utanríkisráðuneytisins til þess hvort æskilegt væri að endurskoða regluverk í kringum fjárframlög af þessu tagi af Íslands hálfu í ljósi úlfúðarinnar sem þetta mál hefur vakið, en ekki fengust svör við því. Svo virðist þó sem að minnsta kosti borgaryfirvöld sjái ástæðu til að huga að slíkri endurskoðun. 

Þegar málið kom upp óskaði borgarstjóri eftir því að Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur kynnti sér málið og á fundi borgarráðs 28. janúar s.l var það til umfjöllunar, m.a. kom mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar á fundinn og gerði gein fyrir úttekt skrifstofunnar, sem þó er ekki skráð í fundargerð eða lýst frekar, nema skamvæmt bókun Sjálfstæðisflokks á fundinum virðist greinargerðin byggja á fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi um málið. Ekki virðist hafa verið haft samband við sendiráð Sádí-Arabíu eða upplýsinga leitað í Svíþjóð um The Scandinavian Islamic Foundation eða á Íslandi um Stofnun múslima sem þáðu fjármagnið, heldur lítur út fyrir að fyrirgrennslanin hafi einskorðast við að krefja Félag múslima á Íslandi, sem hefur fengið úthlutað lóð en engu fjármagni, svara um fyrirhugaða fjármögnun moskubyggingar í Sogamýri.

Á fundi borgarráðs var lögð fram eftirfarandi tillaga borgarstjóra: „Með vísan til svara mannréttindastjóra og borgarlögmanns við fyrirspurn um fjármögnun bygginga mosku, og til að stuðla að upplýstri umræðu, samþykkir borgarráð að vekja athygli Alþingis á því að ekki hvílir lagaskylda á trúfélögum um að upplýsa um hvernig staðið er að fjármögnun kirkjubygginga eða tilbeiðsluhúsa. Þá beinir borgarráð þeim tilmælum til allra trúfélaga um að gera grein fyrir fjármögnun slíkrar uppbyggingar, þótt lagaskylda sé ekki fyrir hendi. R13080019.“

Til þess að kanna hvernig reglum um fjárframlög af þessu tagi er háttað í Svíþjóð var óskað eftir upplýsingum frá Sheikh Leif Abdul Haqq Kielan, en hann er sænskur að uppruna, snerist til Íslam fyrir áratugum síðan og er ímam í moskunni í Eskilstuna og Félagi múslima í Stokkhólmi. Þá er hann einnig formaður Samtaka sænskra múslima og ritar Sænsku íslam akademíunnar. Hann upplýsti um að, líkt og á Íslandi, eru framlög af þessu tagi ekki háð samþykki yfirvalda, en þó væri skilyrði að farið væri að sænskum lögum um fjármagnsflutninga og að lögum sem ætlað er að koma í veg fyrir peningaþvætti væri mjög strangt fylgt eftir í Svíþjóð. 

Er Sádí-Arabía að reyna að hafa áhrif á hugmyndir múslima á Íslandi?

Þegar fjárframlög frá Sádí-Arabíu til múslima á Íslandi komst í hámæli höfðu margir áhyggjur af því að fjarmagningu myndi fylgja kvaðir um hvernig múslimar ástunda trú sína á Íslandi og að minnsta kosti hluti múslimasamfélagsins væri óeðlilega tengdur Sádí-Arabíu eða að Sádí-Arabía væri að reyna að taka sér óeðlilegt og jafnvel vafasamt hlutverk í múslimasamfélaginu á Íslandi. Í fyrirspurn til sendiráðsins var þessum spurningum varpað beint fram, það er að segja hvort Sádí-Arabía sé að reyna að hafa hugmyndafræðileg og/eða trúarleg áhrif á múslima á Íslandi og hvort þau séu sérstaklega tengd einu félagi múslima sem starfa á Íslandi og gera sig gildandi í skjóli tengsla og fjárstuðnings frá Sádí-Arabíu. Í stuttu máli var svarið bið báðum spurningum nei, sendiráðið áréttar að fjármangið sem The Scandinavian Islamic foundation fékk úthlutað hafi eingöngu verið ætlað til moskubyggingar í Reykjavík og ekki til verkefna sem gagnast einstaklingum, hvar í félagi sem þeir standa, sérstaklega eða þeir geti hagnast á. Orðrétt segir (í þýðingu blaðamanns): „Sendiráð Sádí-Arabíu í Stokkhólmi hefur ekkert að gera með átök mill einstaklinga eða félaga múslima á Íslandi, og heldur sömu fjarlægð gangvart ÖLLUM.“ 

Í samningi sem áður hefur verið vísað í, og sem ræddur var á fundinum í sendiráðinu sem Salmann Tamimi sótti fyrir hönd Félags múslima á Íslandi og Hussein Aldaoudi, fyrir hönd the Scandinavian Islamic Foundation og Menningaresturs múslima, sem ekki átti fulltrúa á fundinum, er að finna ákvæði sem renna stoðum undir þessa fullyrðingu sendiráðsins. Samningurinn kveður á um að forsenda þess að Stofnun múslima njóti fjárstuðnings Sádí-Araba sé að leyst sé úr ágreiningi milli múslima á Íslandi og þeir stofnsetji samráðsvettvang skipaðan fimm stjórnarmönnum, tveimur frá Félagi múslima á Íslandi og skyldi Salmann Tamimi vera formaður, tveimur frá Stofnun múslima á Íslandi og einum óháðum aðila. Í samingnum er jafnframt kveðið á um að skyldur múslima á Íslandi séu fyrst og fremst að fara að íslenskum lögum, reglum og hefðum og vera í virkri samvinnu við yfirvöld á Íslandi. Þar segir að múslimum á Íslandi beri að „gleðjast þegar Ísland gleðst og vera daprir þegar Ísland er dapurt.“

Salmann Tamimi, formaður Félags múslima, ræðir við börn.

Í 6. lið samkomlagsins segir (í þýðingu blaðamanns): „Allir aðilar, einstaklingar sem og stofnanir, skuldbinda sig til að vera trúir Íslam í orði og verki og forðast hverskyns framferði sem vinnur gegn íslensku samfélagi. Múslimasamfélagið á Íslandi er órjúfanlegur hluti íslensks samfélags og múslimum ber að gleðjast þegar Ísland gleðst og vera daprir þegar Ísland er dapurt og leitast við að þjóna og stuðla að öryggi, samvinnu og stöðugleika.“

Rök gegn því að fjárframlög eigi að ýta undir hryðjuverkastarfsemi

Að lokum er rétt að gera grein fyrir rökum sendiráðsins gegn staðhæfingum um að fjárframlögin séu til þess ætluð að breiða út öfgakenndar hugmyndir eða ýta undir hryðjverkastarfsemi. Í svari sendiráðsins kemur fram að  Sádí-Arabía taki skýra afstöðu í baráttu gegn hryðjuverkum og fjármögnun hryðjuverkasamtaka. Svo segir í svari frá sendiráðinu (í þýðingu blaðamanns): „Fyrir rúmum áratug hafði Abudllah bin Abdulaziz heitinn konungur forgöngu um að stofnað yrði aljóðlegt stofnun eða rannsóknarsetur sem beitir sér gegn hryðjuverkum. Árið 2005 hýsti Sádí-Arabía ráðstefnu þar sem fimmtíu og fimm lönd áttu fulltrúa þar sem drög voru lögð að stofnun the United Nations Counter Terrorism Center (UNCCT)

Árið 2008 lagði konungurinn fram tíu milljónir bandaríkjadala til Sameinuðu þjóðanna til þess að stofnsetja rannsóknarsetrið og árið 2011 undirrtiaði Sádí-Arabía samning við Sameinuðu þjóðirnar um stofnsetninguna. Árið 2014 lét konungurinn hundrað milljónir bandaríkjadala renna til rannsóknarsetursins til þess að styrkja baráttuna gegn hryðjuverkum. Í febrúar 2014 gaf Abdullah konungur út konunglega tilskipun gegn hryðjverkastarfsemi. Í henni er áréttað að verkefni sem tengja má við hryðjuverk, þar með talin aðild að skilgreindum hryðjuverkasamtökum og þátttaka í starfsemi slíkra samtaka erlendis, muni ekki vera liðin. Sádí-Arabía mun halda áfram að berjast gegn hryðuverkum og styðja aðra til þess sama, með því meðal annars að veita miklu fjármagni til verksins. Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa gefið út þúsundir opinberra yfirlýsinga þar sem æðstu ráðamenn og trúarleiðtogar fordæma öfgahyggju og tala fyrir hófsemd. Sádí-Arabía, sem fæðingarstaður Íslam og aðstetur hinna Tveggja Heilögu moska, hafnar öfgahyggju og hryðjuverkum sem hafa það að markmiði að misnota Íslam.

Þá má einnig geta þess að Sádí-Arabía, einsog önnur lönd, hefur þjáðst vegna hryðjuverka og margir borgarar Sádí-Arabíu hafa verið skotmark hryðverkuaárása. Í ljósi alls þessa er ljóst að það fjármagn sem Sádí-Arabía veitir til að styðja samfélög múslima erlendis er ævinlega í samræmi við þá skýru afstöðu sem hefur verið tekin gegn hryðjuverkum og öfgahyggju og má aldrei nota til þess að styrkja öfgahópa. Geti Sádí-Arabía með einhverjum hætti haft áhrif á múslimasamfélög erlendis myndum við sannarlega nota þau til þess að ýta undir friðasama sambúð múslima við það samfélag sem þeir búa í og árangursríka, gangkvæma aðlögun.“

Margslungið viðfangsefni

Eðlilega hefur fólk af því áhyggjur þegar upplýsingar berast um að ríki, á borð við Sádí-Arabíu,  sem skorar hátt á lista yfir þau lönd í heiminum þar sem mannréttindi eru síst virt, tilkynna um milljóna fjárstyrk til múslima á Íslandi. Íslam í Evrópu og heiminum öllum er í vanda sem ekki má gera lítið úr og það er gott að verkefnið er til umræðu. 

Þau orð forseta Íslands sem vitnað er í upphafi þessarar úttektar eru sönn og rétt – við verðum að hefja nýja umræðu um Íslam á íslandi og róa þannig að því öllum árum að koma í veg fyrir að Íslam á Íslandi rati í ógöngur og átök. En til þess að sú umræða skili árangri – verði til gagns fremur en ógangs – verður að fjalla um málefni múslima á Íslandi af þekkingu, ábyrgð, innsýn og skilningi. Viðfangsefnið er flókið og margslungið og við verðum að varast að draga upp of einfalda og afrdáttarlausa mynd.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar