Baráttan um útnefningu flokkanna fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum tók óvænta stefnu í síðustu viku, þegar Bernie Sanders vann Michigan, þvert á allar kannanir þar sem Hillary Clinton hafði verið spáð stórum sigri. Slík skekkja í forsetaforvali hefur ekki sést síðan forsetaframbjóðandinn Gary Hart vann Walter Mondale árið 1984, segja fréttskýrendur sem voru gapandi af undrun í kosningavökum kvöldsins.
Clinton hefur þó töluvert forskot á Sanders, en hún er nú með 760 atkvæði eða kjörmenn og hann 546 en þá eru ótaldir svokallaðir ofurkjörmenn sem eru atkvæði sem bætast við á landsfundi flokksins í júlí. Þessi hluti er um 15 prósent af öllum atkvæðunum og er í höndum elítu flokksins. Ofuratkvæðunum hefur nær öllum verið merkt Hillary Clinton, en það gæti hins vegar breyst fyrir landsfundinn þó það sé óalgengt að ofurkjörmennirnir skipti um skoðun. Til að tryggja útnefninguna þarf annar frambjóðandinn að fá 2,383 atkvæði.
Sigur Sanders í Michigan á þriðjudag, þar sem hann fékk 50 prósent atkvæða og hún 48 prósent, er rakinn til átaka í kappræðum um fríverslunasamninga sem Sanders hefur talað gegn. Margir í Michigan telja að framleiðslustörf í ríkisins hafi af þeim sökum flust erlendis. Hillary hefur á stjórnmálaferli sínum stutt marga af þessum fríverslunarsamningum og tókust þau á um þessi mál í kappræðum í vikunni fyrir kosningarnar. Á sama tíma hefur Hillary gagnrýnt Sanders fyrir að kjósa gegn því að bjarga bílaframleiðendum frá gjaldþroti þegar það kom til kasta öldungadeildarþingsins.
Útgönguspár sýna að yngri kjósendur skiluðu sér í mun meira mæli á kjörstað ólíkt því sem hefur verið raunin í mörgum öðrum ríkjum sem kosið hefur verið í hingað til. Sanders nýtur mikils stuðnings meðal ungs fólks af báðum kynjum á meðan stuðningur Hillary er meiri meðal eldri kjósenda, sem að jafnaði skila sér betur á kjörstað. Kosningarnar í Michigan voru með þeim hætti að hægt var að mæta og kjósa án þess að þurfa að skrá sig sem stuðningsmann flokksins fyrirfram, en margt bendir til þess að það hafi haft áhrif á hversu margir tóku þátt.
Áhugavert er að sjá að 71 prósent þeirra sem telja sig óháða en kusu í fovali demókrata kusu Bernie Sanders. Útgönguspár sýna líka að Sanders nýtur nú stuðnings mun stærri hóps svartra kjósenda en í flestum öðrum ríkjum þar sem Clinton hefur haft yfirgnæfandi stuðning þess hóps. Í Michigan hafði Sanders stuðning 34 prósent kjósenda sem ekki eru hvítir.
Auglýsingar hjá Sanders hafa borið þess merki að hann sækir stíft á hóp spænskumælandi kjósenda, en fyrr í vikunni gaf herferð hans út áhrifamikla stuttmynd sem vakti nokkra athygli. Myndin fjallar um konu sem starfar á iðnaðarbóndabýli í Flórída og segir frá baráttu hennar fyrir bættum kjörum sem Bernie Sanders tók beinan þátt í og tókst að hafa áhrif á kjör starfsmannanna, með því að beita sér í öldungadeildinni. Stuttmyndin var sýnd í sjónvarpstöðinni UNIVISION sem er spælskumælandi stöð en þar fóru kappræðurnar fram á miðvikudag.
Það vakti einnig athygli í vikunni að Hillary Clinton lét hafa eftir sér að því fyrr sem demókratar myndu velja hana sem næsta forsetaframbjóðanda demókrata því fyrr væri hægt byrja að berja á repúblikönum. Þessi ummæli fóru illa í suma en sérfræðingar í kosningafræðum hafa einnig bent á að reynslan sýni að því lengri sem forvöl flokkanna vara, þeim mun meira spennandi verði kosningarnar á endanum, svo fremi sem frambjóðendurnir skaði ekki hvern annan sem er langt í frá að vera raunin hjá demókrötum.
Að sama skapi voru hörð viðbrögð við svörum Sanders í kappræðunum þegar hann var spurður um kynþáttafordóma. Þar sagði hann meðal annars: „Þegar þú ert hvítur, þá veistu ekki hvernig það er að búa í gettói. Þú veist ekki hvernig það er að vera fátækur. Þú veist ekki hvernig það er að vera áreittur þegar þú ert að ganga úti á götu eða vera dreginn út úr bíl“. Þótti mörgum það bera vott um rasisma að telja að þeir sem væru fátækir væru allir svartir en raunin er sú að tæpar 48 milljónir Bandaríkjamanna búa við fátækt og þar af hafa tæpar 11 milljónir svartan hörundslit; það nemur 26 prósent allra svartra íbúa í landinu.
Stuðningsmenn Sanders segja að ummælin hafi verið tekin úr samhengi og ekkert sé við þau að athuga. Dæmi hver fyrir sig, ummælin má finna hér.
En óvæntu úrslitin í Michigan hafa blásið nýjum baráttueldi í brjóst stuðningsmanna Sanders og eftir sigurinn voru auglýsingar og skilaboð frá kosningabaráttunni alveg skýr; þau eru ekkert að fara að pakka saman. Frá upphafi, hefur áhersla hans á að hann sé eini frambjóðandinn sem ekki tekur fjármagn frá stórum hagsmunaaðilum og sé laus við allar tengingar við Wall Street, verið í forgrunni. Þessi umræða færir stöðugt kastljósið á þá staðreynd að Clinton hefur þegið háar upphæðir frá fyrirtækjum á Wall Street sem skaðar hana ef marka má það sem fólk nefnir sem ástæðu í könnunum fyrir því hvers vegna það velur Sanders umfram hana. Sander hefur undanfarna viku talað mikið um mannúðlegar leiðir til að takast á við 11,5 milljónir ólöglegra innflytjenda í landinu og það sama hefur Hillary Clinton gert. Hún nýtur sem fyrr mikils stuðnings meirihluta svartra kjósenda og virðist hafa sterkari stöðu meðal kjósenda af rómönskum uppruna í flestum ríkjum.
Það er ótrúlegt til þess að hugsa að fyrir ári síðan töldu mjög fáir að sósíalisti frá Brooklyn á áttræðisaldri gæti heillað svo stóran hóp kjósenda. Hvað þá að hann ætti rauverulegan möguleika á að vinna útnefningu demókrata. Eitt er víst að sósíalisminn er kominn til að vera í bandarískum stjórnmálum og þó enn sé mjög á brattann á sækja ætlar Sanders sér að næla sér í útnefningu demókrata.
Næsta umferð forvalsins í fimm stórum ríkjum
Á morgun, þann 15. mars, er stór dagur í forvali demókrata. Þá verður kosið í fimm stórum ríkjum og í pottinum eru 792 atkvæði (kjörmenn). Í öllum tilfellum er um að ræða hlutfallslega skiptingu eftir atkvæðamagni. Flórída (246), Illionis (182), Missouri (84), Norður-Karólína (121) og Ohio (159). Ef marka má kannanir (sem best er að taka með fyrirvara eftir útkomuna í Michigan) þá mælist Clinton með mun meiri stuðning í öllum ríkjunum. Hún er með ríflega 60 prósent stuðning í Flórída, 63 prósent í Illinois, 55,7 prósent í Norður-Karólínu, 56,3 prósent í Ohio.
En eins og niðurstöðurnar í Michigan sýndu þá getur allt gerst. Áhugafólk um spár getur leikið sér að því að giska á útkomuna úr næstu forvölum og unnið til stiga reynist ágiskunin rétt. Á vef bandarísku fréttastofunnar CNN er búið að stilla upp spáleik.
Cruz sækir á forskot Trump
Á sama tíma hefur forskot Donald Trump hjá repúblikönum minnkað og sækir Ted Cruz mikið á. Trump heldur forystu með 461 kjörmann, Cruz hefur 360, Rubio 154 og Kaisch 54. Til að vinna þarf minnst 1237 kjörmenn. Í síðustu viku sigraði Trump í þremur af þeim fjórum ríkjum sem kosið var í: Hawaí, Michigan og Mississipi. Cruz hafði öruggan sigur í Idaho en fékk um þriðjung atkvæða í þeim ríkjum sem Trump sigraði í og þótti með því sýna að hann væri sá frambjóðandi sem líklegastur væri til að fella Trump. Metkjörsókn hjá repúblikönum í sumum ríkjum á sama tíma og kjörsókn hjá demókrötum er fremur lítil vekur margar spurningar og eykur á ótta þeirra sem vilja alls ekki sjá Trump sem næsta forseta Bandaríkjanna. Fyrir marga kjósendur sem óttast að Trump gæti orðið forseti er hins vegar ekki mikil huggun í því að Cruz gæti einnig orðið forseti landsins því Curz þykir með einsdæmum íhaldsamur, nátengdur teboðshreyfingu repúblikanaflokksins sem Sarah Palin hefur verið í forsvari fyrir.
En stuðningurinn við Trump virðist stöðugur og þó hann glími við töluverða samkeppni um útnefninguna sýna kannanir mikinn og stöðugan stuðning við Trump. Það er því áhugavert að skoða hvaða hópur það er sem stendur að baki honum. Í síðustu viku komu fram fjölmörg dæmi í ræðum og ritum Trumps sem bera þess merki að hann sé sekur um að sýna af sér rasisma. Alhæfingar um innflytjendur og ofbeldisfull ummæli hans um þá sem og mótmælendur sem hafa mætt á framboðsfundi hans, hafa vakið athygli. Þar hefur hann sagt blákalt að það ætti að berja þá sem mæta til að mótmæla honum og hvatt fólk til að gera það.
Myndbandsupptökur hafa verið sýndar af stuðningsmönnum Trumps á framboðsfundum, sem að jafnaði eru allir hvítir, slá til mótmælenda sem í sumum tilfellum eru svartir eða fólk ættað frá rómönsku ameríku, eru mjög óhugnalegar. Um helgina sauð upp úr milli mótmælenda og þeirra sem biðu eftir að komast á fund með Trump fyrir utan ráðstefnuhöll í Chicago og til átaka kom. Fundinum var því frestað og óttast margir að þetta sé aðeins byrjunin á því sem koma skal næstu mánuði. Að sama skapi virðast mótmælin gegn Trump þétta hóp kjósendar hans enn frekar.
Á fundi í vikunni bað hann fólk að rétta upp hægri hönd sína og lofa að styðja við stefnumál hans og minntu myndir af fundinum óneitanlega á það hvernig var heilsað að sið nasista í seinni heimstyrjöldinni. Þessi samlíking hefði líklega ekki orðið til á öðrum framboðsfundum, en sú staðreynd að Trump hefur talað fyrir því að banna múslimum að heimsækja landið, henda út úr landinu milljónum ólöglegra innflytjenda og láta skrá bandaríska múslima, eru ógnvekjandi og minna óneitanlega áherslur nasista í upphafi fjórða áratugsins í Þýskalandi.
Frank Luntz, málfræðingur og sérlegur frasahöfundur repúblikana, tvítaði mynd frá fundi Trump í vikunni og spáði því að frambjóðandinn myndi örugglega ekki gera þetta aftur:
Það vekur furðu og skelfingu margra kjósenda að svo stór hópur landsmanna skuli enn styðja Trump þrátt fyrir áherslur hans, en einnig í ljósi þess að hann hefur sýnt að hann hefur takmarkaða þekkingu á mörgum málum. Hann virðist hafa einstakt lag á því að halda blaðamönnum (undirritaðri meðtaldri) uppteknum við að bíða eftir næstu hneykslissprengju. Hann veit hvernig hann heldur sér í sviðsljósinu með því að vera algjörlega á skjön við það sem hinn svokallaði pólítíski rétttrúnaður kallar á. Hvað sem hann segir eða gerir, gerir hann ávallt án þess að biðjast afsökunar á framferði sínu. Hann einfaldlega margendurtekur hvað hann sé frábær og hvað hann eigi að baki frábær afrek í viðskiptum. Hann endurtekur sífellt hvað hann er ríkur og hvernig hann muni sjá til þess að „Ameríka verði frábær á ný“. En hann slær einnig á strengi sem Sanders hefur líka fókuserað á, eins og að vera laus við að þiggja fé frá Wall Street, að vera ekki óskaframbjóðandi elítunnar, að skilja að fólk sé pirrað og treysti ekki hinum hefðbundna stjórnmálamanni í Washington. Það er því ekki óalgengt að sjá í könnunum að óákveðnir segi að þeir muni annað hvort kjósa Sanders eða Trump, eftir því hvor fái útnefninguna, þó í raun sé himinn og haf á milli þeirra í flestum öðrum stefnumálum.
Greinahöfundar tímaritsins The Atlantic hafa rýnt í þá sem hafa hingað til kosið Trump í forvölum ríkjanna og eru fjögur megin einkenni sem flestir þessir kjósendur eiga sammerkt. Meðal kjósenda hans hafa mun fleiri enga háskólamenntun miðað við stuðningsmenn annarra frambjóðenda. Þegar kjósendur Trump eru spurðir í könnunum hvort þeir upplifi að fólk eins og það hafi ekki neitt um málin að segja (e. People like me don’t have any say) segjast 86,5 prósent þeirra vera sammála þv. Til samanburðar svara aðeins 7 prósent kjósenda Clinton og 8 prósent kjósenda Sanders því sama.
Þeir sem vilja sjá leiðtoga sem sýnir af sér valdboðshneigð (e. authoritarianism) sem svarar ótta þessa hóps um ytri ógn, eru líklegri en aðrir að kjósa Trump. En Trump hefur sjálfur sagt að verði hann forseti muni hann láta drepa fjölskyldur ISIS-liða, hann muni láta loka moskum, elta uppi börn ólöglegra innflytjenda og fyrirskipa frekari óhugnað. Nýverið benti Nate Cohn á í grein í New York Times, að þegar stuðningur Trump er skoðaður landfræðilega sést að sterkasti stuðningshópur hans liggur frá Gulf Coast og eftir Appalachian-fjöllunum til New York. Fyrir tæpu ári birtist einnig fræðigrein þar sem tengsl milli dauða svartra einstaklinga og birtingar svæðisbundins rasisma á internetinu voru rannsökuð. Þar sést að tengslin eru sterkust á þessu svæði í eystri ríkjum Bandaríkjanna.
Á morgun verður einnig kosið hjá repúblikönum í Flórída, Illinois, Missouri, Norður-Karólínu, Ohio og á Norður-Mariana eyjum. Það sem er óvenjulegt við þessi forvöl er að í flestum þeirra er atkvæðunum skipt hlutfallslega milli frambjóðenda. Í Norður-Karólínu er annað fyrirkomulag en þar tekur sigurvegarinn alla eða flesta kjörmenn sem ríkið á.
Þar sem þessi ríki eru öll í stærri kantinum og gefa því af sér marga kjörmenn geta niðurstöður úr þessum ríkjum hæglega breytt stöðunni hjá repúblikönum. Ef rýnt er í spá Nate Silvers, sem heldur úti vefnum Five Thirty Eight, um það hver er líklegastur til að sigra þessi ríki miðað við kannanir síðustu daga hefur Trump vinninginn. Í Flórída eru 85 prósent líkur á sigri Trump. Aðeins 15 prósent líkur eru á að Marco Rubio, öldungadeildaþingmaður ríkisins, vinni þar samkvæmt spánni. Þá eru 57 prósent líkur á sigri Trump í Illinois, 73 prósent líkur í Norður-Karólínu og 69 prósent líkur á sigri Kasich í Ohio, þar sem hann er nú ríkisstjóri. Minnst afgerandi eru kannanir í Illinois og gæti verið áhugavert að sjá hvort Rubio, sem mælist með 29 prósent líkur á sigri gegn 57 prósent líkum Trumps, nái einhverju flugi á lokasprettinum. Í ljósi þess að í þessum ríkjum eru reglurnar með þeim hætti að sá sem sigrar fær alla eða stærsta hluta kjörmanna gæti þessi næsta hrina forvala gert Trump á algjörlega ósigrandi í forvali repúblikana.
Hvað tekur við þá er ómöglegt að spá fyrir um en það er alveg ljóst að hvorki elíta repúblikanaflokksins né stórir hagsmunaaðilar í samfélaginu eru tilbúin til að sætta sig við hann sem frambjóðanda repúblikana. Þá er spurning hvort þessir aðilar leggi lóð sín á vogaskálar demókrata, andstæðinga sinna. Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað, þá er það að ólíklegustu aðilar gerast bandamenn þegar þeir geta sameinast um það hver sé óvinurinn.