Allar líkur á að karlremban og femínistinn keppi um forsetaembætti Bandaríkjanna
Donald Trump hefur rekið kosningabaráttu sína með stóryrðum, ekki síst með niðrandi ummælum um konur. Hillary Clinton hefur lagt áherslu á femínisma í sinni kosningabaráttu, kannski þvert á boðskap Trump. Þau tvö eru líklegust til að berjast um forsetaembættið í Bandaríkjunum í haust.
Það þarf mikinn viðsnúning hjá öldungadeildarþingmanninum Bernie Sanders svo hann eigi möguleika á því að sigra Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, í forvali Demókrataflokksins. Þrátt fyrir kannanir sem sýna að Sanders eigi meiri möguleika á að sigra Donald Trump, viðskiptamógúlinn frá New York, sem verður af öllum líkindum sá sem hreppir útnefningu repúblikana eftir að hafa lagt mótframbjóðanda sinn Ted Cruz að velli. Kannanir sýna að Cruz eigi hins vegar meiri möguleika á að sigra Clinton en Trump. Það er því margt skrítið í kýrhausnum og ekki bætir úr skák að hafa kvenkyns frambjóðanda sem gæti hrist all verulega upp í valdakerfi karla í Bandaríkjunum – og standa viðbrögðin ekki á sér.
Næstum vonlaust fyrir Sanders að snúa dæminu við
Úrslit forvala síðasta þriðjudags hjá demókrötum komu ekki beinlínis á óvart, nema kannski fyrir þá sem héldu í vonina um að kannanir væru hættar að geta spáð fyrir um niðurstöðu kosninganna með mikilli vissu eins og gerðist í Michigan vikuna áður þegar Sanders vann óvænt þvert á spár. En eins og spáð var fyrir um þá sigraði Clinton öll þau ríki sem í pottinum voru nema Illinois (156 kjörmenn). Þar sigraði Sanders með þriggja prósentustiga mun. Í lok þessa kvölds hafði hún sigrað Flórída (214), Missouri (71), Norður Karólínu (107) og Ohio (143). Af þeim 691 kjörmönnum sem í pottinum voru þetta kvöld, fór Hillary heim með 365 og Sanders með 326.
Til þess að vinna útnefninguna þarf 2.383 kjörmenn eða atkvæði. Í dag er Hillary með í heildina 1.606 kjörmenn, sem skiptist í 1.139 kjörmenn og 467 ofurkjörmenn en það eru atkvæði sem elíta flokksins hefur lofað henni og mun greiða á landsfundinum sjálfum í júlí. Sanders er með í heildina 851 kjörmenn og þar af aðeins 26 ofurkjörmenn. Samkvæmt fréttamiðlinum MSNBC þá þarf Sanders að vinna 65 prósent af öllum kjörmönnunum sem eftir eru í pottinum svo hann eigi möguleika á útnefningunni, en enn eftir á að kjósa á 29 stöðum í landinu. Til að tryggja sér útnefninguna þarf Clinton aðeins að ná 35 prósent af þeim kjörmönnum sem eftir eru í pottinum. Kannanir benda til þess að hún muni á endanum hafa mun meira en það sem hún þarf til að tryggja sér útnefninguna. Viðbrögð við þessari stöðu af hálfu kosningabaráttu Sanders eru einfaldlega að þau séu hvergi nærri hætt og nú sé ætlunin að einbeita sér á að sigra í stærri ríkjunum sem eru framundan. Stóru ríkin í pottinum eru nokkur; lang stærst er Kalifornía þar sem kosið verður 7. júní og gefur ríkið heila 475 kjörmenn. Frambjóðendur demókrata fá hlutfallslega jafnmarga kjörmenn og þeir fá í atkvæðum, en hjá repúblikönum er þetta misjafnt eftir ríkjum, þar sem þeir fá sums staðar alla kjörmennina ef þeir ná meirihluta atkvæða. Kannanir benda til þess að Hillary Clinton hafi töluverða yfirburði í stóru ríkjunum sem á eftir að kjósa í. Það eru Kalifornía, New York, Pennsylvanía og New Jersey.
Dags. | Ríki | Kjörmannafjöldi |
---|---|---|
22. mars | Arizona | 75 kjörmenn |
26. mars | Washington | 101 kjörmaður |
19. apríl | New York | 247 kjörmenn |
26. apríl | Connecticut | 55 kjörmenn |
26. apríl | Maryland | 95 kjörmenn |
26. apríl | Pennsylvania | 189 kjörmenn |
3. maí | Indiana | 83 kjörmenn |
17. maí | Kentucky | 55 kjörmenn |
17. maí | Oregon | 61 kjörmaður |
5. júní | Puerto Rico | 60 kjörmenn |
7. júní | Kalifornía | 475 kjörmenn |
7. júní | New Jersey | 126 kjörmenn |
Á demókratavængnum undirbúa margir sig þess vegna, leynt og ljóst, að Hillary verði næsti forsetaframbjóðandi flokksins. Stuttu eftir sigur hennar í vikunni bárust fregnir af því að Barack Obama hefði sagt á fjáröflunarfundi með sterkum fjárfestum að nú væri orðið tímabært að stilla sér upp á bak við Hillary.
Hefð er fyrir því að fráfarandi forseti leggi sitt að mörkum í fjáröflun fyrir flokkinn. Fjáröflunin er svo notuð til að styðja þann sem hlýtur útnefninguna. Ekki eru allir stuðningsmenn Sanders tilbúnir að leggja árar í bát og spá flestir því að Sanders muni ekki hætta fyrr en á landsfundi flokksins í júlí, enda þykir það almennt gott fyrir flokkinn að klára forvalið í öllum ríkjum.
Tekst repúblikönum að koma í veg fyrir að eigin frambjóðandi verði forseti?
Kapphlaupið að embætti forseta Bandaríkjanna hefur fá upphafi einkennst af því að kastljós fjölmiðla hefur verið mest á Donald Trump. Þar var síðasta vika engin undantekning. Hver ræðan og viðtalið rak annað, þar sem hann margendurtók sitt eigið ágæti og möntruna um hvernig hann ætlar gera „Ameríku frábæra á ný“. Undir lok vikunnar sagði hann spurður um hvernig hann undirbyggi það að taka við stjórn landsins. „Ég er að ráðfæra mig við sjálfan mig, af því ég er með góðann heila og ég hef sagt marga hluti. Sem dæmi skrifaði ég um Osama bin Laden áður en árásirnar áttu sér stað 11. september. Ég man að Joe [þáttastjórnandi Morning Joe þar sem viðtalið fór fram] dró það í efa, en ég gerði það,“ svaraði Trump að sama lítillæti og áður.
Það er því ekki skrítið að töluverð skelfing hefur gripið um sig meðal forystu Repúblikanflokksins síðustu vikurnar. Í ljós hefur komið að það þarf mikið að gerast til þess að hægt sé að koma í veg fyrir að Donald Trump tryggi sér útnefninguna. Í forvölum síðustu viku var meðal annars kosið í Flórída og Ohio. Þar er fyrirkomulagið þannig að sá sem fær flest atkvæði fær alla kjörmenn ríkisins. Trump náði sér þannig í 99 kjörmenn með því að sigra Flórída, John Kasich sigraði sitt eigið ríki Ohio og hlaut á sama hátt alla kjörmennina sem í boði voru. Nú staðan hins vegar sú að Kasich er með 143 kjörmenn og á ekki fræðilegan möguleika á að vinna útnefninguna. Hann þyrfti 107 prósent þeirra atkvæða sem eftir eru til að vinna. Marco Rubio hætti í framboði í síðustu viku en hann hafði nælt sér í 172 kjörmenn. Ted Cruz er aftur á móti er með 422 kjörmenn og þarf að sigra 80 prósent af öllum kjörmönnum sem eftir standa til að ná meirihluta atkvæða. Það er því nokkuð ljóst að Trump hefur yfirhöndina, kominn með með 683 kjörmenn og þarf að tryggja sér 54 prósent kjörmanna sem eru eftir í pottinum til að sigra.
Ef hinn strangtrúaði Cruz getur ekki framkallað kraftaverk, sem hann í rauninni þarf til að geta nælt sér í þau atkvæði sem hann þarf, er eina leiðin til að stöðva Trump að kalla fram allsherjaratkvæðagreiðslu kjörmanna eða þeirra sem fer fyrir atkvæðum hvers ríkis á landsfundi flokksins. Með þeim hætti væri hægt að safna saman öllum þeim atkvæðum sem fallið hafa til hinna frambjóðandanna og nýta þau í þágu þess fulltrúa sem menn sammælast um gegn Trump. Þessi leið hefur verið farin örsjaldan í sögu Repúblikanaflokksins og hefur Trump hótað því að það verði óeirðir á landsfundinum ef af þessu verður. Hægt er að kynna sér betur þetta mál í nýrri grein sem birtist hér á Kjarnanum fyrr í síðustu viku.
Hver er líklegri til að geta sigrað repúblikana?
Margir stuðningsmenn Sanders halda því nú á lofti að í könnunum þar sem Bandaríkjamenn á öllu landinu voru spurðir hvorn þeir myndu velja ef valið stæði á milli Sanders og Trump annars vegar og Hillary og Trump hins vegar. Þar kom í ljós að Sanders skorar ívið hærra en Hillary.
Sýna kannanir að allt að 6-18 prósentustig myndu skilja að Trump og Sanders, Sanders í vil. Á sama tíma hefur Hillary 5-13 prósentustiga forskot í síðustu könnunum ef valið stæði á milli hennar og Trump.
Áhugavert er að skoða færslu á hluta af fylgi Sanders yfir á Trump. Kannanir hafa sýnt að allt að 20 prósent þeirra sem segjast ætla kjósa Sanders myndu frekar kjósa Trump en Hillary ef Sanders tapar útnefningunni.
Þó mennirnir tveir séu eins ólíkir og hugsast getur þegar það kemur að viðhorfum þeirra til ofbeldis, viðbragða vegna átaka í heiminum, ISIS og innflytjenda þá tala þeir á svipuðum nótum í málefnum sem snúa að atvinnuleysi, flutningi á störfum vegna alþjóðlegra fríverslunarsamninga, aðþrengdri millistéttinni, hækkun skatta á þá allra ríkustu og að stríðið í Írak hafi verið mikil mistök. Þá skal ekki gleyma því að báðir draga þeir upp sterka mynd af því hvernig þeir séu utangarðs í valdaklíkunni í Washington. Þeir eru einnig sammála um að klíkan í höfuðborginni hafi ekki verið að miklu gagni lengi. Þetta leggst vel í kjósendur sem finnst að stjórnmálamenn í Washington hafi algjörlega klúðrað málunum og hafa litla trú á að þeir hafi nokkurn áhuga á daglegum vandamálum sem steðja að millistéttinni.
Þegar borið er saman hvorn frambjóðandann Bandaríkjamenn telja fýsilegri, Cruz eða Sanders, sýna kannanir að mun fleiri velja Sanders fram yfir Cruz og er 12-17 prósentustiga munur á milli þeirra í síðustu könnunum. Þegar Clinton og Cruz eru hins vegar borin saman kemur í ljós að mjög mjótt er á milli og í flestum tilfellum sýna kannanir að Cruz hefði vinninginn með um 1-3 prósentustigs mun. Þessar kannanir eru gerðar á tímabilinu febrúar-mars og þó enn sé langt í nóvember þegar hinar raunverulegu kosningar verða gefa þær vísbendingu um það sem koma skal.
Það er hins vegar áhugavert að fylgjast með hvernig margir stjórnmálaskýrendur líta á málið með þó nokkuð ólíku sjónarhorni. Þar er bent á að þessar tölur geti breyst mikið þegar sá eða sú sem verður útnefnd fái að finna raunverluega fyrir óhróðursmaskínu hins flokksins. Sú staðreynd að Hillary hefur staðið í kastljósi stjórnmálanna í áratugi og því hefur allt verið dregið fram gegn henni sem mögulega hægt er að finna, segja menn að sýni að lítið verði hægt að segja eða gera til að veikja hana frekar. Sanders aftur á móti hafi ekki verið á radar repúblikana áður og þeir hafi farið einstaklega mjúkum höndum um hann á meðan hart er sótt að Hillary Clinton.
Þegar kyn skiptir máli
Það er þekkt í amerískri stjórnmálasögu að fara í neikvæða herferð gegn andstæðingi sínum. Þá eru oftast dregin upp óþægileg mál sem stundum eru ekki endilega alveg í takt við sannleikann. Margar rannsóknir hafa sýnt að neikvæðar herferðir hafa í flestum tilfellum gríðarlega mikil áhrif. Síðasta útspil Trump er auglýsing af þessum toga en sem minnir helst á verk unglings í uppreisn, en þar er Hillary sýnd gelta ítrekað og Vladimír Pútín, forseta Rússlands, hlæja að henni.
Kvenfyrirlitning Trump er ekki ný af nálinni og hafi fólk efasemdir um þá staðreynd má benda á að hér vestra keppast blöðin um að taka saman topp tíu karlrembulegustu ummæli Trump. Huffington Post gerði gott betur og tók saman 18 þeirra.
Þar eru meðal annars ummæli hans við ósk lögfræðings, sem var vinna í máli sem sótt var gegn honum, um stutt hlé svo hún gæti mjólkað sig þar sem hún væri með kornabarn heima. Viðbrögð hans voru að segja að hún væri „ógeðsleg“ áður en hann gekk út. Hann hefur í áratugi einnig verið stoltur eigandi fegurðasamkeppna. Trum hefur einnig látið frá sér ummæli um að ef Hillary gæti ekki fullnægt manninum sínum, hvers vegna héldi fólk að hún gæti fullnægt bandarísku þjóðinni? Það er þó ekki bara í herbúðum Trump sem menn eiga erfitt með tilhugsunina um að Hillary Clinton verði forseti. Stuðningsmenn Sanders eru ekki allir sjálfgefnir stuðningsmenn Hillary nái hún kjöri.
Það verður heilmikil áskorunin að færa fylgismenn Sanders yfir til Clinton, eða öfugt ef svo ólíklega fer. Millifærsla á kjósendum eftir löng og hörð forvöl frambjóðenda getur reynst flókin. Kappræður Hillary og Sanders hafa reyndar farið fram með nokkuð yfirveguðum hætti og þau hafa sýnt hvor öðru meiri virðingu en venja er. Telja því margir að það verði ekki of erfið aðgerð. Sanders hefur mikinn stuðning meðal hvítra karlmanna í yngri kantinum, sem og yngri kvenna, en almennt hefur Hillary tekist að tryggja sér sterka stöðu meðal svartra kjósenda, kjósenda af rómansk-amerískum uppruna, eldri og yngri, ríkra og fátækra í stórborgum og á dreyfbýlli stöðum. Hins vegar kemur alltaf betur og betur í ljós að Clinton hefur ekki náð með jafn afgerandi hætti til hvítra karlmanna ef marka má samanburð á niðurstöðum í þeim ríkjum sem kosið var í í síðustu viku og sú niðurstaða borin saman við sömu ríki í forvalinu árið 2008. Í nýrri grein í New York Times er þetta rakið og rætt við menn sem segjast ekki geta stutt hana nú. Þar eru margar ástæður taldar til svo sem Bengasi-málið, harðari afstaða gegn almennri vopnaeign, tengsl hennar við Wall Street og tölvupóstshneykslið svokallað. Enn aðrir töldu einfaldlega það ekki vera hlutverk konunnar að verða „commander in chief“ svo fátt eitt sé nefnt. Sú staðreynd að nái hún kjöri verði hún fyrsti kvenkyns forsetaframbjóðandinn er mikið rædd bæði af hálfu framboðsins sem og meðal fréttaskýrenda. Á meðan sumir segja að það sé akkúrat rétti tíminn fyrir konu til að verða forseti, vilja enn aðrir meina að Bandaríkjamenn séu ekki endilega tilbúnir að kjósa konu í æðsta embætti landsins.
Frá árinu 2006 hafa kjósendur verið spurðir hvort þeir telji Bandaríkin vera tilbúin til að hafa kvenkyns forseta eða ekki. Árið 2006 svöruðu 60 prósent þessari spurningu játandi, sú tala hefur hækkað jafnt og þétt á milli ára og er nú svo komið að 80 prósent svara henni játandi. Aðeins 12 prósent telja það mjög áríðandi, 19 prósent frekar áríðandi, 28 prósent ekki mjög mikilvægt, 22 prósent ekki mikilvægt. Áhugavert er að rýna þessa könnun því þar kemur í ljós að konur eru svartsýnni en karlar um að landið sé tilbúið fyrir kvenkyns frambjóðanda en 83 prósent karla svara spurningunni játandi en aðeins 76 prósent kvenna. Þá eru demókratar jákvæðari eða 90 prósent en aðeins um 68 prósent repúblikana telja það tímabært. Hafa ber í huga að það hefur án efa áhrif á þessar kannanir hverjir eru svo í raun í framboði af hvaða kyni og fyrir hvaða flokk þegar könnunin er tekin.
Stjórnmálaspekingar hér vestra hafa margir bent á að sjaldan eða aldrei hefur verið í framboði til forseta einstaklingur með jafn víðtæka reynslu af starfi forseta og Hillary Clinton. Bæði sem fyrrverandi forsetafrú og fyrrverandi utanríkisráðherra. Kvennasamtök hafa því nær öll sammælst um að hún hafi staðið vaktina fyrir konur í áratugi og eigi því skilið stuðning sinn. Við Íslendingar þekkjum það vel hversu mikil innspýting inn í réttindabaráttu kvenna það getur verið að hafa kosið sér kvenkyns forseta og er það rauður þráður í allri baráttu Hillary að leiðrétta þurfi þennan hlut kvenna.
Fimmtán konur hafa frá upphafi boðið sig fram til forseta í stjórnmálasögu Bandaríkjanna en engin haft árangur sem erfiði. Hundruðir karla hafa boðið sig fram en fjörtíu og fjórir karlkyns forsetar hafa verið svarnir í embætti frá árinu 1789.
Hin nýja auglýsing Trump gegn Hillary og löng saga hans af kvenfyrirlitningu, rasisma og almennum popúlisma, fær marga til að telja að það gæti orðið einskonar þema í baráttunni þeirra á milli, verði þau tvö útnefnd fulltrúar flokkanna.
Berit Ås, norskur félagsfræðingur og fyrrverandi þingmaður, er einna þekktust fyrir að hafa greint hinar svokölluðu fimm leiðir, sem algengast eru gegn konum með það að markmiði að þagga niður í þeim. (Ås er einnig þekkt fyrir að hafa búið í íbúð John Lennons og Yoko Ono á meðan hún tók þátt í Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1973 en undirrituð situr einmitt þá ráðstefnu nú og er næsti kafli greinarinnar innblásinn af þeirri veru).
Þessi fimm atriði eru í mjög stuttu máli notuð með því að:
- gera viðkomandi ósýnilegann,
- gera lítið úr honum,
- upplýsingum haldið frá viðkomandi,
- allir kostir viðkomandi eru gerðir slæmir (e. „Damned if you do and damned if you don’t“),
- að koma samviskubiti fyrir hjá viðkomandi og skömmustutilfinningu.
Þessi aðferðarfræði er þekkt víðar en í stjórnmálum. Ófáar konur sem hafa komið að stjórnmálum kannast við að þessi aðferðafræði hafi verið nýtt gegn þeim. Ås útskýrir aðferð númer tvö, það að gera lítið úr viðkomandi, þannig að hún einkennist af eftirfarandi: „Þetta á sér stað þegar gert er lítið úr framlagi kvenna, það er gert grín af þeim, þeim líkt við dýr, þeim gert að vera of tilfinningasamar, eða of kynæsandi, eða of kaldar og stjórnsamar“. Án efa munum við sjá meira af þessari aðferðafræði að hálfu Trump næstu vikurnar og mánuði og þá ekki ónýtt að geta brugðið fyrir sig greiningatóli Berit Ås.
Ms. Magazine, sem stofnað var af ofurfemínistanum Gloriu Steinem, hefur einfaldað málið fyrir kjósendum sem hafa efasemdir um Hillary Clinton og geta nú greint sjálfir hvort það sé vegna kvenfyrirlitningar sem þeir geti ekki hugsað sér að kjósa Clinton. Mikilvægt er að átta sig á að kvenfyrirlitning finnst ekki einvörðungu í karlmönnum heldur konum líka. Einkennin eru þrjú samkvæmt blaðinu:
- Ef þér mislíkar Hillary Clinton vegna stefnu hennar og vandamála þeirra hjóna, en elskar enn Bill Clinton, gætir þú verið haldin/n djúpstæðri kvenfyrirlitningu.
- Ef þú komst að þeirri niðurstöðu að Hillary Clinton væri ómöguleg fyrst og rýndir svo skoðanir hennar til að réttlæta skoðun þína, þá gætirðu glímt við djúpstæða kvenfyrirlitningu
- Ef þú dæmir Hillary Clinton fyrir hluti sem þú hefur fyrirgefið karlkyns stjórnmálamönnum, gætir þú verið með kvenfyrirlitningu á háu stigi. Til dæmis með því að styðja Obama en dæma Clinton vegna starfa hennar fyrir hann.
Fyrir þá sem vilja skilja greininaferlið betur má lesa um það á vef Ms. Magazine.
Val Bandaríkjamanna í næstu kosningum mun þess vegna að öllum líkindum standa á milli þess að kjósa fyrsta kvenkyns forsetann sem hefur langa sögu að berjast fyrir réttindum kvenna eða kjósa mann sem haldinn er djúpstæðri kvenfyrirlitningu með tilheyrandi afturhvarfi sem það hefði fyrir jafnrétti kynjanna.