Biðraðir og brjálað stuð á Secret Solstice 2016
Secret Solstice var haldin í þriðja sinn um síðustu helgi. 170 tónlistaratriði á sjö sviðum á fjórum dögum. Kristinn Haukur Guðnason fór á tónlistarhátíð.
Tónlistarhátíðin Secret Solstice var haldin um seinustu helgi í Laugardalnum eins og flestir vita. Þetta er í þriðja skiptið sem hátíðin er haldin og hún hefur vaxið umtalsvert í hvert skipti. Í þetta skipti var boðið upp á fjögurra daga veislu með um 170 tónlistaratriðum á 7 sviðum. Þar komu fram bæði íslenskar og erlendar hljómsveitir, bæði bílskúrsbönd og heimsþekktir tónlistarmenn. Fyrir margra hluta sakir var Secret Solstice 2016 ógleymanleg lífsreynsla.
Fimmtudagur
Ekki mjög secret
Þegar mætt var á fyrsta kvöld hátíðarinnar var augljóst að hún yrði töluvert fjölmennari og stærri en árið áður. Hátíðargestir voru um 15.000 talsins sem er fjölgun um ca. 40% frá árinu áður en þá var þetta þriggja daga hátíð en ekki fjögurra. Vaxtarverkirnir gerðu strax vart við sig á opnunarkvöldinu þar sem mikil röð myndaðist hjá fólki sem þurfti að skipta miðunum sínum fyrir armbönd til að komast inn á svæðið. Það var reyndar möguleiki að skipta fyrr í vikunni en miðað við fjöldann í röðinni höfðu greinilega ekki margir áttað sig á því. Í þessari röð stóð maður í um klukkutíma þar sem einungis fjórir afgreiðslubásar voru til staðar. Þar með missti maður af rapparanum Gísla Pálma sem gerði garðinn frægan á hátíðinni fyrir ári síðan með því að taka Jackass stjörnuna Bam Margera í karphúsið. Góður rómur var gerður að frammistöðu hans á hátíðinni en hvað um það. Maður mun fá ótal tækifæri á að sjá hann í framtíðinni.
Röðin langa hindraði mann ekki frá því að sjá „leynigestina“. Leyndinni miklu hafði reyndar verið aflétt nokkru fyrr ólíkt árinu áður þegar Busta Rhymes kom fram á tónleikum sem verður helst minnst fyrir geðvonsku rapparans. Í þetta sinn voru leynigestirnir hinar geðþekku Sister Sledge frá Fíladelfíuborg sem hafa plægt diskóakurinn í um það bil hálfa öld. Sledge systurnar voru upprunalega fjórar (Debbie, Joni, Kim og Kathy) og á hátindi ferilsins í kringum árið 1980. Nú eru aðeins Debbie og Joni eftir en með þeim mun yngri söngkona, Tanya Ti-et. Sister Sledge voru í banastuði og áhorfendur virtust taka þeim vel þrátt fyrir margfalt kynslóðabil. Samhæfðar danshreyfingarnar voru augnayndi og gaman að fá að heyra diskóslagara á borð við He´s the Greatest Dancer og We Are Family. Systurnar komu manni meira að segja á óvart með því að spila ábreiðu af Chic laginu Good Times og splæsa því saman við Sugarhill Gang smellinn Rapper´s Delight sem er almennt talið fyrsta rapplag sögunnar. Sem betur fer létu systurnar Tönyu um rappið, annað hefði orðið vandræðalegt. Hljóðfæraleikararnir sem spiluðu undir voru allir einstaklega færir og þá sérstaklega bassaleikarinn. Allir fengu þeir að taka löng sóló þegar þeir voru kynntir til leiks. Heilt yfir voru þetta ákaflega notalegir tónleikar sem hlýjuðu manni um hjartaræturnar. Franski tölvupopparinn St Germain átti að fylgja í kjölfarið en hann einfaldlega skrópaði í flugið. Daníel Ágúst og félagar í GusGus hlupu í skarðið fyrir hann tónleikagestum til mikillar ánægju.
Föstudagur
Kóngarnir í Höllinni
Það var búið að gefa það út að stærsta hljómsveit hátíðarinnar, hinir bresku Radiohead, myndi spila innanhúss í Jötunnheimum (nýju Laugardalshöllinni). Vegna stærðar hússins og öryggiskrafna hljómsveitarinnar var því ljóst að einungis um 11-12 þúsund manns myndu komast á þá tónleika, þ.e. um 80% hátíðargesta. Þegar maður mætti um sexleytið var strax komin töluverð röð fyrir utan höllina og því ekkert annað í boði en að tryggja sér pláss. Þar með fuku áhugaverðir tónleikar með íslensku rapphljómsveitinni Úlfi Úlfi og breska plötusnúðnum Goldie, sem var tengdasonur Íslands fyrir um 20 árum síðan. Áhuginn var augljóslega mikill á svæðinu fyrir tónleikum Radiohead og röðin lengdist og lengdist. Þegar fólki var hleypt inn á níunda tímanum mátti sjá röðina hlykkjast um allt hátíðarsvæðið eins og Miðgarðsorminn. Ekki var nóg með það því að um tíma náði röðin út fyrir svæðið og inn á Reykjabraut. Aðstandendur hátíðarinnar höfðu biðlað til fólks að mæta tímanlega en ekki urðu allir við því og mátti skynja umtalsverða reiði þeirra sem ekki komust inn eða misstu af bróðurpartinum af tónleikunum.
Áður en Radiohead stigu á svið lék íslenska rokkhljómsveitin Fufanu í Jötunnheimum. Stanslaust bættist í salinn og Fufanu liðar glaðir með það. Þetta hefur sennilega verið þeirra stærsta stund á ferlinum. Eftir því sem fólkið hrannaðist inn jókst hitinn í salnum, sumir töldu hann jafnvel óbærilegan. Verðlaunin fyrir röðina löngu og hitann voru þó frábærir tónleikar hinnar 30 ára gömlu hljómsveitar. Einn gestur komst svo skemmtilega að orði: “Þeir einfaldlega kunna þetta”. Radiohead voru klappaðir upp í tvígang og tónleikarnir stóðu yfir í um tvær og hálfa klukkustund. Þetta var mikið sjónarspil með flottari ljósa-og video sýningu. Á frumleikann hefur aldrei skort hjá bandinu sem gripu í ýmis hljóðfæri við ákveðin tækifæri. Söngvarinn Thom Yorke sýndi þarna að hann er einn af merkilegustu tónlistarmönnum samtímans. Fyrstu fimm lögin voru öll af nýjustu plötu sveitarinnar A Moon Shaped Pool. En svo fóru að heyrast kunnuglegir slagarar eins og My Iron Lung og No Surprises frá tíunda áratugnum sem er óumdeilanlega þeirra mesta framatímabil. Meirihlutinn af settinu var þó helgaður nýrri lögum. Rúsínurnar voru þó í pysluendanum. Í uppklappi númer eitt mátti heyra meistaraverkið Paranoid Android og í uppklappi númer tvö kom svo eftirlæti flestra, Creep.
Laugardagur
Rokk, rapp, rok og rigning
Hip-hop hefur verið áberandi á Secret Solstice og þetta ár er engin undantekning. Á laugardagskvöldinu mátti glöggt heyra gróskuna í íslensku rappi. Þar komu m.a. fram Reykjavíkurdætur, Emmsjé Gauti, Herra Hnetusmjör og hinir gamalreyndu XXX Rottweiler Hundar. Stærsta númer kvöldsins var þó þungarokkshljómsveitin Deftones frá Kaliforníu. Deftones eiga rætur sínar í hinni svokölluðu nu-metal hreyfingu á seinni hluta tíunda áratugarins. Þeir höfðu þó alltaf víðari skírskotun, töldust listrænni og melódískari en samferðamenn þeirra í hreyfingunni. Sú hlið hefur einungis ágerst hjá hljómsveitinni í seinni tíð og það hefur haldið henni á floti. Helsti styrkur hljómsveitarinnar hefur ávallt verið söngvarinn og frontmaðurinn Chino Moreno. Hann er ekki einungis meðal fremstu söngvara rokktónlistarinnar heldur kann hann vel þá list að halda uppi stemningu á tónleikum og vera í mikilli nærveru við áhorfendur. Hann sýndi það glöggt á Secret Solstice. Moreno heillaði fólk upp úr skónum og var hreinlega allt í öllu á tónleikunum. Deftones spiluðu góða blöndu af eldri og nýrri lögum en þó í köflum, 2-3 lög af hverri plötu í röð. Það gaf tónleikunum nokkuð sérstakan keim, líkt og þetta væri ferðalag í gegnum ferilinn hjá þeim. Upplifunin af tónleikunum var þó ekki gallalaus. Það var hreinlega afleitt veður, mikil rigning og töluvert rok. Það orsakaði sennilega nokkra fækkun á tónleikunum þegar á leið. Einnig kvartaði fólk yfir lélegu hljóði nálægt sviðinu, aftar var það mun betra. Þetta hafði þó engin áhrif á Chino Moreno sem var í essinu sínu. Hápunktur tónleikana var þegar hann tileinkaði hinu nýlátna poppgoði Prince lagið Prince.
Það var hálfgerð synd að tónleikar Deftones á Valhallar-sviðinu hafi skarast að nokkru leyti við tónleika rappdúósins M.O.P. frá Brooklyn sem fóru fram á öllu minna sviði sem nefndist Gimli. Þar var smekkfullt af fólki í biluðum ham. Meðlimir M.O.P., þeir Lil Fame og Billy Danze, skiptust á að skjalla lýðinn og halda uppi miklu stuði. Aldrei var stoppað heldur skellti plötusnúður þeirra á ýmsum vel þekktum smellum milli þeirra eigin laga. Það mátti heyra allt milli himins og jarðar eins og t.d. Three Little Birds með Bob Marley, Smells Like Teen Spirit með Nirvana og 99 Problems með Ice-T. M.O.P.-liðar voru ánægðir með viðtökurnar og sögðu við áhorfendur „Við erum hip-hop. Þið eruð hip-hop“. Svo var tónleikunum lokað með þeirra þekktasta lagi Ante Up og allt hreinlega trylltist. Þetta var sennilega eitt best heppnaða gigg hátíðarinnar.
Sunnudagur
Biðarinnar virði
Ýmislegt var á dagskránni á sunnudeginum en þegar maður mætti um 15:30 blöstu við manni þau tíðindi að tónleikar suður afrísku rapphljómsveitarinnar Die Antwoord myndu frestast vegna flugtafa. Ekki bara það heldur neyddust aðstandendur hátíðarinnar til að færa tónleikana af Valhallar-sviðinu inn á svið sem nefndist Hel (gamla Laugardalshöllin). Hel hafði hingað til verið notuð undir næturtónleika ýmissa plötusnúða við góðan róm en ljóst var að hún myndi aldrei geta hýst þann fjölda sem vildi sjá Die Antwoord heldur einungis á bilinu 5-6 þúsund manns. Mikill fjöldi hátíðargesta höfðu lýst því yfir að þessir tónleikar væru helsta eða jafnvel eina ástæðan fyrir komu þeirra. Því var lítið annað að gera en að ná sér í vistir, góðu sæti í röðinni og eyða batteríinu í símanum sínum. Fjöldi annarra athyglisverðra tónleika voru í boði þennan dag, svo sem með krútt-sveitunum Amabadama og Mammút, írsku söngkonunni Róisín Murphy og íslensku ofurgrúppunni Of Monsters and Men. En allt slíkt yrði að víkja ef maður ætlaði að vera öruggur um að sjá tónleikana í Hel. Þetta orsakaði mikla kergju hjá hátíðargestum sem höfðu margir ekki lyst á margra tíma biðröð, sérstaklega ekki eftir að hafa staðið lengi í áðurnefndum röðum. Aðstandendur Secret Solstice gátu hins vegar ekki fært tónleikana, sem áttu að fara fram á Valhallarsviðinu, aftar vegna reglna um almannafrið og enginn tími var til að byggja nýtt svið í Jötunnheimum. Að koma Die Antwoord fyrir í Hel var því illskársti kosturinn. Húsið var opnað 21:30 en ekki hleypt inn í salinn fyrr en klukkutíma síðar. Þetta olli mikilli örtröð, hita og pirringi í anddyrinu og manni stóð hreinlega ekki á sama í ljósi þess að það voru lítil börn á svæðinu. Svo var opnað og fólk byrjaði að streyma inn í salinn og stúkuna, hver fersentimeter var nýttur.
Tónleikarnir sjálfir, sem hófust loks klukkan 23:00, voru upplifun sem fáir munu gleyma. Síðan að tríóið var stofnað árið 2008 hefur frægðarsól þeirra risið hratt og þá helst vegna frumleika í myndbandagerð og eftirtektarverðrar frammistöðu á sviði. Mannfjöldinn í Hel gat varla hamið sig þegar þau stigu loks á svið, plötusnúðurinn Dj Hi-Tek, rapparinn Ninja og eftirlæti flestra Yolandi Visser með sína skræku rödd. Auk þeirra voru tveir dansarar með í för. Salurinn hreinlega gekk til undir teknóskotnu rappinu. Ninja átti í mestu basli með að halda sig inn á sviðinu og fleygði sér ítrekað út í mannhafið. Yolandi gat varla hreyft sig án þess að lýðurinn ærðist. Þar sem bandið er mjög ungt rúmuðust allir helstu smellirnir innan tónleikanna, s.s. Ugly Boy, Baby´s on Fire, Fatty Boom Boom og Pitbull Terrier. Hljómsveitin flutti hins vegar einungis eitt lag í uppklappi, laginu sem kom þeim á kortið Enter the Ninja. Fyrir utan frammistöðu þeirra sjálfra voru tónleikarnir heilmikið sjónarspil. Ljósa og video sýningarnar voru einstakar og búningaskipti flytjendanna ör. Áhorfendur voru í skýjunum og margir fullyrtu að þetta væru bestu tónleikar sem þeir hefðu nokkurn tímann séð. Eftir á að hyggja fyllilega þess virði að bíða í sjö klukkutíma í röð fyrir þar sem maður hlaut ekki varanlegan skaða af. Þegar út var komið var röðin ennþá mjög löng og reiði töluverð í fólkinu. Á einum tímapunkti þurfti lögregla að hafa afskipti af röðinni.
Framtíð Secret Solstice
Secret Solstice 2016 gekk augljóslega ekki áfallalaust fyrir sig og gagnrýnisraddir hafa verið háværar. Fólk hefur kvartað undan skipulagi atriða, löngum biðröðum, mikilli kannabisneyslu á svæðinu, framkomu við sjálfboðaliða, litlu upplýsingaflæði og fleiru. Sumu er vissulega hægt að kenna aðstandendum um en annað er hreinlega óviðráðanlegt. Hátíðin er ung og hefur sennilega vaxið allt of hratt. Aðstandendurnir viðurkenna það sem miður fór, hafa beðist afsökunar á því og segjast munu læra af reynslunni. Margir hafa þó lýst yfir vonbrigðum sýnum og hyggjast ekki sækja hátíðina í framtíðinni.
Það hefur þó verið einblínt um of á það sem miður fór á hátíðinni og minna talað um það sem var gott, þ.e. tónlistin. Tónleikarnir voru flestir afbragð og sumir munu lifa með manni um ókomna tíð. Það eru forréttindi að hafa svo stóra tónleikahátíð á besta tíma í hjarta Reykjavíkur og á mjög viðráðanlegu verði. Fjölmargir erlendir gestir sækja hátíðina og hún vekur eftirtekt um allan heim. Umræðan hefur að mestu leyti snúist um þær erlendu stórhljómsveitir sem hafa komið fram en ekki má gleyma þeim ótal íslensku hljómsveitum sem koma fram fyrir mikinn fjölda og fá tækifæri til að kynna sig fyrir umheiminum. Það yrði mikil synd ef hátíðin myndi leggjast af en aðstandendur mættu draga lærdóm af hátíðinni í ár og mögulga smækka hana fyrir næsta ár eða endurskipuleggja hana. Secret Solstice þarf ekki að vera Hróarskelda.