Í alvöru Weiner?
Fyrrverandi þingmaðurinn og borgarstjóraframbjóðandinn Anthony Weiner var opinberaður um helgina. The New York Post greindi frá því að hann hefði sent kynferðislegar myndir af sér til konu sem er alls ekki eiginkona hans. Þetta er í þriðja sinn á fimm árum sem hann er gripinn við þá iðju.
Anthony Weiner verður 52 ára gamall um komandi helgi. Frá því að hann var á þrítugsaldri og þangað til í maí 2011 var hann stjórnmálamaður á uppleið. Hann hafði unnið sem ráðgjafi þingmanns, setið í borgarstjórn New York borgar og verið fulltrúi suðurhluta-Brooklyn og Queens í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í 13 ár. Weiner hafði orð á sér sem ötull baráttumaður frjálslyndis og mannréttinda. Hann barðist fyrir auknu og ódýrara aðgengi Bandaríkjamanna að heilsugæslu, gekk með gjallarhorn og regnbogafána í Gay Pride-göngum í New York, stóð fastur með rétti kvenna til að fara í fóstureyðingar og með lagabreytingum sem gerðu viðskipti með tóbaksvörur á internetinu að alríkisglæp í Bandaríkjunum. Sumar ákvarðanir hans voru umdeildari, sérstaklega innan demókrataflokksins. Weiner kaus til að mynda með hernaðaraðgerðum í Írak 2002 og tók þátt í því að reyna að meina Palestínu að verða hluta af Sameinuðu þjóðunum, en hann er gyðingur.
Weiner þótti ákaflega kröfuharður yfirmaður og fyrir vikið var starfsmannavelta hans einna hæst allra þeirra sem sátu á Bandaríkjaþingi. Í frétt New York Times sem birtist sumarið 2008 var sagt að Weiner hafi krafist þess að starfsfólk sitt væri í stanslausu sambandi við hann í gegnum BlackBerry-símann sinn, öskraði í sífellu á það og ætti það til að kasta húsgögnum. Þótt margir fyrrum starfsmenn hans hafi hætt og tekið þessu atferli Weiner illa heillaði hann líka marga slíka, sem hrifust af eldmóði hans og ákveðni.
Hvernig sem litið var á það þá var ferill Weiner á réttri braut. Hann var að vekja athygli og að klífa metorðastigann og var sterklega orðaður við að verða næsti borgarstjóri í New York. Í júlí 2010 giftist hann síðan Humu Abedin, sem var og er einn nánasti ráðgjafi Hillary Clinton, sem hefur líkt sambandi sínu við Abedin við samband móður og dóttur. Bill Clinton gaf hjónin saman. Gæfan blasti við Weiner á öllum vígstöðum.
Þ.e. þangað að hann var opinberaður í maí 2011.
Atvik númer eitt
Þann 27. maí 2011 var Abedin ófrísk af syni þeirra Weiner, sem fæddist í desember sama ár. Þann dag ákvað eiginmaður hennar að senda 21 árs gamalli konu sem fylgdi honum á Twitter mynd af nærbuxunum sínum, þar sem bersýnilega sást móta fyrir getnaðarlim hans. Myndin var send í gegnum opinbera Twitter-aðgang þingmannsins.
Í fyrstu neitaði Weiner staðfastlega að hann hefði sent myndina. Þegar ljóst var að sú skýring væri ekki að halda boðaði hann til blaðamannafundar og viðurkenndi að hafa skipst á skilaboðum og myndum við sex konur á undanförnum þremur árum. Weiner baðst afsökunar á atferlinu og á því að hafa þrætt fyrir það áður. Hann ætlaði þó ekki að segja af sér embætti.
Nokkrum dögum síðar lak enn ein myndin af fermingarbróður Weiner sem hann hafði sent í gegnum Twitter út og hann sá sæng sína upp reidda.
Þann 16. júní 2011 tilkynnti Weiner að hann segði af sér þingmennsku. Til að bæta gráu ofan á þá hörmung sem hann hafði kallað yfir sig, ólétta eiginkonu sína og Demókrataflokkinn þá tapaðist þingsæti hans til Repúblikana þegar kosið var um það nokkrum mánuðum síðar.
Hér er Carlos Danger
Flestir voru á því að Weiner væri búin að vera. En Abedin stóð með honum eftir að þau höfðu farið í gegnum margháttaða ráðgjöf til að reyna laga allt sem var brotið á milli þeirra í kjölfar stafrænna hliðarskrefa Weiner.
Í viðtali sem hann fór í við The New York Magazine í apríl 2013 biðlaði hann síðan til íbúa heimaborgar sinnar um að gefa sér annað tækifæri. Mánuði síðar tilkynnti Weiner að hann ætlaði sér að sækjast eftir að vera frambjóðandi Demókrataflokksins í borgarstjórnarkosningum sem framundan væru í borginni.
Samhliða gerði hann samning við heimildarmyndarmennina Josh Kriegman og Elyse Steinberg um að fylgjast með kosningabaráttu og upprisu hans. Í aðalhlutverkum, auk Weiner sjálfs, er Huma Abedin og helsta starfsfólk hans. Afurðin, sem heitir einfaldlega „Weiner“ var frumsýnd á Sundance hatíðinni í janúar, hlaut helstu verðlaun hennar og hefur hlotið glimrandi dóma.
Þótt fáir hafi átt von á því að Weiner næði að reisa sig við virtist honum vera að takast hið ómögulega. Vopnaður skýrri kosningaáætlun - sem hann kallaði 64 hugmyndir sem miðað að því að halda stöðu New York sem höfuðborg millistéttarinnar - sótti hann sífellt á og í júlí var farinn að mælast með mest fylgi allra í kapphlaupinu um að hljóta útnefningu demókrata.
Þann 23. júlí 2013 birti vefsíðan „The Dirty“ nýjar kynferðislegar myndir og skilaboð sem send höfðu verið frá manni sem kallaði sig „Carlos Danger“ til 22 ára gamallar konu. Carlos Danger var Anthony Weiner.
Allt fest á filmu
Weiner boðaði til blaðamannafundar sama dag og fréttin birtist. Í heimildarmyndinni um hann eru sýnd brot af honum og starfsfólki hans að reyna að takast á við stöðuna. Og þar eru sýnd brot af samskiptum Weiner við eiginkonu sína á kosningaskrifstofu hans. Spennan sem er þeirra á milli í þeim aðstæðum er nánast sýnileg.
Enn ákvað Abedin þó að standa með eiginmanni sínum og kom fram á blaðamannafundi með honum. Vanlíðan hennar duldist þó fáum.
Á fundinum reyndi Weiner að láta sem að skilaboðin og myndirnar hefðu verið frá þeim tíma sem hann var þingmaður og hefði stundað slíkar sendingar. Hann sagðist alltaf hafa átt von á því að fleiri slík kæmu upp á yfirborðið.
Fljótlega var þó ljóst að tímalínan sem Weiner var að reyna að selja stæðist ekki. Myndirnar og skilaboðin voru enda send á tímabili sem hófst síðla árs 2012 og þau nýjustu bárust í apríl 2013. Konan sem hann var að senda á steig síðan fram og lýsti samskiptum þeirra sem mjög kynferðislegum, þótt að þau hefðu aldrei hist.
Fylgi Weiner féll samstundis um 20 prósentustig og allir viðburðir sem hann mætti á fóru að snúast um typpamyndirnar sem hann væri að senda á konur. Þótt kosningabaráttan yrði farsakennd og fylgið hyrfi neitaði Weiner að gefast upp. Kjósendum var alveg sama og hann fékk einungis 4,9 prósent atkvæða í forvali demókrata í september 2013. Draumurinn um borgarstjórastólinn var úti.
Aftur Weiner? Í alvöru?
Næstu árin lét Weiner, eðlilega, lítið fyrir sér fara. Eiginkona hans, sem enn stóð með honum, gerðist lykilleikandi í forsetaframboði Hillary Clinton og gegnir þar bæði hlutverki persónulegs aðstoðarmanns Clinton og varaformanns stjórnar framboðsins. Abedin er sögð þriðji áhrifamesti einstaklingurinn innan framboðs Clinton.
Sviðsljósið færðist eðlilega á fortíð eiginmanns hennar þegar heimildarmyndin um borgarstjórnarframboð hans var frumsýnd fyrr á þessu ári en sökum þess hversu hispuslaus og heiðarleg myndin er virtist það ekki vinna gegn henni. Þ.e. þangað til um liðna helgi.
Þá birti slúðurblaðið New York Post frétt um nýja skæðadrifu vafasamra mynda sem Weiner hafði sent konu sem var alls ekki eiginkona hans. Myndirnar voru alls konar. Margar sýndu Weiner beran að ofan að stæra sig af vel tónuðum efri líkama sínum. Sumar voru myndir af nærbuxum hans þar sem sást móta fyrir getnaðarlim hans, líkt og þær sem höfðu gert hann heimsfrægan fyrir fimm árum síðan. Sú mynd sem vakti mesta athygli, og hlaut mesta gagnrýni, var af honum uppi í rúmi á nærbuxunum einum fata með son sinn og Abedin sofandi sér við hlið. Skilaboðin og myndsendingarnar hófust seint í janúar 2015 og þau nýjustu voru send ágúst 2016. Carlos Danger gerði það aftur, og sýndi að hann hefur ekkert lært af fyrri mistökum.
Í þetta sinn hafði Abedin fengið nóg og í frétt sem birtist í New York Times í gær var greint frá því að hún hefði sagt skilið við Weiner eftir nýjasta hneykslið.