Deyjandi (ó)siður
Dauðarefsingar eru á fallandi fæti í Bandaríkjunum
Seint að kvöldi 19. október síðastliðins var George Lawler, 63ja ára gamall maður sem skaut lögregluþjón til bana árið 1997, tekinn af lífi í Jackson í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Hann var sautjándi sakamaðurinn sem tekinn var af lífi á þessu ári í Bandaríkjunum, en alls hafa 1.439 verið líflátnir síðan dauðarefsingar voru teknar upp aftur þar í landi árið 1976, eftir tíu ára hlé.
Bandaríkin hafa haft sérstöðu meðal vestrænna ríkja um árabil þar sem ekkert annað í þeim hópi stundar dauðarefsingar. Nú virðist vera komið að ákveðnum vatnaskilum hvað viðhorf almennings varðar því að í fyrsta sinn frá árinu 1972, sama ár og Hæstiréttur úrskurðaði dauðarefsingar ólöglegar, virðast dauðarefsingar ekki njóta stuðnings meirihluta Bandaríkjamanna. Ný könnun frá Pew Research Center sýnir að stuðningur er nú 49% – miðað við 80% stuðning árið 1995 – og andstaða mælist 42%, sem er það mesta sem mælst hefur síðan 1972.
Ríki | Aftökur | Ríki | Aftökur |
---|---|---|---|
Texas | 538 | Nevada | 12 |
Oklahoma | 112 | Utah | 7 |
Virginía | 111 | Tennessee | 6 |
Flórída | 92 | Maryland | 5 |
Missouri | 87 | Washington | 5 |
Georgía | 67 | Nebraska | 3 |
Alabama | 57 | Montana | 3 |
Ohio | 53 | Pennsylvanía | 3 |
Norður Karólína | 43 | Alríkisstjórnin | 3 |
Suður Karólína | 43 | Kentucky | 3 |
Arizona | 37 | Idaho | 3 |
Louisiana | 28 | Suður Dakota | 3 |
Arkansas | 27 | Oregon | 2 |
Mississippi | 21 | Connecticut | 1 |
Indiana | 20 | Nýja Mexíkó | 1 |
Delaware | 16 | Colorado | 1 |
Kalifornía | 13 | Wyoming | 1 |
Illinois | 12 | Alls | 1439 |
Allt morðingjar |
---|
Allir þeir sem hafa verið teknir af lífi í Bandaríkjunum frá því að dauðarefsingar voru leyfðar að nýju árið 1976 voru dæmdir fyrir morð, oft með öðrum glæpum. Þrátt fyrir það eru nokkur ríki með ákvæði í lögum sem gera ráð fyrir dauðadómum fyrir annars konar glæpi, sérstaklega barnaníð. Hæstiréttur Bandaríkjanna ógilti slíkan dóm árið 2008 með þeim rökum að dauðadómur væri of þung refsing fyrir brot þar sem fórnarlambið lét ekki lífið. |
Allt frá aldamótum hefur dauðarefsingum fækkað stöðugt og þrátt fyrir að 30 ríki séu formlega með dauðarefsingu í lögum, eru fer þeim sífellt fækkandi sem fullnusta dauðadóma og hafa einungis níu þeirra framkvæmt aftökur síðustu fjögur ár. Þegar nánar er skoðað má sjá að á þessum tíma stóðu aðeins fimm ríki fyrir rúmum 90% af dauðarefsingum, öll úr hópi Suðurríkjanna, og í ár og í fyrra hafa 39 af 45 dauðarefsingum verið framkvæmdar í þremur ríkjum, Missouri, Georgíu og Texas. Í ár hafa, eins og áður sagði, sautján verið teknir af lífi í fimm ríkjum og þar af fjórtán í Texas og Georgíu.
Suðurríkin refsiglöð
Þegar kortið er skoðað sker Texas sig raunar með afgerandi hætti úr þessum hópi 35 ríkja sem hafa beitt dauðarefsingum frá 1976. Af þeim 1.439 sakamönnum sem hafa mætt örlögum sínum af hendi opinberra starfsmanna í Bandaríkjunum voru 538, tæplega 40% af heildarfjöldanum, í Texas. Þar á eftir koma Oklahoma og Virginia með um 112 og 111 aftökur, en efstu tíu ríkin á þessum vafasama lista stóðu fyrir 84% allra aftaka.
Engar dauðarefsingar í áratug |
---|
Engar dauðarefsingar voru framkvæmdar á árunum 1966-1976. Fram að því hafði þeim farið sífækkandi frá lokum seinna stríðs þegar um 150 manns voru líflátnir á ári. Frá árinu 1930 hafa tæplega 5.300 manns verið líflátnir í Bandaríkjunum. |
Upp á síðkastið hefur hringur dauðarefsinga orðið sífellt þrengri og nú má raunar taka 16 umdæmi af alls 3.143 í Bandaríkjunum (0,5%) út fyrir sviga sem þau refsiglöðustu. Þetta eru einu umdæmin þar sem fimm eða fleiri dauðadómar voru kveðnir upp á árunum 2010 til 2015. Af þessum 16 umdæmum eru sex í Alabama og Flórída, þar sem kviðdómendur þurfa ekki að vera einróma í sakfellingum, fimm í Suður-Kalíforníu, sem er gríðarlega fjölmennt svæði og telur meðal annars Los Angeles (enginn hefur þó verið líflátinn í Kalíforníu síðan 2006), tvö eru í Texas og eitt í Nevada, Louisiana og Arizona.
Dauðarefsingar á Íslandi |
---|
Síðasta aftakan á Íslandi fór fram árið 1830, þegar þau Agnes og Friðrik voru hálshöggvin eins og frægt er orðið, fyrir morðið á Natani Ketilssyni. Júlíana Silva Jónsdóttir, sem myrti bróður sinn árið 1913 var síðust allra dæmd til dauða á Íslandi, en refsingu hennar var síðar breytt í fangelsisvist. Það var svo árið 1928, sem dauðarefsing var afnumin að fullu með lögum á Íslandi. |
Í nýlegri skýrslu Fair Punishment Project við Harvard Law School (fyrri hluti, seinni hluti) kemur fram mikil fylgni þegar kemur að dauðadómum og kynþætti hinna dæmdu annars vegar og fórnalambanna hins vegar. Þannig er miklu líklegra að þeldökkir séu dæmdir og einnig er umtalsvert líklegra að dauðadómur sé kveðinn upp ef fórnarlambið er hvítt á hörund frekar en af öðrum kynþáttum.
Nokkrir skýringarþættir eru nefndir til sögunnar, meðal annars ráðast lyktir mála af afstöðu og framgöngu saksóknara, sem margir eru kosnir í sitt embætti á þeim forsendum að þeir sýni glæpamönnum enga miskunn. Þá fá sakborningar oft verjendur sem hafa jafnvel fjárhagslegan hvata til þess að fara með mál þar sem dauðarefsingar er krafist, fyrir dómstól í stað þess að semja um niðurstöðu án dauðarefsingar áður en til þess kemur.
156 saklausum sleppt af dauðadeild
Margir þættir liggja að baki þessum sinnaskiptum almennings. Þar má til dæmis nefna kostnaðinn sem liggur á bak við hvern einstakling á dauðadeildinni (um tvöfalt, jafnvel þrefalt, meiri á ári heldur en við uppihald almennra fanga), þá staðreynd að fælingarmáttur dauðarefsinga virðist vera afar takmarkaður ef nokkur (morðtíðni er hæst í Suðurríkjunum þar sem dauðarefsingar eru algengastar) og klúður í framkvæmd dauðarefsinga síðustu misseri þar sem sakamenn máttu þola miklar og langvinnar kvalir í aftökunni.
Dauðarefsingar á heimsvísu |
---|
Þrátt fyrir jákvæða þróun í Bandaríkjunum þar sem dauðarefsingum fækkar stöðugt, eru blikur á lofti á alþjóðavettvangi þar sem að fram kemur í skýrslu Amnesty International fyrir síðasta ár að dauðarefsingum fjölgaði um helming frá árinu áður. Samkvæmt henni voru 1.634, hið minnsta, teknir af lífi í fyrra í 25 löndum, og eru þá ekki talinn með hinn óþekkti fjöldi dauðarefsinga í Kína, sem gefur ekki upp slíka tölfræði. Dauðarefsingar hafa ekki verið fleiri í rúman aldafjórðung. |
90% af þeim aftökum fóru fram í Íran (977), Pakistan (320) og Sádi-Arabíu (158). Pakistan tók aftur upp dauðarefsingar undir lok 2014 og kann það að skýra aukninguna. Bandaríkin komu næst á hæla Sádi-Arabíu með 28 aftökur árið 2015. |
Það sem hefur sennilega mest áhrif er sú staðreynd að frá árinu 1973 hafa 156 dauðadæmdir einstaklingar verið hreinsaðir af öllum sökum og fengið frelsi á ný, oft á grundvelli tækniframfara við rannsóknir á lífsýnum eða þrýstings um endurupptöku vegna galla í málatilbúnaði. Ógerningur er að geta sér til um hversu margir saklausir hafa verið teknir af lífi í áranna rás eða hversu margir sitja enn inni á dauðadeild fyrir engar sakir.
Þegar litið er fram í tímann bendir flestallt til þess að mál muni halda áfram að þróast með þeim hætti að andstaða almennings við dauðarefsingar muni halda áfram að aukast og dauðarefsingum og dauðadómum fari einnig fækkandi. Mögulega fer enn að draga til tíðinda í þeim málum þar sem nú eru þrjú ríki að fara að kjósa um framhald dauðarefsinga í þessum mánuði. Kalifornía er með á kjörseðlinum tillögu um að afnema dauðarefsingar á meðan Nebraskabúar kjósa um hvort eigi að ógilda bann við dauðarefsingum sem ríkisþingið samþykkti í fyrra. Í Oklahoma, sem er eitt af þeim ríkjum sem hafa tekið flesta af lífi, er hins vegar tillaga um að lögfesta dauðarefsingar í stjórnarskrá ríkisins (þrátt fyrir að meirihluti íbúa sé andvígur dauðarefsingum).
Valdið liggur hjá Hæstarétti
Ef Bandaríkjamenn munu á einhvernum tímapunkti stíga skrefið til fulls og banna alfarið dauðarefsingar mun það gerast í gegnum hæstarétt, sem einmitt bannaði þær árið og fól svo ríkjunum aftur vald til að ákvarða það sjálf. Þar skiptir samsetning dómsins höfuðmáli þar sem íhaldssamari viðhorf hafa hingað til orðið ofan á við túlkun 8. viðauka stjórnarskrárinnar, sem kveður á um bann við ómannúðlegum eða óvenjulegum refsingum. Á næstu árum gæti staðan þó breyst þar sem enn á eftir að fylla í skarð Antonins Scalia, sem var eindreginn fylgjandi slíkum refsingum. Líklegt má teljast að næsti forseti fái tækifæri til þess að skipa einn eða tvo dómara sem gæti haft varanleg áhrif á refsistefnuna sem rekin er þar í landi, og eykur það enn á vægi komandi forsetakosninga þar í landi.
Í nýlegum leiðara í The New York Times var þróun mála tíunduð og þar segir meðal annars að þrír dómarar við réttinn, Stephen Breyer, Ruth Bader Ginsburg og Sonia Sotomayor hafi í nýlegum minnihlutaálitum tjáð miklar efasemdir um réttmæti dauðarefsinga. Breyer hafi meðal annars kallað eftir því að rétturinn tæki afstöðu til þess hvort þær stæðust stjórnarskrá.
Niðurlag leiðarans er afdráttarlaust: „Dauðarefsingar hafa hingað til sloppið undan því að vera bannaðar en nú eru afsakanirnar á þrotum: Þjóðin er orðin afhuga þeim og það er löngu kominn tími til þess að Hæstiréttur fleyti þessum andstyggilega sið inn í gleymskunnar dá.“
Heimildir: New York Times, LA Times, Death Penalty information Center, Amnesty International, The Marshall Project, Innocence Project, Bureau of Justice Statistics, Pew Research, Fair Punishment Project.