Bandaríkin

Deyjandi (ó)siður

Dauðarefsingar eru á fallandi fæti í Bandaríkjunum

Mynd: EPA

Seint að kvöldi 19. októ­ber síð­ast­lið­ins var George Lawler, 63ja ára gam­all maður sem skaut lög­reglu­þjón til bana árið 1997, tek­inn af lífi í Jackson í Georg­íu­ríki í Banda­ríkj­un­um. Hann var sautj­ándi saka­mað­ur­inn sem tek­inn var af lífi á þessu ári í Banda­ríkj­un­um, en alls hafa 1.439 verið líf­látnir síðan dauða­refs­ingar voru teknar upp aftur þar í landi árið 1976, eftir tíu ára hlé.

Banda­ríkin hafa haft sér­stöðu meðal vest­rænna ríkja um ára­bil þar sem ekk­ert annað í þeim hópi stundar dauða­refs­ing­ar. Nú virð­ist vera komið að ákveðnum vatna­skilum hvað við­horf almenn­ings varðar því að í fyrsta sinn frá árinu 1972, sama ár og Hæsti­réttur úrskurð­aði dauða­refs­ingar ólög­leg­ar, virð­ast dauða­refs­ingar ekki njóta stuðn­ings meiri­hluta Banda­ríkja­manna. Ný könnun frá Pew Res­e­arch Center sýnir að stuðn­ingur er nú 49% – miðað við 80% stuðn­ing árið 1995 – og and­staða mælist 42%, sem er það mesta sem mælst hefur síðan 1972.

Dauðarefsingar 1976 - 2016
Ríki Aftökur Ríki Aftökur
Texas 538 Nevada 12
Oklahoma 112 Utah 7
Virginía 111 Tennessee 6
Flórída 92 Maryland 5
Missouri 87 Washington 5
Georgía 67 Nebraska 3
Alabama 57 Montana 3
Ohio 53 Pennsylvanía 3
Norður Karólína 43 Alríkisstjórnin 3
Suður Karólína 43 Kentucky 3
Arizona 37 Idaho 3
Louisiana 28 Suður Dakota 3
Arkansas 27 Oregon 2
Mississippi 21 Connecticut 1
Indiana 20 Nýja Mexíkó 1
Delaware 16 Colorado 1
Kalifornía 13 Wyoming 1
Illinois 12 Alls 1439
Allt morð­ingjar
Allir þeir sem hafa verið teknir af lífi í Banda­ríkj­unum frá því að dauða­refs­ingar voru leyfðar að nýju árið 1976 voru dæmdir fyrir morð, oft með öðrum glæp­um. Þrátt fyrir það eru nokkur ríki með ákvæði í lögum sem gera ráð fyrir dauða­dómum fyrir ann­ars konar glæpi, sér­stak­lega barn­a­níð. Hæsti­réttur Banda­ríkj­anna ógilti slíkan dóm árið 2008 með þeim rökum að dauða­dómur væri of þung refs­ing fyrir brot þar sem fórn­ar­lambið lét ekki líf­ið.

Allt frá alda­mótum hefur dauða­refs­ingum fækkað stöðugt og þrátt fyrir að 30 ríki séu form­lega með dauða­refs­ingu í lög­um, eru fer þeim sífellt fækk­andi sem fulln­usta dauða­dóma og hafa ein­ungis níu þeirra fram­kvæmt aftökur síð­ustu fjögur ár. Þegar nánar er skoðað má sjá að á þessum tíma stóðu aðeins fimm ríki fyrir rúmum 90% af dauða­refs­ing­um, öll úr hópi Suð­ur­ríkj­anna, og í ár og í fyrra hafa 39 af 45 dauða­refs­ingum verið fram­kvæmdar í þremur ríkj­um, Mis­so­uri, Georgíu og Texas. Í ár hafa, eins og áður sagði, sautján verið teknir af lífi í fimm ríkjum og þar af fjórtán í Texas og Georg­íu.

Suð­ur­ríkin ref­siglöð

Þegar kortið er skoðað sker Texas sig raunar með afger­andi hætti úr þessum hópi 35 ríkja sem hafa beitt dauða­refs­ingum frá 1976. Af þeim 1.439 saka­mönnum sem hafa mætt örlögum sínum af hendi opin­berra starfs­manna í Banda­ríkj­unum voru 538, tæp­lega 40% af heild­ar­fjöld­an­um, í Texas. Þar á eftir koma Okla­homa og Virg­inia með um 112 og 111 aftök­ur, en efstu tíu ríkin á þessum vafa­sama lista stóðu fyrir 84% allra aftaka.

Engar dauða­refs­ingar í ára­tug
Engar dauða­refs­ingar voru fram­kvæmdar á árunum 1966-1976. Fram að því hafði þeim farið sífækk­andi frá lokum seinna stríðs þegar um 150 manns voru líf­látnir á ári. Frá árinu 1930 hafa tæp­lega 5.300 manns verið líf­látnir í Banda­ríkj­un­um.

Upp á síðkastið hefur hringur dauða­refs­inga orðið sífellt þrengri og nú má raunar taka 16 umdæmi af alls 3.143 í Banda­ríkj­unum (0,5%) út fyrir sviga sem þau ref­siglöð­ustu. Þetta eru einu umdæmin þar sem fimm eða fleiri dauða­dómar voru kveðnir upp á árunum 2010 til 2015. Af þessum 16 umdæmum eru sex í Ala­bama og Flór­ída, þar sem kvið­dóm­endur þurfa ekki að vera ein­róma í sak­fell­ing­um, fimm í Suð­ur­-Ka­líforn­íu, sem er gríð­ar­lega fjöl­mennt svæði og telur meðal ann­ars Los Ang­eles (eng­inn hefur þó verið líf­lát­inn í Kalíforníu síðan 2006), tvö eru í Texas og eitt í Nevada, Lou­isi­ana og Arizona.

Dauða­refs­ingar á Íslandi
Síð­asta aftakan á Íslandi fór fram árið 1830, þegar þau Agnes og Frið­rik voru háls­höggvin eins og frægt er orð­ið, fyrir morðið á Natani Ket­ils­syni. Júl­í­ana Silva Jóns­dótt­ir, sem myrti bróður sinn árið 1913 var síð­ust allra dæmd til dauða á Íslandi, en refs­ingu hennar var síðar breytt í fang­els­is­vist. Það var svo árið 1928, sem dauða­refs­ing var afnumin að fullu með lögum á Íslandi.

Í nýlegri skýrslu Fair Pun­is­h­ment Project við Harvard Law School (fyrri hluti, seinni hluti) kemur fram mikil fylgni þegar kemur að dauða­dómum og kyn­þætti hinna dæmdu ann­ars vegar og fórna­lambanna hins veg­ar. Þannig er miklu lík­legra að þeldökkir séu dæmdir og einnig er umtals­vert lík­legra að dauða­dómur sé kveð­inn upp ef fórn­ar­lambið er hvítt á hör­und frekar en af öðrum kyn­þátt­um.

Nokkrir skýr­ing­ar­þættir eru nefndir til sög­unn­ar, meðal ann­ars ráð­ast lyktir mála af afstöðu og fram­göngu sak­sókn­ara, sem margir eru kosnir í sitt emb­ætti á þeim for­sendum að þeir sýni glæpa­mönnum enga mis­kunn. Þá fá sak­born­ingar oft verj­endur sem hafa jafn­vel fjár­hags­legan hvata til þess að fara með mál þar sem dauða­refs­ingar er krafist, fyrir dóm­stól í stað þess að semja um nið­ur­stöðu án dauða­refs­ingar áður en til þess kem­ur.

156 sak­lausum sleppt af dauða­deild

Margir þættir liggja að baki þessum sinna­skiptum almenn­ings. Þar má til dæmis nefna kostn­að­inn sem liggur á bak við hvern ein­stak­ling á dauða­deild­inni (um tvö­falt, jafn­vel þrefalt, meiri á ári heldur en við uppi­hald almennra fanga), þá stað­reynd að fæl­ing­ar­máttur dauða­refs­inga virð­ist vera afar tak­mark­aður ef nokkur (morð­tíðni er hæst í Suð­ur­ríkj­unum þar sem dauða­refs­ingar eru algengastar) og klúður í fram­kvæmd dauða­refs­inga síð­ustu miss­eri þar sem saka­menn máttu þola miklar og lang­vinnar kvalir í aftök­unni.

Dauða­refs­ingar á heims­vísu
Þrátt fyrir jákvæða þróun í Banda­ríkj­unum þar sem dauða­refs­ingum fækkar stöðugt, eru blikur á lofti á alþjóða­vett­vangi þar sem að fram kemur í skýrslu Amnesty International fyrir síð­asta ár að dauða­refs­ingum fjölg­aði um helm­ing frá árinu áður. Sam­kvæmt henni voru 1.634, hið minnsta, teknir af lífi í fyrra í 25 lönd­um, og eru þá ekki tal­inn með hinn óþekkti fjöldi dauða­refs­inga í Kína, sem gefur ekki upp slíka töl­fræði. Dauða­refs­ingar hafa ekki verið fleiri í rúman alda­fjórð­ung.
90% af þeim aftökum fóru fram í Íran (977), Pakistan (320) og Sádi-­Ar­abíu (158). Pakistan tók aftur upp dauða­refs­ingar undir lok 2014 og kann það að skýra aukn­ing­una. Banda­ríkin komu næst á hæla Sádi-­Ar­abíu með 28 aftökur árið 2015.

Það sem hefur senni­lega mest áhrif er sú stað­reynd að frá árinu 1973 hafa 156 dauða­dæmdir ein­stak­lingar verið hreins­aðir af öllum sökum og fengið frelsi á ný, oft á grund­velli tækni­fram­fara við rann­sóknir á líf­sýnum eða þrýst­ings um end­ur­upp­töku vegna galla í mála­til­bún­aði. Ógern­ingur er að geta sér til um hversu margir sak­lausir hafa verið teknir af lífi í áranna rás eða hversu margir sitja enn inni á dauða­deild fyrir engar sak­ir.

Þegar litið er fram í tím­ann bendir flestallt til þess að mál muni halda áfram að þró­ast með þeim hætti að and­staða almenn­ings við dauða­refs­ingar muni halda áfram að aukast og dauða­refs­ingum og dauða­dómum fari einnig fækk­andi. Mögu­lega fer enn að draga til tíð­inda í þeim málum þar sem nú eru þrjú ríki að fara að kjósa um fram­hald dauða­refs­inga í þessum mán­uði. Kali­fornía er með á kjör­seðl­inum til­lögu um að afnema dauða­refs­ingar á meðan Nebr­aska­búar kjósa um hvort eigi að ógilda bann við dauða­refs­ingum sem rík­is­þingið sam­þykkti í fyrra. Í Okla­homa, sem er eitt af þeim ríkjum sem hafa tekið flesta af lífi, er hins vegar til­laga um að lög­festa dauða­refs­ingar í stjórn­ar­skrá rík­is­ins (þrátt fyrir að meiri­hluti íbúa sé and­vígur dauða­refs­ing­um).

Valdið liggur hjá Hæsta­rétti

Ef Banda­ríkja­menn munu á ein­hvernum tíma­punkti stíga skrefið til fulls og banna alfarið dauða­refs­ingar mun það ger­ast í gegnum hæsta­rétt, sem einmitt bann­aði þær árið og fól svo ríkj­unum aftur vald til að ákvarða það sjálf. Þar skiptir sam­setn­ing dóms­ins höf­uð­máli þar sem íhalds­sam­ari við­horf hafa hingað til orðið ofan á við túlkun 8. við­auka stjórn­ar­skrár­inn­ar, sem kveður á um bann við ómann­úð­legum eða óvenju­legum refs­ing­um. Á næstu árum gæti staðan þó breyst þar sem enn á eftir að fylla í skarð Ant­on­ins Scalia, sem var ein­dreg­inn fylgj­andi slíkum refs­ing­um. Lík­legt má telj­ast að næsti for­seti fái tæki­færi til þess að skipa einn eða tvo dóm­ara sem gæti haft var­an­leg áhrif á refsi­stefn­una sem rekin er þar í landi, og eykur það enn á vægi kom­andi for­seta­kosn­inga þar í landi.

Í nýlegum leið­ara í The New York Times var þróun mála tíunduð og þar segir meðal ann­ars að þrír dóm­arar við rétt­inn, Stephen Breyer, Ruth Bader Gins­burg og Sonia Sotom­a­yor hafi í nýlegum minni­hluta­á­litum tjáð miklar efa­semdir um rétt­mæti dauða­refs­inga. Breyer hafi meðal ann­ars kallað eftir því að rétt­ur­inn tæki afstöðu til þess hvort þær stæð­ust stjórn­ar­skrá.

Nið­ur­lag leið­ar­ans er afdrátt­ar­laust: „Dauða­refs­ingar hafa hingað til sloppið undan því að vera bann­aðar en nú eru afsak­an­irnar á þrot­um: Þjóðin er orðin afhuga þeim og það er löngu kom­inn tími til þess að Hæsti­réttur fleyti þessum and­styggi­lega sið inn í gleymsk­unnar dá.“

Heim­ild­ir: New York Times, LA Times, Death Penalty information Center, Amnesty International, The Mars­hall Project, Inn­ocence Project, Bureau of Just­ice Statist­ics, Pew Res­e­arch, Fair Pun­is­h­ment Project.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar