Lögleiðing kannabis er hráki á gröf blómabarnsins
Í nýliðnum kosningum í Bandaríkjunum kusu íbúar Kaliforníu um hvort lögleiða ætti kannabis í ríkinu. Hvaða áhrif mun þetta hafa?
Í Humboldt-sýslu í Kaliforníu er sagt að síðasti hippinn hafi gefið upp öndina þegar verðið á pundi af marijúana fór yfir 1.000 dali. Ef það er satt gætu sumir litið á niðurstöðu kosninganna síðastliðinn þriðjudag sem hráka á gröf blómabarnsins.
Þar er þó ekki átt við kjörið á nýjum forseta. Í Kaliforníu, líkt og í öðrum ríkjum, var kosið um margt annað sama dag, bæði menn og málefni. Eitt þessara málefna var full lögleiðing marijúana, sem sett var fram með Tillögu 64 (e. Proposition 64), en í ár eru liðin 20 ár frá því notkun plöntunar í lækningaskyni var lögleidd. Humboldt varð hins vegar að gras-Mekka Bandaríkjanna löngu áður, á tímum hippanna, og nú byggist efnahagur sýslunnar að miklu leyti á ólöglegum kannabis-lendum.
Þegar niðurstöðurnar urðu ljósar hoppaði útvarpskonan Kerry Reynolds spennt á svið skynörvandi skemmtistaðarins Area 101 í nágrenni Humboldt sýslu og tilkynnti sal fullum af ræktendum og starfsfólki þeirra að kjósendur hefðu samþykkt Tillögu 64. Sumir viðstaddra klöppuðu eins og af skyldurækni, fáeinir börðu lófunum saman af meiri krafti og gáfu frá sér fagnaðaróp. Margir voru hins vegar þöglir með öllu.
„Ég veit að það studdu það ekki allir,“ sagði Reynolds í hljóðnemann, örlítið minna spennt en augnabliki áður. „Þetta er ekki fullkomið framtak, en þetta er byrjun.“
Reynolds hefur verið gras-fréttamaður í Humboldt í fimm ár. Í þættinum sínum Cannabis Consciousness News fjallar hún einvörðungu um málefni sem tengjast kannabis og hefur barist ötullega fyrir lögleiðingu. Margur myndi ætla að flestir ræktendurnir á svæðinu tækju því fagnandi að starfsemi þeirra væri gerð lögleg en flestir eru hins vegar annað hvort efins eða alfarið mótfallnir nýju lögunum. Þeir búast við að þau hafi í för með sér gríðarlegt verðhrun auk stórra utanaðkomandi fyrirtækja sem munu setja smábændurna í Humboldt á hausinn.
Ekki fyrir litla manninn
Tveimur dögum fyrir kjördag hugsaði Reynolds um þennan ótta í skrautlegu húsnæði útvarpsstöðvarinnar KMUD, skammt frá smábænum Garberville.
„Fyrir Humboldt sýslu snýst kannabis um stolt og það eru svo margir ótrúlegir ræktendur hér, en það hefur einnig haft í för með sér myrkari hliðar eins og fólk sem er bara hér til að græða pening,“ sagði hún.
„Kannabis hefur séð fyrir svo mörgu fólki í Humboldt,“ hélt hún áfram. „Ef þú hefur haldið þig í þessum óhefðbundna lífsstíl mest alla þína ævi og svo skyndilega eru ekki nægir peningar fyrir þig að lifa á lengur, hvert ferðu þá?“
Þessu hefur Karl Witt, kannabisræktandi til 28 ára, einnig velt fyrir sér. Hann sér nýju lögin sem tilraun hinna ríku til að sölsa undir sig stjórn á iðnaðinum.
„Þessi tillaga var búin til af fáeinum einstaklingum sem létu eins og þeir væru góðu gæjarnir og ég trúi því að þetta muni verða versta ákvörðun sem Kalifornía hefur nokkurn tíma tekið,“ sagði hann, alvarlegur í bragði, umkringdur plöntunum sínum.
Hann telur að upp muni spretta heilu akrarnir af gróðurhúsum í nágrenni Los Angeles og að markaðurinn fyrir uppskeru frá Humboldt muni skreppa saman. Ljóst sé að kannabis sýslunnar muni enda í kannabisolíu- og matvöruiðnaðinum fremur en sem aðdráttarafl fyrir „bud & breakfast“ ferðamennsku sem margir vonast til að muni þróast.
Witt er einnig efins um að ræktendurnir fari löglegu leiðina eftir allt saman.
„Í löglegu markaðsumhverfi vinn ég fyrir 25 til 30 prósent af því sem ég fékk á svarta markaðinum,“ sagði hann. Á meðan hætta er á að það komist upp um svartamarkaðsbrask og að hann verði kærður fyrir lítilfjörleg afbrot „græðir maður samt tvær milljónir dala aukalega.“
Sunshine Johnston, sem sér um útvarpsþáttinn Ganja Tree á KMUD, vonast til að byggja upp vörumerki til að hjálpa henni að lifa af yfirvofandi breytingar. Þar sem hún hefur ræktað marijúana frá barnæsku á hún þegar langa sögu. Að deila henni er hins vegar ekki svo auðvelt.
„Manni líður eins og maður sé að bera sig á svo margan hátt,“ sagði hún. „Þegar sjálf þitt hefur alfarið snúist um að fela þig og nú þarf að snúa því við.“
Kosið gegn eigin hagsmunum
Sumir hafa þó þegar látið breytingarnar virðast þess virði. Kevin Jodrey, eigandi og ræktunarstjóri gróðrarstöðvarinnar Wonderland, var handtekinn fyrir ræktun á níunda áratugnum 16 ára gamall. Hann sneri sér að læknagrasræktun fyrir fáeinum árum að eigin sögn þar sem hann gerði sér grein fyrir að full lögleiðing væri ekki langt undan.
„Ef allur þessi heimur átti að breytast þá ætti ég að breytast með honum,“ sagði hann, rótandi í laufahrúgu á gólfi gróðrarstöðvarinnar með skónum.
Hann kaus með Tillögu 64 en sagði hana þó „hræðilega“ og hannaða til þess að Sílikondalurinn geti tekið yfir allt heila klabbið. Hann sagðist þó einfaldlega aldrei myndu kjósa gegn lögleiðingu, jafnvel þó það gengi gegn hans eigin hagsmunum.
„Ég valdi ólöglegan feril. Ég kaus að ganga til liðs við ólöglega framkvæmd sem krakki og ég yfirgaf hana aldrei. Svo ég hafði engar væntingar, á nokkrum tímapunkti, um að ég myndi fá einhverskonar tryggingu frá ríkinu,“ sagði hann.
„Ég held að það sé vandamálið. Margir hafa verið að gera þetta svo lengi með óraunhæfum væntingum.“
Skuggahliðarnar ekki þess virði
Eins og Jodrey sjá flestir ræktendur og grasverkamenn í Humboldt ekki hugmyndafræðilegan vanda við að vinna þeirra sé ólögleg. Raunar er grasmenning sýslunnar hreint ekki falin heldur er henni hampað af einstaklingum, fyrirtækjum og fjölmiðlum á svæðinu eins og KMUD.
KMUD er ekki bara með fleiri en einn útvarpsþátt sérstaklega tileinkaðan grasrækt heldur sendir stöðin einnig út auglýsingar um lögfræðiaðstoð fyrir ræktendur. Þá hefur hún sent út viðvaranir þegar laganna verðir gera áhlaup á kannabisbændur í sýslunni og sumar skreytingar á veggjum hennar, eins og bandaríski fáninn á hvolfi yfir bakdyragættinni, undirstrika anda uppreisnar og borgaralegrar óhlýðni.
Jafnvel þar sem Reynolds sat, umvafin þessum áminningum um hvernig Humboldt sýsla varð hipparíki, fannst henni samt að skuggahliðarnar væru ekki lengur þess virði. Verð myndu vissulega lækka en henni finnst mikilvægara að áhættan, leyndin og misnotkun vinnuafls og umhverfis minnki að sama skapi.
Hún er sérstaklega vongóð um að lagabreytingin gæti bjargað fjölskyldum ræktenda frá því að vera sundrað með handtökum og afskiptum barnaverndaryfirvalda. Tillaga 64 gæti verið fyrsta skrefið í átt að því að „frelsa þjóðina úr heljargreipum óhóflegrar fangelsunar.“
„Öll stríð hafa áhrif og það hefur verið stríð hér, stöðugur leikur kattar að mús,“ sagði hún. „Enginn ætti að fara í fangelsi fyrir plöntu.“
Tveimur dögum síðar, í kosningapartýi Area 101, var Reynolds fljót að ná sér af hálfvolgum viðbrögðum skarans. Hún steig af sviðinu faðmandi fólk í kringum sig og augu hennar blikuðu af nýrri von þegar hún sagði að niðurstöður kosninganna í Kaliforníu myndu bergmála um allan heim.
Hún varð örlítið hoknari við tilhugsunina um manninn sem nokkrum klukkustundum síðar yrði útnefndur tilvonandi forseti Bandaríkjanna, enda telur hún hann ekki vinveittan málstaðnum. Hún hristi hann þó snöggt af sér og sagði að áralöng vinna hefði nú verið gerð réttmæt.
„Ég held ég muni bera höfuðið aðeins hærra á morgun.“