Ríkisstjórn Trump: Handhafar nýrra tíma
Hverjir eru þeir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn Trump sem munu hafa mest áhrif utan Bandaríkjanna og þar af leiðandi á Ísland?
Eitt helsta vald forseta Bandaríkjanna felst í skipun hans í ráðherraembætti. Verðandi forseti tilnefnir ráðherraefni sem öldungadeild Bandaríkjaþings svo samþykkir eða hafnar í kosningum. Áður en kosning getur farið fram þurfa ráðherraefnin að sitja fyrir svörum hjá nefndum er fara með málefni viðkomandi ráðuneyta. Fjármálanefnd yfirheyrir fjármálaráðherraefnið, utanríkisráðherra svarar spurningum utanríkisnefndar og svo koll af kolli. Undanfarnar vikur hafa ráðherraefni Trump gengið í gengum þetta ferli og brátt mun það endanlega koma í ljós hverjir munu skipa fyrstu ríkisstjórn Trump.
Það hefur ekki gerst síðan í stjórnartíð George H. W. Bush að öldungadeildin hafi hafnað ráðherraefni. Hins vegar er ekki óalgengt að verðandi forseta dragi tilnefningu til baka, ef fyrirséð er að þingið muni hafna viðkomandi í kosningu. Til að mynda dró Barack Obama þrjár tilnefningar til baka sökum gagnrýni og hneykslismála og George W. Bush hætti tvisvar við tilnefningu af sömu ástæðum. Metið á þó Bill Clinton, sem fimm sinnum neyddist til að skipta út ráðherraefnum.
Þrátt fyrir að Trump taki við embætti sem óvinsælasti forseti í seinni tíð, þykir ólíklegt að gerðar verði miklar mannabreytingar á ráðherraefnum hans því að Repúblikanaflokkurinn hefur meirihluta í öldungadeild þingsins.
Ríkisstjórn hinna ríku
Viðhorf Trump gagnvart konum hefur oft verið gagnrýnt og má auðveldlega yfirfæra þessa gagnrýni á ráðherratilnefningar hans. Í hópnum eru aðeins þrjár konur þær Elaine Chao sem tilnefnd er í embætti samgöngumálaráðherra, Linda McMahon sem á að sjá um málefni smærri fyrirtækja og Betsy DeVos sem stendur til að verði menntamálaráðherra.
Minnihlutahópar fá einnig fáa fulltrúa í valdamestu ríkisstjórn heims. Aðeins tveir svartir ráðherrar munu sitja í ríkisstjórn Trump og það hefur ekki gerst síðan í stjórnartíð Jimmy Carter að ekkert ráðherraefni sé af suðuramerískum uppruna.
Hvað áhugaverðast er þó líklega hversu auðug ráðherraefni Trump eru. Fyrirséð er um að aldrei í sögun Bandaríkjanna hafi fjársterkari einstaklingar setið í ríkisstjórn eins og í stjórn fertugasta og fimmta forseta landsins. Samkvæmt Washington Post er sameiginlegur auður ráðherraefnanna metinn á um 5 milljarðar dollara sem er um 80 prósent meira en fráfarandi ríkisstjórn Obama hafði yfir að ráða.
„Ég vil einstaklinga sem hafa skapað sér formúu,“ sagði Trump um tilnefningarnar.
Það gefur að skilja að ráðherraembættin þykja mismikilvæg og stýra málaflokkum sem snerta heimsbyggðina mismikið. Kjarninn ákvað að skoða nánar þrjú ráðuneyti sem munu að hafa hvað mest áhrif utan Bandaríkjanna og þ.a.l. á Ísland. Þetta eru utanríkis-, umhverfis- og varnarmálaráðuneytið.
Rex Tillerson
utanríkisráðherra
Einungis 60 prósent ráðherraefna Trump hafa áður sinnt opinberu embætti. Verðandi utanríkisráðherra, Rex Tillerson, er einn þeirra sem hafa enga reynslu í þeim efnum. Tillerson kemur úr einkageiranum og er verkfræðingur að mennt. Árið 1975 hóf hann störf hjá stærsta olíufyrirtæki heims Exxon Mobil og síðan 2006 hefur hann starfað sem forstjóri fyrirtækisins. Tilnefningin hefur sætt gagnrýni sökum reynsluleysis hans af stjórnsýslu en Trump hefur varist þeim gagnrýnisröddum með því að kalla ráðherraefnið viðskiptajöfur og „heimsklassa leikmann“. Tillerson situr í 25. sæti á lista Forbes yfir valdamestu menn heims og líklegt er að tilnefningin valdi vonbrigðum hjá þeim sem vonuðust til að Trump myndi „þurrka upp mýrina“ og draga úr áhrifum stórfyrirtækja á ríkisstjórn Bandaríkjanna.
Þeim sem finnst tónn Trump í garð Vladimir Putin helst til of mildur hafa ekki síst áhyggur af því að Tillerson taki við utanríkismálum Bandaríkjanna. Sem forstjóri Exxon Mobil hefur hann myndað sterk persónuleg tengsl við Putín og árið 2013 var Tillerson veitt vináttuorða Rússlands sem er mesti heiður sem útlendum ríkisborgara getur hlotnast í Rússlandi. Tillerson hefur verið mótfallinn viðskiptaþvingunum í garð Rússa og árið 2011 undirritaði hann einn stærsta samning sem gerður hefur verið um olíuvinnslu á Norðurheimskautinu.
Tillerson er einnig náinn vinur hins dularfulla Igor Sechin, forstjóra rússneska ríkisolíufyrirtækisins Rosneft. Um árabil hefur Sechin, sem er að mörgum talinn næst valdamesti maður Rússlands, verið hægri hönd Pútíns. Sechin hefur náin tengsl við rússnesku leyniþjónustuna FSB og í gegnum tíðina hefur hann nýtt sér þau tengsl til að losa sig við bæði keppinauta á viðskiptasviðinu og pólitíska andstæðinga. Má þar helst nefna Mikhail Khodorkovsky, fyrrum ríkasta mann Rússlands, sem situr nú í sjálfskipaðri útlegð í Sviss. Árið 2003 var Khodorkovsky dæmdur í níu ára fangelsi vegna ásakanna um fjár- og skattsvik. Sá dómur hefur verið harðlega gagnrýndur af mannréttindasamtökum og erlendum leiðtogum, þar á meðal Barack Obama. Vegna aðkomu Sechin að borgarastríðinu í Úkraínu hafa Bandaríkin beitt hann viðskiptaþvingunum en sökum vináttu hans við Tillerson þykir ekki ólíklegt að þeim verði aflétt á næstunni.
Eitt sem hefur einkennt ráðherraefni Trump er hversu oft skoðanir þeirra eru á skjön við kosningaloforð forsetans. Tillerson hefur lengi talað fyrir fríverslun, tollabandalögum og viðskiptasamningum og hefur lýst yfir stuðningi við TPP-samninginn. Trump hefur hins vegar eins og kunnugt er kennt fríverslunarsamningum á borð við NAFTA um fækkun starfa og í nóvember s.l. tilkynnti hann að sitt fyrsta verk í embætti yrði að binda enda á viðræður um TPP-samninginn.
Átjánda janúar síðastliðinn sat Tillerson fyrir svörum hjá utanríkisnefnd öldungaþingsins í hátt í níu klukkustundir. Eins og vænta mátti bar Rússland, Kína og Íslamska ríkið helst á góma í þeim fyrirspurnum. Tillerson var herskárri í garð Rússlands en við hefði mátt búast miðað við tengsl hans við landið. Hann kvaðst ekki trúa því að Bandaríkin og Rússland gætu nokkurn tíman orðið bandamenn slíkur væri munurinn á siðferðisgildum þjóðanna. Hann neitaði þó að ganga svo langt að kalla aðgerðir Rússa í Sýrlandi stríðsglæpi og taldi sig ekki búa fyrir nægum upplýsingum til að geta tjáð sig um þann fjölda blaðamanna sem hafa verið myrtir í Rússlandi á undanförnum árum.
Þrátt fyrir að hafa verið forstjóri stærsta olíufyrirtækis heims geta umhverfisverndarsinnar huggað sig við það að hann sem mun sitja í samninganefndum vegna umhverfismála hefur opinberlega viðurkennt tilvist loftslagsbreytinga af mannavöldum. Hann hefur hins vegar haldið því fram að ómögulegt sé að spá fyrir um afleiðingar loftslagsbreytinganna og því sé það vandkvæðum bundið að grípa til aðgerða til að stemma stigu við þeim.
Tillerson er einnig ósammála verðandi yfirmanni sínum þegar kemur að kjarnorkuvopnum. Hann tjáði utanríkisnefndinni að hann væri ósammála ummælum Trump um að Bandaríkin ættu að aðstoða vinveittar þjóðir eins og Japan að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Hann hélt því einnig fram að skynsamlegast væri að fara ítarlega yfir nýgerðan samning um kjarnorkumál við Íran áður en tekin yrði ákvörðun um hvort skyldi rifta honum eður ei. Trump hefur hins vegar heitið því að binda enda á samkomulagið sem fyrst.
Eins og með svo margt varðandi stjórnarstefnu Trump, þá er erfitt að segja til um hvernig Tillerson mun sinna embætti sínu. John Kerry, fráfarandi utanríkisráðherra, hafði sinnt formennsku utanríkisnefndar öldungaþingsins í fjögur ár áður en hann tók við af Hillary Clinton árið 2013 og var þá þegar þekkt stærð í Washington. Augljóst þykir þó að vænta má töluverðra áherslubreytinga á utanríkisstefnu Bandaríkjanna eftir valdatöku Trumps.
Scott Pruitt
umhverfismálaráðherra
„Jörð kallar Pruitt,“ var fyrirsögn greinar sem birtist í The New Yorker þann 19 janúar. Og ekki að ástæðulausu. Pruitt er það ráðherraefni Trump sem hefur orkað hvað mest tvímælis. Pruitt hefur haldið því fram að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu gabb og að hann muni binda enda á, „aktivisma” umhverfisráðuneytisins. Pruitt hefur líka dregið í efa skaðsemi kvikasilfurs- og svifryksmengunar.
Það kom mörgum spánskt fyrir sjónir þegar Trump tilnefndi Pruitt til umhverfisráðherra. Hann hefur, ólíkt fráfarandi umhverfisráðherra Gina McCarthy, hvorki menntun né reynslu sem tengjast málaflokkum ráðuneytisins. Pruitt er lögfræðimenntaður og starfaði sem framkvæmdastjóri hafnaboltaliðsins Oklahoma RedHawks áður en hann tók við embætti ríkissaksóknara Oklahoma árið 2011. Í því starfi hefur Pruitt þó haft töluverð afskipti af umhverfisráðuneytinu. Hann hefur höfðað fjölda málsókna á hendur ráðuneytinu og reynt að stöðva reglugerðir er varða allt frá umhverfisstöðlum orkuvera til laga um hreint drykkjarvatn. Þess ber að geta að hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði öllum þessum málsóknum.
Í tíð sinni sem ríkissaksóknari í Oklahoma þáði Pruitt styrki frá orkuiðnaðinum sem námu allt að 300 þúsund dollurum. Slíkar styrkveitingar eru í sjálfu sér ekki ólöglegar, þar sem ríkissaksóknarar eru kjörnir fulltúrar, en fjölmiðlar vestra hafa gagnrýnt þær. Sér í lagi vegna þess að hans fyrsta verk í embætti var að leggja niður deild saksóknaraembættisins sem sá um að lögsækja vegna brota á umhverfislögum.
Pruitt sat fyrir svörum hjá umhverfisnefnd öldungaþingsins þann 18. janúar og er óhætt að segja að sú yfirheyrsla hafi verið áhugaverð. „Mínar persónulegu skoðanir á loftslagsbreytingum skipta ekki máli í þessu samhengi,” var svar Pruitt við spurningu Bernie Sanders um hvort hæft væri að maður sem heldur því fram að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu ekkert nema gabb tæki við embætti umhverfisráðherra. Viðbrög Sanders létu ekki á sér standa: „Þú munt ekki fá mitt atkvæði.”
Það liggur í augum uppi að ómögulegt verður að stemma stigu við loftslagsbreytingum án aðkomu Bandaríkjanna. Ekkert land mengar meira miðað við höfðatölu og því boðar ekki gott að mögulega verði næsti umhverfisráðherra landsins maður sem stendur í þeirri trú að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu gabb.
James Mattis
varnarmálaráðherra
Ólíkt þeim Tillerson og Pruitt, þá býr varnarmálaráðherraefni Trump, James Mattis, yfir mikilli reynslu sem ætti að nýtast honum í starfi. Hann er fyrrum hershöfðingi Bandaríkjahers og á árunum 2010 til 2013 starfaði hann sem yfirmaður hernaðarmála í Miðausturlöndum. Sem hershöfðingi var Mattis vinsæll meðal undirmanna sinna og útnefning hans hefur mætt lítilli mótstöðu.
Mattis hefur verið mikill talsmaður þess að viðhalda Norðuratlantshafsbandalaginu (NATO) en Trump hefur sagt bandalagið úr sér gengið. Síðasta sumar sagði Trump í viðtali við The New York Times að ef útgjöld bandalagsþjóðanna til hernaðarmála næðu ekki viðmiðinu um 2 prósent þjóðhagsframleiðslu, þá gætu þær ekki vænst þess að Bandaríkin myndu uppfylla skyldu sína um að koma þeim til aðstoðar. Ummæli Trump fara þvert á skoðanir Mattis sem hefur sagt að hann telji Rússland vinna gagngert að eyðileggingu NATO. Auk þess sagði hann að Bandaríkin eigi að halda úti herstöðvum í bandalagslöndum sem deila landamærum með Rússlandi.
Það er þó ekki þannig að Mattis sé yfir gagnrýni hafinn. Árið 2005 vöktu ummæli hans um stríðið í Írak hörð viðbrögð. En hann sagði á blaðamannafundi að það væri „gaman að berjast”, og að honum þætti „gaman að skjóta sumt fólk.” Hann hefur einnig orð á sér fyrir að vera herskár og Obama lét hann taka pokann sinn árið 2013 sökum þess hversu ákafur hann var að beita hervaldi gegn Íran. Vegna þvílíkra ummæla og skoðana hefur Matis hlotnast viðurnefnið „Mad dog”, eða „óður hundur”.
Óútreiknanlegir tímar
Eins og kom fram í upphafi greinarinnar þá er mjög sjaldgæft að öldungadeildin hafni ráðherraefni forseta. Repúblikanar hafa meirihluta á þinginu og því má búast við að Tillerson, Pruitt og Mattis taki við embætti. Hins vegar ríkir mikil óvissa um þær aðgerðir sem þeir munu grípa til. Eins og komið hefur fram hér að ofan fara skoðanir helstu embættismanna Trump oft þvert á skoðanir forsetans og því er erfitt að segja til um hvernig þeir munu haga sér sem ráðherrar. Þetta eru áhugaverðir tímar fyrir heimsbyggðina og þung er ábyrgðin sem hvílir á herðum þeirra sem munu fara með völd í nafni Trump forseta.