Donald Trump

Ríkisstjórn Trump: Handhafar nýrra tíma

Hverjir eru þeir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn Trump sem munu hafa mest áhrif utan Bandaríkjanna og þar af leiðandi á Ísland?

Eitt helsta vald for­seta Banda­ríkj­anna felst í skipun hans í ráð­herra­emb­ætti. Verð­andi for­seti til­nefnir ráð­herra­efni sem öld­unga­deild Banda­ríkja­þings svo sam­þykkir eða hafnar í kosn­ing­um. Áður en kosn­ing getur farið fram þurfa ráð­herra­efnin að sitja fyrir svörum hjá nefndum er fara með mál­efni við­kom­andi ráðu­neyta. Fjár­mála­nefnd yfir­heyrir fjár­mála­ráð­herra­efn­ið, utan­rík­is­ráð­herra svarar spurn­ingum utan­rík­is­nefndar og svo koll af kolli. Und­an­farnar vikur hafa ráð­herra­efni Trump gengið í gengum þetta ferli og brátt mun það end­an­lega koma í ljós hverjir munu skipa fyrstu rík­is­stjórn Trump.

Það hefur ekki gerst síðan í stjórn­ar­tíð George H. W. Bush að öld­unga­deildin hafi hafnað ráð­herra­efni. Hins vegar er ekki óal­gengt að verð­andi for­seta dragi til­nefn­ingu til baka, ef fyr­ir­séð er að þingið muni hafna við­kom­andi í kosn­ingu. Til að mynda dró Barack Obama þrjár til­nefn­ingar til baka sökum gagn­rýni og hneyksl­is­mála og George W. Bush hætti tvisvar við til­nefn­ingu af sömu ástæð­um. Metið á þó Bill Clint­on, sem fimm sinnum neydd­ist til að skipta út ráð­herra­efn­um.

Þrátt fyrir að Trump taki við emb­ætti sem óvin­sæl­asti for­seti í seinni tíð, þykir ólík­legt að gerðar verði miklar manna­breyt­ingar á ráð­herra­efnum hans því að Repúblikana­flokk­ur­inn hefur meiri­hluta í öld­unga­deild þings­ins.

Rík­is­stjórn hinna ríku

Við­horf Trump gagn­vart konum hefur oft verið gagn­rýnt og má auð­veld­lega yfir­færa þessa gagn­rýni á ráð­herra­til­nefn­ingar hans. Í hópnum eru aðeins þrjár konur þær Elaine Chao sem til­nefnd er í emb­ætti sam­göngu­mála­ráð­herra, Linda McMa­hon sem á að sjá um mál­efni smærri fyr­ir­tækja og Betsy DeVos sem stendur til að verði mennta­mála­ráð­herra.

Minni­hluta­hópar fá einnig fáa full­trúa í valda­mestu rík­is­stjórn heims. Aðeins tveir svartir ráð­herrar munu sitja í rík­is­stjórn Trump og það hefur ekki gerst síðan í stjórn­ar­tíð Jimmy Carter að ekk­ert ráð­herra­efni sé af suð­ur­am­er­ískum upp­runa.

Hvað áhuga­verð­ast er þó lík­lega hversu auðug ráð­herra­efni Trump eru. Fyr­ir­séð er um að aldrei í sögun Banda­ríkj­anna hafi fjár­sterk­ari ein­stak­lingar setið í rík­is­stjórn eins og í stjórn fer­tug­asta og fimmta for­seta lands­ins. Sam­kvæmt Was­hington Post er sam­eig­in­legur auður ráð­herra­efn­anna met­inn á um 5 millj­arðar doll­ara sem er um 80 pró­sent meira en frá­far­andi rík­is­stjórn Obama hafði yfir að ráða.

„Ég vil ein­stak­linga sem hafa skapað sér for­mú­u,“ sagði Trump um til­nefn­ing­arn­ar.

Það gefur að skilja að ráð­herra­emb­ættin þykja mis­mik­il­væg og stýra mála­flokkum sem snerta heims­byggð­ina mis­mik­ið. Kjarn­inn ákvað að skoða nánar þrjú ráðu­neyti sem munu að hafa hvað mest áhrif utan Banda­ríkj­anna og þ.a.l. á Ísland. Þetta eru utan­rík­is-, umhverf­is- og varn­ar­mála­ráðu­neyt­ið.

Rex Tiller­son

utan­rík­is­ráð­herra



Ein­ungis 60 pró­sent ráð­herra­efna Trump hafa áður sinnt opin­beru emb­ætti. Verð­andi utan­rík­is­ráð­herra, Rex Tiller­son, er einn þeirra sem hafa enga reynslu í þeim efn­um. Tiller­son kemur úr einka­geir­anum og er verk­fræð­ingur að mennt. Árið 1975 hóf hann störf hjá stærsta olíu­fyr­ir­tæki heims Exxon Mobil og síðan 2006 hefur hann starfað sem for­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins. Til­nefn­ingin hefur sætt gagn­rýni sökum reynslu­leysis hans af stjórn­sýslu en Trump hefur varist þeim gagn­rýn­is­röddum með því að kalla ráð­herra­efnið við­skipta­jöfur og „heimsklassa leik­mann“. Tiller­son situr í 25. sæti á lista For­bes yfir valda­mestu menn heims og lík­legt er að til­nefn­ingin valdi von­brigðum hjá þeim sem von­uð­ust til að Trump myndi „þurrka upp mýr­ina“ og draga úr áhrifum stór­fyr­ir­tækja á rík­is­stjórn Banda­ríkj­anna.

Þeim sem finnst tónn Trump í garð Vla­dimir Putin helst til of mildur hafa ekki síst áhyggur af því að Tiller­son taki við utan­rík­is­málum Banda­ríkj­anna. Sem for­stjóri Exxon Mobil hefur hann myndað sterk per­sónu­leg tengsl við Putín og árið 2013 var Tiller­son veitt vin­áttu­orða Rúss­lands sem er mesti heiður sem útlendum rík­is­borg­ara getur hlotn­ast í Rúss­landi. Tiller­son hefur verið mót­fall­inn við­skipta­þving­unum í garð Rússa og árið 2011 und­ir­rit­aði hann einn stærsta samn­ing sem gerður hefur verið um olíu­vinnslu á Norð­ur­heim­skaut­inu.

Tiller­son er einnig náinn vinur hins dul­ar­fulla Igor Sechin, for­stjóra rúss­neska rík­is­ol­íu­fyr­ir­tæk­is­ins Rosn­eft. Um ára­bil hefur Sechin, sem er að mörgum tal­inn næst valda­mesti maður Rúss­lands, verið hægri hönd Pútíns. Sechin hefur náin tengsl við rúss­nesku leyni­þjón­ust­una FSB og í gegnum tíð­ina hefur hann nýtt sér þau tengsl til að losa sig við bæði keppi­nauta á við­skipta­svið­inu og póli­tíska and­stæð­inga. Má þar helst nefna Mik­hail Khodor­kov­sky, fyrrum rík­asta mann Rúss­lands, sem situr nú í sjálf­skip­aðri útlegð í Sviss. Árið 2003 var Khodor­kov­sky dæmdur í níu ára fang­elsi vegna ásakanna um fjár- og skatt­svik. Sá dómur hefur verið harð­lega gagn­rýndur af mann­rétt­inda­sam­tökum og erlendum leið­tog­um, þar á meðal Barack Obama. Vegna aðkomu Sechin að borg­ara­stríð­inu í Úkra­ínu hafa Banda­ríkin beitt hann við­skipta­þving­unum en sökum vin­áttu hans við Tiller­son þykir ekki ólík­legt að þeim verði aflétt á næstunni.

Rex Tillerson situr fyrir svörum utanríkismálanefndar bandaríska þingsins.

Eitt sem hefur ein­kennt ráð­herra­efni Trump er hversu oft skoð­anir þeirra eru á skjön við kosn­inga­lof­orð for­set­ans. Tiller­son hefur lengi talað fyrir frí­versl­un, tolla­banda­lögum og við­skipta­samn­ingum og hefur lýst yfir stuðn­ingi við TPP-­samn­ing­inn. Trump hefur hins vegar eins og kunn­ugt er kennt frí­versl­un­ar­samn­ingum á borð við NAFTA um fækkun starfa og í nóv­em­ber s.l. til­kynnti hann að sitt fyrsta verk í emb­ætti yrði að binda enda á við­ræður um TPP-­samn­ing­inn.

Átj­ánda jan­úar síð­ast­lið­inn sat Tiller­son fyrir svörum hjá utan­rík­is­nefnd öld­unga­þings­ins í hátt í níu klukku­stund­ir. Eins og vænta mátti bar Rúss­land, Kína og Íslamska ríkið helst á góma í þeim fyr­ir­spurn­um. Tiller­son var her­skárri í garð Rúss­lands en við hefði mátt búast miðað við tengsl hans við land­ið. Hann kvaðst ekki trúa því að Banda­ríkin og Rúss­land gætu nokkurn tíman orðið banda­menn slíkur væri mun­ur­inn á sið­ferð­is­gildum þjóð­anna. Hann neit­aði þó að ganga svo langt að kalla aðgerðir Rússa í Sýr­landi stríðs­glæpi og taldi sig ekki búa fyrir nægum upp­lýs­ingum til að geta tjáð sig um þann fjölda blaða­manna sem hafa verið myrtir í Rúss­landi á und­an­förnum árum.

Þrátt fyrir að hafa verið for­stjóri stærsta olíu­fyr­ir­tækis heims geta umhverf­is­vernd­ar­sinnar huggað sig við það að hann sem mun sitja í samn­inga­nefndum vegna umhverf­is­mála hefur opin­ber­lega við­ur­kennt til­vist lofts­lags­breyt­inga af manna­völd­um. Hann hefur hins vegar haldið því fram að ómögu­legt sé að spá fyrir um afleið­ingar lofts­lags­breyt­ing­anna og því sé það vand­kvæðum bundið að grípa til aðgerða til að stemma stigu við þeim.

Tiller­son er einnig ósam­mála verð­andi yfir­manni sínum þegar kemur að kjarn­orku­vopn­um. Hann tjáði utan­rík­is­nefnd­inni að hann væri ósam­mála ummælum Trump um að Banda­ríkin ættu að aðstoða vin­veittar þjóðir eins og Japan að koma sér upp kjarn­orku­vopn­um. Hann hélt því einnig fram að skyn­sam­leg­ast væri að fara ítar­lega yfir nýgerðan samn­ing um kjarn­orku­mál við Íran áður en tekin yrði ákvörðun um hvort skyldi rifta honum eður ei. Trump hefur hins vegar heitið því að binda enda á sam­komu­lagið sem fyrst.

Eins og með svo margt varð­andi stjórn­ar­stefnu Trump, þá er erfitt að segja til um hvernig Tiller­son mun sinna emb­ætti sínu. John Kerry, frá­far­andi utan­rík­is­ráð­herra, hafði sinnt for­mennsku utan­rík­is­nefndar öld­unga­þings­ins í fjögur ár áður en hann tók við af Hill­ary Clinton árið 2013 og var þá þegar þekkt stærð í Was­hington. Aug­ljóst þykir þó að vænta má tölu­verðra áherslu­breyt­inga á utan­rík­is­stefnu Banda­ríkj­anna eftir valda­töku Trumps.

Scott Pruitt

umhverf­is­mála­ráð­herra



„Jörð kallar Pruitt,“ var fyr­ir­sögn greinar sem birt­ist í The New Yor­ker þann 19 jan­ú­ar. Og ekki að ástæðu­lausu. Pruitt er það ráð­herra­efni Trump sem hefur orkað hvað mest tví­mæl­is. Pruitt hefur haldið því fram að lofts­lags­breyt­ingar af manna­völdum séu gabb og að hann muni binda enda á, „akti­vis­ma” umhverf­is­ráðu­neyt­is­ins. Pruitt hefur líka dregið í efa skað­semi kvika­silf­urs- og svifryks­meng­un­ar.

Það kom mörgum spánskt fyrir sjónir þegar Trump til­nefndi Pruitt til umhverf­is­ráð­herra. Hann hef­ur, ólíkt frá­far­andi umhverf­is­ráð­herra Gina McCart­hy, hvorki menntun né reynslu sem tengj­ast mála­flokkum ráðu­neyt­is­ins. Pruitt er lög­fræði­mennt­aður og starf­aði sem fram­kvæmda­stjóri hafna­boltaliðs­ins Okla­homa Red­Hawks áður en hann tók við emb­ætti rík­is­sak­sókn­ara Okla­homa árið 2011. Í því starfi hefur Pruitt þó haft tölu­verð afskipti af umhverf­is­ráðu­neyt­inu. Hann hefur höfðað fjölda mál­sókna á hendur ráðu­neyt­inu og reynt að stöðva reglu­gerðir er varða allt frá umhverf­is­stöðlum orku­vera til laga um hreint drykkj­ar­vatn. Þess ber að geta að hæsti­réttur Banda­ríkj­anna hafn­aði öllum þessum mál­sókn­um.

Í tíð sinni sem rík­is­sak­sókn­ari í Okla­homa þáði Pruitt styrki frá orku­iðn­að­inum sem námu allt að 300 þús­und doll­ur­um. Slíkar styrk­veit­ingar eru í sjálfu sér ekki ólög­leg­ar, þar sem rík­is­sak­sókn­arar eru kjörnir full­túr­ar, en fjöl­miðlar vestra hafa gagn­rýnt þær. Sér í lagi vegna þess að hans fyrsta verk í emb­ætti var að leggja niður deild sak­sókn­ara­emb­ætt­is­ins sem sá um að lög­sækja vegna brota á umhverf­is­lög­um.

Pruitt sat fyrir svörum hjá umhverf­is­nefnd öld­unga­þings­ins þann 18. jan­úar og er óhætt að segja að sú yfir­heyrsla hafi verið áhuga­verð. „Mínar per­sónu­legu skoð­anir á lofts­lags­breyt­ingum skipta ekki máli í þessu sam­heng­i,” var svar Pruitt við spurn­ingu Bernie Sand­ers um hvort hæft væri að maður sem heldur því fram að lofts­lags­breyt­ingar af manna­völdum séu ekk­ert nema gabb tæki við emb­ætti umhverf­is­ráð­herra. Við­brög Sand­ers létu ekki á sér standa: „Þú munt ekki fá mitt atkvæð­i.”

Það liggur í augum uppi að ómögu­legt verður að stemma stigu við lofts­lags­breyt­ingum án aðkomu Banda­ríkj­anna. Ekk­ert land mengar meira miðað við höfða­tölu og því boðar ekki gott að mögu­lega verði næsti umhverf­is­ráð­herra lands­ins maður sem stendur í þeirri trú að lofts­lags­breyt­ingar af manna­völdum séu gabb.

James Mattis

varn­ar­mála­ráð­herra



Ólíkt þeim Tiller­son og Pruitt, þá býr varn­ar­mála­ráð­herra­efni Trump, James Matt­is, yfir mik­illi reynslu sem ætti að nýt­ast honum í starfi. Hann er fyrrum hers­höfð­ingi Banda­ríkja­hers og á árunum 2010 til 2013 starf­aði hann sem yfir­maður hern­að­ar­mála í Mið­aust­ur­lönd­um. Sem hers­höfð­ingi var Mattis vin­sæll meðal und­ir­manna sinna og útnefn­ing hans hefur mætt lít­illi mót­stöðu.

Mattis hefur verið mik­ill tals­maður þess að við­halda Norð­ur­atl­ants­hafs­banda­lag­inu (NATO) en Trump hefur sagt banda­lagið úr sér geng­ið. Síð­asta sumar sagði Trump í við­tali við The New York Times að ef útgjöld banda­lags­þjóð­anna til hern­að­ar­mála næðu ekki við­mið­inu um 2 pró­sent þjóð­hags­fram­leiðslu, þá gætu þær ekki vænst þess að Banda­ríkin myndu upp­fylla skyldu sína um að koma þeim til aðstoð­ar. Ummæli Trump fara þvert á skoð­anir Mattis sem hefur sagt að hann telji Rúss­land vinna gagn­gert að eyði­legg­ingu NATO. Auk þess sagði hann að Banda­ríkin eigi að halda úti her­stöðvum í banda­lags­löndum sem deila landa­mærum með Rúss­landi.

Það er þó ekki þannig að Mattis sé yfir gagn­rýni haf­inn. Árið 2005 vöktu ummæli hans um stríðið í Írak hörð við­brögð. En hann sagði á blaða­manna­fundi að það væri „gaman að berjast”, og að honum þætti „gaman að skjóta sumt fólk.” Hann hefur einnig orð á sér fyrir að vera her­skár og Obama lét hann taka pok­ann sinn árið 2013 sökum þess hversu ákafur hann var að beita her­valdi gegn Íran. Vegna því­líkra ummæla og skoð­ana hefur Matis hlotn­ast við­ur­nefnið „Mad dog”, eða „óður hund­ur”.

Óút­reikn­an­legir tímar

Eins og kom fram í upp­hafi grein­ar­innar þá er mjög sjald­gæft að öld­unga­deildin hafni ráð­herra­efni for­seta. Repúblikanar hafa meiri­hluta á þing­inu og því má búast við að Tiller­son, Pruitt og Mattis taki við emb­ætti. Hins vegar ríkir mikil óvissa um þær aðgerðir sem þeir munu grípa til. Eins og komið hefur fram hér að ofan fara skoð­anir helstu emb­ætt­is­manna Trump oft þvert á skoð­anir for­set­ans og því er erfitt að segja til um hvernig þeir munu haga sér sem ráð­herr­ar. Þetta eru áhuga­verðir tímar fyrir heims­byggð­ina og þung er ábyrgðin sem hvílir á herðum þeirra sem munu fara með völd í nafni Trump for­seta.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar