Karlar stýra peningum og halda á völdum á Íslandi
Glerþakið sem heldur konum frá stjórnun peninga á Íslandi er hnausþykkt og fáar sprungur sjáanlegar. Rúmlega níu af hverjum tíu æðstu stjórnenda sem stýra peningum eru karlar. Litlar sem engar breytingar hafa orðið á hlutfallinu árum saman.
Á Íslandi búa 167.330 konur. Þær eru 49,4 prósent þjóðarinnar. Framan af lýðveldistímanum hallaði mjög á hlut kvenna að flestu leyti. Þeirra hlutverk var talið vera á heimilinu og stjórnkerfi samfélagsins gerðu beinlínis ráð fyrir því. Með vitundarvakningu og ötulli jafnréttisbaráttu hefur þessi staða breyst mikið á undanförnum áratugum. Konum hefur fjölgað mikið á vinnumarkaði og í áhrifastöðum í völdum geirum. Nú sitja til að mynda 30 konur á Alþingi og hafa aldrei verið fleiri. Ef jafnræði hefði verið á milli kynja á framboðslista Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokks landsins, væru konur í meirihluta á Alþingi. Af 21 þingmanni flokksins eru hins vegar einungis sjö konur. Sterk staða kvenna á þingi er þó ekki endurspegluð við ríkisstjórnarborðið. Af ellefu ráðherrum eru sjö karlar en fjórar konur.
Tregðu hefur gætt á fleiri sviðum en í stjórnmálum að veita konum aukið brautargengi og völd til að hafa áhrif. Íslenskt viðskiptalíf hefur lengi verið mikill karlaklúbbur. Sett voru sérstök lög árið 2013 til að þrýsta á að kynjahlutfall í stjórnum stærri fyrirtækja yrði með þeim hætti að hlutfall hvors kyns yrði að minnsta kosti 40 prósent. Ný ríkisstjórn ætlar að innleiða í lög jafnlaunavottun fyrir öll fyrirtæki sem eru með fleiri en 25 starfsmenn.
En er nóg gert, og hvar eru helstu baráttuvígin sem á eftir að fella í vegferðinni að því að valdastiginn í samfélaginu endurspegli samsetningu þess?
Eitt þeirra víga er íslenskur fjármálageiri. Fyrir hverja níu karla sem stýra peningum á Íslandi er einungis ein kona. Og þannig hefur staðan verið árum saman.
80 karlar, átta konur
Kjarninn hefur síðastliðin fjögur ár gert úttekt á stöðu kvenna á meðal æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og –miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. Úttektin nær til æðsta stjórnanda hvers fyrirtækis eða sjóðs. Niðurstaðan í ár, samkvæmt úttekt sem framkvæmd var í febrúar 2017, er sú að æðstu stjórnendur í ofangreindum fyrirtækjum séu 88 talsins. Af þeim eru 80 karlar en átta konur. Það þýðir að 91 prósent þeirra sem stýra peningum á Íslandi eru karlar en níu prósent konur.
Þegar Kjarninn framkvæmdi úttektina fyrst, í febrúar 2014, voru störfin sem hún náði yfir 88 talsins. Þá sátu 82 karlar í þeim störfum en sex konur. Hlutfallslega skiptingin var því þannig að karlar voru 93 prósent stjórnenda en konur sjö prósent. Árið 2015 voru störfin 87, karlarnir 80 og konurnar sjö. Hlutfallið hafði því „lagast“ en var samt þannig að 92 prósent stjórnenda voru karlar en átta prósent konur. Í fyrra var hlutfallið það sama og árið áður. 92 prósent þeirra sem stýrðu peningum hérlendis voru karlar. Hlutfallið hefur því nánast ekkert breyst á síðustu fjórum árum.
Ástæða þess að störfunum fækkar á milli ára er tvíþætt. Annars vegar eru ekki taldir með stjórnendur fyrirtækja sem höfðu tilkynnt að þau stefndu á markað á árinu 2016, en hafa ekki látið verða af því. Um er að ræða 365, Ölgerðina og Advania, sem er öllum stýrt af körlum. Hins vegar hafa átt sér stað sameiningar í geiranum sem hafa fækkað stjórnendastöðum.
Kona í Landsbankann
Sú breyting verður um miðjan næsta mánuð að tvær konur munu stýra viðskiptabanka á Íslandi. Þá tekur Lilja Björk Einarsdóttir við sem bankastjóri Landsbankans. Hún er talin með í úttekt Kjarnans yfir konur í stjórnunarstöðum í fjármálageiranum. Áður sat í því starfi Steinþór Pálsson. Mikill styr geisaði um hann vegna Borgunarmálsins svokallaða og þrýstingur var til staðar um að Steinþór yrði látinn hætta allt frá því að Kjarninn upplýsti um málið seint í nóvember 2014. Tveimur árum síðar var svört skýrsla Ríkisendurskoðunar um eignasölu Landsbankans birt.
Niðurstaða hennar var að fjölmargar sölur bankans hafi verið aðfinnsluverðar og með þeim hefði bankinn stefnt trausti og trúverðugleika bankans í hættu. Stofnunin beindi því til bankaráðs Landsbankans að gripið yrði til ráðstafana til að endurreisa orðspor Landsbankans. Þegar skýrslan kom út neitaði Steinþór því alfarið að ætla að segja af sér vegna niðurstöðu hennar. Viku síðar lét hann af störfum „samkvæmt samkomulagi“. Utan bankastjóra eru sex í framkvæmdastjórn Landsbankans, þrjár konur og þrír karlar.
Hin konan sem gengt hefur bankastjórastöðu er Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Með henni í framkvæmdastjórn sitja fimm karlar og þrjár konur.
Þriðji stóri viðskiptabankinn er Arion banki og bankastjóri hans er Höskuldur H. Ólafsson. Auk Höskuldar sitja níu í framkvæmdastjórn bankans, fimm karlar en fjórar konur.
Fjórði viðskiptabankinn er Kvika banki. Forstjóri Kviku er Sigurður Atli Jónsson. Fyrir utan hann eru fimm aðrir í framkvæmdastjórn bankans, allt karlar. Þá er ótalinn Íbúðalánasjóður, sem stýrt er af karlmanninum Hermanni Jónassyni.
Af æðstu stjórnendum íslenskra banka, og Íbúðalánasjóðs, eru því þrír karlar en tvær konur.
Verðbréfaheiminum nær einvörðungu stýrt af körlum
Á Íslandi eru fjórir sparisjóðir enn starfandi. Þremur þeirra er stýrt af körlum en einum af konu. Það er Sparisjóður Suður-Þingeyinga sem er stýrt af sparisjóðsstjóranum Gerði Sigtryggsdóttur.
Alls eru fimm lánafyrirtæki eða -stofnanir reknar hérlendis. Þau eru Borgun, Valitor, Lýsing, Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga. Fjórum þeirra er stýrt af körlum en einu af konu. Það er fjármögnunarfyrirtækið Lýsing sem stýrt er af Lilju Dóru Halldórsdóttur.
Staða kvenna er verst þegar kemur að verðbréfafyrirtækjum og rekstrarfélögum verðbréfasjóða. Til að átta sig á um hvers konar fyrirtæki sé að ræða þá eru þetta milliliðir sem taka við hundruð milljarða króna frá fjárfestum, aðallega lífeyrissjóðum, og fjárfesta fyrir þá. Fyrir þetta taka þessir aðilar þóknanir. Rekstrarfélög verðbréfa- og fjárfestingarsjóða eru mörg hver í eigu viðskiptabankanna og heita nöfnum eins og Stefnir, Íslandssjóðir, Landsbréf, Gamma, Júpíter, Alda og Summa. Af þeim tíu svona félögum sem eru með starfsleyfi samkvæmt Fjármálaeftirlitinu er engu stýrt af konu. Tíu karlar halda um þræðina í þeim. Og langflestir starfsmanna þeirra eru líka karlar. Þannig hefur staðan verið árum saman.
Tíu verðbréfafyrirtæki eru skráð sem eftirlitsskyld hjá Fjármálaeftirlitinu. Þau heita nöfnum eins og Virðing, Arctica Finance, Centra, Fossar, ALM Verðbréf og Jöklar. Öllum tíu er stýrt af körlum.
Karl stýrir líka einu eftirlitsskyldu verðbréfamiðlun landsins og einu innlánsdeild samvinnufélags (Hjá Kaupfélagi Skagfirðinga) sem starfrækt er á landinu.
Lífeyrissjóðirnir ráða mestu og karlar ráða lífeyrissjóðunum
Áhrifamestu leikendurnir á íslenskum fjármálamarkaði eru lífeyrissjóðirnir okkar. Samkvæmt nýjustu hagtölum Seðlabanka Íslands var hrein eign þeirra 3.509 milljarðar króna um síðustu áramót. Lífeyrissjóðirnir, sem eru nú 25 talsins samkvæmt yfirliti Fjármálaeftirlitsins um eftirlitsskyldra aðila, eru allt um lykjandi í íslensku viðskiptalífi. Þeir eiga meira en helming skráðra hlutabréfa annað hvort beint eða óbeint í gegnum sjóði sem þeir hafa fjárfest í. Sjóðirnir hafa líka fjárfest mikið í óskráðum eignum og eru að sækja mikið á í útlánum til fasteignakaupa, þar sem þeir geta boðið betri kjör en viðskiptabankarnir. Þá eru þeir helstu eigendur skuldabréfa á Íslandi.
Áhrif og völd þeirra sem stýra lífeyrissjóðunum eru því gríðarleg. Sjóðstýringarfyrirtækin, verðbréfafyrirtækin og fjárfestingahluti bankastarfseminnar sækja þorra sinna þóknanatekna, og kraft til viðskipta, til lífeyrissjóðanna. Því má segja að stjórnendur þeirra, og helstu samstarfsmenn, deili og drottni yfir íslensku viðskiptalífi.
Lífeyrissjóðirnir eru mjög mismunandi að stærð og það tíðkast að fleiri en einum sjóði sé stýrt af sama fólkinu. Þannig stýrir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), líka lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. Saman eru sjóðirnir stærsti lífeyrissjóður landsins. Úttekt Kjarnans nær að þessu sinni til 17 stjórnenda lífeyrissjóða sem sumir hverjir stýra fleiri en einum sjóði. Af þessum 17 eru 15 karlar en tvær konur.
Níu stærstu sjóðirnir stýra um 80 prósent af fjármagninu sem er til staðar í íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Um er að ræða rúmlega 2.800 milljarða króna. Þeim er öllu stýrt af körlum.
Sú kona sem stýrir stærstum lífeyrissjóði hérlendis, og raunar einungis ein af tveimur konum sem það gerir, heitir Gerður Guðjónsdóttir og stýrir Brú lífeyrissjóði, sem tók upp það nafn um mitt ár 2016. Brú er lífeyrissjóður fyrir fólk sem starfar hjá sveitarfélögum á Íslandi. Hin konan sem stýrir lífeyrissjóði á Íslandi er Snædís Ögn Flosadóttir, sem tók við sem framkvæmdastjóri Eftirlaunasjóðs íslenskra atvinnuflugmanna sumarið 2015. Snædís vinnur hjá eignastýringu Arion banka sem heldur á nokkrum lífeyrissjóðum.
Við þetta má bæta að stærstu lífeyrissjóðir landsins eiga saman Framtakssjóð Íslands og honum er stýrt af konu, Herdísi Dröfn Fjeldsted. Þá er Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, en þau fjárfesta auðvitað ekki.
Allir forstjórar orkufyrirtækja landsins; Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, ON, HS Orku, Orkubús Vestfjarða, Landsnets og Orkusölunnar eru líka allt karlar.
Engin kona stýrir skráðu félagi
Sameiginlegt markaðsvirði þeirra 17 félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands er tæplega eitt þúsund milljarðar króna. Frá því að hlutabréfamarkaðurinn var endurreistur eftir hrun hefur einungis ein kona stýrt skráð félagi á Íslandi. Það var Sigrún Ragna Ólafsdóttir, sem var forstjóri VÍS. Henni var sagt upp störfum í fyrra og Jakob Sigurðsson ráðinn í hennar stað. Því er öllum skráðum félögum á Íslandi nú stýrt af körlum. Auk þess er forstjóri Kauphallarinnar karlinn Páll Harðarson.
Félögin eru mörg stærstu fyrirtæki landsins. Þar er að finna stærsta smásala landsins, þrjú tryggingafélög, öll stærstu fasteignafélögin, eina af stærstu útgerðum landsins, tvö stærstu fjarskiptafyrirtæki landsins, tvo af stærstu olíufélögunum og svo auðvitað fyrirtækin tvö sem tengja okkur helst við umheiminn, Icelandair og Eimskip.
Þá vantar einungis tryggingafélögin Okkar og Vörð og tvær greiðslustofnanir. Öllum fjórum er stýrt af körlum. Samtals gera þetta 87 stjórnendastörf sem eru skipuð 79 körlum og átta konum.
Til viðbótar má nefna að þrír æðstu yfirmenn Seðlabanka Íslands eru karlar, fjármála- og efnahagsráðherra er karl og það er forsætisráðherra líka. Nýkjörinn forseti okkar er auk þess karl.
Lög sett til að reyna að laga stöðuna
Ýmislegt hefur verið gert til að reyna að breyta þeirri landlægu karllægni sem ríkir í íslensku viðskiptalífi. Þar ber helst að nefna að í september 2013 tóku gildi lög hérlendis sem gerðu þær kröfur að hlutfall hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn væri að minnsta kosti 40 prósent. Þetta leiddi til þess að ansi mörg fyrirtæki og lífeyrissjóðir þurftu að ráðast í miklar breytingar á samsetningu stjórna sinna, enda var hlutfall kvenna í stjórnum sem féllu undir löggjöfina einungis 20 prósent í árslok 2009.
Í árslok 2013, eftir að lögin tóku gildi, voru konur orðnar 31 prósent stjórnarmanna í þeim félögum sem þau náðu yfir. Einungis um helmingur fyrirtækjanna sem falla undir lögin uppfylltu skilyrðin á þessum tíma. Konum hefur fjölgað í stjórnum stærri fyrirtækja undanfarin ár og voru 33,2 prósent stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri í lok árs 2014. Ári síðar hafði hlutfallið lækkað og mældist 32,8 prósent.
Þegar öll fyrirtæki sem greiða laun og voru skráð í hlutafélagaskrá voru skoðuð kom í ljós, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, að hlutfall kvenna í stjórnum var 25,9 prósent í lok árs 2015. Hlutfallið hafið verið á bilinu 21,3 til 22,3 prósent á árunum 1999 til 2006 og því hefur það farið hækkandi frá árinu 2007. En samt sem áður er einungis um einn af hverjum fjórum stjórnarmönnum í íslenskum fyrirtækjum konur.
Markaðurinn, fylgiblað Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, fékk Creditinfo nýverið til að taka saman upplýsingar um hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum stórra fyrirtækja, sem áttu eignir yfir einn milljarð króna. Í niðurstöðunum kom fram að hlutfall þeirra hafi lækkað á milli áranna 2014 og 2016. Um þrettán prósent stjórnarformanna fyrirtækjanna voru konur. Til stórra fyrirtækja teljast alls 857 félög.
Á fyrra árinu voru konur tíu prósent framkvæmdastjóra stórra fyrirtækja en tveimur árum síðar einungis níu. Hjá meðalstórum fyrirtækjum, sem áttu eignir frá 200 milljónum króna og upp í milljarð króna, var hlutfall kvenna sem stýrðu tólf prósent. Alls voru átján prósent stjórnarformanna millistórra fyrirtækja konur. Til þeirra töldust alls 1.866 félög.
Það er því ljóst, sama hvert er litið, að íslenski peningaheimurinn er karlaheimur. Og hann er að breytast mjög, mjög hægt.