Einurð og samstaða sjómanna skilaði kjarasamningi
Lengsta sjómannaverkfall sögunnar að baki.
Lengsta sjómannaverkfalli Íslandssögunnar er lokið. Nýr kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var samþykktur 19. febrúar með naumum meirihluta sjómanna en 52,9% þeirra samþykktu samninginn. Sjómenn höfðu fellt samninginn í tvígang með afgerandi hætti, þann 10. ágúst og 14. desember. Verkfallið hófst 15. desember 2016 og stóð í tæpar 10 vikur.
Verkföll sjómanna hafa ítrekað í gegnum söguna verið stöðvuð með lagasetningum, síðast árið 2001, eins og sjá má á tímalínunni hér að neðan. Sjómenn voru meira og minna kjarasamningslausir í kringum aldamót eða þar til tímamótasamningur náðist árið 2004. Sá samningar var framlengdur tvisvar. Frá 1. janúar 2011 hafa sjómenn verið með lausa kjarasamninga og hvorki gengið né rekið í viðræðum sjómanna og útgerðarmanna þar til nú.
Sjávarútvegurinn bikarmeistari þegar kemur að lögum á kjaradeilur
Verkföll eru nokkuð tíð á Íslandi. Á árunum 1985-2010 voru 166 verkföll á íslenskum vinnumarkaði, eða að meðaltali sjö á ári. Þrátt fyrir að sjómenn séu langt í frá fjölmennasta atvinnugrein landsins eru verkföll sjómanna eru áberandi í fjölmiðlum enda valda þau miklu tekjutapi fyrir þjóðarbúið. Árið 2015 störfuðu alls 4.100 manns við fiskveiðar, eða um 2,2% af heildar vinnuafli landsins.
Frá 1938 hafa 14 sinnum verið sett lög á sjávarútveginn, á sama tímabili hafa níu sinnum á verið sett lög á fluggeirann. Aðrar stéttir hafa fengið á sig lög í sex skipti og þrisvar sinnum hafa almenn lög verið sett um kjaramál. Nýliðin kjaradeila sjómanna og útvegsmanna einkenndist af samstöðu sjómanna og hörku beggja aðila. Til marks um það lögðu útgerðarmenn fram kröfur en höfðu ekki erindi sem erfiði með neinar þeirra. Þeim var alfarið hafnað af sjómönnum.
Íslensk stjórnvöld gagnrýnd fyrir inngrip
Elín Eva Lúðvíksdóttir fjallar í BS ritgerð sinni um forsendur þess að setja megi lög á vinnudeilur. Þar kemur fram að Íslenska ríkið taldi sig hafa rétt til þess að grípa inn í kjaradeilur þegar afleiðingar þeirra eru efnahagsleg ógn við almenning. Alþýðusamband Íslands, ASÍ hefur þrisvar vísað inngripum íslenska ríkisins í vinnudeilur til Alþjóða Vinnumálastofnunarinnar ILO og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB einu sinni. Öllum fjórum málunum tapaði íslenska ríkið, ILO telur lagasetningar á löglega boðuð verkföll aðeins heimilar þegar um er að ræða algjört hættuástand til þess að forða vá sem ógnað geti heilsu og öryggi manna. Sérfræðinganefnd félagsmálasáttmála Evrópu taldi ástæðu til þess að gagnrýna íslensk stjórnvöld fyrir inngrip í kjaradeilur.
Sátt um helstu áherslumál á lokametrunum
Olíuverðsviðmið og sjómannaafsláttur urðu til þess að viðræður deiluaðila sigldu í strand. Á lokametrunum náðist sátt um þau atriði auk annara ágreiningsmála. Má þar nefna sólarlagsákvæði um nýsmíðaálagið, endurnýjun orlofsréttar vegna flutnings milli útgerðar, hlífðar- og fatapeningar, hækkun kaupliða, verðmyndun á fiskverði, mönnun og hvíldartímaákvæði, fjarskipti og fjarskiptakostnað.
Helstu kjarabætur í nýjum samningi eru:
- Hækkun kauptryggingar til samræmis við hækkanir á almennum markaði frá 2011
- Frítt fæði um borð
- Útgerð skaffar nauðsynlegan hlífðar- og öryggisfatnað
- Olíuverðsviðmið hækkar í samræmi við erlenda verðbólgu
- Nýsmíðaákvæði dettur út árið 2031
- Aukin orlofsréttindi
- Kostnaður vegna fjarskipti verður sundurliðaður og útgerð tryggir fjarskipti utan þjónustusvæða símafyrirtækja
Útskýring á helstu ágreiningsmálum
Aflahlutur - hlutaskipti
Sjómönnum eru tryggð ákveðin lágmarkslaun á mánuði með kauptryggingu sem frá 1. febrúar 2017 eru kr. 288.168 kr. fyrir háseta en verður í lok samningstímans kr. 326.780. árið 2019. Kauptrygging háseta er reiknuð út frá einum hlut á meðan yfirmenn fá einn og hálfan hásetahlut og skipstjóri tvo hluti á mánuði. Frá 1. febrúar eru kauptrygging yfirmanna kr. 432.252 samkvæmt nýsamþykktum kjarasamningi. Að öllu jöfnu er aflahlutur alltaf hærri en kauptrygging. Hver laun sjómannsins eru ræðst af svokölluðu hlutaskiptakerfi. Fram á fjórða áratug 20. aldar voru sjómenn á föstum launum, óháð afköstum og aflaverðmæti. Það þótti mikil kjarabót þegar hlutaskiptakerfi var komið á.
Sjómenn eru eina starfsstéttin á Íslandi sem fær laun sín greidd í hlutaskiptakerfi.
Þegar rekstrarkostnaður og hlutur útgerðar hefur verið dreginn frá aflaverðmæti veiðiferðar stendur eftir skiptahlutur sjómanna. Er hann á bilinu 25% til 33%, en hann er breytilegur eftir gerð og mönnun skipa. Laun sjómanna ráðast því af rekstarakostnaði þar sem olíuverð skipar stóran sess og aflaverðmæti hverrar veiðiferðar. Því betur sem fiskast og betra verð fæst fyrir fiskinn, því hærri verða launin fyrir túrinn. Deila sjómanna og útgerðarmanna um kostnaðarhlutdeild hvors aðila fyrir sig af aflaverðmætinu er eilíft þrætuepli í kjaraviðræðum þeirra. Hefur deilan aðallega staðið um olíuverðsviðmið og verðmyndun.
Olíuverðsviðmið
Undir lok áttunda áratugs síðustu aldar og í upphafi þess níunda var þessi kostnaður mjög íþyngjandi fyrir útgerðina. Dæmi voru um að olíukostnaður í veiðiferð næmi um 30% af aflaverðmæti. Árið 1983 mælti Steingrímur Hermannsson, sem þá var sjávarútvegsráðherra, fyrir lögum sem bundu 30% af aflaverðmæti hverri veiðiferðar við olíukostnað með þeim rökum að útgerðin glímdi við aflabrest, olíuverðshækkun og mikinn fjármagnskostnað.
Frá því að lögin voru sett 1983 hefur rekstrarumhverfi sjávarútvegsins breyst til batnaðar og olíukostnaður ekki náð sömu hæðum. Athugun Hagstofunnar fyrir árin 2010-2014 leiddi í ljós að raunverulegur olíukostnaður flotans var aðeins um þriðjungur af þeirri upphæð sem dregin var frá til olíukaupa.
Þegar sjóðakerfið í sjávarútvegi var gert upp árið 1985 var raunprósenta sem kom til skipta 69,5%. Hún var hækkuð í 70% um haustið og í 71% skömmu seinna. 1986 sömdu sjómenn og útgerðarmenn um að prósentan yrði sett í 76% og þá var olíuverðsviðmið tekið upp með vísan í heimsmarkaðsverð á olíu.
Sjómenn töldu sig eiga inni leiðréttingu á launum, enda hafi viðmiðið lítið breyst þrátt fyrir miklar sveifur á heimsmarkaðsverði á olíu. Hefur olíuskiptaviðmiðið nú verið endurskoðað og hækkar skiptaverð til sjómanna að jafnaði um 2% samkvæmt nýju viðmiðunum. Áfram verður þak og gólf á viðmiðunum og getur skiptaverðmæti aldrei farið yfir 80% né undir 70%. Viðmiðið tekur breytingum eftir því hvort heimsmarkaðsverð á olíu hækkar eða lækkar.
Nýsmíðaálag
Nýsmíðaálagið hefur verið mjög áberandi í fréttum, bæði í aðdraganda verkfalls og eftir því sem deilan harðnaði. Hefur ítrekað vera bent á að ákvæðið sé ósanngjarnt fyrir sjómenn en samkvæmt því máttu útgerðir nýrra skipa lækka skiptahlutinn um 10% í sjö ár. Sjómenn geta í sumum tilfellum verið að borga um 10-12% af verði skipsins án þess þó að eignast nokkuð í því. Um umtalsverðir upphæðir er að ræða, sem hlaupið geta á hundruðum milljóna.
Því verður að halda til haga að ný skip þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að hægt sé að virkja ákvæðið. Þurfa skipin að vera yfir meðalaflaverðmæti á hvern úthaldsdag. Samkvæmt útreikningum SFS eru 25% skipa því undanskilin ákvæðinu og reiknast samtökunum til að ákvæðið hafi náð til um 200 stöðugilda á sjó undanfarin ár.
Nýsmíðaálagið kom inn í kjarasamninganna 2004. Rökin með nýsmíðaákvæðinu voru þau að á nýjum skipum sem búin eru nýjustu tækjum og tólum séu allar forsendur fyrir því að afköst verði meiri og aflaverðmæti þannig hærra. Þannig ætti lækkunin á skiptahlutnum í raun að jafnast út og sumir sjómenn gætu jafnvel hækkað í launum á nýjum skipum þrátt fyrir 10% lækkun á skiptahlut. Mjög skiptar skoðanir eru á því hver útkoman var í raun og veru.
Þess ber að geta að þegar þetta ákvæði kom inn í kjarasamninginn fengu sjómenn ákveðnar kjarabætur sem náðu til allra sjómanna óháð því hvort nýsmíðaákvæðið yrði virkjað. Orlofsréttur var aukinn, mótframlag útgerðar í lífeyrissjóð, þ.e. mótframlagið hækkaði úr 6% í 8%, og 2% mótframlag í séreignasjóð var reiknað af öllum launum, hafði áður verið reiknað af kauptryggingu. Þá miðaðist 1% greiðsla í sjúkrasjóð stéttarfélaga við öll laun í stað 1% af kauptryggingu áður.
Í nýgerðum kjarasamningi eru ákvæði um að nýsmíðaákvæðið falli út að fullu árið 2031. Þau réttindi sem sjómenn öðluðust þegar samið var um álagið skerðast þó ekki. Í dag geta skip nýtt sér nýsmíðaálag í sjö ár. Með sólarlagsákvæði sem tekur gildi 2024 geta skip einungis nýtt sér nýsmíðaálagið til 2031 þó svo að sjö ár frá notkun skipsins séu ekki liðin.
Verkföll bitna á þeim sem síst skyldi
Samkvæmt tölum frá SFS er útflutningsverðmæti íslenskra sjávarútvegsafurða um 640 milljónir á dag. Í raun er tapið á dag meira enda hafa umsvif í tengdum greinum, s.s. hjá flutningafyrirtækjum, netagerðum, vélsmiðjum og öðrum þjónustufyrirtækjum, minnkað umtalsvert meðan á verkfallinu stóð. Þá má ekki gleyma þætti landverkafólks sem hefur tapaði vinnu og launum minnkað verulega í verkfallinu. Samkvæmt greiningu Sjávarklasans var daglegt tap á bilinu 900-1300 milljónir og er þá litið til þátta eins og glataðra viðskiptasambanda og beinna og óbeinna efnahagslegra áhrifa.
Þar með er þó aðeins hálf sagan sögð. Mörg af stærri sjávarútvegsfyrirtækjum áttu umtalsvert af uppsöfnuðum birgðum af frosnum fiski sem milduðu áhrif verkfallsins. Þá má í raun segja að ekki hafa verið um eiginlegt tap að ræða heldur aðeins frestun. Kvótaárið er hálfnað og nægur tími til að vinna upp tapaðan tíma næstu sex mánuði. Sumarið er vanalega rólegur tími hjá flestum útgerðum og margir klára kvótann á 11. mánuði kvótaársins. Má því gera ráð fyrir að allur fiskurinn skili sér á land að lokum, þrátt fyrir tæplega 10 vikna verkfall. Eftir sex ára kjaraviðræður skilaði verkfallið kjarasamningi án lagasetningar og það eitt og sér er sigur í sjálfu sér.
Höfundar eru meistaranemar í Blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands