Mynd: Birgir Þór

Aðgerðarhópur settur á fót vegna neyðarástands á húsnæðismarkaði

Aðgerðahópur fjögurra ráðherra á að skilgreina hvernig bregðast eigi við neyðarástandi á íslenskum húsnæðismarkaði. Hann mun skila niðurstöðu innan mánaðar. Stofnframlög inn í almenna íbúðakerfið verða allt að tvöfölduð úr 1,5 milljarði í þrjá milljarða.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að setja á fót sérstakan aðgerðarhóp fjögurra ráðherra til að taka saman yfirlit yfir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin getur ráðist í til þess að ýta frekar undir byggingu lítilla og hagkvæmra íbúða. Aðgerðarhópurinn mun einnig skilgreina hvernig hægt verði að ná utan um þann framboðsskort á íbúðum sem er á íslenskum húsnæðismarkaði.

Á sama tíma samþykkti ríkisstjórnin aðgerðir í húsnæðismálum í tengslum við endurskoðun forsendna kjarasamninga sem eru uppsegjanlegir um næstu mánaðamót, en ASÍ hefur sagt að forsendur kjarasamninga séu að óbreyttu brostnar, meðal annars vegna þess að ekki hafi verið staðið við aðgerðir í húsnæðismálum. Samþykkt var að tvöfalda það fjármagn sem setja á í stofnstyrki inn í almenna íbúðakerfið. Í stað þess að það verði 1,5 milljarður króna munu allt að þrír milljarðar króna fara í stofnframlög í málaflokknum á þessu ári.

Vinnunni á að ljúka innan mánaðar

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að gert sé ráð fyrir að reynt verði að ljúka vinnu aðgerðarhóps ráðherranna fjögurra hratt. Hann vill sjá meginniðurstöður úr vinnu hópsins innan mánaðar. „Markmið hópsins er að draga saman það efni sem þegar hefur verið unnið um fasteignamarkaðinn og helstu tillögur og setja upp aðgerðaráætlun. Við erum að horfa fram á veginn og hvernig sé hægt að tryggja að hér verði nægjanlegt framboð af litlum hagkvæmum íbúðum sem eru hentugar fyrir ungt fólk. Það er auðvitað þar sem skóinn kreppir hvað mest. Það er þegar búið að byggja mjög mikið af stórum íbúðum sem henta fólki yfir fimmtugt. Dýrar íbúðir sem fólk er jafnvel að minnka við sig til að fara inn í. En þessa flóru vantar algjörlega inn á markaðinn.“

Aðspurður hvort ríkisstjórnin sé með þessu að gangast við því að það ríki neyðarástand á íslenskum húsnæðismarkaði segir Þorsteinn að það sé ekki umflúið að horfa á ástandið nákvæmlega þeim augum. „Þarna er verulegur skortur á húsnæði inn á markaðinn. Það er allt of lítið samráð og samstarf milli sveitarfélaga og of lítið yfirlit yfir það sem er í pípunum á næstu árum. Þetta verðum við að taka sameiginlega utan um. Ríkið horfir til þess sem það getur gert til þess að liðka fyrir í skipulagslöggjöfinni, byggingarreglugerðum og bættri samantekt á fyrirliggjandi upplýsingum, sem Íbúðalánasjóði hefur verið falið að gera. Síðan er hægt að horfa til stuðningsnetsins sem við erum með inn á fasteignamarkaðinn. Við höfum verið gagnrýnd fyrir það þegar kemur að vaxta- og húsnæðisbótum að þeim sé of þunnt smurt út. Þ.e. að bætur greiðist of hátt upp tekjustigann og með því sé bótakerfið frekar að lyfta upp verði frekar en að styðja við ákveðna tekjuhópa. Það er auðvitað ekki skynsamlegur opinber stuðningur og við ættum að geta beint þessum stuðningi betur að þeim hópum sem þurfa á þeim að halda.“

Vantar miklu meira samstarf

Þorsteinn segir að íslenskt samfélag sé að glíma við fjölþættan vanda á húsnæðismarkaði sem hafi því miður verið algjörlega fyrirsjáanlegur. Fyrir hafi legið í rúman aldarfjórðung að mjög stórir fæðingarárgangar væru að koma inn á markaðinn á þessum tíma og að nettó aðfluttum myndi auk þess fjölga mikið. Það vantar einfaldlega meira framboð af íbúðum og lóðir undir þær. Það hefur tekið lengri tíma að koma þéttingarverkefnum af stað heldur en gert var ráð fyrir. Það vantar miklu meira samstarf á milli sveitarfélaganna ef það eiga að vera byggðar 1400 íbúðir á ári á höfuðborgarsvæðinu. Þau þurfa að taka utan um það hvernig þau ætla að tryggja það framboð ár eftir ár. Svo á eftir að takast á við uppsafnaða þörf.“

Í pípunum er að ráðherrann setjist yfir þessi mál með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu til að ráða fram úr því hvernig hægt sé að ná utan um þennan bráðavanda. Þar geti ríkið til dæmis komið að hvað varðar breytingar á umgjörð markaðarins. „Skipulagslöggjöfin virðist vera mjög snúin og tímafrek, það er spurning hvort að það sé hægt að einfalda hana að einhverju leyti án þess að hagsmunum íbúa sé fórnað. Það er byggingarreglugerð sem verið er að vísa í að sé enn og íþyngjandi, sérstaklega þegar kemur að byggingu lítilla íbúða. Það er alveg klárt að það hvernig sveitarfélögin verðleggja lóðir virðist ýta undir byggingu stærri íbúða frekar en minni. Við þurfum að snúa þessum hvötum við þannig að það sé meiri hvati til að byggja lítið. Við erum að byggja hærra hlutfall af íbúðum yfir 100 fermetrum nú en við vorum að gera fyrir tíu árum síðan.“

Mikill skortur er á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og neyðarástand ríkir á húsnæðismarkaði.
Mynd: Birgir Þór

Þorsteinn segir að ef það eigi að leggja svona mikla áherslu á þéttingu byggðar, sem sé á allan hátt skynsamleg aðgerð út frá landnýtingu, umhverfislegu samhengi og skemmtilegri borgarbrag, þá verði að einfalda ferlið í kringum þéttingarverkefnin. „Í dag eru þau of tímafrek. Þau taka fleiri fleiri ár. Svo er sjálfstætt vandamál að það sé verið að selja reitina á milli manna áður en það er byggt á þeim. Það mætti alveg skoða hvort það eigi að vera byggingarkvaðir á þessum reitum. Að það verði að hefja framkvæmdir innan tilskilins tíma að því gefnu að öll leyfi séu fyrir hendi þannig að menn geti ekki bara verið að leika leikinn að bíða með verkefnið á teikniborðinu, bíða eftir að verðið hækki og selja það svo einhverjum öðrum sem ætlar að leika sama leikinn.“ Þorsteinn segir að flest að þessum þáttum hafi hann þegar rætt við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur.

Allt að tvöfalda stofnframlög

Þegar kjarasamningar náðust milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins árið 2015 þurfti aðkomu ríkisins að þeim. Á meðal þess sem þar var kveðið á um voru aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum. Um komandi mánaðamót mun forsendunefnd ASÍ og Samtaka atvinnulífsins kveða upp um hvort forsendur kjarasamninga séu brostnar eða ekki. Á fundi sem forsvarsmenn ASÍ héldu með ráðherrum úr ríkisstjórninni fyrr í þessari viku var kallað skýrt eftir efndum í húsnæðismálum. Ekkert væri fyrirsjáanlegt um slíkar í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar né fjárlögum ársins 2017.

Málið var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og Þorsteinn segir að samþykkt hafi verið að tvöfalda stofnframlög úr ríkissjóði inn í þennan málaflokk. „Á fjárlögum ársins 2017 eru 1.500 milljónir merktar til stofnstyrkja inn í almenna íbúðarkerfið. Við munum tryggja allt að 1.500 milljónum króna til viðbótar inn í það kerfi. Það var samþykkt í ríkisstjórn í dag þannig að þetta verða allt að þrír milljarðar króna sem fara í stofnframlög inn í þennan málaflokk á þessu ári.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar