Tónlistarmaðurinn Ed Sheeran átti von á því að nýja platan hans, ÷ (Divide), yrði vinsæl. Í viðtali við Guardian þegar platan var enn óútkomin sagði hann að 2017 yrði árið hans. Þegar blaðamaður Guardian spurði hann hvernig honum myndi líða ef platan yrði ekki eins vinsæl og sú síðasta sagðist hann vera til í að veðja hverju sem er upp á að það yrði ekki tilfellið. „Næsta plata, ég lofa þér því, mun seljast minna, en þessi plata mun seljast meira. Ég held að ég muni ekki eiga ár eins og þetta aftur.“
Platan kom út fyrir viku, 3. mars. Þó Sheeran hafi verið nokkuð viss um vinsældirnar átti ekki von á því sem gerðist næst. Nefnilega því að öll sextán lögin á plötunni yrðu meðal 20 vinsælustu laga Bretlands í einu. Hann á sextán lög af tuttugu á breska vinsældarlistanum, þar af eru níu af tíu efstu lögunum hans lög. Á Billboard Twitter listanum eru 13 lög frá honum, sem er met. Aldrei fyrr hefur listamaður átt jafn mörg lög á listanum í einu.
Hann hefur slegið fleiri met, og tveimur dögum eftir að platan kom út höfðu lögin fengið yfir einn milljarð spilana á Youtube. Plötu hefur aldrei verið streymt eins oft á Spotify á einum degi og nýju plötunni hans Sheeran, tæplega 57 milljón hlustanir voru á plötuna á útgáfudeginum einum saman. Metið fyrir flestar hlustanir á eitt lag á Spotify var líka slegið. Yfir tíu milljón sinnum var hlustað á lagið Shape of You föstudaginn 3. mars. 69 milljón hlustanir á einn tónlistarmann á einum degi var enn annað metið sem hann sló á Spotify þann daginn.
Og engin plata hefur selst eins vel á vínyl og Divide undanfarin tuttugu ár. 13.500 eintök á vínyl seldust fyrstu vikuna, af 419 þúsund áþreifanlegum eintökum. Löglega var plötunni hlaðið niður 672 þúsund sinnum, sem þýðir að enn eitt metið hefur verið slegið. Platan er sú plata eftir karlkyns tónlistarmann sem hefur selst hraðast, í sögunni. Til samanburðar var síðasta plata David Bowie, Blackstar, sú plata sem hraðast seldist í fyrra. Hún seldi 146 þúsund eintök í fyrstu vikunni.
Á ekkert í Adele...ennþá
Þrátt fyrir að allt útlit sé fyrir að enginn tónlistarmaður skáki Sheeran á þessu ári er annar Breti öruggur með flest af sínum tónlistarlegu heimsmetum. Það er söngkonan Adele, sem sló heilmikið af öðrum metum í fyrra, þegar hennar plata, 25, kom út eftir langa bið og mikla eftirvæntingu. Adele hélt hins vegar plötunni sinni af streymisveitum fyrst um sinn til að ýta undir sölu, þannig að hún á engin Spotify met eins og Sheeran.
Aftur á móti voru tæplega 3,4 milljónir eintök seld af plötunni 25 í Bandaríkjunum, samkvæmt mælingum Nielsen Music, sem hefur mælt plötusölu frá árinu 1991 og tekið inn í mælingar sínar streymi og sölu á einstaka lögum. Ekki að einstaka lög hafi skipt miklu máli hjá Adele, næstum því hver einn og einasti keypti plötuna í heild sinni.
25 er fyrsta platan í sögu þessara mælinga til þess að seljast í yfir þremur milljónum eintaka á einni viku. Áður en platan kom út hafði því verið velt upp í fjölmiðlum hvort hún gæti mögulega jafnað sölumetið, sem strákasveitin 'NSYNC átti þá. Þeir seldu 2,4 milljónir af No Strings Attached í vikunni eftir að hún kom út árið 2000. Adele jafnaði ekki bara metið heldur sló það svo rækilega að talið er ólíklegt að nokkur muni ná henni.
Adele er eina manneskjan sem hefur selt fleiri plötur en ég á síðustu tíu árum.
Og í Bretlandi var sömu sögu að segja. 800 þúsund eintök og gott betur seldust í fyrstu vikunni þar, yfir 100 þúsundum meira en söluhæsta platan þar í landi fram að því. Fyrsta daginn seldust 300 þúsund eintök. Be Here Now með Oasis, hafði áður verið mest selda platan á einni viku, en hún seldist í 696 þúsund eintökum vikuna sem hún kom út árið 1997. Hún sló alls konar önnur met í öðrum löndum. Til að mynda setti hún sölumet á Nýja-Sjálandi og sló þar út Susan Boyle, sem hafði átt metið þar í landi. 25 fór í fyrsta sæti á iTunes listanum í 106 af 119 löndum þessa fyrstu viku og seldist þar í 900 þúsund eintökum.
En Ed Sheeran er alls ekki búinn að gefast upp fyrir samkeppninni við Adele. Hann hefur sagt að hún sé hans helsti keppinautur. „Adele er eina manneskjan sem hefur selt fleiri plötur en ég á síðustu tíu árum. Hún er eina manneskjan sem ég þarf að selja fleiri plötur en gerði. Það er helvíti mikið afrek af því að síðasta platan hennar seldist í 20 milljón eintökum. En ef ég set hana ekki sem viðmiðið þá er ég að selja mig of ódýrt,“ sagði hann við GQ áður en platan hans kom út. Hann er líka keppnismaður, og passaði vel að enginn annar tónlistarrisi væri að gefa út plötu á sama tíma og hann. Eina manneskjan sem gæti skákað honum á árinu er góð vinkona hans, Taylor Swift.
En þangað til þetta kemur í ljós ætlar hann á tónleikaferðalag til að halda partíinu gangandi. Ekki nóg með það heldur tilkynnti hann að hann ætlaði að setja saman strákasveit, sem hann ætlar að semja tónlist ofan í og láta fara með sér á tónleikaferðalag. Hann lætur sér ekki nægja að semja eigin tónlist, og lög fyrir aðrar stórstjörnur eins og Justin Bieber og the Weeknd, heldur ætlar hann nú að stjórna sinni eigin strákasveit.