Íslenska bankakerfið, sem var orðið allt að tólf sinnum stærra en árleg þjóðarframleiðsla Íslands, hrundi í október 2008 og sett voru neyðarlög. Þau gerðu eignir allra hluthafa í bönkunum þremur sem Fjármálaeftirlitið tók yfir að engu. Þau breyttu líka kröfuröð til að tryggja að allar íslenskar innistæður nytu forgangs og loks voru teknar, með ríkishandafli, eignir úr þrotabúum þessara banka og færðar inn í nýja banka með innistæðunum. Nýju stóru bankarnir þrír fengu á endanum nöfnin Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki.
Þeir sem höfðu lánað íslensku bönkunum pening töpuðu nokkur þúsund milljörðum króna en áttu að geta fengið brot af þeirri upphæð til baka þegar þrotabúin yrðu gerð upp.
Haustið 2008 var ómögulegt að átta sig á hvert virði þeirra eigna (aðallega lána til íslenskra fyrirtækja og heimila) sem færðar voru yfir til nýju bankanna var. Um 70 prósent af íslensku atvinnulífi var þá í miklum fjárhagsvanda og þurfti á endurskipulagningu að halda.
Í neyðarlögunum var sérstaklega tekið fram að Fjármálaeftirlitinu væri heimilt „að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefur“. Það var því ljóst frá byrjun að þær eignir sem teknar voru úr þrotabúunum yrðu metnar og síðan yrði greitt fyrir þær.
Í mjög stuttu máli gerðist síðan eftirfarandi: óháðir aðilar voru ráðnir til að meta eignirnar, á grunni þess mats var farið í að semja við kröfuhafanna um að taka við eignarhlutum í nýju bönkunum (enda átti ríkið hvorki pening til að leggja þeim til eigið fé né borga fyrir mismun á virði þeirra eigna sem færðar voru með handafli yfir í nýju bankana) svo þeir gætu farið að endurskipuleggja íslenskt atvinnulíf. Í þeirri endurskipulagningu fengu íslensk fyrirtæki og heimili mörg hundruð milljarða króna afskriftir af skuldum sem þau gátu ekki borgað. Til viðbótar var sett upp kerfi sem virkaði þannig að kröfuhafarnir höfðu aldrei bein áhrif yfir þeim tveimur bönkum sem þeir eignuðust, Íslandsbanka og Arion banka. Ríkið átti hins vegar áfram Landsbankann og lítinn hlut í hinum tveimur.
Síðar var svokallað sólarlagsákvæði afnumið, en í því fólst að hleypa átti kröfuhöfum bankanna út með fé sitt innan ákveðins tímaramma, var afnumið í tíð vinstri stjórnarinnar. Það gerði það að verkum að kröfuhafarnir áttu í reynd ekki lengur Íslandsbanka og Arion banka. Þ.e. þeir gátu ekki losað um virði þeirra án þess að semja við stjórnvöld um að gefa hluta eigna sinna eftir.
Það var svo gert á síðasta kjörtímabili og við það eignaðist íslenska ríkið Íslandsbanka að fullu og tryggði sér söluandvirði Arion banka, að minnsta kosti að hluta.
Hvað gerðist svo?
Nú var búið að „þvo“ atvinnulífið, heimilin og efnahagsreikningur bankanna endurspeglar í dag raunveruleika, í stað óskhyggju um endurheimtir. Undirliggjandi rekstur þeirra er reyndar frekar slakur og þeir græða mest á þóknanatekjum sem verða til í hinu dæmigerða sjálfbæra íslenska bankakerfi. En efnahagsreikningur þeirra er nokkuð endanlegur og lítið um lán í vanskilum á þeim.
Það hefur lengi verið stefna ríkisins að selja bankanna. Á fjárlögum er heimild til að selja stóran hlut í Landsbankanum og allan hlut ríkisins bæði í Íslandsbanka og 13 prósent hlutinn sem ríkið á enn í Arion banka. Það var til að mynda gert ráð fyrir því í fjárlögum ársins 2016 að sala á allt að 30 prósent hlut í Landsbankanum myndi skila ríkissjóði allt að 71 milljarði króna.
Ekkert hefur hins vegar orðið af sölu ríkisbankanna tveggja. Norskir bankar hafa um nokkurra ára skeið þefað af Íslandsbanka en komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki eftir miklu að sækjast inn á íslenskan bankamarkað. Erlendir bankar hafa enda getað valið sér þá bita sem þeir vilja hér, t.d. Össur og Marel og sjávarútvegsfyrirtækin, og einfaldlega boðið þeim skaplegri viðskiptakjör en þeir íslensku geta. Þannig eru flestir stóru bitarnir í íslensku atvinnulífi sem eru með tekjur í erlendum myntum, þegar búnir að færa viðskipti sín út úr íslensku bankakerfi.
Hvernig er staðan núna?
Íslensk stjórnvöld eru í aðstöðu til að móta það bankakerfi sem mun rísa hérlendis algjörlega eftir sínu höfði. Þorri þess er í eigu hins opinbera og sá hluti sem er það ekki er fyrst og fremst með starfsemi hér innanlands og er bundinn öllum þeim reglum sem ríkið ákveður að setja þeim.
Það hefur hins vegar ekki átt sé stað almennileg pólitísk umræða um hvernig bankakerfi íslenskur almenningur og fyrirtæki þurfa og vilja. Samt sem áður er nú hafið ferli sem mun móta íslenska fjármálakerfið um ókomna tíð. Það ferli snýst um breytt eignarhald á bönkum og tilheyrandi kerfisbreytingar sem fylgja munu í kjölfarið. Færa á eignarhaldið á bönkum og mótunarval yfir þeim til einkaaðila.
Þrír vogunarsjóðir og Goldman Sachs keyptu í mars 29,18 prósent hlut í Arion banka, og ætla sér að verða meirihlutaeigendur með því að nýta þegar umsaminn kauprétt síðar á þessu ári. Ekkert liggur fyrir um hverjir eru endanlegir eigendur þeirra og einn sjóðanna er nýbúinn að greiða tug milljarða króna sekt fyrir mútuboð. Þessir aðilar hafa sagt að þeir „séu að taka stöðu með Íslandi“ með fjárfestingu sinni og undir orðræðu þeirra hefur verið tekið í íslenskum stjórnmálum.
Ráðamenn hafa fagnað aðkomu þeirra og bankamenn kitlar í fingurna að fara að leika sér aftur á alvörusviði. Þeir sem setja réttmætan fyrirvara um að þetta sé besta leiðin fyrir Ísland eru jaðarsettir sem annað hvort vitleysingar sem sjái ekki veisluna, skilji hana ekki eða sem kommúnistar sem hati einkaframtakið.
Það er rétt að minna á hvað gerðist síðast þegar við leyfðum bankakerfið að skilgreina hlutverk sitt sjálft. Þá komst þjóð sem er ríkari en flestar af auðlindum, er vel menntuð og hafði byggt upp þolanlegt velferðarkerfi mjög nálægt því að fara í greiðsluþrot. Út af bankamönnum og andvaraleysi stjórnvalda gagnvart þeim.
Það þarf á ákveða fyrir hvern bankakerfið er
Bankar á Íslandi eru svo kerfislega mikilvægir að það er í raun ótrúlegt að láta sér detta það í hug að endurskipulagning kerfisins eigi að fara fram á forsendum vogunarsjóða og alþjóðlegra fjárfestingabanka – sem hafa það eitt markmið að hámarka arðsemi sína – en ekki samfélagsins sem umræddir bankar eiga að þjóna.
Hér að neðan er hægt að sjá síðasta þátt Kjarnans á Hringbraut í heilu lagi, en það er framtíð bankakerfisins til umfjöllunar.
Nútímabankakerfi er að stórum hluta til fyrst og síðast svo að eigendur fjármagns geti ávaxtað það fjármagn sem mest. Hin hefðbundna viðskiptabankastarfsemi, og sá hluti bankastarfsemi sem þjónustar atvinnulífið með eðlilegum lántökum til uppbyggingu reksturs, er ekki í forgrunni. Það er enda bara hægt að skuldsetja almenning upp að vissu marki. Lána honum fyrir húsi, bíl og veita hæfilegan yfirdrátt.
Vaxtatækifærin, þóknanatekjurnar og spennan er öll í einkabankaþjónustu fyrir ríkt fólk og í skuldsettum fjármálagjörningum. Það er stutt með hagtölum. Í lok árs 2015 áttu þau tíu prósent landsmanna sem voru ríkust 64 prósent allra hreinna eigna. Hlutfallið er reyndar hærra, þar sem í þessum tölum er gert ráð fyrir að verðbréf séu metin á nafnvirði, ekki markaðsvirði. Sami hópur á nær öll verðbréf, þ.e. skuldabréf og hlutabréf í eigu einstaklinga, á Íslandi. Á árinu 2015 fór 43 prósent af allri nýrri hreinni eign sem varð til hérlendis, til þessa hóps. Eign hans er því sífellt að aukast og það dregur í sundur með þeim ríkustu og þeim sem minna eiga. Ástæðan er meðal annars sú að þeir ríkustu hafa allt öðruvísi aðgengi að fjármálaþjónustu en t.d. venjulegt launafólk.
Til hvers eru bankar?
Það er eðlilegt að stjórnmálamenn nýti þá stöðu sem upp er komin, og felur í sér að stjórnvöld eru með nánast allt bankakerfið í fanginu, til að spyrja sig til hvers bankar séu og fyrir hvern þeir eru.
Það er um tvennt að velja. Það er hægt að halda áfram á þeirri leið sem verið er að feta og leyfa fjármálamarkaðnum að móta kerfið.
Hin leiðin er sú að það sé hægt að líta svo á að það sé ekki óumflýjanlegt að fjármálakerfið sé eins og það er. Að það sé hægt, með umræðu, undirbúningi og skýrri stefnumótum að byggju upp kerfi sem þjónustar samfélagið. Það kerfi þarf ekkert endilega að vera að öllu leyti í eigu hins opinbera. Það þarf hins vegar að vera með skýran tilgang og skilgreindan ramma. Að fjármálakerfið þjónusti almenning og fyrirtæki, ekki að almenningur og fyrirtæki þjónusti það.