Hinn klofni fjórflokkur
Það blasir við öllum sem sjá að Framsóknarflokkurinn er klofin í herðar niður. En hann er ekki eini fjórflokkurinn sem glímir við slíkan klofning. Þvert á móti má segja að allir fjórir flokkarnir hafi klofnað með einum eða öðrum hætti á síðustu fimm árum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur stofnað nýjan pólitískan vettvang utan um sjálfan sig. Þótt Framfarafélagið, sem hann stofnaði nýverið, sé ekki hefðbundinn stjórnmálaflokkur er ljóst að vettvangurinn er búinn til svo að Sigmundur Davíð geti verið formaður, og að hans umdeildu pólitísku áherslur fái að vera ráðandi afl.
Framsóknarflokkurinn hafnaði pólitík Sigmundar Davíðs á flokksþingi í október, þegar hann tapaði fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í formannskosningum. Staða flokksins var þá, og er reyndar enn, ekki beysin. Flokkurinn beið afhroð í síðustu þingkosningum og hlaut sína verstu útreið í 100 ára sögu sinni. Enginn flokkur vildi fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Framsókn þrátt fyrir stjórnarkreppu og fylgi flokksins mælist enn mjög lágt í könnunum, þrátt fyrir miklar óvinsældir sitjandi ríkisstjórnar.
Sigmundur Davíð gengur út frá því að staðan sé sitjandi formanni, Sigurði Inga, að kenna. Hann vill meina að hópur sem hann kallar flokkseigendafélag Framsóknarflokksins hafi tekið sig saman og ýtt sér til hliðar í flokknum með bellibrögðum. Þar hefur Sigmundur Davíð meðal annars nefnt tvo fyrrverandi formenn flokksins, þau Valgerði Sverrisdóttur og Jón Sigurðsson. Þau kannast hvorugt við samsærið sem Sigmundur Davíð virðist sannfærður um. Til viðbótar má nefna annan formann, Guðna Ágústsson, sem kom fram opinberlega skömmu fyrir flokksþingið í fyrra og kallaði eftir því að Sigmundur Davíð myndi víkja úr forystu Framsóknarflokksins.
Aðrir Framsóknarmenn horfa á stöðuna öðrum augum. Þeir telja að aðstæður flokksins séu fyrst og síðast Sigmundi Davíð að kenna. Hann beri ábyrgð á Wintris-málinu, því að hann hafi þurft að víkja úr ríkisstjórn og þar af leiðandi afhroði flokksins í kosningunum í október 2016. Sigurður Ingi er þar á meðal. Mörgum stuðningsmönnum hans finnst formaðurinn hafa sýnt Sigmundi Davíð mikið langlundargeð undanfarna mánuði. Sigmundur Davíð sé sífellt að henda fram hálfkveðnum vísum um að hann hafi verið beittur miklum órétti af óheiðarlegu fólki innan flokks þegar hann var settur af sem formaður.
Sigurður Ingi brást loks við á miðstjórnarfundi fyrr í maímánuði. Í ræðu sinni þar sagði hann: „En það virðist ekki öllum gefið að geta sætt sig við það sem flokksmenn ákveða með lýðræðislegum aðferðum. Í Morgunblaðinu í gær mátti lesa hvaða augum sumir líta flokkinn okkar og ákvarðanir okkar flokksmanna. Þar segir einhver að rán hafi átt sér stað í haust og þeir, sem á að hafa verið rænt frá, fyrirgefi ekki slíkan gjörning, ekki núna, ekki seinna! Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hefur verið viðhaft af minna tilefni. Það sem ég spyr mig að er; er þetta samvinnumaður sem talar svona, þetta er ekki sérlega framsóknarleg nálgun? Og hvaða fyrirgefningu er verið að tala um, við hvern á að segja „sorrí“? Hin almenna framsóknarmann, meirihluta fulltrúa á flokksþingi? Á flokksþingi í haust var tekist á. Svo virðist sem sumir líti á niðurstöðu þess þings sem einhvers konar svik við hluta flokksins. Það er að segja, að meirihlutinn hafi svikið minnihlutann. Og nú sé bara spurningin hvenær þau svik verði leiðrétt.“
Enginn vafi var um hverjum pillan var ætluð. Sigmundur Davíð var í kjölfarið spurður hvernig honum hafi þótt ræða formannsins. Hann svaraði: „Ekkert sérstök“.
Sigmundur Davíð finnur sig ekki í aftursætinu
Það er því djúpstæður klofningur í Framsóknarflokknum. Áhrifafólk innan hans er flest á bandi Sigurðar Inga en á framhaldsstofnfundi Framfarafélags Sigmundar Davíðs í lok maí mátti sjá stór númer í flokksstarfinu á undanförnum árum á meðal fundarmanna. Þar ber helst að nefna Gunnar Braga Sveinsson, sem enn situr á þingi, og fyrrverandi þingmennina Vigdísi Hauksdóttur og Þorstein Sæmundsson. Auk þess voru á fundinum þrír fyrrverandi aðstoðarmenn ráðherra í síðustu ríkisstjórn, þau Jóhannes Þór Skúlason, Sunna Gunnars Marteinsdóttir og Matthías Imsland.
Mitt á milli er síðan Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins. Henni hefur tekist að taka ekki afstöðu með fylkingunum fram til þessa. Lilja vinnur bæði náið með Sigurði Inga en var mjög náin samstarfsmaður Sigmundar Davíðs á síðasta kjörtímabili. Hún var til að mynda ráðinn tímabundið sem verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu á meðan að Sigmundur Davíð sat þar. Í því starfi lék Lilja lykilhlutverk í uppgjörinu við kröfuhafa föllnu bankanna.
Það er verst geymda leyndarmál íslenskra stjórnmála að Lilja er að máta sig við formannsstólinn í Framsóknarflokknum. Hún hefur þegar gefið það út að hún íhugi framboð á næsta flokksþingi, sem verður líklega haldið í janúar 2018. Þeir eru ekki margir sem telja að Lilja sé ekki þegar búin að gera upp hug sinn hvað það varðar.
Erfitt er að sjá að Sigurði Inga takist að friða stuðningsmenn Sigmundar Davíðs innan Framsóknarflokksins. Og ómögulegt verður að teljast að Sigmundur Davíð geti sameinað flokkinn að baki sér að nýju takist honum að verða formaður aftur. Það þurfi því annan til að stíga inn og græða sárin. Þá komi fyrst í ljós hvort fall Framsóknarflokksins sé einungis bundið við persónurnar í forystusveit flokksins eða hvort það hafi líka eitthvað að gera með frammistöðu hans í ríkisstjórn og pólitískar áherslur að gera.
Komist Sigmundur Davíð ekki aftur í áhrifastöðu innan Framsóknarflokksins verður að teljast líklegt að hann muni að minnsta kosti íhuga það gaumgæfilega að breyta hugmyndaverksmiðjunni sinni, Framfarafélaginu, í framboð. Og þar með kljúfa Framsóknarflokkinn formlega.
Klofningur hjá hinum líka
Það ástand sem er innan Framsóknarflokksins er auðvitað eitthvað sem allir stóru stjórnmálaflokkarnir á Íslandi – hinn svokallaði fjórflokkur – þekkir af eigin raun, þótt klofningurinn þar sé ekki endilega jafn persónulegur og jafn víðfeðmur og hjá Framsókn nú um stundir.
Fjórflokkurinn (Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og Vinstri græn) fékk framan af lýðveldistímanum alltaf um og yfir 90 prósent allra atkvæða. Þetta breyttist þó mjög í kosningunum 2013 þegar samanlagt fylgi flokkanna fjögurra datt niður í 74,9 prósent. Í kosningunum 2016 féll það svo niður í 62 prósent. Í þeim kosningum fengu átta flokkar stofnaðir eftir 2012 38 prósent atkvæða.
Sumir þeirra eru einstakir og sannarlega nýtt afl. Ber það kannski fyrst og síðast að nefna Pírata, sem ekki er hægt að segja að hafi klofnað frá neinum hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka. En hluti þeirra á sannarlega rætur sínar að rekja til hefðbundnu flokkanna.
Undirbúningur að stofnun Viðreisnar hófst til að mynda nánast samhliða því þingsályktunartillaga um að umsókn að Evrópusambandinu yrði dregin til baka var lögð fram. Að hinu nýja pólitíska afli stóðu Sjálfstæðismenn sem töldu sig frjálslyndari og alþjóðasinnaðari en ráðandi öfl í flokknum. Þessi hópur taldi sig svikinn. Honum hafði verið lofað að kosið yrði um áframhald viðræðna í aðdraganda kosninga 2013. Þegar á hólminn var komið sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, það hins vegar vera „pólitískan ómöguleika“.
Viðreisn var í kjölfarið formlega stofnuð og bauð fram í haustkosningunum 2016. Flokknum gekk vel, fékk 10,5 prósent fylgi og sjö þingmenn kjörna. Í hópnum sem rataði á þing var til að mynda fyrrverandi varaformaður flokksins, fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (sem alltaf hafa haft náin tengsl við Sjálfstæðisflokkinn), fólk sem hafði verið fyrirferðamikið í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins og auðvitað formaðurinn sjálfur, Engeyingurinn Benedikt Jóhannesson, náfrændi Bjarna Benediktssonar. Við blasir að margir sem áður höfðu nær alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn töldu sig nú vera með annan valkost. Á endanum rötuðu svo móður- og dótturfélagið saman í ríkisstjórn. Og þar hefur verið barið á Viðreisn fyrir að gefa eftir öll helstu stefnumál sín sem aðskildu flokkinn frá Sjálfstæðisflokknum, nú síðast í dómaramálinu svokallaða, þar sem þingmenn Viðreisnar studdu ákvörðun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um að skipa dómara í Landsrétt í andstöðu við tillögu dómnefndar.
Flokkurinn sem gleymdi til hvers hann var og Gunnar Smári
Samfylkingin átti einu sinni að verða turn í íslenskum stjórnmálum, og náði að vera það um nokkurra ára skeið. Í síðustu kosningum var flokkurinn hins vegar nánast dottinn út af þingi. Líklegasta skýringin er sú að kjósendur trúa ekki að flokkurinn standi fyrir jöfnuð og velferð, líkt og sósíaldemókratískir flokkar gefa sig út fyrir að gera. Þvert á móti virtust margir afskrifa Samfylkinguna sem flokk sem gerði sér allt of dælt við auðvaldið og hengdi allar sínar vonir á að aðild að Evrópusambandinu myndi leysa öll vandamál á Íslandi. Jafnaðarmannaflokkurinn hafði einfaldlega gleymt að standa með verkalýðnum sem bjó hann til.
Hnignun Samfylkingarinnar hefur haft margvísleg áhrif. Ein þau skýrustu er tilurð Bjartrar framtíðar. Sá flokkur er reyndar frjálslyndari og líklega markaðssinnaðri en uppistaðan í Samfylkingin, að minnsta kosti í orði. En hann fiskar sannarlega í sömu tjörn og gamli jafnaðarmannarisinn og margir fyrrverandi Samfylkingarmenn hafa verið áberandi í flokksstarfi Bjartrar framtíðar, t.d. Guðmund Steingrímsson (fyrrverandi aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar borgarstjóra) og Róbert Marshall, sem sat á þingi fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn hefur, ásamt fyrirrennara sínum Besta flokknum, átt þátt í gera nánast út af við Samfylkinguna. Eða að minnsta kosti ýta henni í þá naflaskoðun sem nú virðist eiga sér stað, og hefur skilað sér í nýjum formanni og smávægilega auknu fylgi. Staðan er þó þannig að Samfylkingin hefur einungis þrjá þingmenn og er minnsti flokkurinn á Alþingi. Staða sem hefði þótt óhugsandi fyrir örfáum árum síðan.
En það er gjörningaveður að myndast vinstra megin við Samfylkinguna líka. Vinstri græn hafa getað átt það svæði án mikilla vandkvæða hingað til og tilraunir til stofnunar nýrra vinstri flokka hafa flestar ekki gengið mjög vel. Flokkar á borð við Alþýðufylkinguna (0,3 prósent atkvæða 2016) og Dögun (1,7 prósent atkvæða 2016) hafa ekki ruggað bátnum mikið. Það er helst að Flokkur fólksins (3,5 prósent atkvæða í kosningunum 2016) hafi aðeins náð að hrista búrið í villtasta vinstrinu. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að oft örli meira á Framsóknarstefnu og íhaldssemi en hreinni vinstrimennsku í verkum Vinstri grænna. Þá ber að minnast á að á kjörtímabilinu 2009-2013 yfirgáfu nokkrir þingmenn Vinstri græna og einn þeirra, Lilja Mósesdóttir, stofnaði stjórnmálaaflið Samstöðu sem mældist um tíma með yfir 20 prósent fylgi. Fljótt fjaraði hins vegar undan því framboði.
Nú er hins vegar mögulega kominn aðili sem gæti hrært upp í vinstrinu, Sósíalistaflokkur Íslands. Hann var stofnaður 1. maí síðastliðinn. Í grófum dráttum ætlar flokkurinn sér að koma sér fyrir í því tómarúmi sem hann telur Vinstri græn og Samfylkinguna ekki vera sinna, og verða flokkur launafólksins í landinu. Í stefnuskrá Sósíalistaflokksins eru sett fram fimm skýr baráttumál: mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði, aðgengi að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu, stytting vinnuvikunnar og enduruppbygging skattheimtunnar með það fyrir augum að „auðstéttin greiði eðlilegan skerf til samneyslunnar en álögum sé létt af öðrum“.
Á stofnfund Sósíalistaflokksins mættu nokkur hundruð manns en það velkist enginn í vafa um að flokkurinn hverfist fyrst og síðast um hvatamanninn að stofnun hans, Gunnar Smára Egilsson. Hann hafði áður verið ritstjóri og einn aðaleigandi Fréttatímans, sem sigldi í rekstrarlegt strand snemma á þessu ári án þess að til væri fé til að gera upp laun við alla starfsmenn.
Sósíalistaflokkurinn hefur ekki verið mældur í neinum opinberum mælingum og athyglin á flokknum hefur dregist saman samhliða því að nýjabrumið hefur skolast af. En það verður athyglisvert að sjá hvort hann muni ná að kroppa umtalsvert fylgi af Vinstri grænum. Þar er nefnilega eftir miklu að slægjast. VG hefur mælst með allt að fjórðungs fylgi í könnunum á undanförnum mánuðum, og er því að mælast mjög svipaður að stærð og Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur nær alltaf verið stærsti flokkur landsins.