Mynd: Birgir Þór Mótmæli-Austurvöllur

Misskipting auðs heldur áfram að aukast á Íslandi

Ríkustu 20 þúsund fjölskyldur þjóðarinnar tóku til sín um helming þess eigin fjár sem varð til á Íslandi í fyrra. Hin 90 prósent þjóðarinnar skiptu með sér hinum helmingnum. Tvær þjóðir búa saman í einu landi, lítill hópur sem á flestar eignirnar og restin sem vinnur hjá honum.

Þær rúmlega 20 þúsund fjölskyldur sem tilheyra þeim tíu prósentum þjóðarinnar sem eiga mest eigið fé – eignir þegar skuldir hafa verið dregnar frá – áttu 2.062 milljarða króna í hreinni eign um síðustu áramót. Alls á þessi hópur 62 prósent af öllu eigin fé í landinu. Eigið fé hans jókst um 185 milljarða króna á síðasta ári. Eigið fé hinna 90 prósent landsmanna jókst á sama tíma um 209 milljarða króna. Það þýðir að tæplega helmingur þeirrar hreinu eignar sem varð til á síðasta ári fór til tíu prósent efnamestu framteljendanna.

Þegar eigið fé 20 prósent efnamestu fjölskyldna þjóðarinnar er skoðað kemur í ljós að sá hópur á 85 prósent af öllu eigið fé í landinu. Sá helmingur þjóðarinnar sem á minnst er samanlagt með neikvætt eigið fé upp á 175,3 milljarða króna. Þetta kemur fram í tölum um eiginfjárstöðu Íslendinga í lok árs 2016 sem birtar voru í síðustu viku.

Þessi fréttaskýring birtist fyrst í Mannlífi 12. október 2017.

Um 40 prósent allra nýrra króna hafa farið til þeirra ríkustu

Frá árinu 2010 hefur eigið fé Íslendinga rúmlega tvöfaldast. Í lok þess árs var það 1.565 milljarðar króna en var 3.343 milljarðar króna um síðustu áramót. Ef horft er einungis í krónutölur þá má sjá að eignir efstu tíundar þjóðarinnar hafa aukist úr 1.350 milljörðum króna í 2.062 milljarða króna, eða um 712 milljarða króna. Því hefur 40 prósent af öllum krónum sem orðið hafa til í nýju eigin fé frá lokum árs 2010 og fram til loka síðasta árs orðið að eign þeirra tíu prósent fjölskyldna sem eiga mest á hverjum tíma fyrir sig.

Ef aukning á hreinni eign 20 prósent ríkustu fjölskyldna landsins er talin saman kemur í ljós að hún jókst um 1.049 milljarða króna frá lokum árs 2010 til síðustu áramóta. Því hafa 60 prósent eiginfjár sem orðið hefur til á tímabilinu farið til þessa hóps, um 40 þúsund fjölskyldna.

Eignirnar vanmetnar

Virði eigna þessa hóps er reyndar vanmetinn. Þessi hópur á nefnilega nær öll verðbréf landsins, eða 86 prósent slíkra. Í tölum Hagstofunnar er þær fjármálalegu eignir sem teljast til hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum á nafnvirði, eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur. Og í tölunum eru þau metin á nafnverði, ekki markaðsvirði, sem er mun hærra. Alls á tíu prósent ríkasti hluti landsmanna verðbréf, m.a. hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum eða skuldabréf, sem metin eru á 383,4 milljarða króna á nafnvirði. Hin 90 prósent þjóðarinnar eiga verðbréf sem metin eru á 62,2 milljarða króna að nafnvirði. Þessi skipting hefur haldist að mestu eins á undanförnum árum. Í lok árs 2010 átti efsta tíund landsmanna líka 86 prósent allra verðbréfa.

Virði verðbréfa í eigu Íslendinga hækkað um 23 milljarða króna að nafnvirði á síðasta ári. Þar af hækkuðu bréf ríkustu tíu prósent þjóðarinnar um 21,8 milljarða króna. Því fór um 95 prósent af allri virðisaukningu verðbréfa til ríkustu tíundar Íslendinga á árinu 2016.

Verðbréf gera tvennt, þau hækka eða lækka í verði og þau búa til fjármagnstekjur sem eigendur þeirra fá greiddar út. Í tölum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2017 kom fram að tekjur einstaklinga af arði hafi verið 43,3 milljarðar króna í fyrra. Fjöldi þeirra sem töldu fram arð vegna ársins 2016 var 14.545 og fjölgaði um 685 milli ára, eða um tæplega fimm prósent.

Söluhagnaður jókst um 39,1 prósent milli ára þrátt fyrir að fjölskyldum sem töldu fram söluhagnað hafi einungis fjölgað um 5,4 prósent. Það bendir til þess að fámennur hópur sé að taka til sín þorra þess arðs sem verður til í íslensku samfélagi.

Söluhagnaður var alls 32,3 milljarðar króna í fyrra og þar af nam sala hlutabréfa 28,7 milljörðum króna og hækkaði um 38,3 prósent á milli ára. Á sama tíma fjölgaði fjölskyldum sem telja fram söluhagnað vegna hlutabréfa um einungis 3,7 prósent í 3.682 alls. Fjölskyldur á Íslandi voru um 197 þúsund í fyrra. Það þýðir að tæplega tvö prósent fjölskyldna landsins greiði fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar á hlutabréfum.

Misskipting aukist

Misskipting hefur aukist umtalsvert á Íslandi á undanförnum árum. Árið 1997 átti efsta tíund þjóðarinnar 56,3 prósent af öllu eigin fé. Tíu árum síðar hafði eigið fé Íslendinga fjórfaldast, enda banka- og eignabóla þá þanin til hins ítrasta, og ríkustu tæplega 20 þúsund Íslendingarnir áttu 2,5 sinnum meira eigið fé en öll þjóðin hafði átt samanlagt tíu árum áður. Þá nam hlutdeild þessarar ríkustu tíundar í heildar eigin fé Íslendinga 62,8 prósentum.

Eftir bankahrunið tapaði stór hluti landsmanna miklu af eignum sínum. Það átti sérstaklega við um þá sem áttu ekki mikið annað en t.d. eigið fé í húsnæði. Þótt ríkir Íslendingar hafi einnig tapað miklu áttu þeir enn mikið eigið fé í lok árs 2009. Alls lá 77,3 prósent alls eigin fjár hjá ríkustu tíund landsmanna á þeim tíma. Ríkasti fimmtungur landsmanna átti á þeim tíma 103 prósent af öllu eigin fé landsmanna. Það þýðir að restin, 80 prósent landsmanna, var samanlagt með neikvætt eigið fé.


Inn í tölurnar um eigið fé Íslendinga vantar allt það fé sem falið er á aflandseyjum. Talið er að þar séu tugir milljarðar króna í vanframtöldum sköttum.
Mynd: Pexels.com

Síðan hefur hlutfallsleg eign þeirra á eigin fé landsmanna dregist saman, sérstaklega samhliða mikilli aukningu á eign allra hópa í fasteignum sínum.

Síðan hefur hlutfallsleg eign þeirra á eigin fé landsmanna dregist saman, sérstaklega samhliða mikilli aukningu á eign allra hópa í fasteignum sínum. Alls hefur eigið fé í fasteignum Íslendinga aukist úr 1.146 milljörðum króna í 2.573 milljarða króna frá lokum árs 2010 og fram að síðustu áramótum.

Nokkur hundruð milljarðar króna eru tilkomnir vegna skuldaniðurfærslna sem áttu sér stað í gegnum 110 prósent leið, sértæka skuldaaðlögun og svo 72,2 milljarða króna leiðréttingu sitjandi ríkisstjórnar. En meginþorri hinnar bættu stöðu er vegna þess að fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega hratt á örfáum árum, og langt umfram verðbólgu.

Og með þessum hætti, í gegnum hækkun á eigin fé í húsnæði vegna hækkandi húsnæðisverðs, sem hefur alls hækkað um 93 prósent á höfuðborgarsvæðinu frá því í desember 2010.

Vantar földu eignirnar í skattaskjólunum

Inn í ofangreindar tölur vantar allar þær eignir sem Íslendingar eiga erlendis, en hafa ekki verið taldar fram hérlendis. Í Pana­ma-skjöl­unum var upp­lýst að tæp­lega 600 Íslend­ingar ættu um 800 félög sem Mossack Fonseca, lögfræðistofa sem sér­hæfir sig í „skatta­hag­ræði“ og í að fela eign­ir, sá um fyrir þá. Kjarninn, í samstarfi við Reykjavík Media og fleiri fjölmiðla, fjallaði ítarlega um þær upplýsingar sem birtust í skjölunum á síðasta ári.

Ljóst er að aflands­fé­laga­eign Íslend­inga er mun víð­tæk­ari en kom fram í þeirri umfjöllun vegna þess að Mossack Fonseca var ekki eina stofan sem þjónustaði Íslend­inga. Vísbendingar um umfang þeirrar eignar komu fram í skýrslu um aflandseignir Íslendinga og skattaundanskot vegna þeirra, sem var birt snemma í janúar eftir ítrekaðar fyrirspurnir Kjarnans um birtingu á skýrslunni. Hún hafði þá verið tilbúin í rúma þrjá mánuði, eða frá því fyrir kosningarnar 29. október 2016.

Í skýrslunni kom fram að aflandsfélagavæðingin hafi haft tugi milljarða króna af íslenskum almenningi í vangoldnum skattgreiðslum og búið til gríðarlegan aðstöðumun þeirra sem hafa, bæði löglega og ólöglega, getað falið fé í erlendum skattaskjólum þegar illa árar í íslensku efnahagslífi en stýrt fé aftur heim til að kaupa eignir á brunaútsölu í niðursveiflum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar