Hvað gerðist?
Fyrst skulum við spóla aðeins til baka. Íslensk knattspyrna hefur tekið ótrúlegum framförum á undanförnum árum. Það þekkja ansi margir söguna um litlu eyþjóðina, með aðeins fleiri íbúa en Bergen, sem áttaði sig á því rétt fyrir aldamótin síðustu að hún myndi líklega ekki ná neinum árangri í knattspyrnu með því að spila á malarvöllum í aftakaveðri og myrkri átta mánuði á ári. Þess vegna var ráðist skipulega í að byggja tíu knattspyrnuhallir og á þriðja tug gervigrasvalla. Samhliða bættri aðstöðu þá hefur menntun þjálfara verið aukin þannig að meira segja þeir sem þjálfa yngstu iðkenda eru margir með UEFA A- eða B-gráðu. Uppskeran lét þó á sér standa. Íslenska landsliðið hélt áfram að geta ekkert árum saman. Eitthvað var samt sem áður að gerjast í moldinni sem sáð hafði verið í. Sá árangur birtist fyrst í undankeppni úrslitakeppni EM U-21 árs liða, sem fram fór í Danmörku sumarið 2011.
Íslenska liðið vann leik eftir leik og tryggði sig á lokamótið. Burðarásarnirnar í liðinu voru strákar sem notið höfðu góðs af bættu aðstöðunni, bættu þjálfuninni og hinum aukna metnaði sem settur hafði verið settur í íslenska knattspyrnu. Á meðal þeirra sem léku lykilhlutverk í þessu liði voru Gylfi Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason, Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbeinn Sigþórsson. Nær allir aðrir leikmenn þessa U-21 árs liðs hafa síðar leikið A-landsliðsleiki. Þótt liðinu hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel á mótinu í Danmörku þá var flestum ljóst að þetta voru sérstakir drengir. Gullna kynslóð íslenskrar karlaknattspyrnu var að fæðast.
Þetta sama sumar var Lars Lagerbäck ráðinn landsliðsþjálfari Íslands. Hann var fyrsti útlendingurinn til að þjálfa liðið frá því að landi hans Bo Johansson lét af störfum 20 árum áður. Íslenska knattspyrnusambandið hafði gefið það út að stórt nafn yrði ráðið og á meðal þeirra sem rætt var við var Roy Keane. Í dag eru Íslendingar ákaflega fegnir að þær áætlanir hafi verið lagðar á hilluna. Lars og gullna kynslóðin breyttu nefnilega öllu.
Í fyrstu undankeppni sinni byggði Lars Lagerbäck liðið sitt í kringum þessa ungu leikmenn. Hann blandaði þeim saman við veðraða og granítharða járnmenn eins og Kára Árnason og Ragnar Sigurðsson og skóp vel smurða 4-4-2 vél sem hefur ekki slegið feiltakt síðan. Leikmennirnir báru áður óþekkta virðingu fyrir Svíanum og hann innleiddi bæði fagmennsku og aga sem hafði ekki verið til staðar. Í undankeppni síðasta heimsmeistaramóts komst liðið alla leið í umspil gegn Króatíu þar sem grátlegt tap á útivelli stóð á milli þess og Brasilíu. Margir héldu að þar með hefði eina tækifæri Íslands til að komast á lokamót runnið liðinu úr greipum. Þeir höfðu rangt fyrir sér.
Í næstu undankeppni komst Ísland beint upp úr riðlinum, án umspils. Ísland vann sjálft Holland tvisvar á leið sinni til að tryggja sér réttinn til að spila í Frakklandi í sumar. Þrátt fyrir það átti enginn von á því að liðið gerði neinar rósir á mótinu. Flestir sérfræðingar voru sammála um að Ísland, ásamt mögulega Ungverjum, væri það lið sem hefði minnst gæði.
Gæði eru hins vegar alls konar. Það eru til að mynda gæði að geta fylgt skipulagi út í þaula. Það eru gæði að búa yfir nægum klókindum og skynsemi til að stýra þróun leikja án þess að vera með boltann nema tæplega 30 prósent leiksins. Það eru gæði að geta bætt upp fyrir skort á hraða og tækni með því að nýta hvern einasta eiginleika sem hver leikmaður hefur til hins ítrasta. Það eru gæði að geta myndað sterk persónuleg sambönd við liðsfélaga sína sem gera það að verkum að leikmenn eru tilbúnir að ganga í gegnum veggi fyrir hvern annan. Það eru gæði að vera ekki bara menn sem spila saman í liði, heldur nánir vinir. Íslenska liðið leikur kannski öðruvísi knattspyrnu en þykir hefðbundið í dag. En það spilar ekkert annað lið í heiminum hina fullkomnu ljótu knattspyrnu jafn vel og það gerir. Sú knattspyrna skilaði Íslandi í átta liða úrslitin á EM og skóp eina eftirminnilegustu knattspyrnusögu samtímans.
25 mánuðum og tveimur dögum eftir að taugaveiklað jafntefli tryggði Íslendingum þann sögulega árangur að verða fámennasta þjóð nokkru sinni til að ná að komast á lokamót karlalandsliða var liðið mætt aftur með sambærilegt verkefni fyrir framan sig. Lagerbäck var horfinn á braut og Heimir Hallgrímsson, sem hafði stýrt liðinu með honum síðustu árin var tekinn einn við. Það breytti engu nema síður væri.
Í þetta sinn hafði liðið ýtt Króatíu, Úkraínu, Tyrklandi og Finnlandi úr vegi. Eina sem stóð í vegi fyrir því að Ísland ynni sinn riðil í undankeppni heimsmeistaramótsins og kæmist í fyrsta sinn á lokamót þess var leikur við Kósóvó kaldan októberdag í Laugardalnum.
Jafnvel tap var nóg til að komast á lokamótið í Rússlandi næsta sumar. En íslenska liðið pældi ekkert í því og vann öruggan 2-0 sigur. Og framdi um leið eitt mesta, ef ekki mesta, afrek sem íslenskt íþróttalið hefur framkvæmt.
Hvaða áhrif hafði það?
Það hefur allskyns áhrif. Í fyrsta lagi liggur fyrir að þúsundir Íslendinga eru á leiðinni til Rússlands að horfa á fótbolta. Og geðheilsu þjóðarinnar verður örugglega bjargað enn einu sinni ef liðið stendur sig eins og það hefur gert hingað til.
Í öðru lagi munu fjárhagslegu áhrifin verða feikileg. Árið 2016, þegar Ísland tók þátt í lokamót EM, fór velta KSÍ úr rúmum milljarði króna í þrjá milljarða, og nam rekstrarhagnðurinn 861 milljón. Bónusgreiðslur til leikmanna og þjálfara námu 846 milljónum og greiðslur til aðildarfélaga fjórfölduðust.
Nú opnast dyrnar að jafnvel enn meiri peningum, en verðlaunaféð á HM hefur verið hækkað um meira en fjórðung frá síðustu keppni í Brasilíu.
Fyrir það eitt að ná markmiðinu og komast áfram fær landsliðið samtals tólf milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 1,3 milljörðum króna. Þar af skiptast tvær milljónir Bandaríkjadala, eða um 210 milljónir króna, í undirbúningsupphæð vegna lokakeppninnar, og svo fara tíu milljónir Bandaríkjadala, eða um 1.050 milljónir króna, til allra liða fyrir það eitt að vera með í riðlakeppninni.
Tölurnar verða síðan enn hærri, eftir því sem lengra er komið í keppninni. Fyrir komast í 16 liða úrslit eru tólf milljónir Bandaríkjadala, um 1,3 milljarðar króna, til viðbótar í boði og 18 milljónir Bandaríkjadala, um tveir milljarðar króna, fyrir komast í 8 liða úrslit, eins og Ísland gerði í fyrra á EM.
Í þriðja lagi er feikilega góð og mikilvæg landkynning fólgin í árangri „Strákanna okkar“. Heimsbyggðin horfir til landsins, agndofa. Viðbrögð heimspressunnar við sigrinum á Kósóvó í október sýndu það svart á hvítu. Erlendir fjölmiðlar lýstu afrekinu sem „einstöku“ og „sögulegu“ og í umsögn breska ríkisútvarpsins BBC sagði að Ísland sé eina þjóðin í sögunni sem kemst á HM, sem er með færri íbúa en eina milljón.
Trínidad og Tóbagó átti metið, en þar búa 1,3 milljónir manna. Ólíklegt verður að teljast að nokkur land geti nokkurn tímann slegið metið sem Ísland heldur nú, bæði fyrir EM og HM.
Albert Bunjaki, þjálfari Kósóvó, sagði í viðtali við BBC að árangur Íslands væri mikil hvatning fyrir litlar þjóðir.
Ísland verður í D-riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu á lokamótinu næsta sumar. Fyrsti leikur Íslands verður við Argentínu laugardaginn 16. júní í Moskvu. Þar mun Kári Árnason nær örugglega mæta besta knattspyrnumanni heims, Lionel Messi. Liðið mætir svo Nígeríu í Volgograd föstudaginn 22. júní og þriðjudaginn 26. júní mætir Ísland Króötum í Rostov-on-Don.