Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þetta gerðist árið 2017: Áframhaldandi neyðarástand á húsnæðismarkaði

Þrátt fyrir fordæmalaust efnahagslegt góðæri glímir stór hópur Íslendinga við þá stöðu að geta ekki komið viðunandi þaki yfir höfuð sér. Fólk býr á tjaldsvæðum, hjá vinum eða ættingjum eða er nauðugt þátttakendur á leigumarkaði. Á sama tíma setjum við Evrópumet í húsnæðisverðshækkunum og þeir sem eru á eignarmarkaði efnast.

Hvað gerð­ist?

Hús­næð­is­verð á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­inu hefur hækkað um 94 pró­­sent frá því í des­em­ber árið 2010. Á einu ári hefur það hækkað um tæp­lega 18 pró­sent. Raun­verð fast­­eigna á svæð­inu hefur aldrei í sög­unni verið hærra en það er nú. Þetta hefur meðal ann­­ars leitt til þess að fjöldi íbúa á hverja íbúð hér á landi hefur hækkað und­an­farin ár á meðan hann hefur almennt farið lækk­­­andi á hinum Norð­­­ur­lönd­un­­­um. Í dag eru um 2,5 íbúar í hverri íbúð á Íslandi en ann­­­ars staðar á Norð­­­ur­löndum eru um tveir íbúar í hverri íbúð.

Leig­u­verð hefur líka hækkað mik­ið. Alls hefur það hækkað um 78 pró­­sent frá því i byrjun árs 2011 og um tíu pró­sent á einu ári. Á sama tíma er sífellt stærra hlut­­fall Íslend­inga á leig­u­­mark­aði, eða 17 pró­­sent. Meiri­hluti leigj­enda, alls 57 pró­­sent, er á leig­u­­mark­aðnum af nauð­­syn og 80 pró­­sent leigj­enda vilja kaupa sér íbúð, en geta það ekki. Ein­ungis 14 pró­­sent leigj­enda vilja vera á leig­u­­mark­aði. Þriðji hver leigj­andi borgar meira en helm­ing af ráð­­­stöf­un­­­ar­­­tekjum sínum í leigu og fáir tekju­lágir leigj­endur geta safnað sér spari­­­­­fé. Þetta kom fram í nýlegri könnun Íbúða­lána­­sjóðs.

Helsta ástæða þess að íbúða­verð hefur hækkað mikið á skömmum tíma, og erf­ið­­ara hefur verið fyrir ungt eða tekju­lágt fólk að kaupa eða leigja, er að eft­ir­­spurn er lang­­sam­­lega meiri en fram­­boð. Sam­­kvæmt grein­ingu Íbúða­lána­­sjóðs, sem gerð var fyrir aðgerð­­ar­hóp félags- og jafn­­rétt­is­­mála­ráð­herra og birt var í apr­íl, vant­aði nú þegar 4.600 íbúðir og byggja þyrfti níu þús­und íbúðir til loka árs 2018 til að ná jafn­­vægi milli fram­­boðs og eft­ir­­spurn­­ar.

Annar hluti hús­næð­is­vand­ans felst í auk­inni skamm­­­tíma­­­leigu íbúða til ferða­­­manna. Árið 2010 voru ferða­­menn sem heim­­sóttu Ísland um 500 þús­und. Á þessu ári er búist við 2,3 millj­­ónum slíkra. Um 1,2 pró­­­sent íbúða á höf­uð­­­borg­­­ar­­­svæð­inu hafa verið í leigu á Air­bnb í 180 daga eða fleiri á síð­­­­­ustu 12 mán­uð­­­um. Staðan er öðru­­­vísi á mörgum öðrum land­­­svæðum þar sem minna er um að íbúðir séu í svo mik­illi útleigu á Air­bnb. Sam­­kvæmt nýlegri grein­ingu Íslands­­­banka á íslenskum íbúða­­mark­aði voru til að mynda 1.225 heim­ili í heils­ársleigu á Air­bnb í Reykja­vík í ágúst 2016.

Ein ástæða þess að leig­u­­mark­aður hefur orðið erf­ið­­ari á und­an­­förnum árum er inn­­reið ­leigu­fé­laga ­sem rekin eru með hagn­að­­ar­­sjón­­ar­miði. Þau rök­­styðja til­­veru sína með því að þau tryggi stöð­ug­­leika, hús­næð­is­ör­yggi og lang­­tíma­­leigu sem skort hafi á leig­u­­mark­aði þar sem hús­næð­is­eig­andi var að leigja sína eign til leigj­enda, oft til skemmri tíma. Stærstu aðil­­arnir á þessum mark­aði eru Almenna leig­u­­fé­lagið (stýrt af GAMMA) og Heima­vell­­ir. Frá því að þessir tveir aðilar fóru að kaupa upp þús­undir eigna til að leigja þær út hefur leig­u­verð hækkað um tugi pró­­senta. Sam­keppn­is­eft­ir­litið greindi frá því í til­­kynn­ingu fyrr á þessu ári að sér­­­hæfð ­leigu­fé­lög á höf­uð­­­borg­­­ar­­­svæð­inu og Suð­­­ur­­­nesjum ættu allt að 40 pró­­­sent íbúð­­­ar­hús­næðis í almennri útleigu á höf­uð­­­borg­­ar­­­svæð­inu og á milli 70 til 80 pró­­­sent á Suð­­­ur­­­nesj­­­um.

Hvaða afleið­ingar hafði það?

Það má segja að þrátt fyrir for­dæma­laust efna­hags­legt góð­æri ríki ákveðið neyð­ar­á­stand á íslenskum hús­næð­is­mark­aði. Sífellt stærri hópur fólks er í veru­legum vanda við að koma við­un­andi þaki yfir höf­uð­ið. Sumir eru heim­il­is­lausir og búa á tjald­svæð­um. Aðrir búa hjá vinum eða ætt­ingj­um, eða hend­ast á milli skamm­tíma­hús­næðis á leigu­mark­aði.

Nær eng­inn er á leig­u­­mark­aði vegna þess að hann langar til þess. Á Hús­næð­is­­þingi sem vel­­ferð­­ar­ráðu­­neytið og Íbúða­lána­­sjóður boð­uðu til í októ­ber kom fram að 80 pró­­sent leigj­enda vilji kaupa sér íbúð en geti það ekki. 57 pró­­sent sögð­ust vera á leig­u­­mark­aði af nauð­­syn. Þar kom líka fram að þriðji hver leigj­andi borgar meira en helm­ing af ráð­­stöf­un­­ar­­tekjum sínum í leigu og að fáir tekju­lágir leigj­endur geti safnað sér nokkru spari­­­fé.

Alls eru 17 pró­­sent heim­ila á Íslandi á leig­u­­mark­aði. Á sama tíma hefur hið opin­bera varið lægra hlut­­falli af lands­fram­­leiðslu í hús­næð­is­­stuðn­­ing en það hefur gert að með­­al­tali síð­­ast­liðin 15 ár. Til að ná með­­al­tal­inu vantar um fimm millj­­arða króna árlega upp á.

Almennar vaxta­bætur vegna vaxta­gjalda af lánum til kaupa á íbúð­­ar­hús­næði, sem ein­stak­l­ingar greiddu af á árinu 2016, námu 4,3 millj­­örðum króna. Þær lækk­­uðu um 16,8 pró­­sent á milli ára. Alls fengu 26.107 þiggj­endur vaxta­bætur á síð­­asta ári, eða 12,1 pró­­sent færri en árið áður. Um 90 pró­­sent þeirra fara til efna­­meiri helm­ings þjóð­­ar­inn­­ar. Vaxta­bætur hafa sam­tals lækkað um 7,7 millj­­arða króna síðan árið 2010 og þeim fjöl­­skyldum sem fá þær hefur fækkað um rúm­­lega 30 þús­und á saman tíma. Á sama tíma og sífellt færri fá vaxta­bætur vegna íbúð­­ar­hús­næðis þá hafa fast­­eigna­­gjöld, sem sveit­­ar­­fé­lög leggja á, hækkað um 50 pró­­sent vegna gríð­­ar­­legra hækk­­ana á hús­næð­is­verði.

Um þessar mundir eru búa auk þess um 20.000 manns á aldr­inum 20 til 29 ára í for­eldra­húsum og hefur sá fjöldi farið vax­andi. Á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­inu búa meira en fjórir af hverjum tíu íbúum höf­uð­­borg­­ar­­svæð­is­ins á þrí­­tugs­aldri ýmist enn eða á ný í for­eldra­hús­­um.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar