Mynd: RÚV/Skjáskot

Þetta gerðist á árinu 2017: Uppreist æru og leyndarhyggja sprengdi ríkisstjórn

Það hefði engum dottið í hug að barátta þolenda kynferðisbrotamanna og aðstandenda þeirra fyrir því að fá að vita af hverju það væri verið að veita kvölurum þeirra uppreist æru og starfsréttindi myndi sprengja ríkisstjórn á árinu 2017. Það er hins vegar nákvæmlega það sem gerðist.

Hvað gerð­ist?

Robert Dow­ney, sem hét áður Róbert Árni Hreið­­ar­s­­son, var dæmdur í þriggja ára fang­elsi árið 2008 fyrir að brjóta gegn fjórum stúlk­um, einni fjórtán ára og  þremur fimmtán ára. Hann komst í sam­­band við stúlk­­urnar með blekk­ingum og þótt­ist Robert vera 17 ára gam­all ung­l­ings­­piltur sem héti Rikki í sam­­skiptum við eina þeirra í gegnum net­ið. Hann greiddi tveimur stúlkn­anna fyrir kyn­­mök. For­­seti Íslands veitti honum upp­­reist æru í sept­­em­ber 2016 og í júní fékk hann lög­­­manns­rétt­indi sín aft­­ur.

Fórn­ar­lömb Roberts, aðstand­endur þeirra, valdir stjórn­mála­menn og fjöl­miðlar fóru að kalla eftir upp­lýs­ingum um hvernig þetta gæti gerst. Úr varð sam­fé­lags­miðla­bylt­ing undir myllu­merk­inu #Höf­um­hátt. Krafan var skýr: Hvernig var ferlið? Hverjir skrif­uðu upp á með­mæli fyrir hann? Hvernig var ákvörð­unin tekin og hver var gagna­slóð­in?

Fremstur í flokki fór þekktur leik­ari og leik­stjóri, Bergur Þór Ing­ólfs­son og fjöl­skylda hans, en Nína Rún, dóttir hans, var eitt fórn­ar­lamba Roberts Dow­ney.

Í júlí, var mál Róberts Dow­ney komið til umfjöll­unar í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd. Nefndin hafði kallað eftir upp­lýs­ingum um málið og meðal ann­ars hverjir með­mæl­endur fyrir upp­reist æru Róberts væru. Hvorki nefndin né fjöl­miðlar höfðu hins vegar fengið slíkar upp­lýs­ing­ar, en ef með­mæla­bréf Róberts væru birt lá fyrir að með­mæla­bréf ann­arra sem höfðu sótt um upp­reist æru yrði líka að gera opin­ber.

Brynjar Níels­son, for­maður nefnd­ar­inn­ar, stað­festi við RÚV 8. ágúst að hann væri komin með gögn um þá sem veitt hafði verið upp­reist æru. Um var að ræða fleiri gögn en bara þau sem snéru að máli Róberts Dow­ney. Hann var harður á því að ekki ætti að upp­lýsa um hverjir væru með­mæl­end­ur. Hann sagði til við frétta­stofu RÚV 8. ágúst: „með­mæl­enda­bréfin fá þeir ekki,“ og átti þar við nefnd­ar­menn í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd. Nefnd­ar­menn­irnir fengu þó að sjá bréf­in. En fjöl­miðlar fengu ekki að sjá þau, né önnur gögn máls­ins.

Í sept­em­ber komst úrskurð­ar­nefnd um upp­lýs­inga­mál að þeirri nið­ur­stöðu að fjöl­miðlar ættu að fá að sjá gögn í máli Róberts Dow­ney, og þá lá strax fyrir að sú nið­ur­staða yrði for­dæm­is­gef­andi fyrir önnur mál sem snéru að upp­reist æru. Gögnin voru birt þriðju­dag­inn 12. sept­em­ber og sam­hliða var sagt frá því að önnur gögn er vörð­uðu upp­reist æru aftur til árs­ins 1995 yrðu líka birt á næst­unni.

Á þessum tíma hafði verið hávær orðrómur um að faðir for­sæt­is­ráð­herra væri á meðal þeirra sem hefðu skrifað með­mæla­bréf fyrir Hjalta Sig­ur­jón Hauks­son, mann sem var dæmdur í fimm og hálfs árs fang­elsi fyrir að níð­ast kyn­ferð­is­lega á stjúp­dóttur sinni árum sam­an. Brotin hófust þegar hún var fimm ára og stóðu yfir, sam­kvæmt dómi, þar til hún flutti að heima um 18 ára ald­ur. Í þeim fólst meðal ann­ars nær dag­legt sam­ræði.

Fjöl­miðlar höfðu spurst fyrir um málið en ekki fengið svör og því hékk málið í loft­inu í næstum tíu daga. Mikið var um það rætt en stað­fest­ingu vant­aði. Hún fékkst svo 14. sept­em­ber.

Þá sendi Bene­dikt Sveins­­son, faðir Bjarna Bene­dikts­­sonar þá for­­sæt­is­ráð­herra og for­­manns Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins, frá sér yfir­lýs­ingu þar sem hann gekkst við því að vera einn þeirra sem skrif­uðu undir með­­­mæla­bréf með upp­­reist æru Hjalta Sig­­ur­jóns Hauks­­son­­ar. Dóms­mála­ráð­herra greindi frá því síðar sama dag að hún hefði greint Bjarna frá því í júlí að faðir hans væri á meðal með­mæl­enda Hjalta, en á þeim tíma fengu aðrir ekki upp­lýs­ingar um mál­ið.

Hvaða afleið­ingar hafði það?

Ljóst var strax að þetta mál, sama hvað þing­menn og ráð­herrar Sjálf­stæð­is­flokks­ins reyndu að mála það upp sem óbil­gjarnan póli­tískan rétt­trúnað og móð­ur­sýki, hafði gríð­ar­leg áhrif á hina tvo flokk­anna í stjórn­ar­sam­starfi þáver­andi rík­is­stjórn­ar, Bjarta fram­tíð og Við­reisn.

Innan Bjartrar fram­tíðar hafði reyndar ekki verið ein­hugur um stjórn­ar­sam­starf við Sjálf­stæð­is­flokk frá upp­hafi. Rúmur fjórð­ungur stjórnar flokks­ins kaus til að mynda gegn stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Alls tóku 69 manns þátt í þeirri atkvæða­greiðslu.

Strax eftir frétt­irnar sem komu fram 14. sept­em­ber var boð­aður stjórn­ar­fundur hjá flokkn­um, en 80 manns sitja í stjórn­inni. Fund­ur­inn var boð­aður klukkan 21 og hófst skömmu síð­ar. Um 40 manns mættu á fund­inn en auk þess voru um tugur stjórn­ar­manna á honum í gegnum sam­skipta­for­ritið Skype. Þar var farið yfir málið og ljóst að hljóðið í fund­ar­mönnum var mjög þungt. „Þetta er feðra­veldið gegn börn­um,“ sagði einn við­mæl­andi Kjarn­ans sem sat fund­inn. „Meg­in­málið er að þarna eru tveir ráð­herrar að ganga erinda föður ann­ars, gegn lögum og landi, og láta okkur ekk­ert vita af því.“

Í aðdrag­anda fund­ar­ins höfðu átt sér stað sam­skipti milli lyk­il­manna í Bjartri fram­tíð og fólks í innsta hring Bjarna Bene­dikts­sonar þar sem kraf­ist var við­bragða af hálfu for­sæt­is­ráð­herra strax. Þau við­brögð voru hins vegar ekki í boði og þegar þetta er skrifað hefur hann enn ekki tjáð sig um mál­ið.

Á fund­inum var meðal ann­ars rætt um önnur sam­bæri­leg mál sem hefðu komið upp, þar sem reynt hefði verið að leyna upp­lýs­ing­um. Þar var helst rifjað upp leka­málið svo­kall­aða og það ferli sem fylgdi í kjöl­far þess. Fund­ar­menn ræddi líka um þá ákvörðun nefnd­ar­manna Sjálf­stæð­is­flokks í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd að ganga út af fundi hennar þegar gögn í máli Róberts Dow­ney voru birt og margir þeirra sáu nú þann gjörn­ing í nýju ljósi.

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans greindi Ótt­arr Proppé, þá for­maður Bjartrar fram­tíðar og heil­brigð­is­ráð­herra, frá því að Bjarni hefði sagt honum í fram­hjá­hlaupi þann 11. sept­em­ber að pabbi hans væri ein­hvers staðar í gögn­unum um menn sem hefðu fengið upp­reist æru. Það hefði verið eini vísir­inn að sam­tali sem Bjarni hefði átt við for­mann­inn um mál­ið.

„Þetta var bara síð­asta korn­ið. Við erum með for­sæt­is­ráð­herra sem hvorki notar íslenska pen­inga né íslensk lög,“ sagði einn við­mæl­enda Kjarn­ans.

Eftir langar og til­finn­inga­þrungnar umræður var ákveðið að kjósa um hvort að Björt fram­tíð ætti að slíta stjórn­ar­sam­starf­inu eða ekki.

Alls greiddu 57 af þeim 80 sem eru í stjórn flokks­ins atkvæði. 50 þeirra studdu stjórn­ar­slit, eða 87 pró­sent greiddra atkvæða og tæp 63 pró­sent allra stjórn­ar­manna. Allir fjórir þing­menn Bjartrar fram­tíð­ar, og báðir ráð­herrar flokks­ins, studdu stjórn­ar­slit.

Nið­ur­staðan lá því kýr­skýr fyr­ir: sam­starf­inu yrði slitið vegna upp­reist æru máls­ins og þeirrar leynd­ar­hyggju sem umlék með­ferð ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins á mál­inu. Rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar varð fyrir vikið skamm­lífasta sam­steypu­stjórn lýð­veld­is­sög­unn­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar