Mynd: Birgir Þór Harðarson

Það sem gerðist árið 2017: Höft losuð á Íslandi

Eftir að hafa þurft að fara með flugmiða í bankann til að kaupa gjaldeyri fyrir sólarlandafríið í rúm átta ár voru fjármagnshöft loks losuð að mestu á almenning, lífeyrissjóði og fyrirtæki. Verr gekk þó að losa um aflandskrónuvandann með þeim hætti sem lagt var upp með.

Hvað gerðist?

Fjármagnshöft höfðu verið við lýði á Íslandi frá því í nóvember 2008. Þau voru sett svo að umfangsmiklar krónueignir, meðal annars kröfuhafa föllnu bankanna, væri ekki skipt yfir í aðra gjaldmiðla með tilheyrandi búsifjum og gengisfalli fyrir Ísland.

Höftin þýddu að flestir Íslendingar gátu ekki skipt krónunum sínum í annan gjaldeyri nema í undantekningartilvikum og með heimild yfirvalda. Þeir þurftu t.d. að framvísa flugfarseðli í banka til að kaupa ferðagjaldeyri. Og slík gjaldeyrisviðskipti voru auk þess takmörkuð við hámarksfjárhæðir. Búið var til mjög umfangsmikið gjaldeyriseftirlit innan Seðlabanka Íslands, sem hafði eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar, og þaðan voru veittar allskyns undanþágur, enda blasti við að innflutnings- og útflutningsfyrirtæki þurftu að skipta krónum í gjaldeyri eða gjaldeyri í krónur til að geta haldið starfsemi sinni áfram.

Til þess að fá að gera slíkt þurftu fyrirtæki meðal annars að sýna fram á að um raunveruleg vöru- eða þjónustuviðskipti væri að ræða. Þetta var sérstaklega mikilvægt til að jafnræðis yrði gætt. Þ.e. að fjármagnseigendur gætu ekki nýtt sér haftaástandið til að hagnast á meðan að launafólk, sem fékk borgað í krónum og lifði fjárhagslega einn mánuð í einu, axlaði aðlögun gengisfalls og efnahagshruns í gegnum heimilisbókhaldið sitt.


Sumarið 2016 tilkynntu íslensk stjórnvöld um stór skref í átt að losun fjármagnshafta. Þann 12. mars 2017 var svo blásið til blaða­manna­fund­ar. For­ingjar nýrrar rík­is­stjórn­ar, sem hafði tekið við völdum tveimur mán­uðum áður, til­kynntu hróð­ugir að þeir ætl­uðu að afnema höft. Það var var reyndar aðeins ofsögum sagt, þótt höft hafi verið losuð að mestu þá eru slík enn við lýði, t.d. tak­mark­anir á ráð­stöfun aflandskróna.

Hvaða áhrif hafði þetta?

Á blaðamannafundi greindu Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Már Guðmundsson seðlabankastjóri frá því að öll höft á almenn­ing, fyr­ir­tæki og líf­eyr­is­sjóði yrðu afnumin, fjármagnsflæði að og frá landinu yrði gefið frjáls og hægt yrði að fjárfesta erlendis án takmarkana.

Sam­hliða þessu var gert sam­komu­lag við aflandskrónu­eig­end­ur, en þeir voru helsta ástæða þess að höft voru enn við lýði. Það samkomulag fór ekki alveg eins og að hafði verið stefnt, en samkvæmt því ætlaði Seðlabanki Íslands að kaupa meginþorra aflandskróna.

Hluti þeirra sjóða sem áttu aflandskrónur hérlendis neituðu nefnilega tilboðinu.

Föstu­dag­inn 23. júní til­kynnti Seðla­banki Íslands um loka­upp­gjör um kaup á aflandskrón­um. Nið­ur­staðan var sú að eig­endur alls 88 millj­arða króna í slíkum krónum sögðu nei takk við til­boði Seðla­bank­ans. Þeir vildu frekar geyma krón­urnar hér­lend­is. Og skipta þeim á skaplegra gengi í framtíðinni. Sú staða er enn uppi.

Losun hafta hafði líka þau áhrif að lánshæfismatsfyrirtækin mátu aðgerðina sem mjög jákvætt skerf fyrir íslenskt efnahagskerfi. Þau sögðu að hún styrkti lánshæfi ríkisins og fjármálageirans, sem þýðir á mannamáli að þeir gátu tekið lán á skaplegri kjörum og lækkað fjármagnskostnað sinn.

Þetta gekk eftir og er lánshæfismatið nú með betra móti en það hefur verið árum saman, og horfur metnar stöðugar.

Erlend fjárfesting hefur líka aukist verulega. Til að mynda tvöfölduðust erlendar fjárfestingar á hlutabréfamarkaði á árinu 2017 og hafa ekki verið meiri frá bankahruni. Nettó komu um 30 milljarðar króna inn á íslenskan hlutabréfamarkað á árinu, en heildarstærð hans er um 800 milljarðar króna.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar