Bára Huld Beck

Hin fjögur fræknu ræða bókmenntirnar blaðamennsku

Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir og blaðamaðurinn Bára Huld Beck spjalla við Reyni Traustason, Kolbrúnu Bergþórsdóttur, Jakob Bjarnar Grétarson og Eirík Jónsson, gamalreynda sjóræningja sem voru til í smá pallborðsumræður í hádeginu á Bergsson.

Upphaflega stóð til að þessi grein myndi prýða nýútkomna bók: Þjáningafrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í fjölmiðlaheimi. Bók um fjölmiðla á Íslandi. Svo bókin myndi sóma sér í kiljuformi þurfti að stytta hana rösklega á lokasprettinum og því var ekki allt með sem í upphafi átti að prýða bókina. En þetta efni er þess eðlis að skemmtilegra er að það birtist frekar en ekki: viðtal við fjóra blaðamenn sem hafa leikið sér að skilum blaðaefnis og fagurfræði skáldskapar í einni eða annarri mynd; stíl, sagnalist og umræðunni um að kannski sé þetta eftir allt saman eitt og hið sama.

Pallborðsumræður hefjast:

Auður hefur orð á að það þurfi ástríðu á borð við þá sem einkennir þrautseigan listamann til að haldast jafn lengi í blaðabransanum og þessi fjögur. Hvernig hafa þau haldist svona lengi í harkinu?

Jakob: Við erum að niðurlotum komin. 

Kolbrún: Við kunnum ekkert annað ... 

Eiríkur: Langt í frá, allt lygi. 

Jakob: Ég hef margoft reynt að koma mér út úr þessu. Just when I thought I was out ... they pull me back in! 

Kolbrún: Þetta er eina fólkið sem hringir og býður manni vinnu. 

Jakob: Það veit að maður sættir sig við smánarlaun og ómögulegan vinnutíma. 

Eiríkur: Ég hef aldrei heyrt aðra eins vitleysu, ég hef alltaf verið á góðum launum. 

Kolbrún: Ég er konan í þessum hópi, ég var í tuttugu ár á lágmarkslaunum. 

Reynir: Svo kom Bingi. Má bjóða þér hundrað steikur á Argentínu? Eigum við svo að fara í mál við einhverja skúrka? 

Eiríkur: Við skulum halda okkur við efnið og tala um bókmenntirnar.

Auglýsing

Auður: Ég er að flýta mér svo ég ætla að biðja ykkur um að tala hægt meðan ég vélrita.

Eiríkur: Skrifaðu það! Þetta er þannig viðtal.

Jakob: Umberto Eco segir um leið og þú takir upp blýantinn þá hefjist túlkun.

Allir dæsa.

Jakob: Ég er magisterinn, nema Eiríkur, hann er menntaður frá París.

Þögn

Jakob: Það er augljós samsvörun milli rithöfunda og blaðamanna, báðir fást við texta. Frá örófi hafa ríkt náin tengls á milli blaðamanna og rithöfunda; Jack London, Charles Dickens, Hemingway, Gabriel Garcia ... Það er erfitt að gera skýran greinarmun á þessu, hvernig sem á er litið. Blaðamenn eru eðli málsins ekki skúffuskáld, það felst í orðinu fjömiðill, meðan ég ímynda mér að rithöfundar séu meira inn á við. Ég hef engar ambisjónir í þá átt að teljast rithöfundur, ég hef aldrei skilið yfirlæti rithöfunda í garð blaðamanna. Auðvitað verður að gera skýran greinarmun á til dæmis viðhorfspistlum og gagnrýni í blöðum. Svo er eitthvað sem heitir Gonzo-blaðamennska þar sem blaðamaðurinn lýsir upplifun sinni, ég leik mér stundum að því að blanda þessu saman og það ruglar fólk í ríminu.

Eiríkur – hér eftir nefndur Eiríkur samfélagsskáld: Þú talar um bókmenntir en ég held í raun og veru að blaðamaðurinn sé óafvitandi storyteller að segja sögur úr samtímanum og gefa út jafnóðum. Í fréttum byggir allt á staðreyndum en það er stundum þannig, eins og ég las í Grapevine rétt áðan, að það getur enginn skáldskapur yfirstigið veruleikann. Það er bara þannig og sem dæmi má nefna að ég hef skrifað um persónur í raunverulegu lífi sem taka fram öllum skáldsagnapersónum sem ég hef kynnst. Ber þar fyrst að nefna: Pepsi-drenginn sem var rekinn úr 10/11 fyrir að borga ekki samloku og Pepsi-dós áður en hann neytti þess í kaffitímanum í vinnunni. Svo varð þetta bara verrra og verra. Síðan gerðist það að þeir í versluninni neyddust til að taka hann aftur í vinnu eftir söguna sem sögð var í blaðinu. En ég ráðlagði honum að gera það. Pabbi hans var vígslubiskup í Skálholti og eftir þetta sendi hann ritstjórninni bréf og þakkaði þeim fyrir að gera svona gott fyrir son sinn. Þá gerðist það að ég útvegaði honum vinnu á bílaleigustöð í staðinn því hann hafði svo mikinn áhuga á sportbílum. Þá varð ég smá hræddur um að hann myndi stela bílunum, ef hann væri kannski þjófur eftir allt saman. Núna er hann hönnuður.

Jakob: Nú ert þú orðin persóna í þinni sögu.

Eiríkur: Nei, ég reddaði honum bara vinnu. Allt í lagi að stela Pepsi-dós, ekki heilum sportbíl.

Nú hafa karlmennirnir svo lengi haft orðið að spjallinu er beint til Kolbrúnar. Hún hefur, eins og kunnugt er, starfað áratugum saman sem bókmenntagagnrýnandi og blaðamaður. Hvað dettur henni í hug þegar við tölum um fagurfræði skáldskapar í ljósi blaðamennsku?

Kolbrún: Þá kemur fyrst og fremst upp í hugann sú skylda blaðamannsins að skrifa vel. Blaðamaður sem kærir sig ekki um að skrifa góðan texta á að vera annars staðar. Það er staðföst skoðun mín. Skylda hans er að skrifa góðan texta.

(Innskot Auðar og Báru: Hún heldur ekki orðinu lengi).

Reynsluboltar ræða saman.
Bára Huld Beck

Reynir: Þegar ég byrjaði sem blaðamaður í litlu þorpi var ég fréttaritari. Mig dreymdi um að verða blaðamaður í fullu starfi. Og svo einhvers konar rithöfundur. Því það sem rithöfundur gerir er að vera ekki njörvaður niður með óhefta tjáningu. En þú vilt ekki vera fréttaskáld því það getur kallað yfir menn allskonar vesen ef þú ert að skálda fréttirnar. Þú getur lýst okkur hér að við sitjum á Bergsson og þessi kona þarna kemur inn og heldur á vettlingunum sínum – og þú segir frá því. En lykilatriðið er að þú vilt ekki skálda fréttir. Það eru stífar reglur um það, tvær heimildir og allt það. Þess vegna er slökun í því að skrifa pistil – eins og pistilinn minn í Stundinni núna þar sem ég er að hafa hægðir upp á heiði. Pistillinn heitir Ofskynjanir í óbyggðum. Menn fundu lykt og héldu að það væri verið að grilla. En þá var ég að kveikja í klósettpappírnum. Svona geturðu leikið þér og gengið laus. Í fréttum þarf að tékka á öllu, þú lýtur mjög ströngum aga ef þú vilt ekki lenda í fokki. Í bók geturðu sagt allar sögurnar. Kolbrún átti til að mynda dagbækur sem voru mesti fjársjóður íslenskrar dægumenningar því þar voru allar sögurnar sem mátti ekki segja.

Jakob: Okkur Hrafni Jökulssyni til mikillar hrellingar sem vorum að vinna með henni og fengum ekki að birta neitt.

Reynir: Eins og ástarfundurinn á ráðherraskrifstofunni. Þekktur fjölmiðlamaður var annar aðili ástarleiksins og hinn ráðherra en ástarleikurinn átti sér stað á skrifborðinu. Þá kom næturvörðurinn aðvífandi, sá þessi ósköp og skrifaði um þau ýtarlega skýrslu sem hann kom til forsætisráðherrans og lét liggja á borðinu. Og forsætisráðherrann lét skýrsluna alltaf liggja þarna þegar ráðherrann kom. En þegar forsætisráðherrann lenti sjálfur í þessu ráðuneyti ... hvað var það fyrsta sem hann gerði þegar hann settist við skrifborðið? Það var að hugsa: Nei, þetta vil ég ekki! – og hann fékk sér nýtt skrifborð. Þetta er svo pottþétt. Ég er með tvær heimildir fyrir þessu, fólki myndi bara ofbjóða að ég væri að fara svona inn í einkalíf fólks. En ég get það sem rithöfundur.

Kolbrún: Allskonar svona sögur voru skrifaðar í dagbókina mína. Sem Reynir ætlaði alltaf að gefa út.

Reynir: Svo kveikti hún í dagbókunum. Stærsta óhapp sem hefur orðið síðan handritin í Kaupmannahöfn brunnu.

Jakob: Veit Hrafn af þessu?

Reynir: Þegar við stofnuðum Ísafold langaði okkur að vera með syrpuna í fjórum blöðum: Dagbækur Kollu. Ég skrifaði einu sinni langt sandkorn um þetta og sendi Kollu og hún brjálaðist.

Kolbrún: Nei, þú mátt ekki segja þetta! Þetta er alltof ...

Jakob: Non-fiction er að koma rosalega inn. Lítum til þess sem Mikki Torfa hefur verið að gera síðustu árin með verkfærum blaðamennskunnar. Mörkin er orðin svo óljós. Mörkin milli blaðamennsku og ævisögu eru orðin mjög óljós, eins og í öllu málunum með Jón Gnarr. Reynir fjallaði mikið um bók Jóns.

Eiríkur: Við blaðamenn getum skrifað og tekið ábyrgð en ekki rithöfundarnir.

Reynir: Jón Gnarr gefur út að þetta sé raunveruleikinn. Fréttablaðið slær þessu upp sem frétt sem byggir á því að bókin sé heilagur sannleikur, að bókin byggi á að níðingar hafi verið þarna. En þarna liggur alvaran, því sagt er að kennarinn sé níðingur. Ef Jón hefði bara sagt að þetta væri skáldsaga þá hefði þetta horft öðruvísi við. Hann kann jafnvel að hafa trúað þessu sjálfur en eftirgrennslan á málinu segir okkur annað. 

Kolbrún: Hvort eigum við að trúa Birgittu eða Jóni? Kannski voru þau bara í hassvímu að borða kattamat. Hvað veit ég? Jón Gnarr lýsir þarna upplifun sinni og skynjun. Ég held að við öll myndum upplifa sama atvikið á ólíkan hátt og sjá það ólíkum augum.

Jakob: Mikki vill meina að það sé ákveðinn sannleikur í minningum og hann búi í upplifun okkar á því sem gerist.

Þá berst talið aftur að yfirlestri enda „heitt“ umræðuefni í hópnum.

Kolbrún: Í sambandi við að senda viðtal til yfirlestrar þá er það ekki til að umbylta því heldur til að koma í veg fyrir rangfærslur og mistök. Ég man eftir því að hafa farið í viðtal þar sem rangt var eftir mér haft, ég las það viðtal ekki yfir og sá það ekki fyrr en einhverjum vikum eftir að það birtist. Það voru mjög slæmar rangfærslur í því viðtali. Einu sinni vildum við ekki samþykkja viðtal eftir yfirlestur, stjórnmálamanni ekki líkaði ekki spurningarnar og tóninn í því, en nær undantekningarlaust er það þannig að viðmælandinn er sáttur, bætir jafnvel við áhugaverðum hlutum og viðtalið verður betra.

Jakob: Þetta snýr að stöðu blaðamannsins. Ef hann sendir allt í yfirlestur er hann hættur að vera blaðamaður og orðinn að einhvers konar ímyndaráðgjafa. Þetta þekkist eiginlega hvergi annars staðar en á Íslandi.

Eiríkur: Við vitum ekki hvar viðtalið endar í rafrænum heimi. Að senda þetta út úr húsi! Það má enginn sjá þetta. 

Reynir: Óðs manns æði að treysta þessu rafræna.

Kolbrún: Þau viðtöl sem ég hef tekið í þrjátíu ár hafa alltaf byggt á trausti. Þið talið eins og viðtöl séu hernaðarleyndarmál. Þetta er algjör della hjá ykkur.

Jakob: Netið hefur gerbreytt allri blaðamennsku. Ég prófaði að taka viðtöl sem fóru fram á facebook, svona facebook-spjall sem ég skrifaði yfir í viðtalsform og þá liggur alveg fyrir hvað viðkomandi sagði.

Kolbrún: Maður umskrifar viðtöl en skrifar þau ekki beint niður. Maður endurskapar, tengir, sleppir og setur í samhengi. Þannig er þetta ekki skáldskapur heldur ákveðin sköpun. Viðtalsbækur sem þessir félagar mínir hér hafa skrifað byggjast líka á þessu.

Eiríkur: Ég hef aldrei notað segulband. Banna það! 

Reynir: Fagurfræðin liggur í því að blaðamaðurinn teiknar upp aðstæður með litríkum hætti. „Fuglarnir sungu í trjánum: Da da da ... “

Kolbrún: Þetta eru hræðilegustu viðtöl sem maður les. 

Reynir: Ég er að vitna í Þórberg. Kjell Inge Røkke! Ég las umfjöllun um hann, nærmynd þar sem hann var kominn að því að verða gjaldþrota. Í fyrstu línum umfjöllunarinnar var því lýst hvernig hann stóð úti í rökkri fyrir framan næturklúbb og grét. Þá var búið að ná mér, ég vildi lesa restina. Þú þarft að ná þessari stemningu, veiða lesandann svo hann vilji halda áfram að lesa.

Jakob: Þetta tengist þessu með blaðamanninn sem sögumann, að halda athygli lesandans.

Reynir: Það finnst mér flottast í þessu. Að blanda saman flottum texta og fréttanefi. Það eru bestu blaðamennirnir og þú sérð fréttina fyrir þér. Minn skóli var Flateyri þar sem ég var með segulband og myndavél og verkefni dagsins að finna þrjár fréttir. Eiríkur er soldið naskur að finna út fréttirnar í þessu litla.

Jakob: Blaðamaðurinn er litli puttinn í þulunni: Þessi fór í sjóinn, þessi dró hann upp. Ég man bara litla puttann sem fór heim og kjaftaði frá.

Bára Huld spyr: Eruð þið vissir um að vilja ekki lesa viðtalið yfir – bara Kolla?

Eiríkur: Ef þið skrifið eitthvað vitlaust tölum við ekki við ykkur aftur – nema prívat.

Í upphafi árs 2020

Við á Kjarnanum göngum bjartsýn og einbeitt inn í nýtt ár og þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFólk