Mynd: Samsett Nefnd um endurskoðun peningastefnu

Lág verðbólga einungis tryggð með einhverskonar „stéttasátt“

Nefnd um endurskoðun peningastefnu Íslands gengur út frá því að krónan verði áfram gjaldmiðill íslensku þjóðarinnar, leggst gegn myntráði, leggur til víðtækar breytingar á hlutverki Seðlabankans og vill afnema bindiskyldu á mögulega vaxtamunaviðskipti. Alls leggur hún fram ellefu tillögur.

Ísland á ekki að taka upp myntráð, ekki að reka peningastefnu með stuðningi hafta þótt að fyrir liggi að íslenska krónan verði gjaldmiðill þjóðarinnar í fyrirsjáanlegri framtíð. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands á að undanskilja húsnæðisverð og fjármálastöðugleiki á að hafa forgang á verðstöðugleika ef aðstæður koma upp að ógn skapist gegn hinum fyrrnefnda. Þá eiga aðstoðarseðlabankastjórar að vera tveir í stað eins og á annar að vera með áherslu á fjármálastöðugleika en hinn með áherslu á hefðbundna peningastefnu. Auka þarf ábyrgð Seðlabankans þannig að hann beri einn ábyrgð á þjóðhagsvarúð og endavarúð í stað þess að ábyrgðinni sé skipt milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlits, eins og nú er.

Þetta eru helstu tillögur sem nefnd um ramma peningastefnu, einnig þekkt sem starfshópur um endurskoðun peningastefnunnar, leggur til að verði innleiddar hérlendis. Í nefndinni, sem skipuð var í mars í fyrra og skilaði skýrslu sinni í dag, sátu hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson, sem var formaður hennar, Ásdís Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Til að nokkur peningastefna gangi upp hérlendis þurfi hins vegar að stöðva hið svokallaða höfrungahlaup, þar sem nafnlaun hækka langt umfram framleiðni, að mati nefndarinnar Nafnlaunahækkanir síðustu fimm ára hafi verið átta prósent á ári en mætti ekki vera meiri en 4-4,5 prósent til að jafnvægi sé gagnvart verðbólgumarkmiði (2,5 prósent) og framleiðnivexti (1-2 prósent). „Lág verðbólga á Íslandi verður aðeins tryggð til langframa með einhvers konar stéttasátt um launaákvarðanir – þar sem stöðugleiki á vinnumarkaði er undirstaða verðstöðugleika,“ segir í skýrslunni.

Krónan áfram gjaldmiðillinn

Endurskoðun nefndarinnar á peningastefnunni gekk út frá þeirri forsendu að íslenska krónan verði gjaldmiðill Íslands í nánustu framtíð og að fjármagnshreyfingar til og frá landinu yrði eins frjálsar og kostur væri.

Í skýrslu nefndarinnar segir: „Ef gengið er út frá þeirri forsendu að krónan verði áfram gjaldmiðill Íslendinga í nánustu framtíð hefur þjóðin í raun aðeins tvo kosti:

  1. Að halda áfram með núverandi fyrirkomulag sem felur í sér að fylgja sjálfstæðri peningastefnu undir merkjum verðbólgumarkmiðs.
  2. Að hætta að reka sjálfstæða peningastefnu og festa gengi krónunnar varanlega niður með myntráði sem felur í sér að öll innlend seðlaútgáfa er tryggð með erlendum gjaldeyri.“

Nefndin segir að á síðustu fjórum til fimm árum hafi náðst mikill árangur við að framfylgja verðbólgumarkmiðum hérlendis og að sú stefna hafi skilað íslenskum almenningi „gríðarlegum ábata“ með mikilli aukningu kaupmáttar, samhliða því að almennt vaxtarstig hafi lækkað. Nefndin leggur mikla áherslu á það í skýrslu sinni að þessum árangri verði fylgt eftir.

Telja myntráð ekki góða hugmynd

Upptaka myntráð felur, að mati nefndarinnar, í sér varanlega gengisfestingu og hafi þannig sömu kosti og galla og aðild að myntbandalagi. Hins vegar sé einn meginmunur til staðar: „Við inngöngu Íslands í myntbandalag Evrópu myndi Seðlabanki Íslands áfram starfa sem útibú frá hinum evrópska seðlabanka. Sem slíkt útibú gæti hann ekki lengur ákvarðað sérstaka peningastefnu fyrir Ísland en gæti áfram þjónað sem lánveitandi til þrautavara fyrir íslenskt fjármálakerfi. Í myntráði getur Seðlabankinn ekki sinnt þessu hlutverki samhliða því að tryggja fjármálastöðugleika.

Það hefur lengi verið viðurkennd staðreynd að bankakerfi án lánveitanda til þrautavara eru í grundvallaratriðum óstöðug og geta fallið saman í áhlaupi. Aðlögunarferli myntráðs krefst þess að vextir þróist á frjálsum markaði eftir framboði og eftirspurn eftir lausafé. Það hlýtur að setja gríðarlegan þrýsting á fjármálakerfið sem verður að geta þolað lausafjárþurrð og vaxtatoppa án þess að tapa trúverðugleika sínum innanlands sem utan. Að mati starfshópsins er það eitt og sér gríðarlega erfitt að tryggja efnahagslegan stöðugleika undir myntráði sem getur aðeins gerst með miklum kerfisbreytingum hér innanlands, svo sem á vinnumarkaði.“

Jafnframt er það mat starfshópsins að upptaka myntráðs skapi óásættanlega áhættu fyrir fjármálastöðugleika þar sem íslenskar fjármálastofnanir standi eftir án lánveitanda til þrautavara. Af þessum ástæðum telur starfshópurinn sig ekki geta mælt með þeim kosti fyrir Ísland að taka upp myntráð við núverandi aðstæður.

Það sé hægt ef við förum einfaldlega eftir leikreglunum sem settar eru. Eða eins og segir í skýrslu nefndarinnar: „Sú trú að Íslendingar geti staðið jafnfætis öðrum þjóðum – ef þeir aðeins taka leikinn nógu alvarlega – ætti ekki að vera bundin við íþróttakappleiki. Íslendingar ættu að geta búið við trúverðuga efnahagsstefnu líkt og þekkist annars staðar á Norðurlöndum – ef þeir aðeins fara eftir leikreglunum. Það er því í þessari trú að starfshópur um endurskoðun peningastefnunnar leggur fram tillögur til þess að endurbæta núverandi stefnu.“

Vilja fjölga aðstoðarseðlabankastjórum

Alls eru tillögurnar sem nefndin leggur til, og eiga að endurbæta peningastefnuna, ellefu talsins. Þrjár þeirra snúa að umgjörð varúðartækja og að tryggja aukna samhæfingu milli fjármálastöðugleika og peningastefnunnar. Sú fyrsta er að Seðlabanki Íslands skuli vera einn ábyrgðaraðili fyrir þjóðhagsvarúð og eindarvarúð, og hafa yfirumsjón með greiningu, ákvörðun og beitingu allra þjóðhagsvarúðartækja.

Nefndin var skipuð þegar Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra, eða í mars 2017.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá er lagt til að skipaðir verði tveir aðstoðarseðlabankastjórar sem stafi undir seðlabankastjóra, nokkurs konar forstjóra bankans. Annar þeirra á að starfa á sviði peningamála en hinn á sviði fjármálastöðugleika. Samhliða leggur nefndin til að ytri meðlimum í fjármálastöðugleikanefnd, sem komi í stað fjármálastöðugleikaráðs, verði fjölgað og að hún taki endanlega ákvörðun um beitingu allra þjóðhagsvarúðartækja. Nefndin leggur til að bæði seðlabankastjóri og fjármála- og efnahagsráðherra gegni þar formennsku en að auk þeirra muni annar aðstoðarseðlabankastjóranna – sá sem starfi á sviði fjármálastöðugleika – sitja í nefndinni auk tveggja ytri meðlima, þar sem að minnsta kosti annar hafi „reynslu úr fjármálalífinu“.

Verðbólgumarkmið á að undanskilja húsnæðisverð

Tvær tillögur snúast um endurbætt verðbólgumarkmið til að tryggja að Seðlabankinn beiti stýrivöxtum á áhrifaríkari máta án þess að vegna að fjármálastöðugleika. Sú fyrri snýst u m að breyta samstarfssamningi ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands þannig að viðhald fjármálastöðugleika hafi forgang yfir viðhald verðstöðugleika ef þær aðstæður skapast að ógn skapist gagnvart hinum fyrrnefnda. Í því tilviki skal peningastefnunefnd leyfa verðbólgu umfram markmið til að gefa fjármálastöðugleikanefnd svigrúm til þess að beita þjóðhagsvarúð.

Sú síðar segir að verðbólgumarkmiðið eigi áfram að vera 2,5 prósent að að „sú verðvísitala sem markmiðið nær til skal ekki taka mið af kostnaði vegna eigin húsnæðis. Verðbólgumarkmið skal því undanskilja húsnæðisverð.“ Þetta er m.a. rökstutt með því að ríflega fjórðungur vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu, megi rekja til húsnæðisverðs. Það leiði af sér skammtímasveiflur í verðbólgu sem Seðlabankanum er nú skylt að bregðast við, en þyrfti ekki að gera það ef húsnæðisliðurinn yrði undanskilin í verðbólgumarkmiði hans.

Umferðaljósakerfi og afnám bindiskyldu

Tvær tillögurnar snúa að markvissari beitingu stjórntækja Seðlabankans. Annars vegar er lagt til að Seðlabanki Íslands taki mið af „umferðarljósakerfi nýsjálenska seðlabankans til þess að skapa skýrar leikreglur í kringum ákvarðanatöku og miðlun upplýsinga um gjaldeyrisinngrip. Jafnframt er þörf á skýrri og gagnsærri stýfingarstefnu í tengslum við inngripin. Þá skal bankinn birta mat á jafnvægisraungengi með reglubundnum hætti.“

Síðari tillagan í þessum lið myndi hafa nokkuð afgerandi bein áhrif á stöðu mála í dag. Samkvæmt henni er lagt til að innflæðishöft skuli vera á „forræði fjármálastöðugleikanefndar sem hluti af þjóðhagsvarúð og verði afnumin í skrefum. Þegar til framtíðar er litið gildi skýrar reglur um hvenær þeim sé beitt.“

Lagt er til að Seðlabanki Íslands taki mið af „umferðarljósakerfi nýsjálenska seðlabankans“.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ef þessi tillaga yrði innleidd myndi það þýða að hin sérstöku höft á innflæði fjármagns, sem voru innleidd í júní 2016 til að koma í veg fyrir vaxtamunaviðskipti sem gæti leitt til uppbyggingar kerfislegrar áhættu í þjóðarbúskapnum, líkt og gerðist með myndum „snjóhengjunnar“ svokölluðu eftir bankahrunið, yrðu afnumin. Eins og höftunum er beitt í dag þurfa erlendir fjárfestar að binda 40 prósent þess sem þeir flytja inn til landsins til að kaupa í skráðum skulda­bréf­um, víxl­um út­gefn­um í krón­um auk há­vaxtainn­stæðna, á fjárstreymisreikningum á núll prósent vöxtum í eitt ár.

Veiti faglegt aðhald

Fjórar tillögur snúa að ákvörðunarferli peningastefnunnar. Þar ber fyrst að nefna að Seðlabankinn á að birta stýrivaxtaspáferil í Peningamálum fjórum sinnum á ári. Þannig sé unnt að styrkja markaðsvæntingar og auka gagnsæi í langtíma vaxtastefnu bankans.

Þá er lagt til að auka þurfi ábyrgð og stuðning ytri meðlima í peningastefnunefnd. „Auka skal gagnsæi við ákvörðunartöku með opinberri birtingu atkvæða nefndarmanna við vaxtaákvörðun. Nefndin hugi einnig betur að Delfískri langtímaleiðbeiningu vaxta.“

Einnig er lagt til að Seðlabankinn stuðli að aukinni fræðslu um peningastefnuna og gildi verðbólgumarkmiðs með það að markmiði að auka skilning almennings á þeim möguleikum og takmörkunum sem eru til staðar og stuðla að aukinni sátt um stefnuna.

Síðasta tillaga nefndarinnar snýst svo um að regluleg ytri endurskoðun fari fram á fimm ára fresti á peningastefnu landsins. Það veiti m.a. Seðlabanka Íslands faglegt aðhald.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar