Mynd: Samsett Nefnd um endurskoðun peningastefnu
Mynd: Samsett

Lág verðbólga einungis tryggð með einhverskonar „stéttasátt“

Nefnd um endurskoðun peningastefnu Íslands gengur út frá því að krónan verði áfram gjaldmiðill íslensku þjóðarinnar, leggst gegn myntráði, leggur til víðtækar breytingar á hlutverki Seðlabankans og vill afnema bindiskyldu á mögulega vaxtamunaviðskipti. Alls leggur hún fram ellefu tillögur.

Ísland á ekki að taka upp mynt­ráð, ekki að reka pen­inga­stefnu með stuðn­ingi hafta þótt að fyrir liggi að íslenska krónan verði gjald­mið­ill þjóð­ar­innar í fyr­ir­sjá­an­legri fram­tíð. Verð­bólgu­mark­mið Seðla­banka Íslands á að und­an­skilja hús­næð­is­verð og fjár­mála­stöð­ug­leiki á að hafa for­gang á verð­stöð­ug­leika ef aðstæður koma upp að ógn skap­ist gegn hinum fyrr­nefnda. Þá eiga aðstoð­ar­seðla­banka­stjórar að vera tveir í stað eins og á annar að vera með áherslu á fjár­mála­stöð­ug­leika en hinn með áherslu á hefð­bundna pen­inga­stefnu. Auka þarf ábyrgð Seðla­bank­ans þannig að hann beri einn ábyrgð á þjóð­hags­varúð og enda­varúð í stað þess að ábyrgð­inni sé skipt milli Seðla­bank­ans og Fjár­mála­eft­ir­lits, eins og nú er.

Þetta eru helstu til­lögur sem nefnd um ramma pen­inga­stefnu, einnig þekkt sem starfs­hópur um end­ur­skoðun pen­inga­stefn­unn­ar, leggur til að verði inn­leiddar hér­lend­is. Í nefnd­inni, sem skipuð var í mars í fyrra og skil­aði skýrslu sinni í dag, sátu hag­fræð­ing­arnir Ásgeir Jóns­son, sem var for­maður henn­ar, Ásdís Krist­jáns­dóttir og Ill­ugi Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins.

Til að nokkur pen­inga­stefna gangi upp hér­lendis þurfi hins vegar að stöðva hið svo­kall­aða höfr­unga­hlaup, þar sem nafn­laun hækka langt umfram fram­leiðni, að mati nefnd­ar­innar Nafn­launa­hækk­anir síð­ustu fimm ára hafi verið átta pró­sent á ári en mætti ekki vera meiri en 4-4,5 pró­sent til að jafn­vægi sé gagn­vart verð­bólgu­mark­miði (2,5 pró­sent) og fram­leiðni­vexti (1-2 pró­sent). „Lág verð­bólga á Íslandi verður aðeins tryggð til lang­frama með ein­hvers konar stétta­sátt um launa­á­kvarð­anir – þar sem stöð­ug­leiki á vinnu­mark­aði er und­ir­staða verð­stöð­ug­leika,“ segir í skýrsl­unni.

Krónan áfram gjald­mið­ill­inn

End­ur­skoðun nefnd­ar­innar á pen­inga­stefn­unni gekk út frá þeirri for­sendu að íslenska krónan verði gjald­mið­ill Íslands í nán­ustu fram­tíð og að fjár­magns­hreyf­ingar til og frá land­inu yrði eins frjálsar og kostur væri.

Í skýrslu nefnd­ar­innar seg­ir: „Ef gengið er út frá þeirri for­sendu að krónan verði áfram gjald­mið­ill Íslend­inga í nán­ustu fram­tíð hefur þjóðin í raun aðeins tvo kosti:

  1. Að halda áfram með núver­andi fyr­ir­komu­lag sem felur í sér að fylgja sjálf­stæðri pen­inga­stefnu undir merkjum verð­bólgu­mark­miðs.

  2. Að hætta að reka sjálf­stæða pen­inga­stefnu og festa gengi krón­unnar var­an­lega niður með mynt­ráði sem felur í sér að öll inn­lend seðla­út­gáfa er tryggð með erlendum gjald­eyr­i.“

Nefndin segir að á síð­ustu fjórum til fimm árum hafi náðst mik­ill árangur við að fram­fylgja verð­bólgu­mark­miðum hér­lendis og að sú stefna hafi skilað íslenskum almenn­ingi „gríð­ar­legum ábata“ með mik­illi aukn­ingu kaup­mátt­ar, sam­hliða því að almennt vaxt­ar­stig hafi lækk­að. Nefndin leggur mikla áherslu á það í skýrslu sinni að þessum árangri verði fylgt eft­ir.

Telja mynt­ráð ekki góða hug­mynd

Upp­taka mynt­ráð fel­ur, að mati nefnd­ar­inn­ar, í sér var­an­lega geng­is­fest­ingu og hafi þannig sömu kosti og galla og aðild að mynt­banda­lagi. Hins vegar sé einn meg­in­munur til stað­ar: „Við inn­göngu Íslands í mynt­banda­lag Evr­ópu myndi Seðla­banki Íslands áfram starfa sem útibú frá hinum evr­ópska seðla­banka. Sem slíkt útibú gæti hann ekki lengur ákvarðað sér­staka pen­inga­stefnu fyrir Ísland en gæti áfram þjónað sem lán­veit­andi til þrauta­vara fyrir íslenskt fjár­mála­kerfi. Í mynt­ráði getur Seðla­bank­inn ekki sinnt þessu hlut­verki sam­hliða því að tryggja fjár­mála­stöð­ug­leika.

Það hefur lengi verið við­ur­kennd stað­reynd að banka­kerfi án lán­veit­anda til þrauta­vara eru í grund­vall­ar­at­riðum óstöðug og geta fallið saman í áhlaupi. Aðlög­un­ar­ferli mynt­ráðs krefst þess að vextir þró­ist á frjálsum mark­aði eftir fram­boði og eft­ir­spurn eftir lausa­fé. Það hlýtur að setja gríð­ar­legan þrýst­ing á fjár­mála­kerfið sem verður að geta þolað lausa­fjár­þurrð og vaxta­toppa án þess að tapa trú­verð­ug­leika sínum inn­an­lands sem utan. Að mati starfs­hóps­ins er það eitt og sér gríð­ar­lega erfitt að tryggja efna­hags­legan stöð­ug­leika undir mynt­ráði sem getur aðeins gerst með miklum kerf­is­breyt­ingum hér inn­an­lands, svo sem á vinnu­mark­að­i.“

Jafn­framt er það mat starfs­hóps­ins að upp­taka mynt­ráðs skapi óásætt­an­lega áhættu fyrir fjár­mála­stöð­ug­leika þar sem íslenskar fjár­mála­stofn­anir standi eftir án lán­veit­anda til þrauta­vara. Af þessum ástæðum telur starfs­hóp­ur­inn sig ekki geta mælt með þeim kosti fyrir Ísland að taka upp mynt­ráð við núver­andi aðstæð­ur.

Það sé hægt ef við förum ein­fald­lega eftir leik­regl­unum sem settar eru. Eða eins og segir í skýrslu nefnd­ar­inn­ar: „Sú trú að Íslend­ingar geti staðið jafn­fætis öðrum þjóðum – ef þeir aðeins taka leik­inn nógu alvar­lega – ætti ekki að vera bundin við íþrótta­kapp­leiki. Íslend­ingar ættu að geta búið við trú­verð­uga efna­hags­stefnu líkt og þekk­ist ann­ars staðar á Norð­ur­löndum – ef þeir aðeins fara eftir leik­regl­un­um. Það er því í þess­ari trú að starfs­hópur um end­ur­skoðun pen­inga­stefn­unnar leggur fram til­lögur til þess að end­ur­bæta núver­andi stefn­u.“

Vilja fjölga aðstoð­ar­seðla­banka­stjórum

Alls eru til­lög­urnar sem nefndin leggur til, og eiga að end­ur­bæta pen­inga­stefn­una, ell­efu tals­ins. Þrjár þeirra snúa að umgjörð var­úð­ar­tækja og að tryggja aukna sam­hæf­ingu milli fjár­mála­stöð­ug­leika og pen­inga­stefn­unn­ar. Sú fyrsta er að Seðla­banki Íslands skuli vera einn ábyrgð­ar­að­ili fyrir þjóð­hags­varúð og eind­ar­var­úð, og hafa yfir­um­sjón með grein­ingu, ákvörðun og beit­ingu allra þjóð­hags­var­úð­ar­tækja.

Nefndin var skipuð þegar Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra, eða í mars 2017.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá er lagt til að skip­aðir verði tveir aðstoð­ar­seðla­banka­stjórar sem stafi undir seðla­banka­stjóra, nokk­urs konar for­stjóra bank­ans. Annar þeirra á að starfa á sviði pen­inga­mála en hinn á sviði fjár­mála­stöð­ug­leika. Sam­hliða leggur nefndin til að ytri með­limum í fjár­mála­stöð­ug­leika­nefnd, sem komi í stað fjár­mála­stöð­ug­leika­ráðs, verði fjölgað og að hún taki end­an­lega ákvörðun um beit­ingu allra þjóð­hags­var­úð­ar­tækja. Nefndin leggur til að bæði seðla­banka­stjóri og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra gegni þar for­mennsku en að auk þeirra muni annar aðstoð­ar­seðla­banka­stjór­anna – sá sem starfi á sviði fjár­mála­stöð­ug­leika – sitja í nefnd­inni auk tveggja ytri með­lima, þar sem að minnsta kosti annar hafi „reynslu úr fjár­mála­líf­in­u“.

Verð­bólgu­mark­mið á að und­an­skilja hús­næð­is­verð

Tvær til­lögur snú­ast um end­ur­bætt verð­bólgu­mark­mið til að tryggja að Seðla­bank­inn beiti stýri­vöxtum á áhrifa­rík­ari máta án þess að vegna að fjár­mála­stöð­ug­leika. Sú fyrri snýst u m að breyta sam­starfs­samn­ingi rík­is­stjórnar og Seðla­banka Íslands þannig að við­hald fjár­mála­stöð­ug­leika hafi for­gang yfir við­hald verð­stöð­ug­leika ef þær aðstæður skap­ast að ógn skap­ist gagn­vart hinum fyrr­nefnda. Í því til­viki skal pen­inga­stefnu­nefnd leyfa verð­bólgu umfram mark­mið til að gefa fjár­mála­stöð­ug­leika­nefnd svig­rúm til þess að beita þjóð­hags­var­úð.

Sú síðar segir að verð­bólgu­mark­miðið eigi áfram að vera 2,5 pró­sent að að „sú verð­vísi­tala sem mark­miðið nær til skal ekki taka mið af kostn­aði vegna eigin hús­næð­is. Verð­bólgu­mark­mið skal því und­an­skilja hús­næð­is­verð.“ Þetta er m.a. rök­stutt með því að ríf­lega fjórð­ungur vísi­tölu neyslu­verðs, sem mælir verð­bólgu, megi rekja til hús­næð­is­verðs. Það leiði af sér skamm­tíma­sveiflur í verð­bólgu sem Seðla­bank­anum er nú skylt að bregð­ast við, en þyrfti ekki að gera það ef hús­næð­islið­ur­inn yrði und­an­skilin í verð­bólgu­mark­miði hans.

Umferða­ljósa­kerfi og afnám bindi­skyldu

Tvær til­lög­urnar snúa að mark­viss­ari beit­ingu stjórn­tækja Seðla­bank­ans. Ann­ars vegar er lagt til að Seðla­banki Íslands taki mið af „um­ferð­ar­ljósa­kerfi nýsjá­lenska seðla­bank­ans til þess að skapa skýrar leik­reglur í kringum ákvarð­ana­töku og miðlun upp­lýs­inga um gjald­eyr­is­inn­grip. Jafn­framt er þörf á skýrri og gagn­særri stýf­ing­ar­stefnu í tengslum við inn­grip­in. Þá skal bank­inn birta mat á jafn­væg­is­raun­gengi með reglu­bundnum hætt­i.“

Síð­ari til­lagan í þessum lið myndi hafa nokkuð afger­andi bein áhrif á stöðu mála í dag. Sam­kvæmt henni er lagt til að inn­flæð­is­höft skuli vera á „for­ræði fjár­mála­stöð­ug­leika­nefndar sem hluti af þjóð­hags­varúð og verði afnumin í skref­um. Þegar til fram­tíðar er litið gildi skýrar reglur um hvenær þeim sé beitt.“

Lagt er til að Seðlabanki Íslands taki mið af „umferðarljósakerfi nýsjálenska seðlabankans“.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ef þessi til­laga yrði inn­leidd myndi það þýða að hin sér­stöku höft á inn­flæði fjár­magns, sem voru inn­leidd í júní 2016 til að koma í veg fyrir vaxta­muna­við­skipti sem gæti leitt til upp­bygg­ingar kerf­is­legrar áhættu í þjóð­ar­bú­skapn­um, líkt og gerð­ist með myndum „snjó­hengj­unn­ar“ svoköll­uðu eftir banka­hrun­ið, yrðu afnum­in. Eins og höft­unum er beitt í dag þurfa erlendir fjár­festar að binda 40 pró­sent þess sem þeir flytja inn til lands­ins til að kaupa í skráðum skulda­bréf­um, víxl­um út­­gefn­um í krón­um auk há­­vaxta­inn­­stæðna, á fjár­streym­is­reikn­ingum á núll pró­sent vöxtum í eitt ár.

Veiti fag­legt aðhald

Fjórar til­lögur snúa að ákvörð­un­ar­ferli pen­inga­stefn­unn­ar. Þar ber fyrst að nefna að Seðla­bank­inn á að birta stýri­vaxta­spá­feril í Pen­inga­málum fjórum sinnum á ári. Þannig sé unnt að styrkja mark­aðsvænt­ingar og auka gagn­sæi í lang­tíma vaxta­stefnu bank­ans.

Þá er lagt til að auka þurfi ábyrgð og stuðn­ing ytri með­lima í pen­inga­stefnu­nefnd. „Auka skal gagn­sæi við ákvörð­un­ar­töku með opin­berri birt­ingu atkvæða nefnd­ar­manna við vaxta­á­kvörð­un. Nefndin hugi einnig betur að Delfískri lang­tíma­leið­bein­ingu vaxta.“

Einnig er lagt til að Seðla­bank­inn stuðli að auk­inni fræðslu um pen­inga­stefn­una og gildi verð­bólgu­mark­miðs með það að mark­miði að auka skiln­ing almenn­ings á þeim mögu­leikum og tak­mörk­unum sem eru til staðar og stuðla að auk­inni sátt um stefn­una.

Síð­asta til­laga nefnd­ar­innar snýst svo um að reglu­leg ytri end­ur­skoðun fari fram á fimm ára fresti á pen­inga­stefnu lands­ins. Það veiti m.a. Seðla­banka Íslands fag­legt aðhald.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar