Af hverju er himininn blár?
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata ræðir af hverju hann hefur lagt fram meira en 100 fyrirspurnir á nýliðnu þingi, hvernig hann með þrautseigju og ítrekuðum spurningum kom upp um misnotkun á akstursgreiðslum til þingmanna sem nú hafa verið settar skýrari reglur um og hvað drífur hann áfram í störfum sínum á Alþingi.
Á vef Alþingis má finna 101 fyrirspurn frá þingmanninum Birni Leví Gunnarssyni sem er langtum meira en frá nokkrum öðrum kollega hans á nýliðnum þingvetri.
Þingmaðurinn hefur stundum hlotið bágt fyrir þessa spurningagleði sína, einhverjir hafa kallað þær gagnslausar fyrirspurnirnar og fjöldi þeirra kominn út í tóma þvælu, en Björn segir í samtali við Kjarnann að hann sé til í umræðu um innihald þeirra og tilgang hvenær sem er. Helst var hann til dæmis gagnrýndur fyrir að spyrja um nafn höfuðborgar Íslands og minna spurningar hans svolítið á spurningar hins átta ára trítils Ara, hvers spurningum fullorðna fólkið átti svo erfitt með að svara.
Á nýliðnum þingvetri má segja að allt hafi farið í bál og brand þegar Björn fékk loks skýrari svör en áður, eftir margar tilraunir, við fyrirspurnum sínum við aksturskostnað þingmanna. Í kjölfarið má segja að orðið hafi bylting á upplýsingagjöf þingsins á hvers kyns greiðslum til þingmanna og þeim reglum sem um þær gilda og sér ekki fyrir endann á því.
Kjarninn tók Björn tali um hvað sé málið með allar þessar fyrirspurnir, hvaða tilgangi þær þjóna og hvað það er sem drífur hann áfram í störfum hans á þinginu.
Björn byrjar á því að taka það fram að þær séu nú ekki alveg svona margar fyrirspurnirnar, þó hann skammist sín alls ekki fyrir að vera þingmanna duglegastur að spyrja. Og það er að vissu leyti rétt. Sumar fyrirspurnirnar eru hinar sömu, en beint til hvers og eins ráðherra og verða þannig langtum fleiri. Einhverjar hafa verið slitnar í sundur eða dregnar til baka eftir atvikum, en það er óumdeilt að fyrirspurnir Björns Leví eru mjög margar.
„Það kom mér eiginlega á óvart hversu margar fyrirspurnir þetta urðu. Ég var bara að vinna þetta jafnóðum og eftir því sem tilefni komu upp. Ef það kom tilefni til fyrirspurnar, eitthvað sem vantaði þá bara bjó ég til fyrirspurn. Svo bara söfnuðust þær upp.“
Þú hefur verið gagnrýndur fyrir þetta magn fyrirspurna. Hvernig svararðu þeirri gagnrýni?
„Ég er til í umræðu um innihald fyrirspurnanna hvenær sem er. Það hefur kannski helst verið bent á fyrirspurn um hvað höfuðborgin heitir, sem var fyrirspurn sem var skipt upp í tvennt og missti þannig samhengið. En það kom út úr þeirri fyrirspurn að fæðingarstaður barna er rangt skráður hjá Þjóðskrá. Þannig að mér finnst það ekkert rosalega gagnslaus fyrirspurn að fá það fram. Það er tengt ákveðnum vandamálum hjá Þjóðskrá varðandi hvernig sveitarfélög eru skráð, fyrirtæki úti um allt þurfa að fara í sérstaka forritun til þess að bæta við og gera skráninguna rétta, í stað þess að fá upplýsingarnar réttar frá Þjóðskrá. En eins og ég segi, ég er alltaf til í umræðu um efnið, og ef að það er eitthvað sem er gangslaust, þá bara tek ég það á mig. Ég fékk hugmyndir um fullt af fleiri fyrirspurnum sem að gerðust síðan ekki, bara af því að það var hægt að fá upplýsingar um það í gegnum aðrar leiðir, í gegnum nefndarstörfin eða í gegnum upplýsingasvið Alþingis, þannig að það er ekki allt sem að ratar í þetta formlega ferli.“
Björn segir að ef hann telur þörf fyrir almenning að fá einhverjar upplýsingar þá leggi hann fram formlega fyrirspurn.
„Þegar maður gerir þinglega fyrirspurn sem að fer í þetta ferli, til ráðherra og er birt hjá þinginu, þá eru það upplýsingar sem ég tel að almenningur ætti að vita. Þegar ég bið um eitthvað í gegnum nefndir eða upplýsingasvið þá er það til frekari úrvinnslu fyrir mig eða þingflokkinn sem að getur endað í frumvarpi eða fyrirspurn til ráðherra sem síðan endar í svari og upplýsingum fyrir almenning. Það er þannig sem maður reynir allavega að hugsa ferlið. En maður veit náttúrulega oft ekki hvaða svör maður fær fyrr en maður spyr og oft eru svörin ekkert endilega eitthvað sem er gagnlegt fyrir almenning. Alvöru svörin við spurningunum gætu hins vegar verið það, nákvæmari svör. Maður fær rosalega oft svona „deflect“ eða „ekki svar“. “
Aðspurður um hvort hann velti fyrir sér tímanum sem taki ráðuneytin að svara fyrirspurnum hans eða kostnaði við að veita þessi svör segir Björn að það komi að sjálfsögðu til álita en sé ekki aðalatriðið.
„Þetta fer bara inn í ferlið og hagsmunamatið um það hvort þetta séu upplýsingar sem gagnast almenningi. Það eru ákveðin verðmæti í því. Ég get fabulerað um það að til dæmis spurningar um aksturskostnaðinn geri það að verkum að það kemur beinn sparnaður út úr því. Ekki bara þann tíma sem ég er á þingi heldur næstu hundrað, tvö hundruð árin eða hvernig sem það verður. Bara það á eftir að borga upp allan tíma og kostnað við allar fyrirspurnir frá mér. Og það er lögbundið hlutverk ráðuneyta að svara og veita upplýsingar.“
Að meðaltali gerir þessi 101 fyrirspurn frá Birni 1,3 fyrirspurnir á hvert ráðuneyti í mánuði. Það er ekki sérlega mikið, þó það megi gefa sér að sum ráðuneytin fái eðli málsins samkvæmt fleiri spurningar en önnur og þingmenn sem geta lagt fram fyrirspurnir eru tæplega sextíu ef ráðherrar teljast ekki með. Björn spyr, í ljósi þessa lögbundna hlutverks, hvað sé eðlilegt álag við svörun fyrirspurna á hvert ráðuneyti. Hver sé eðlilegur fjöldi á mánuði.
„Hvað væri eðlilegur fjöldi á mánuði? 10 fyrirspurnir? Mér myndi ekki finnast það neitt rosalega mikið fyrir ráðuneyti að glíma við. Frekar lítið eiginlega. Þau eru náttúrulega að gera ýmislegt annað, en mér fyndist í rauninni óeðlilegt að kvarta yfir því ef þær eru 10 eða færri.“
Ég get fabulerað um það að til dæmis spurningar um aksturskostnaðinn geri það að verkum að það kemur beinn sparnaður út úr því. Ekki bara þann tíma sem ég er á þingi heldur næstu hundrað, tvö hundruð árin eða hvernig sem það verður. Bara það á eftir að borga upp allan tíma og kostnað við allar fyrirspurnir frá mér.
Talið beinist að aksturskostnaðinum og hvers vegna hann ákvað að byrja að spyrja út í þessar greiðslur og hvers vegna hann þrjóskaðist við þegar hann fær ekki svörin sem hann vonaðist eftir.
„Þetta byrjar held ég 2009 - 2013 kjörtímabilið, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagðist afþakka greiðslur fyrir húsnæðiskostnað fyrir að vera landsbyggðarþingmaður, þegar hann flutti lögheimilið sitt norður í land. Ég hugsaði þá bara, heyrðu það er frábært. En af hverju þarf ég að treysta honum hvað það varðar? Af hverju sé ég það ekki bara einhvers staðar í starfskostnaðartölum? Þannig að þegar ég kem síðan á þing, og hafði þá verið svolítið að klóra mér í kollinum yfir þessu, þá kemst ég að því að ég get spurt um þetta. Ég læri hvernig þetta virkar aðeins betur, ég get spurt um þingmenn, sem að maður hafði ekki séð gerast áður. Það hafði enginn þingmaður spurt um þetta á þinginu, þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi spurt um þetta bara í þónokkuð mörg ár, þá þurfti ekki nema einn þingmann til að spyrja um þetta.“
Björn segist einfaldlega ekki hafa viljað treysta Sigmundi, og stjórnmálamönnum almennt fyrir svona löguðu, heldur vildi hann að þetta væru einfaldlega bara aðgengilegar upplýsingar.
„Þetta sem sagt byrjaði þarna. Ég vildi fá að vita þetta með Sigmund, og þá honum til hróss, ef að hann raunverulega var að afþakka þessar greiðslur. Í því ferli að fá svör við því þá kom þessi risa stóra tala bara upp úr dúrnum um heildaraksturskostnað samkvæmt akstursdagbók. Þá fór ég að fá ábendingar frá fólki sem taldi sig vita af hverju þetta var svona hár kostnaður. Að það væru ýmsir þingmenn, þá sérstaklega Ásmundur Friðriksson, að koma við í kaffi hér og þar óumbeðnir, það er mæta bara í kaffi og skrifa það á starfskostnað. Að mæta í kaffi og kleinur að spjalla um heima og geima. Ekki sem sagt boðuð koma og ekki umbeðin koma. Ekki formlegir fundir eins og kveðið er á um í reglunum um þetta.“
Við tók nokkuð flókið ferli með óskýrum svörum. Björn gat ekki fengið upplýsingar um akstursgreiðslurnar eftir þingmönnum vegna persónuverndarsjónarmiða. Þá bað hann um það skipt niður eftir kjördæmum. Og bað bara um upphæðir, ekki nöfn þingmannanna. Að lokum fékk hann svar frá forseta þingsins með upphæðum þeirra 10 þingmanna sem þiggja hæstu akstursendurgreiðslurnar frá þinginu.
„Þá kemur í ljós hver röðunin er og maður fór að fylla aðeins inn í eyðurnar og einhverjir sögðu „þetta er ég“ og svo framvegis. Smám saman fylltist upp í þennan lista. Og í kjölfarið er ákveðið að bara birta þennan starfskostnað yfirleitt á vefsíðu þingsins. Bara í heildina en ekki flokkað niður á mánuði svo það þarf að vinna aðeins meira í því.“
Björn bætir því við að hann hafi síðan loksins fengið svar við upphaflegu vangaveltum sínum hvað þetta varðar.„Við fengum að lokum að sjá greiðslurnar flokkaðar niður á húsnæðiskostnað og þá sá maður að Sigmundur Davíð einmitt afþakkaði ekki húsnæðisgreiðslurnar. Þannig að upphaflega pælingin með þessu öllu skilaði sér að lokum.“
Og þessu ferðalagi hans um greiðslur til þingmanna er ekki lokið.
„Maður sá líka dagpeninga og greiðslur til ráðherra, spurningar um þær spruttu upp úr þessu líka af því að reglurnar voru eins og þær voru. Maður sér að forseti þingsins kemur stundum að morgni til á þingbifreið, það er spurning sem hann er ekki búinn að svara til dæmis, hvernig þau eru hlunnindi reiknuð. Og það hefur líka komið út úr þessari hlunninda spurningu, fyrir þá sem að eru með bíla, hvernig eru reiknuð hlunnindi fyrir þá. Það er alveg vitað fólk snattast aðeins á bílunum, í búðina á leiðinni heim og þann akstur, þá kílómetra á að skrá en það er ekki gert.“
Af hverju finnst þér svona mikilvægt að þetta liggi allt fyrir?
„Við erum að díla við mjög mikið vantraust á stjórnmál. Ein af lausnunum við því er að sýna að við höfum ekkert að fela. Það myndast svo margar gróusögur þegar það er svona mikið vantraust á stjórnmálin. Það sem maður gerir þegar maður sér þá gróusögu er að fá gögnin til að sýna fram á það að annað hvort er gróusagan rétt og þá býr maður í rauninni til ákveðið traust með því að viðurkenna það sem er í gangi og þá kannski eftir atvikum einhver mistök eða þá að maður staðfestir að þetta er gróusaga og sýnir að fólk er í alvöru að starfa þarna af heilindum. Það er svona grunnhugmyndin á bak við þessar fyrirspurnir hjá mér.“
Björn segir annar tilgang sinn með öllum spurningum sínum vera að sýna fram á fáránleika þess að mikið af þessum upplýsingum liggi ekki fyrir.
„Með því að spyrja um þetta þá er ég að benda á að þetta er eitthvað sem ætti að vera aðgengilegt. Mikið af þessum upplýsingum, frá mínum bæjardyrum séð, með tölvunarfræðibakgrunn, eru einfaldar gagnagrunnsuppflettingar. En það bendir allt til þess, miðað við hversu mikið er kvartað yfir því hversu mikil vinna það er að safna þessum upplýsingum saman, að upplýsingaskráningin sé rosalega léleg. Með því að spyrja til dæmis um leigukostnað ríkisstofnana, það eru upplýsingar sem ég myndi vilja að væru aðgengilegar, almennt séð væri það mjög hjálplegt fyrir hið opinbera og fjárlaganefnd og fleiri að geta fylgst með jafnóðum. Þá myndi maður vonast til þess að þegar verið er að safna saman upplýsingunum að þá væri í leiðinni nýtt tækifærið til þess að búa til kerfi til þess að nálgast þessar upplýsingar ef þess þyrfti. Ég er viss um að það er ekki gert en kannski, með því að koma aftur og aftur, inn á þessa aðferðarfærði, að gera upplýsingaskráningunna gagnagrunns- eða gagnamiðaðri, þá er í fyrsta lagi hægt að svara spurningum fljótt og fyrir lítinn pening og í öðru lagi bara að gefa út þessi gögn án þess að hafa nokkurn millilið í því.“
Aðspurður um viðhorf stjórnvalda, bæði stjórnsýslunnar og stjórnmálanna, til gagnsæis og betri aðgang að gögnum, segir Björn að það sé mjög mismunandi.
„Ég hef unnið innan stjórnsýslunnar og hún hreyfist ekkert rosalega hratt. Það er ekkert endilega mikill tími fyrir fólk til þess að pæla í þessu og læra nýja hluti hvað þetta varðar. Tölvulæsið er ekkert gríðarlegt og það eru allt öðruvísi starfsvenjur. Við erum orðin dálítið eftirá hvað þetta varðar. En fólk skilur þetta samt mjög vel, þetta er eitthvað sem þau vilja fara í áttina að. En ég held að skilningurinn á því hvernig og hversu mikið það kostar til að byrja með sé fólki dálítið ofviða. Og síðan er það hin hliðin á peningnum, þetta er líka nýtt sem ákveðið stjórntæki. Að halda upplýsingum frá fólki. Það er ekkert langt síðan gagnagrunnar Seðlabankans voru búnir til. Áður fyrr var þetta bara ofan í skúffum inni á hverri skrifstofu, og hver og einn sérfræðingur átti sín gögn. Það þurfti bókstaflega að brjótast inn á skrifstofurnar til að ná í gögnin ef það þurfti að komast í þau í sumarleyfum eða eitthvað þvíumlíkt. Nú erum við komin með gagnagrunnana en þeir eru lokaðir. Næsta togstreita er að stofnanir sleppi höndunum af þessum grunngögnum. Alveg eins og það var togstreita að toga þau fyrst frá sérfræðingunum er það togstreita núna að toga þau frá stofnununum. Samt sjá allir hversu miklu betri vinnan er eftir að gögnin náðust út úr skrifstofunum. Samt er þessi togstreita að vilja ekki missa þau síðan frá stofnuninni.“
Björn segir pólitísku andstöðuna sýnilegri, en líka lúmska.
„Við höfum til dæmis séð fjármálaráðherra koma upp í pontu og gagnrýna fjölda fyrirspurna. En opinberlega sér maður enga togstreitu hvað þetta varðar. Það eru til dæmis allir og amma þeirra farnir að tala um gagnsæi, í öllum flokkum. Sá slagur er í rauninni dálítið unninn en það að framkvæma gagnsæið er dálítið erfiðara. Þó að viðhorfið sé orðið það að gagnsæi sé nauðsynlegt, þá er það náttúrulega hvað og hvernig sem er eftir, sem er ekkert rosalega auðvelt úrlausnar. Það er svo rosalega auðvelt að segjast vilja meira gangsæi, það er miklu erfiðara að framkvæma það. Sérstaklega þegar að starfsþekkingin innan stjórnkerfisins er ekki mikið með þessa þekkingu sem til þarf.“
Ég var búinn að kjósa nánast alla flokka og allir höfðu þeir valdið vonbrigðum.
Hvernig kemur það til að þessi tölvunarfræðingur ákveður að helga sig stjórnmálunum?
„Ég hafði ekki fundið mig í neinum stjórnmálaflokki fyrir 2013. Ég var búinn að kjósa nánast alla flokka og allir höfðu þeir valdið vonbrigðum. Ég var sem sagt í framhaldsnámi í Brandeis University og var að kenna, var aðstoðarkennari í námskeiði sem hét „Internet and society“ eða internetið og samfélagið. Þetta var svona hönnunarnámskeið eða kannski meira notendahönnunarnámskeið. Aðferðarfræði um það hvernig maður leysir notendavandamál. Maður sér þegar maður fer í gegnum þau ferli hversu lýðræðisleg þau eru. Maður getur notað þessar sömu aðferðir til þess að gera lýðræðið betra. Námskeiðið sýndi manni mikið hvernig samfélagið hefur breyst með tilkomu internetsins. Hvaða möguleikar eru til staðar til lýðræðisumbóta útaf þessu samskiptatæki. Maður líkir því við þegar prentvélin kom. Magn upplýsinga sem varð til, dreifing upplýsinga og hver ný samskiptatækni síðan þá hefur alltaf breytt samfélaginu, alltaf til hins betra þó að breytingin sé oft erfið. Og maður var einhvern veginn tilbúinn til þess að nota þessa hugmynd í lýðræðinu í rauninni. Ég hafði svo sem alltaf áhuga á því, af því mér fannst þetta svo augljóst. Svona kerfisgreiningar hlutinn í mér alveg uppveðrast að fá að koma svona í gang.“
Síðan kemur að kosningunum árið 2013.
„Þá poppaði upp Pírataflokkurinn. Ég kannaðist við Smára og Helga frá eldri tíð og vissi því alveg hvers konar alvara var þar að baki. Þetta var ekkert upp á punt. Þannig að ég bauðst til að vera einhvers staðar á lista, ég var náttúrulega í Bandaríkjunum. Fáir höfðu hitt mig aðrir en þeir Helgi og Smári. Svo bara enda ég í öðru sæti á eftir Birgittu í Suðvestur. Sem var mjög fyndið, fæstir þekktu mig hvað þá að fólk hefði yfir höfuð hitt mig. Ég bara datt inn í þetta, tók þessari niðurstöðu sem vísbendingu. Gerði mikið af því í kosningunum 2013, þar sem ég gat ekki verið með í safna undirskriftum, þar sem ég var ekki á staðnum, að svara öllum spurningum frá fjölmiðlum. Dældi því út. Fólk tók því greinilega vel. Í framhaldinu ákváðum við að fara heim, konan mín kláraði sitt doktorsnám og sonurinn var að byrja í grunnskóla. Og það var búið að grípa mig að ná að koma þessari hugmyndafræði á framfæri. Svona endaði ég í þessari gerðveiki.“
Hver eru markmið þessa spurningaglaða þingmanns í starfi sínu?
„Að kynna gagnsæið og lýðræðismöguleikana betur en líka að einhvern veginn að sýna hvernig stjórnmál geta verið. Af því að mér hefur alltaf fundist eins og fólk segi eitt og geri síðan annað þegar það er komið á þing. Ég skil ekki af hverju og ég skil það ekki ennþá. En ég er farinn að fatta betur kerfið á bak við sem að leiðir til þess. Fólk er þarna af heilindum, langflestir, og í rauninni allir, að minnsta kosti af sínum eigin heilindum. En það kemur sér í aðstæður þar sem að þeirra sannfæringar fær ekki að verða ofan á og það er flokksaginn sem að verður ofan á. Kjarnavandamálið í íslenskum stjórnmálum.“