Olíuverð hækkar og hefur áhrif á nánast allt á Íslandi
Efnahagur Íslands er hluti af alþjóðavæddum heimi viðskipta, þar sem olía er áhrifamesta hrávaran. Eftir mikið góðæri undanfarin ár gæti hröð verðhækkun á olíu vakið verðbólgudrauginn. Hræring í stjórnmálum – ekki síst stefnubreyting Donald Trump – hefur áhrif hér á landi.
Maður er nefndur John Bolton. Hann er 69 ára gamall og starfar nú sem þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Hann hefur lengi tilheyrt þeim armi Repúblikanaflokksins sem sér ekki ávinning í því fyrir Bandaríkin að tilheyra Sameinuðu þjóðunum og vill heldur ekki að Bandaríkin taki þátt í alþjóðlegum samningum, sem með einhverjum hætti fela í sér að mögulega fái Bandaríkin ekki nákvæmlega það sem þau vilja út úr þeim.
Meðal helstu stefnumála hans í gegnum tíðina - sem nú er orðið að mikilvægu atriði í utanríkisstefnu Donalds Trump - er að einangra Íran og í versta falli beita landið hervaldi til að tryggja betur bandaríska hagsmuni.
Þetta kann að hljóma frekar berort, og kannski einfalt, fyrir einhverjum, en þetta hefur verið hinn opinberi boðskapur Bolton lengi. Hann vill að Bandaríkin beiti sér beint, til að tryggja pólitíska og efnahagslega hagsmuni, og þar er olían í miðausturlöndum í forgrunni.
Eftir að Trump beitti sér fyrir því að samkomulagið sem gert var í tíð Baracks Obama, sem aflétti viðskiptaþvingunum af Íran í skiptum fyrir það að stjórnvöld þar í landi létu af þróun kjarnorkuvopna, yrði gert að engu, þá hefur staðan í olíuhagkerfi heimsins breyst mikið.
Olía frá Íran kemst lítið sem ekkert á heimsmarkað sem dregur úr framboði.
Þvinganir breyta stöðunni
Ein afleiðing viðskiptaþvingana Bandaríkjanna - og fleiri ríkja - gagnvart Íran er því hækkun olíuverðsins á heimsmarkaðsverði. Þrátt fyrir það er Donald Trump Bandaríkjaforseti æfur yfir stöðunni og greindi AFP fréttastofan frá því í vikunni að hann hefði rætt við Salman kónung í Sádí-Arabíu um að OPEC olíuframleiðsluríkin þyrftu að auka framleiðslu til að vinna gegn verðhækkunum á olíu. Verðhækkanir á olíu eru óvinsælar í Bandaríkjunum enda koma þær beint við rekstur hins dæmigerða heimilis.
Eftir að Trump beitti sér fyrir því að samkomulagið sem gert var í tíð Baracks Obama, sem aflétti viðskiptaþvingunum af Íran í skiptum fyrir það að stjórnvöld þar í landi létu af þróun kjarnorkuvopna, yrði gert að engu, þá hefur staðan í olíuhagkerfi heimsins breyst mikið.
Olía frá Íran kemst lítið sem ekkert á heimsmarkað sem dregur úr framboði.
Þvinganir breyta stöðunni
Ein afleiðing viðskiptaþvingana Bandaríkjanna - og fleiri ríkja - gagnvart Íran er því hækkun olíuverðsins á heimsmarkaðsverði. Þrátt fyrir það er Donald Trump Bandaríkjaforseti æfur yfir stöðunni og greindi AFP fréttastofan frá því í vikunni að hann hefði rætt við Salman kónung í Sádí-Arabíu um að OPEC olíuframleiðsluríkin þyrftu að auka framleiðslu til að vinna gegn verðhækkunum á olíu. Verðhækkanir á olíu eru óvinsælar í Bandaríkjunum enda koma þær beint við rekstur hins dæmigerða heimilis.
Þá ýta þær einnig undir verðbólguþrýsting, sem svo hraðar vaxtahækkunum Seðlabanka Bandaríkjanna, en Trump hefur einnig gagnrýnt þær harðlega. Pólitískt eru því miklar og hraðar verðhækkanir olíu ekki góðar fyrir Trump, sérstaklega núna þegar hann er með vindinn í fangið á mörgum vígstöðvum, og kosningar (Midterm Election) framundan í nóvember, þegar kjörtímabil hans er tæplega hálfnað.
Olíusveiflan kemur til Íslands
Á undanförnum fjórum mánuðum hefur verð á heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkað um 45 prósent og er nú komið í um 86 Bandaríkjadali á tunnuna.
Það er mikil breyting á skömmum tíma. Þróunin hefur mikil áhrif á marga geira hérlendis, eins og sjávarútveg og flutningafyrirtæki, sem þurfa að kaupa mikið magn af eldsneyti til að halda starfsemi sinni gangandi. Og aukin kostnaður við flutninga á vöru leiðir eðlilega til hærra vöruverðs fyrir neytendur. Áhrif hækkunar á verði olíu eru því víðtæk.
Utanaðkomandi þættir – og aðallega olía – toguðu á móti
Verðbólga hefur verið sögulega lág í ótrúlega langan tíma hérlendis árum saman og verið meira og minna undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í febrúar 2014. Síðustu mánuði hefur verðbólgan þó skriðið aðeins yfir markmiðið og mælist nú 2,7 prósent. Til að setja þetta ástand í samhengi þá má minna á að mesta verðbólga á fullveldistímanum, sem mældist árið 1983, var 85,7 prósent. Fyrir tíu árum, í kjölfar bankahrunsins, fór hún yfir 18 prósent.
Það hefur því óneitanlega vakið athygli, víðar en á Íslandi, að verðbólgan hafi haldist svona lág á undanförnum árum þrátt fyrir gríðarlegan hagvöxt árlega frá 2011, miklar launahækkanir vegna kjarasamninga sem gerðir voru árið 2015 og útgreiðslu 72,2 milljarða króna til hluta heimila landsins vegna „Leiðréttingarinnar“. Allir þessi þættir eru enda þess eðlis að þeir ættu að geta verið verðbólguvaldandi.Það má segja að allir utanaðkomandi þættir, sem við höfum lítil eða engin áhrif á hvernig þróast, hafi fallið með Íslendingum á sama tíma og þessi þróun átti sér stað. Þættir sem toga á móti verðbólguvaldandi ákvörðunum. Þar ber að nefna lága alþjóðlega verðbólgu, mikla styrkingu krónunnar og síðast, en sannarlega ekki síst, lágt olíuverð á heimsmarkaðsverði. Þessi staða var teiknuð ansi skýrt upp af Þórarni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi Seðlabanka Íslands, á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í desember 2015. Þar sagði Þórarinn óttaðist að það myndi draga úr þeirri miklu verðlækkun sem orðið hafði á olíu mánuðina á undan og „þótt ekki væri annað en að þetta fari að hætta að lækka, þá dragist tjöldin frá og við sitjum uppi með þennan vaxandi innlenda verðbólguþrýsting. Fari þetta í fyrra horf þá myndi það gerast ennþá hraðar. Þetta er í mínum huga nokkur áhættuþáttur.“
Sú hækkun kom ekki og um mitt ár 2017 var heimsmarkaðsverð á olíu enn á svipuðum stað og það var í desember 2015. Íslendingar höfðu sloppið með skrekkinn og verðbólgudraugurinn steinsvaf af sér mesta uppgangstíma eftirhrunsáranna, þökk sé því lága olíuverði.
En nú er það tímabil liðið og heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um tæp 53 prósent á einu ári. Líkt og rakið er annars staðar í þessari umfjöllun eru engar blikur á lofti þess efnis að draga muni úr þessari hækkun. Íslendingar geta því ekki búist við hjálp úr þeirri átt við að toga á móti verðbólguþrýstingi næstu misserin.
Þetta er að gerast á sama tíma og flestir kjarasamningar eru við það að renna út og boðuð hefur verið hörð kjarabarátta og yfirlýsingar verkalýðsforystunnar benda til þess að farið verði fram á umtalsverðar launahækkanir. Á sama tíma segja hagsmunasamtök atvinnurekenda ekkert eða lítið svigrúm til launahækkana, og ýmsir hagfræðingar hafa tekið undir það sjónarmið.
Þá er ljóst að Seðlabanki Íslands er að boða að hann muni beita stýrivaxtahækkunum ef verðbólguvæntingar aukist, og er þar fyrst og síðast verið að vísa í niðurstöðu kjarasamninga.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar hans sem birt var 3. október síðastliðinn sagði nefndin að hún ítreki að „hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafa þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Sá iðnaður á Íslandi sem finnur hvað mest fyrir þessari breytingu er þó flugið. Íslensku flugfélögin, WOW air og Icelandair, hafa bæði átt í vandræðum upp á síðkastið og það sér ekki fyrir endann á því ennþá, þrátt fyrir að WOW air hafi bjargað sér fyrir horn á dögunum með því að útvega 60 milljónir evra, eða um 7,7 milljarða króna, í skuldabréfaútboði. Þá fór Primera Air, sem er í íslenskri eigu, í greiðslustöðvun í vikunni, nokkrum vikum eftir að eigandi þess, Andri Már Ingólfsson sagði við Morgunblaðið að Primera Air væri við það að loka skuldabréfaútboði upp á 40 milljónir evra, um 5,2 milljarða króna, með þátttöku alþjóðlega fjárfesta.
WOW air vinnur nú að því að afla meira fjár og verða skráð á markað eins fljótt og hægt er, og eru Arctica Finance og Arion banki að vinna að því ferli með fyrirtækinu.
Rekstrarumhverfi flugfélaga er fjandsamlegt í augnablikinu og viðkvæm fjárhagsstaða WOW air má ekki við því að sú staða haldist lengi. Flest evrópsk flugfélög verja sig fyrir hækkunum á eldsneytisverði, með framvirkum samningum um að kaupa eldsneyti á ákveðnu verði til að tryggja sig fyrir miklum sveiflum. Eðlilegt er að 30 til 80 prósent af eldsneytisbirgðum þeirra séu tryggðar með þessum hætti. Þau hafa því meira andrými til að takast á við heimsmarkaðsverðshækkanirnar en þeir sem gera ekki svona samninga. Icelandair er eitt þeirra fyrirtækja sem gerir þetta.
WOW air ver sig hins vegar ekki fyrir verðhækkunum á eldsneytisverði með neinum hætti heldur kaupir allt eldsneyti á vélar sínar á spotmarkaði. Fyrirtækið greiðir því markaðsverð hverju sinni fyrir, og það hefur hækkað gríðarlega á mjög skömmum tíma. Til að setja umfang eldsneytiskaupa í samhengi þá eyddi WOW air, samkvæmt fjárfestakynningu fyrirtækisins, um 25 prósent af tekjum sínum í að kaupa flugvélaeldsneyti.
Uppsveiflan magnast upp innan hafta
Ísland hefur um margt notið góðs af rússíbanareið olíuverðsins á heimsmarkaði á undanförnum árum. Verðið var í 130 Bandaríkjadölum á tunnuna árið 2011 og hélst hátt alveg fram til ársins 2014. Þá hrundi það á skömmum tíma og var komið niður í 25 Bandaríkjadali í byrjun árs 2016.
Á sama tíma var ferðaþjónustan að vaxa hratt, fjármagnshöft voru enn fyrir hendi og staða þjóðarbússins batnaði verulega. Þá batnaði fjárhagsstaða heimila í landinu umtalsvert þegar 72,2 milljarða leiðrétting stjórnvalda á skuldum heimilanna kom til framkvæmda, síðla árs 2014 og á árinu 2015. Við það batnaði eiginfjárstaða margra heimila og aukin kaupgeta myndaðist á fasteignamarkaðnum, sem þá var nokkuð spenntur vegna húsnæðisskorts.
Aðstæður til mikillar og kröftugrar uppsveiflu voru því allar fyrir hendi og það er óhætt að segja að hún hafi orðið að veruleika. Til marks um það er að árshækkun fasteignaverðs mældist í fyrravor 23 prósent og frá árinu 2011 hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldast í verði. Þetta hafði áhrif á hagtölurnar og skuldastaða heimila lagast mikið við þetta, svo dæmi sé tekið. Eigið fé í húsnæði, samkvæmt fasteignamati, sem tekur mið af þinglýstum kaupsamningum á markaði, hefur því aukist hratt og raunar með fordæmalausum hætti, á undanförnum árum.
Breytingar í farvatninu
Allt annað er upp á teningnum núna. Raunar bendir margt til þess að fasteignaverð gæti lækkað á næstunni, sé litið til þeirra aðstæðna sem hafa skapast að undanförnu. Gengi krónunnar hefur fallið nokkuð upp á síðkastið, gagnvart helstu alþjóðlegu myntum, verðbólguþrýstingur hefur aukist og þúsundir íbúða eru að koma inn á markað, sem getur þá skapað nýjan jafnvægispunkt í verði milli framboðs og eftirspurnar. Evra kostar nú um 132 krónur og Bandaríkjadalur tæplega 115 krónur. Fyrir innan við hálfu ári kosta evra hins vegar 120 krónur og Bandaríkjadalur 99 krónur.
Um 5 þúsund íbúðir eru nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og munu koma inn á markað á næstu 18 mánuðum. Erfitt er að segja til hvernig verðið mun þróast, en spár gera ráð fyrir á bilinu eitt til þrjú prósent verðhækkunum á þessu tímabili. Eitt af því sem gæti skipt máli fyrir þróunina eru verðbreytingar á olíunni, þar sem hún hefur afgerandi áhrif á verðbólguna.
Gott fyrir Ísland að vera með lágt olíuverð
Lágt olíuverð hentar Íslandi vel þar sem þá fer minni gjaldeyrir úr hagkerfinu í að kaupa olíu og þá hefur lágt verð einnig jákvæð áhrif á verðbólgu. Hún helst frekar í skefjum með lágu olíuverði, þar sem það smitar út í verð á vörum og þjónustu, ekki síst þegar kemur að innflutningi.
Óhætt er að segja að verðfallið á fyrrnefndu tímabili, frá 2014 og fram á 2016, hafi verið dramatískt, og hafi verkað fyrir okkar örsmáa 200 þúsund manna vinnumarkað sem vítamínsprauta. Útgerðin eyðir þá minna í olíu, flugfélögin eyddu minna í olíu og heimilin sömuleiðis, á tímum þar sem hagkerfið allt var að rétta úr kútnum, ekki síst vegna hagfelldrar niðurstöðu þegar kom að uppgjöri slitabúa föllnu bankanna.
Straumar og stefnur erlendis hafa áhrif
Ísland er ekki eyland þegar kemur að efnahagsmálum heimsins, eins og dæmin sanna. Olíuverðið er mikill áhrifavaldur fyrir gang efnahagsmála og er líka stórt og mikið viðfangsefni í stjórnmálum. Einn óvissuþátturinn sem Ísland, eins og önnur lönd, þarf að glíma við eru stefnumarkandi ákvarðanir stjórnvalda þegar kemur að olíuframleiðslu. Í Bandaríkjunum hafa ákvarðanir nú þegar haft mikil áhrif á olíuverð - þá til hækkunar - og ef það verður farið eftir helstu áherslumálum fyrrnefnds Johns Bolton, og félaga hans í starfsliði Donalds Trump forseta, þá eru ýmsir óvissuþættir uppi um hvernig olíuverðið mun þróast. Til dæmis gætu hernaðaraðgerðir gagnvart Íran haft mikil áhrif. Annað eins hefur gerst eins og að Bandaríkin grípi til hernaðaraðgerða í miðausturlöndum, sem síðan hafa áhrif á olíuiðnaðinn.