Mynd: HS Orka ross beaty

Segir að Björk hafi skorið upp herör á óupplýstan hátt gegn Magma

Rekstrarhagnaður HS Orku jókst um tæpan milljarð króna í fyrra. Ross Beaty mun líkast til yfirgefa félagið fljótlega og í síðasta ávarpi hans í ársskýrslu fer hann yfir hæðir og lægðir á þeim áratug sem er liðinn frá því að Magma Energy varð fyrsti erlendi eigandinn að íslensku orkufyrirtæki.

„Embættistíð mín hjá HS Orku hófst með meirihlutakaupum Magma Energy 2009–2010 (sem breytti um nafn árið 2011 og varð að Alterra Power, en þegar Innergex keypti Alterra 2018, varð það að Innergex Renewable Energy). Í fyrstu var leiðin nokkuð grýtt þar sem söngkonan Björk Guðmundsdóttir andmælti kaupum kanadísks fyrirtækis á HS Orku skömmu eftir íslenska fjárhagshrunið 2008 og skar upp herör á óupplýstan hátt gegn Magma og sjálfum mér persónulega. Ég vona að mér hafi tekist að sýna fram á það með góðum verkum og réttu fyrirkomulagi að undir okkar stjórn hafi HS Orka þróað orkulindir jarðhita á ábyrgan hátt, ekki aðeins í hag hluthafa fyrirtækisins, heldur einnig íslenska ríkisins og landsmanna allra.“

Þetta segir Ross Beaty, stjórnarformaður HS Orku og einn aðaleigandi fyrirtækisins síðastliðinn áratug, í ávarpi stjórnarformanns í nýjustu ársskýrslu HS Orku.

Miklar væringar hafa verið með eignarhluti í HS Orku síðustu daga og nýtt framtíðar eignarhald hefur litið dagsins ljós. Jarð­varmi slhf, félag í eigu 14 íslenska líf­eyr­is­sjóð, keypti í vikunni hlut Innergex í HS Orku á 299,9 millj­ónir dali, eða 37,3 millj­arða króna á núvirði.

Innergex hefur þar með selt sænsku félagið Magma Sweden til Jarð­varma en Magma á 53,9 pró­sent hlut í félag­inu. Með því varð Jarð­varmi eig­andi allra hluta í HS Orku, eina íslenska orku­fyr­ir­tæk­inu sem er í einka­eigu eftir að hafa gengið inn í sölu á hlut fjár­fest­ing­ar­sjóðs­ins ORK fyrr á þessu ári. Sam­an­lagt greiddi Jarð­varmi 47 millj­arða króna fyrir hlut­ina, en þeir nema 66,6 pró­sent af útgefnu hlutafé í HS Orku. Jarð­varmi var að nýta kaup­rétt sinn á hlutum í HS Orku en félagið átti áður 33,4 pró­sent hlut. Virði eignarhlutar Magma hefur tvöfaldast á þeim tíma sem liðinn er frá því að félagið eignaðist hann.

Í kjöl­farið seldi Jarð­varmi síðan helm­ing hluta­fjár í HS orku til breska sjóðs­stýr­ing­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Ancala Partners, sem sér­hæfir sig í inn­viða­fjár­fest­ingum í Evr­ópu og er að stóru leyti fjár­magnað af breskum líf­eyr­is­sjóð­um. Áður en að það var gert tók Jarð­varmi þó 30 pró­sent hlut HS Orku í Bláa lón­inu út úr orku­fyr­ir­tæki og seldi til nýs félags í eigu íslenskra líf­eyr­is­sjóða, Blá­varma slhf, á 15 millj­arða króna. Miðað við það verð er heild­ar­virði Bláa lóns­ins 50 millj­arðar króna. 

Rekstrartekjur og -hagnaður aukast

Í nýjasta ársreikningi HS Orku kemur fram að tap hafi verið á rekstri fyrirtækisins í fyrra upp á 72,3 milljónir króna. Árið áður var hagnaður upp á 4,6 milljarða króna. Sú niðurstaða segir þó ekki alla söguna því að rekstrartekjur jukust úr 7,5 milljörðum króna í 8,9 milljarða króna og rekstrarhagnaður margfaldaðist, fór úr 492 milljónum króna í 1,4 milljarða króna.

Tapið í fyrra, og raunar hinn mikli hagnaður árið áður, er tilkomið vegna sveiflna í heimsmarkaðsverði á áli og veikingu íslensku krónunnar. Samningar HS Orku um sölu á rafmagni til stóriðju eru bundnir við heimsmarkaðsverð á áli. Árið 2017 skilaði sú tenging 3,9 milljarða króna hagnaði en í fyrra leiddu gagnvirðisbreytingar á álverðsafleiðum til þess að afkoman varð neikvæðari um 2,2 milljarða króna. Á árinu 2018 var gengismunur enn fremur neikvæður um 400 milljónir króna.

Björk Guðmundsdóttir mótmælti eignarhaldi Magma á HS Orku harðlega á sínum tima.
Mynd: Úr safni

Beaty segir í ávarpi sínu að staða HS Orku hafi aldrei verið sterkari. „Fyrirtæki er ekki bara farsælt vegna þess að það skilar góðum hagnaði. Farsæld fyrirtækis felst einnig í framlagi til þjóðfélagsins, að gera umhverfisvernd eitt af helstu stefnumiðum sínum, að útvega starfsmönnum sínum öruggan og heilsuvænan vinnustað og stuðla að hagsæld samfélagsins sem umlykur það. [...]Ef svo fer að störfum mínum hjá HS Orku muni ljúka á árinu 2019 er ég mjög sáttur við að skilja við fyrirtækið í þessari góðu stöðu. Ég hef notið þess að vera á Íslandi og sendi mínar bestu árnaðaróskir um framtíð þar sem endurnýjanlegar orkulindir og mannauður koma saman til að byggja enn sjálfbærara og farsælla fyrirtæki í þágu hluthafa þess og íslensku þjóðarinnar.“

Hann segir að afkastageta orkuvera HS Orku sé nú nýtt til fulls, að orkusalan hafi aldrei verið jafn mikil, virkjunarverkefni séu að fullu fjármögnuð og framkvæmdir hafnar og tækifæri fyrir enn frekari vöxt eru í augsýn. „Hvílík stund til að rétta nýjum stjórnarformanni og nýjum meirihlutahópi stjórnartaumana til þess að leiða fyrirtækið inn í enn bjartari framtíð.“

Hrósar Bláa Lóninu

Í kveðjuávarpi sínu minnist Beaty sérstaklega þriggja atriða sem hann segir að standi upp úr á tíma sínum sem stjórnarformanns HS Orku. „Í fyrsta lagi voru það farsæl málalok varðandi Norðurál eftir samtals þrenn málaferli. Þetta fól í sér mikinn kostnað og mikla vinnu, algerlega að óþörfu. En lokasigurinn gerði okkur kleift að byggja upp framtíð án þeirra hlekkja sem samningurinn fól í sér og skilyrða sem ekki var hægt að uppfylla.

Í öðru lagi var það borun dýpstu háhitaborholu heims á Reykjanesi 2016–2017. Þessi borun leiddi í ljós jarðhitakerfi langt fyrir neðan það kerfi sem nú er verið að nýta og býður upp á stórkostlega framtíðarmöguleika til orkuframleiðslu á Reykjanesi. Þetta verkefni krafðist heilmikillar vinnu og ég þakka hér með öllum þeim sem lögðu sitt á vogarskálarnar til að ná þessum árangri.

Í þriðja og síðasta lagi eru tvö verkefni sem komið var á laggirnar 2017–2018 og ég kalla risastökk fram á við fyrir HS Orku, en það er þróun Brúarvirkjunar og 4. áfanga Reykjanesvirkjunar. Mig langar að þakka öllum stjórnendum hjá okkur fyrir eldmóð sinn í þessum verkefnum og einnig Arion banka fyrir fjárhagslegan stuðning við þau.“

Hann ber einnig lof á Bláa Lónið og sérstaklega Grím Sæmundsen, forstjóra og einn aðaleiganda þess, sem Beaty segir að hafi tekist að skapa háklassaheilsulind á heimsvísu sem sé vinsælasti ferðamannastaður Íslands. „Þetta er ótrúleg saga og ég hef notið þeirrar ánægju að vera þátttakandi á hliðarlínunni.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar