Valdi prinsessuna fram yfir konungsríkið
Þau voru dýrkuð og dáð. Hundelt og áreitt. Loks fengu þau nóg. Margt í sögu Harrys Bretaprins og Meghan Markle rímar við stef úr Grimms-ævintýrum. En þetta er ekki leikur heldur lífið, sagði prinsinn er hann óttaðist um líf konu sinnar.
Einu sinni var prins. Hann ferðaðist um veröld víða í leit að lífsfyllingu. Allir vissu að hann hafði stórt hjarta og því var fagnað um allt konungsríkið er hann loks gaf það brosmildri stúlku frá fjarlægu landi. Þegnarnir fylgdust grannt með ævintýrinu og samglöddust er prinsinn gekk að eiga stúlkuna sem þeim fannst sönn prinsessa.
Eða hvað?
Sterk öfl hófu að dreifa sögum um prinsessuna, sáðu fræjum efasemda í huga þegnanna og særðu hjarta stúlkunnar. Enginn spurði hana hvernig hún hefði sofið, næturnar sem hún eyddi í höllum drottningar, næturnar sem henni kom varla dúr á auga. Hún ákvað því að nóg væri komið, henni væri betur borgið handan hafsins. Og þangað vildi hún fara, þótt það kostaði hana konunglega stöðu sína, gull og gersemar.
Nokkurn veginn svona hefði ævintýrið um Harry Bretaprins og Meghan Markle kannski hljómað ef það hefði gerst fyrir nokkur hundruð árum og lifað í munnmælum mann fram af manni.
Það hefði jafnvel verið kryddað með erjum innan konungsfjölskyldunnar, móðurmissi litla prinsins, árásum frá óvinum og vondri stjúpu. Slíkt hefði ekki beinlínis verið ýkjur því þó að í ævintýrið vanti glerskó eða baun, veiðimann eða sjö röska dverga, er furðu margt í sögu Harrys og Meghan sem rímar við stefin í Grimms-ævintýrunum.
Endirinn hefur ekki verið skrifaður, ævintýrið er ekki úti, en í síðasta kafla höfðu prinsessan og prinsinn afsalað sér titlum sínum. Þar með hefur meirihluti Breta fengið ósk sína uppfyllta og frá næsta vori verða þau ekki lengur ávörpuð hans og hennar hátign. Harry verður þó áfram prins og sá sjötti í erfðaröðinni að bresku krúnunni. En mögulega kynni hann því betur að vera einfaldlega Karlsson.
Milljónir manna biðu spenntar eftir fæðingu Harrys haustið 1984. Um það hafði hann auðvitað enga hugmynd á þeim tíma og engu að ráða heldur. Hann var konungborinn, sonur krónprins breska samveldisins og konu af aðalsættum, prinsessu, sem heillaði allan heiminn upp úr skónum.
Hann fæddist fyrir tíma internetsins en inn í tímabil allt að því herskárra götublaða sem voru tilbúin að ganga langt, afskaplega langt, til að komast sem næst konungsfjölskyldunni – aðallega Díönu, móður Harrys.
Litli prinsinn var aðeins 12 ára er hún lést eftir að hafa verið hundelt af ljósmyndurum. Tveir og hálfur milljarður manna um allan heim fylgdist með í beinni útsendingu er Harry gekk á eftir kistu móður sinnar við útför hennar.
Nú er Harry orðinn 35 ára. Götublöðin sem fengu á baukinn eftir dauða Díönu hafa fært þunga útgáfunnar yfir á internetið sem síðustu mánuði hefur verið uppfullt af myndum, myndskeiðum, fréttum og skoðanagreinum um sitt nýjasta uppáhald: Meghan Markle. Stúlkuna sem Harry gaf hjarta sitt.
„Ég held að það að vera hluti af þessari fjölskyldu, að vera í þessu hlutverki, í þessu starfi, í hvert skipti sem ég sé myndavél, í hvert skipti sem ég heyri smell, í hvert skipti sem ég sé flass, þá fer ég rakleiðis aftur í tímann,“ sagði Harry í viðtali síðasta haust. Hann var þá í Angóla og fetaði í fótspor móður sinnar um jarðsprengjusvæði fyrir góðgerðasamtök sem Díana hafði vakið heimsathygli á aðeins skömmu fyrir dauða sinn árið 1997.
Allt það slæma
„Að vera hérna núna, 22 árum síðar, að reyna að klára það starf sem hún hóf, hefur verið vakið gríðarlegar tilfinningar en allt sem ég geri minnir mig á hana,“ sagði hann. „En eins og ég sagði, vegna þessa hlutverks, vegna þessa starfs og þeirra krafna sem því fylgja þá er ég minntur á allt það slæma, því miður.“
„Allt það slæma“ er ekki aðeins í fortíð prinsins. Hann óttast að önnur kona sem hann elskar hljóti svipuð örlög og móðir hans.
Fjölmiðlar sem gera út á fréttir af þekktu fólki höfðu gengið mjög langt í því að finna nýjar slúðurfréttir um hina nýju „prinsessu fólksins“. Um leið og grunsemdir pressunnar vöknuðu um ástarsamband Meghan og Harrys skömmu eftir þeirra fyrsta stefnumót sumarið 2016 hóf hún að birta fréttir af leikkonunni bandarísku sem fangað hafði hjarta hins ástsæla prins. Var því til að mynda slegið upp að Harry ætti í sambandi við fráskilda konu, að móðir hennar væri svört og það gefið í skyn að hún hefði enn verið með öðrum manni er samband þeirra hófst.
Innsýn í líf
Seinna voru svo grafnir upp gamlir vinir, skólasystkini og vinnufélagar til að „gefa innsýn“ í persónu hennar og líf allt. Fjölmiðlar röktu ættir hennar til þræla og vinnuhjúa í bresku konungshöllinni sem mörgum þóttu fordómafull skrif. Þeir birtu svo hverja fréttina á fætur annarri byggða á orðum föður hennar, Thomas Markle. Samkvæmt þeim var samband feðginanna stirt og föðurnum fannst dóttirin hafa svikið sig.
Þetta var það persónulegasta og það sem sveið mest.
Eitt blaðið, Mail on Sunday, gekk svo langt að birta hluta bréfs sem Meghan hafði skrifað föður sínum skömmu fyrir brúðkaup sitt sem var eins og svo margar aðrar stórar stundir í lífi konungsfjölskyldunnar sýnt í beinni útsendingu.
Á meðan heimsókn Harrys og Meghan til Angóla stóð dró til tíðinda: Harry gaf út yfirlýsingu og í henni kom fram að þau hjónin hygðust lögsækja Mail on Sunday fyrir að birta upplýsingar úr einkabréfi.
„Ég hef séð hvað gerist þegar þeir sem ég elska eru gerðir að söluvöru og ekki lengur komið fram við þá eins og alvöru persónur. Ég missti móður mína og nú horfi ég upp á eiginkonu mína verða fórnarlamb sömu valdamiklu afla,“ skrifaði prinsinn.
Þetta er lífið hennar
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem slúðurpressan var vinsamlega beðin að hætta að áreita Meghan. Það var meðal annars gert í yfirlýsingu frá talsmanni Harrys aðeins nokkrum mánuðum eftir að samband þeirra hófst. „Þetta er ekki leikur – þetta er lífið hennar“.
Eftir að tilkynnt var um málsóknina í haust var áfram fjallað um Meghan í fjölmiðlum. Ekki leið á löngu þar til stóra fréttin kom: Hjónin tilkynntu á Instagram að þau ætluðu að láta af öllum konunglegum skyldum sínum og skipta tíma sínum milli Bretlands og Norður-Ameríku.
Meghan og Harry hafa oft veitt fjölmiðlum persónuleg viðtöl. „Við erum tvær manneskjur sem erum virkilega hamingjusamar og ástfangnar,“ sagði Meghan í viðtali við Vanity Fair haustið 2017. Tveimur mánuðum síðar tilkynntu þau trúlofun sína og fóru í langt viðtal við Breska ríkisútvarpið, BBC. Brúðkaup þeirra var eins og fyrr segir sýnt í beinni útsendingu og þótti athöfnin slá nýjan hljóm: Konungsfjölskyldan var á hraðleið inn í nútímann. Meghan var sögð eiga stóran þátt í því.
Óseðjandi lesendur?
En lesendur virtust hafa endalausa lyst á að smjatta á fréttum af hjónunum og götublöðin vildu gera sitt til að seðja það hungur, jafnvel vekja það. Harry ólst upp við slíkt áreiti og þó að Meghan hafi sem leikkona fengið sinn skerf af því var það á engan hátt sambærilegt við það sem hún varð fyrir eftir að hún varð hluti af bresku konungsfjölskyldunni.
Harry hélt áfram að biðja pressuna að sýna henni vægð. Fyrir ári, er bréfið var birt í Mail on Sunday á sama tíma og Meghan var ólétt, virtist mælirinn við það að fyllast og hann sagði í yfirlýsingu að kona sín væri fórnarlamb „vægðarlausrar herferðar“ bresku pressunnar og að hann hefði „setið hljóður hjá“ og „fylgst með þjáningum hennar“ of lengi. Hann skrifaði að stöðugur áróðurinn hefði sársaukafull áhrif sem hann gæti ekki lýst með orðum.
Archie litli fæddist þeim svo í maí í fyrra. Þau héldu fjölmiðlum í ákveðinni fjarlægð þó að þau hafi verið örlát á myndir af honum á samfélagsmiðlum.
Slúðrað var um það að samband þeirra bræðra, Harrys og Vilhjálms, hefði farið versnandi eftir að Meghan kom til sögunnar. Henni var líkt við Yoko Ono sem margir höfðu kennt um endalok Bítlanna.
Aðdáendur bresku krúnunnar áttu svo ekki orð er Meghan sagði í viðtali í haust, spurð um hið nýja hlutverk sitt: „Það er ekki margt fólk sem spyr mig hvort að ég sé OK.“
Prinsessan á bauninni hvað! sögðu einhverjir í hneykslunartón á milli tesopanna. Var hún of mikil prímadonna til að vera prinsessan þeirra? Of góð til að hleypa öllum að sér, öllum stundum?
Margt hefur sum sé bent til þess síðustu mánuði að Meghan ætti erfitt, væri ósátt og að Harry hefði áhyggjur. Þau eyddu ekki jólunum í Bretlandi heldur fóru með Archie til Kanada og nutu hátíðanna með móður Meghan. Í árlegri jólakveðju Elísabetar drottningar tóku svo glöggir eftir því að mynd af litlu fjölskyldunni var hvergi að finna á skrifborðinu sem hún sat við.
Þann 8. janúar tilkynntu þau um skilnað. Ekki sinn eigin heldur við konungsfjölskylduna. Að minnsta kosti að borði og sæng. Þau sögðust vilja ná fjárlagslegu sjálfstæði. Enn var fussað og sveiað. Þau sögðu ekki einu sinni drottningunni, hinni háöldruðu ömmu Harrys, frá ákvörðuninni.
Drottningin styður ákvörðunina
Það er reyndar rangt ef marka má yfirlýsingu sem Elísabet, amman aldna, sendi frá sér í gær er tilkynnt var um útfærslu á breyttri stöðu hjónakornanna:
„Eftir margra mánaða samtöl og umræður í kjölfar þeirra er ég ánægð með að saman höfum við fundið uppbyggilega og stuðningsríka leið fram á við fyrir sonarson minn og hans fjölskyldu. Harry, Meghan og Archie verða alltaf elskuð af fjölskyldunni,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni.
Drottningin sagðist hafa skilning á þeim áskorunum sem þau hafa upplifað síðustu tvö ár, verandi undir nálarauga fjölmiðla, „og ég styð ósk þeirra um meira sjálfstæði“.
Í yfirlýsingu frá Buckingham-höll var svo greint frá samkomulaginu. Þau munu afsala sér konunglegum titlum og hafa óskað eftir því að endurgreiða kostnað við endurbætur á heimili þeirra í Bretlandi, Frogmore Cottage, sem er í eigu krúnunnar. Þau munu áfram sinna góðgerðamálum en þó ekki koma fram sem fulltrúar drottningar.
Samkomulagið tekur gildi í vor.
Í tilkynningu hallarinnar er tekið fram að spurningum um öryggisgæslu, sem ljóst þykir að hjónin munu áfram þurfa á að halda, verði ekki svarað. Fjölmiðlar velta sér nú upp úr því hver eigi að borga fyrir lífverðina. Talið er að þau dvelji héðan í frá í Kanada hluta úr ári og er Meghan þegar flogin þangað. Væru þau þar í konunglegum erindum myndu kanadísk stjórnvöld borga fyrir öryggisgæsluna en nú er staða þeirra orðin talsvert snúnari hvað þetta varðar.
Kanadamenn eru ekki hrifnir af því að þurfa að greiða fyrir gæsluna. Bretar, sem sumir hverjir eru sárir hjónunum fyrir að kjósa útgöngu úr konunglegu lífi sínu, eru heldur ekki spenntir fyrir að halda áfram að borga brúsann.
Ekki er sum sé endilega vilji hjá þegnum breska samveldisins til að kosta varnir parsins sem var hundelt af ákafri slúðurpressunni og hefur þurft að þola stöðugt ónæði og umfjöllun. Bretar voru enda fljótir að snúa baki við Meghan og Harry eftir að þau sögðust vilja losna við konunglegar skyldur sínar. Samkvæmt könnun vildu 54% landsmanna að hjónin yrðu svipt titlum sínum og fjárlagslegum stuðningi.
Það vill reyndar svo til að Daily Mail, systurblað fjölmiðilsins sem Meghan ætlar í mál við, gerði könnunina.
Við má bæta niðurstöðum fleiri skoðanakannana: Vilja Kanadamenn yfir höfuð áfram vera hluti af breska samveldinu? Meirihlutinn vill það en 45% vilja þó kasta krúnunni.
Kanadamenn segjast hins vegar vel skilja að Meghan og Harry vilji setjast að í landinu, mögulega á afskekktum stað þar sem þau fá næði.
Og kannski munu þau lifa þar hamingjusöm allt til æviloka. Hver veit?