Mynd: EPA

Valdi prinsessuna fram yfir konungsríkið

Þau voru dýrkuð og dáð. Hundelt og áreitt. Loks fengu þau nóg. Margt í sögu Harrys Bretaprins og Meghan Markle rímar við stef úr Grimms-ævintýrum. En þetta er ekki leikur heldur lífið, sagði prinsinn er hann óttaðist um líf konu sinnar.

Einu sinni var prins. Hann ferð­að­ist um ver­öld víða í leit að lífs­fyll­ingu. Allir vissu að hann hafði stórt hjarta og því var fagnað um allt kon­ungs­ríkið er hann loks gaf það brosmildri stúlku frá fjar­lægu landi. Þegn­arn­ir ­fylgd­ust grannt með ævin­týr­inu og sam­glödd­ust er prins­inn gekk að eiga stúlk­una ­sem þeim fannst sönn prinsessa.

Eða hvað?

Sterk öfl hófu að dreifa sögum um prinsess­una, sáðu fræjum efa­semda í huga þegn­anna og særðu hjarta stúlkunn­ar. Eng­inn spurði hana hvernig hún­ hefði sof­ið, næt­urnar sem hún eyddi í höllum drottn­ing­ar, næt­urnar sem henn­i kom varla dúr á auga. Hún ákvað því að nóg væri kom­ið, henni væri betur borg­ið handan hafs­ins. Og þangað vildi hún fara, þótt það kost­aði hana kon­ung­lega ­stöðu sína, gull og ger­sem­ar.

Nokkurn veg­inn svona hefði ævin­týrið um Harry Breta­prins og ­Meg­han Markle kannski hljó­mað ef það hefði gerst fyrir nokkur hund­ruð árum og lifað í munn­mælum mann fram af manni.

Það hefði jafn­vel verið kryddað með erjum inn­an­ ­kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar, móð­ur­missi litla prins­ins, árásum frá óvinum og vondri stjúpu. Slíkt hefð­i ekki bein­línis verið ýkjur því þó að í ævin­týrið vanti gler­skó eða baun, veiði­mann eða sjö röska dverga, er furðu margt í sögu Harrys og Meg­han sem rímar við stefin í Grimms-æv­in­týr­un­um.

Endir­inn hefur ekki verið skrif­að­ur, ævin­týrið er ekki úti­, en í síð­asta kafla höfðu prinsessan og prins­inn afsalað sér titlum sín­um. Þar ­með hefur meiri­hluti Breta feng­ið ósk sína upp­fyllta og frá næsta vori verða þau ekki lengur ávörpuð hans og hennar hátign. Harry verður þó áfram prins og sá sjötti í erfða­röð­inni að bresku krún­unni. En mögu­lega kynni hann því bet­ur að vera ein­fald­lega Karls­son.

Meghan og Harry ganga til móts við flóð ljósmyndara.
EPA

Millj­ónir manna biðu spenntar eftir fæð­ingu Harrys haust­ið 1984. Um það hafði hann auð­vitað enga hug­mynd á þeim tíma og engu að ráða held­ur. Hann var kon­ung­bor­inn, sonur krón­prins breska sam­veld­is­ins og konu af aðal­sætt­u­m, prinsessu, sem heill­aði allan heim­inn upp úr skón­um.

Hann fædd­ist fyrir tíma inter­nets­ins en inn í tíma­bil allt að því her­skárra götu­blaða sem voru til­búin að ganga langt, afskap­lega lang­t, til að kom­ast sem næst kon­ungs­fjöl­skyld­unni – aðal­lega Díönu, móður Harrys.

Litli prins­inn var aðeins 12 ára er hún lést eftir að hafa verið hund­elt af ljós­mynd­ur­um. Tveir og hálfur millj­arður manna um allan heim ­fylgd­ist með í beinni útsend­ingu er Harry gekk á eftir kistu móður sinnar við út­för henn­ar. 

Harry nokkurra ára gamall í fangi móður sinnar, Díönu prinsessu.

Nú er Harry orð­inn 35 ára. Götu­blöðin sem fengu á bauk­inn eftir dauða Díönu hafa fært þunga útgáf­unnar yfir á inter­netið sem síðust­u ­mán­uði hefur verið upp­fullt af mynd­um, mynd­skeið­um, fréttum og skoð­ana­grein­um um sitt nýjasta upp­á­hald: Meg­han Markle. Stúlk­una sem Harry gaf hjarta sitt.

„Ég held að það að vera hluti af þess­ari fjöl­skyldu, að ver­a í þessu hlut­verki, í þessu starfi, í hvert skipti sem ég sé mynda­vél, í hvert ­skipti sem ég heyri smell, í hvert skipti sem ég sé flass, þá fer ég rak­leið­is aftur í tím­ann,“ sagði Harry í við­tali síð­asta haust. Hann var þá í Angóla og ­fet­aði í fót­spor móður sinnar um jarð­sprengju­svæði fyrir góð­gerða­sam­tök sem Díana hafði vakið heims­at­hygli á aðeins skömmu fyrir dauða sinn árið 1997.

Allt það slæma

„Að vera hérna núna, 22 árum síð­ar, að reyna að klára það ­starf sem hún hóf, hefur verið vakið gríð­ar­legar til­finn­ingar en allt sem ég ­geri minnir mig á hana,“ sagði hann. „En eins og ég sagði, vegna þessa hlut­verks, vegna þessa ­starfs og þeirra krafna sem því fylgja þá er ég minntur á allt það slæma, því mið­ur.“

„Allt það slæma“ er ekki aðeins í for­tíð prins­ins. Hann ótt­ast að önnur kona sem hann elskar hljóti svipuð örlög og móðir hans. 

Dæmi um forsíður blaða þar sem Meghan var í aðalhlutverki.

Fjöl­miðlar sem gera út á fréttir af þekktu fólki höfð­u ­gengið mjög langt í því að finna nýjar slúð­ur­fréttir um hina nýju „prinsessu ­fólks­ins“. Um leið og grun­semdir pressunnar vökn­uðu um ást­ar­sam­band Meg­han og Harrys skömmu eftir þeirra fyrsta stefnu­mót sum­arið 2016 hóf hún að birta fréttir af leikkon­unni banda­rísku sem fangað hafði hjarta hins ást­sæla prins. Var því til að mynda slegið upp að Harry ætti í sam­bandi við frá­skilda konu, að móðir hennar væri svört og það gefið í skyn að hún hefði enn verið með öðrum manni er sam­band þeirra hófst.

Inn­sýn í líf 

Seinna voru svo grafnir upp gamlir vin­ir, skóla­systk­ini og vinnu­fé­lagar til að „gefa inn­sýn“ í per­sónu hennar og líf allt. Fjöl­miðl­ar röktu ættir hennar til þræla og vinnu­hjúa í bresku kon­ungs­höll­inni sem mörg­um þóttu for­dóma­full skrif. Þeir birtu svo hverja frétt­ina á fætur annarri byggða á orðum föður henn­ar, Thomas Markle. Sam­kvæmt þeim var sam­band feðgin­anna stirt og föð­urnum fannst dóttirin hafa svikið sig.

Þetta var það per­sónu­leg­asta og það sem sveið mest.

Eitt blað­ið, Mail on Sunday, gekk svo langt að birta hluta bréfs sem Meg­han hafði skrifað föður sínum skömmu fyrir brúð­kaup sitt sem var eins og svo margar aðrar stórar stundir í lífi kon­ungs­fjöl­skyld­unnar sýnt í beinni útsend­ing­u. 

 Á meðan heim­sókn Harrys og Meg­han til Angóla stóð dró til tíð­inda: Harry gaf út yfir­lýs­ingu og í henn­i kom fram að þau hjónin hygð­ust lög­sækja Mail on Sunday fyrir að birta ­upp­lýs­ingar úr einka­bréfi.

 „Ég hef séð hvað ger­ist þegar þeir sem ég elska eru gerðir að sölu­vöru og ekki lengur komið fram við þá eins og alvöru per­són­ur. Ég missti móður mína og nú horfi ég upp á eig­in­kon­u mína verða fórn­ar­lamb sömu valda­miklu afla,“ skrif­aði prins­inn.

Þetta er lífið hennar

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem slúð­ur­pressan var vin­sam­lega beðin að hætta að áreita Meg­h­an. Það var meðal ann­ars gert í yfir­lýs­ingu frá­ tals­manni Harrys aðeins nokkrum mán­uðum eftir að sam­band þeirra hófst. „Þetta er ekki leikur – þetta er lífið henn­ar“.

Eftir að til­kynnt var um mál­sókn­ina í haust var áfram fjall­að um Meg­han í fjöl­miðl­um. Ekki leið á löngu þar til stóra fréttin kom: Hjón­in til­kynntu á Instagram að þau ætl­uðu að láta af öllum kon­ung­legum skyldum sín­um og skipta tíma sínum milli Bret­lands og Norð­ur­-Am­er­íku.

Meg­han og Harry hafa oft veitt fjöl­miðlum per­sónu­leg við­töl. „Við erum tvær mann­eskjur sem erum virki­lega ham­ingju­samar og ást­fangn­ar,“ ­sagði Meg­han í við­tali við Vanity Fair haustið 2017. Tveimur mán­uðum síð­ar­ til­kynntu þau trú­lofun sína og fóru í langt við­tal við Breska rík­is­út­varp­ið, BBC. Brúð­kaup þeirra var eins og fyrr segir sýnt í beinni útsend­ingu og þótt­i ­at­höfnin slá nýjan hljóm: Kon­ungs­fjöl­skyldan var á hrað­leið inn í nútím­ann. ­Meg­han var sögð eiga stóran þátt í því.

Óseðj­andi les­end­ur?

En les­endur virt­ust hafa enda­lausa lyst á að smjatta á fréttum af hjón­unum og götu­blöðin vildu gera sitt til að seðja það hung­ur, ­jafn­vel vekja það. Harry ólst upp við slíkt áreiti og þó að Meg­han hafi sem ­leik­kona fengið sinn skerf af því var það á engan hátt sam­bæri­legt við það sem hún varð fyrir eftir að hún varð hluti af bresku kon­ungs­fjöl­skyld­unni.

Harry hélt áfram að biðja press­una að sýna henni vægð. Fyr­ir­ ári, er bréfið var birt í Mail on Sunday á sama tíma og Meg­han var ólétt, virtist ­mælir­inn við það að fyll­ast og hann sagði í yfir­lýs­ingu að kona sín væri ­fórn­ar­lamb „vægð­ar­lausrar her­ferð­ar“ bresku pressunnar og að hann hefði „set­ið hljóður hjá“ og „fylgst með þján­ingum henn­ar“ of lengi. Hann skrif­aði að ­stöð­ugur áróð­ur­inn hefði sárs­auka­full áhrif sem hann gæti ekki lýst með orð­um.

Mæðgin á jarðsprengjusvæði. Harry til vinstri og Díana til hægri.

Archie litli fædd­ist þeim svo í maí í fyrra. Þau héldu fjöl­miðl­u­m í ákveð­inni fjar­lægð þó að þau hafi verið örlát á myndir af honum á sam­fé­lags­miðl­um.

Slúðrað var um það að sam­band þeirra bræðra, Harrys og Vil­hjálms, hefði farið versn­andi eftir að Meg­han kom til sög­unn­ar. Henni var líkt við Yoko Ono sem margir höfðu kennt um enda­lok Bítl­anna.

Aðdá­endur bresku krún­unnar áttu svo ekki orð er Meg­han sagð­i í við­tali í haust, spurð um hið nýja hlut­verk sitt: „Það er ekki margt fólk sem ­spyr mig hvort að ég sé OK.“

Prinsessan á baun­inni hvað! sögðu ein­hverjir í hneyksl­un­ar­tón á milli tesopanna. Var hún of mikil príma­donna til að ver­a prinsessan þeirra? Of góð til að hleypa öllum að sér, öllum stund­um? 

Archie litli fæddist í maí á síðasta ári. Er Meghan var ólétt birti dagblað persónulegt bréf frá henni.
EPA

Margt hefur sum sé bent til þess síð­ustu mán­uði að Meg­han ætti erfitt, væri ósátt og að Harry hefði áhyggj­ur. Þau eyddu ekki jól­unum í Bret­landi heldur fóru með Archie til Kanada og nutu hátíð­anna með móður Meg­h­an. Í árlegri jóla­kveðju Elísa­betar drottn­ingar tóku svo glöggir eftir því að mynd af litlu fjöl­skyld­unni var hvergi að finna á skrif­borð­inu sem hún sat við.

Þann 8. jan­úar til­kynntu þau um skiln­að. Ekki sinn eig­in heldur við kon­ungs­fjöl­skyld­una. Að minnsta kosti að borði og sæng. Þau sögðust vilja ná fjár­lags­legu sjálf­stæði. Enn var fussað og svei­að. Þau sögðu ekki einu sinni drottn­ing­unni, hinni háöldr­uðu ömmu Harrys, frá ákvörð­un­inni.

Drottn­ingin styður ákvörð­un­ina

Það er reyndar rangt ef marka má yfir­lýs­ingu sem Elísa­bet, amman aldna, sendi frá sér í gær er til­kynnt var um útfærslu á breyttri stöð­u hjóna­korn­anna:

„Eftir margra mán­aða sam­töl og umræður í kjöl­far þeirra er ég ánægð með að saman höfum við fundið upp­byggi­lega og stuðn­ings­ríka leið fram á við fyrir son­ar­son minn og hans fjöl­skyldu. Harry, Meg­han og Archie verða alltaf elskuð af fjöl­skyld­unn­i,“ sagði meðal ann­ars í yfir­lýs­ing­unni.

Drottn­ingin sagð­ist hafa skiln­ing á þeim áskor­unum sem þau hafa upp­lifað síð­ustu tvö ár, ver­andi undir nál­ar­auga fjöl­miðla, „og ég styð ósk þeirra um meira sjálf­stæð­i“. 

Flestir fjölmiðlar í Bretlandi slógu því upp á forsíðum sínum að Harry og Meghan vildu meira sjálfstæði og frelsi frá konunglegum skyldum.
EPA

Í yfir­lýs­ingu frá Buck­ing­ham-höll var svo greint frá­ ­sam­komu­lag­inu. Þau munu afsala sér kon­ung­legum titlum og hafa óskað eftir því að end­ur­greiða kostnað við end­ur­bætur á heim­ili þeirra í Bret­landi, Frog­mor­e Cotta­ge, sem er í eigu krún­unn­ar. Þau munu áfram sinna góð­gerða­málum en þó ekki koma fram sem full­trúar drottn­ing­ar.

Sam­komu­lagið tekur gildi í vor.

Í til­kynn­ingu hall­ar­innar er tekið fram að spurn­ingum um ­ör­ygg­is­gæslu, sem ljóst þykir að hjónin munu áfram þurfa á að halda, verði ekki svar­að. Fjöl­miðlar velta sér nú upp úr því hver eigi að borga fyrir líf­verð­ina. Talið er að þau dvelji héðan í frá í Kanada hluta úr ári og er Meg­han þeg­ar ­flogin þang­að. Væru þau þar í kon­ung­legum erindum myndu kanadísk stjórn­völd ­borga fyrir örygg­is­gæsl­una en nú er staða þeirra orðin tals­vert snún­ari hvað þetta varð­ar.

Kanada­menn eru ekki hrifnir af því að þurfa að greiða fyr­ir­ ­gæsl­una. Bret­ar, sem sumir hverjir eru sárir hjón­unum fyrir að kjósa útgöngu úr ­kon­ung­legu lífi sínu, eru heldur ekki spenntir fyrir að halda áfram að borga brús­ann.

Harry og Meghan munu héðan í frá deila tíma sínum milli Bretlands og Norður-Ameríku.
EPA

Ekki er sum sé endi­lega vilji hjá þegnum breska sam­veld­is­ins til að kosta varnir pars­ins sem var hund­elt af ákafri slúð­ur­press­unni og hef­ur þurft að þola stöðugt ónæði og umfjöll­un. Bretar voru enda fljótir að snúa baki við Meg­han og Harry eftir að þau sögð­ust vilja losna við kon­ung­legar skyld­ur sín­ar. Sam­kvæmt könnun vildu 54% lands­manna að hjónin yrðu svipt titlum sín­um og fjár­lags­legum stuðn­ingi.

Það vill reyndar svo til að Daily Mail, syst­ur­blað ­fjöl­mið­ils­ins sem Meg­han ætlar í mál við, gerði könn­un­ina.

Við má bæta nið­ur­stöðum fleiri skoð­ana­kann­ana: Vilja Kanada­menn yfir höfuð áfram vera hluti af breska sam­veld­inu? Meiri­hlut­inn vill það en 45% vilja þó kasta krún­unni.

Kanada­menn segj­ast hins vegar vel skilja að Meg­han og Harry vilji setj­ast að í land­inu, mögu­lega á afskekktum stað þar sem þau fá næði.

Og kannski munu þau lifa þar ham­ingju­söm allt til ævi­loka. Hver veit?

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar