Ertu örugglega danskur ríkisborgari?

Hann er sjötugur arkitekt, hefur frá barnsaldri búið í Danmörku, aldrei komist í kast við lögin og ætíð átt danskt vegabréf. Nú á hann á hættu að verða vísað frá Danmörku.

denmark.jpg
Auglýsing

John Ville Rasmussen, sem er fæddur árið 1950, fluttist til Danmerkur með foreldrum sínum þegar hann var barn að aldri. Að loknu grunn- og framhaldsskólaprófi gegndi hann herþjónustu og lærði síðan húsagerðarlist. Hann hefur um áratugaskeið rekið teiknistofu í Óðinsvéum, þar sem hann býr, og greitt skatta til samfélagsins. Enginn hefur til þessa efast um að John Ville Rasmussen sé danskur eða eins og sagt er „pæredansk“ en nú telja dönsk stjórnvöld vafa leika á hvort hann sé Dani. Þetta hljómar ótrúlega.

Foreldrar John Ville Rasmussen voru danskir. Þau voru sæfarar og flæktust víða um heim, bjuggu í mörgum löndum. Þegar John fæddist voru þau í Venesúela, þaðan fluttu þau til Bandaríkjanna og John var skírður þar. Fjölskyldan flutti aftur heim til Danmerkur þegar John var fjögurra ára og settist að í Óðinsvéum.

John Ville Rasmussen er giftur bandarískri konu. Árið 1988 fékk hún ótímabundið landvistarleyfi í Danmörku (vegna þjóðernis eiginmannsins) og þau eiga tvær dætur, 32 og 28 ára gamlar. Þær eru með tvöldan ríkisborgararétt, danskan og bandarískan. Þær búa báðar í Bandaríkjunum og þar byrjaði þetta einkennilega mál. Önnur dætranna ætlaði, í desember árið 2017, að endurnýja danska vegabréfið og fór þeirra erinda á dönsku ræðisskrifstofuna í New York. Þar veittu starfsmenn því athygli að John Ville Rasmussen hafði fæðst í Venesúela, en samband Bandaríkjanna og Venesúela er stirt. Starfsfólk ræðisskrifstofunnar fór fram á, við dótturina, að hún myndi útvega fæðingarvottorð föðurins. Á endanum fékk dóttirin vegabréfið endurnýjað, þótt hún hefði ekki fæðingarvottorð föðurins, en þar með var ekki öll sagan sögð.

Auglýsing

Fæðingarvottorðið

Starfsfólk ræðisskrifstofunnar í New York lét dönsk yfirvöld vita af því að dóttir John Ville Rasmussen hefði ekki getað útvegað fæðingarvottorð föðurins. Þetta vakti athygli danskra yfirvalda og starfsfólk Útlendinga- og innflytjendaráðuneytisins skrifuðu föðurnum og óskuðu eftir að hann legði fram fæðingarvottorð sitt og hjónavígsluvottorð foreldranna, um 70 ára gömul skjöl. John Ville Rasmussen varð undrandi á þessari beiðni en hann hafði hvorki frumrit, eða staðfest afrit fæðingarvottorðs né hjónavígsluvottorðs foreldra sinna. Handskrifuð frumrit, eða staðfest afrit, þessara vottorða er ekki auðvelt að útvega og ekki öruggt að þau fyrirfinnist í Venesúela. Foreldrar John Ville Rasmussen létust báðir á níunda áratugnum.   

Í meira lagi undarlegt 

Danskir fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað talsvert um þetta mál, en það var danska útvarpið, DR, sem fyrst komst á snoðir um málið fyrir skömmu. Í viðtali við DR fyrir nokkrum dögum sagðist John Ville Rasmussen hvorki botna upp né niður í þessu öllu saman. „Eftir áratugi, þar sem enginn hefur efast um þjóðerni mitt, er ég nú allt í einu í þeirri stöðu að þurfa að sanna hver ég er. Og það er allt annað en auðvelt.“  

En spyrja má, voru ekki foreldrar hans skráðir í dönsku þjóðskránni og sást ekki þar að þau voru hjón? Svarið er að þannig ætti það að vera. En John Ville Rasmussen segir að í dönsku þjóðskránni vanti kennitölur foreldranna (cpr-numre). Ekki veit hann hvernig á því stendur en grunar að gerð hafi verið mistök þegar þjóðskráin var færð í tölvukerfi. Foreldrar hans voru látnir þegar það var gert og sú staðreynd, að kennitölur þeirra sé ekki að finna í dönsku þjóðskránni hefur ekki uppgötvast, fyrr en nú. Yfirvöldin segja að út frá þjóðskránni sé ekki hægt að sjá að hann sé barn danskra foreldra.  

Venjulega tekur meðferð mála hjá Útlendinga- og innflytjendaráðuneytinu minna en eitt ár en nú eru liðin meira en tvö ár síðan mál John Ville Rasmussen rataði inn á borð ráðuneytisins. Og þar er það enn. 

Eiginkonan og dæturnar uggandi

Elisabeth Rasmussen, eiginkona John Ville, er bandarísk eins og áður var nefnt. Hún hefur um langt árabil starfað sem kennari en nú veit hún ekki hvað verður. „Ég hef verið hér í Danmörku miklu lengur en í Bandaríkjunum þótt ég hafi fæðst þar og alist upp. Ég botna bara ekki í þessu.“ Sama gildir um dæturnar tvær.

Þingmenn sauma að ráðherranum

Þetta sérkennilega mál hefur ekki farið framhjá dönskum þingmönnum. Og þeim blöskrar. Peder Hvelplund, talsmaður Einingarlistans í málefnum innflytjenda sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að þetta mál væri hreint út sagt fáránlegt. Hann benti á að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar væri sérstaklega kveðið á um að „draga úr skriffinsku og fjarlægja þýðingarlausar reglur til einföldunar í stjórnsýslunni. Þetta mál er mjög augljóst dæmi um það sem ríkisstjórnin vill útrýma, en gerir hinsvegar ekki.“

 Margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa talað í sama dúr, einn þeirra sagði að í ráðuneytinu ætti að vera fólk sem gæti lagt saman tvo og tvo. Það væri út í hött að efast um þjóðerni manns sem alist hefði upp í Danmörku og búið þar í meira en sex áratugi, allan tímann haft danskt vegabréf og gegnt herþjónustu. Nokkrir þingmenn hafa krafist þess að Mattias Tesfaye ráðherra útlendinga- og innflytjendamála bregðist við. Með lagabreytingum.

Ráðherrann sagðist, í viðtali við danska útvarpið, ekki telja að þörf væri á lagabreytingum vegna þessa máls. Hann sagði að þetta snerist ekki um að fjölskyldu John Ville Rasmussen yrði vísað úr landi, eingöngu um það hvort John Ville Rasmussen gæti lagt fram pappíra sem sýndu, með ótvíræðum hætti, að hann væri danskur ríkisborgari. Þegar ráðherrann var spurður hvort hann gæti lýst því yfir að John Ville Rasmussen yrði ekki vísað úr landi sagðist hann vitaskuld ekki geta það. En bætti svo við að hann teldi að John Ville Rassmussen og fjölskylda hans þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að verða vísað úr landi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar