Fimmti hver Bandaríkjamaður þarf að vera heima
„Við erum að sjá hörmungar á skala sem við höfum ekki séð af völdum smitsjúkdóms frá árinu 1918,“ segir Jeffrey Shaman, prófessor í lýðheilsu. „Og þetta krefst fórna sem við höfum ekki séð síðan í síðari heimsstyrjöldinni.“
Nýja kórónuveiran hefur sýkt mun fleira fólk í Bandaríkjunum en sýnatökur sýna fram á. Nauðsynlegt er að grípa til róttækra aðgerða í ríkjum þar sem veiran hefur ekki stungið sér niður að ráði til að hefta útbreiðsluna, koma í veg fyrir veikindi og dauðsföll.
Þetta eru niðurstöður vísindamanna við Columbia-háskóla sem studdust í rannsókn sinni við gagnabanka New York Times um þekkt tilfelli veirunnar sem og opinber gögn smitsjúkdómavarna í landinu. Mjög mikil óvissa er í öllum spálíkönum um þróun faraldursins vestanhafs og breytast spárnar mjög hratt.
Engu að síður eru miklar blikur á lofti; jafnvel þó að það takist að fækka smitum verulega á næstunni er mögulegt að um 650 þúsund Bandaríkjamenn sýkist á næstu tveimur mánuðum.
Aukning tilfella er aðallega rakin til smitaðra sem eru með engin eða lítil einkenni og vita því ekki að þeir eru smitberar. Vísindamenn Columbia-háskóla telja að miðað við fyrirliggjandi gögn megi gera ráð fyrir því að fjöldi smitaðra sé ellefu sinnum meiri en niðurstöður sýnataka benda til. Þetta segja þeir til marks um hversu yfirvöld í Bandaríkjunum hafa dregist aftur úr mörgum öðrum þjóðum í því að skima fyrir veirunni.
Nokkur svæði í Bandaríkjunum eiga á meiri hættu en önnur að sjá gríðarlega aukningu tilfella jafnvel þótt að gripið hafi verið til róttækra aðgerða, m.a. New York-borg, Seattle, Boston og Kaliforníuríki. Í gær höfðu 4.000 staðfest smit greinst í New York og vísindamenn gera ráð fyrir að sú tala eigi eftir að margfaldast.
Vísindamennirnir benda hins vegar á að svæði þar sem veiran hefur ekki stungið sér niður að ráði geti enn varist mikilli útbreiðslu ef hörðum aðgerðum verður beitt nú þegar. Nauðsynlegt sé að banna fjöldasamkomur og framkvæma mun fleiri sýnatökur en nú er gert. Verði það gert gæti hægt á útbreiðslunni á landsvísu.
„Við erum að sjá hörmungar á skala sem við höfum ekki séð af völdum smitsjúkdóms frá árinu 1918,“ hefur New York Times eftir Jeffrey Shaman, prófessor í lýðheilsu við Columbia-háskóla. „Og þetta krefst fórna sem við höfum ekki séð síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Það verða gríðarlegar truflanir. Það er engin einföld leið út úr þessu.“
Víðs vegar um Bandaríkin hefur þegar verið gripið til ýmissa ráðstafana. Skólum hefur verið lokað, böru mog veitingahúsum sömuleiðis og ferðalög eru fátíð. Í Kaliforníu, New York og Illinois hafa yfirvöld sett á samkomubann og beita öðrum róttækum aðgerðum til að hefta útbreiðslu veirunnar.
Miðað við þær aðgerðir þarf að minnsta kosti fimmti hver Bandaríkjamaður að vera heima hjá sér næstu dagana. Um 75 milljónir manna eiga að halda sig heima. Von er á því að yfirvöld fleiri borga og ríkja gripi til sambærilegra ráðstafana á næstunni.
Donald Trump sagði í gær, föstudag, að hann ætti ekki von á því að gefa út fyrirmæli til þjóðarinnar allrar að halda sig heima. Nokkrum dögum fyrr hafði ríkisstjórn hans gefið út leiðbeiningar um „fimmtán daga pásu“ þar sem Bandaríkjamenn voru hvattir til að forðast fjölmenna mannfagnaði.
Ljóst þykir að „fimmtán daga pásan“ mun líklega vara lengur.
Í dag er staðfest að yfir 11.800 manns um allan heim hafa látist úr COVID-19 sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur.