EPA

Lúxusfrí á lystiskipi breyttist í margra vikna martröð

„Því miður þá eru fjórir farþegar okkar látnir,“ heyrist skipstjórinn segja í hátalarakerfi skipsins. „Einn í nótt, tveir í gær og einn fyrir nokkrum dögum.“ Farþegar sitja hljóðir, lokaðir inni í klefum sínum. Það er farsótt um borð.

Þegar skemmtiferðaskipið Zaandam lagði úr höfn frá Buenos Aires í Argentínu þann 7. mars voru farþegarnir 1.200 fullir eftirvæntingar. Fyrir höndum var tveggja vikna ferð meðfram strandlengju Suður-Ameríku – alla leið til syðsta odda álfunnar. Einhverjir kunna þó að hafa verið órólegir. Á þessum tímapunkti hafði kórónuveiran breiðst út til margra landa og Kína, þar sem hún átti upptök sín, gripið til harðra aðgerða til að reyna að stöðva útbreiðsluna. Það virtist þó ekki hafa stöðvað veiruna.

Sumir höfðu ætlað að hætta við ferðina, fá endurgreitt. En það hafði reynst þrautin þyngri. Annað skipafélag hafði reyndar sagt sínum farþegum að núna væri einmitt rétti tíminn til að ferðast um á skemmtiferðaskipi á suðlægum slóðum; veiran þyldi nefnilega illa hita.

Auglýsing

En líklega viku áhyggjurnar úr hugum farþeganna um borð í Zaandam þegar siglt var af stað og þeir kynntu sér þægindin og þjónustuna um borð: Margir veitingastaðir og barir. Sólstólar á hverju þilfari. Brosmilt fólk úr rúmlega 580 manna áhöfn á þönum um allt skip til að gera ferðina sem þægilegasta. Þar var líka sjúkrastofur að finna, lækna og hjúkrunarfræðinga. Allt var eins og best var á kosið.

En fríið átti fljótt eftir að breytast í hreina martröð. Faraldur COVID-19 braust út  um borð, margir veiktust og fjórir farþegar létust. Ferðin varð tæpar fjórar vikur af helvíti; skipið fékk hvergi að koma til hafnar og þurfti að taka á móti vistum og sjúkragögnum í skjóli nætur. Stóran hluta tímans voru farþegar í sóttkví í klefum sínum og fengu sjaldan upplýsingar um stöðuna hverju sinni.

„Hversu margir til viðbótar þurfa að deyja um borð í þessu skipi á meðan það bíður eftir aðstoð?“ sagði Andrea Anderson, 62 ára farþegi, er ríkisstjóri Flórída dró það að svara því hvort að skipið mætti koma þangað. Anderson dvaldi í tíu daga inni í litlum klefa ásamt eiginmanni sínum. Hún segir það hafa tekið verulega á. 

Zaandam er í eigu skipafélagsins Holland America. Það var tæpar fjórar vikur á sjó og fékk hvergi að leggja að bryggju.
EPA

Ferðalag Zaandam, sem er í eigu skipafélagsins Holland America, átti eftir að leiða í ljós að þegar heimsfaraldur geisar og líf eru í hættu þá hugsar hver um sig.

Aðeins fjórum dögum eftir að Zaandam lagði úr höfn lýsti Alþjóða heilbrigðismálastofnunin yfir heimsfaraldri kórónuveirunnar. Skipafélagið Holland America ákvað að koma öllum sínum skipum í höfn. En um leið og heimsfaraldri hafði verið lýst yfir tóku mörg ríki við sér, settu á ferðabönn og lokuðu landamærum sínum. Það gerðu ríkin í Suður-Ameríku hvert af öðru, m.a. Chile. Svo er skipið nálgaðist höfnina í Valparaíso barst tilkynning: Þangað mátti það ekki koma.

Ákveðið var að sigla norður með ströndinni og reyna að komast að landi í öðrum ríkjum. En allt kom fyrir ekki. Alls staðar var skipstjóranum neitað.

Farið var að bera á veikindum meðal bæði farþega og áhafnarinnar. Og þörfin á frekari sjúkragögnum jókst sífellt. Er skipið var fyrir utan Ekvador var farið í leynilega aðgerð að nóttu til og vistir og búnaður fluttur um borð í skipið með þyrlu frá landi.

Stefnan var tekin á Flórída en til að komast þangað þurfti að fara í gegnum Panamaskurðinn. 

Auglýsing

Farþegum var fyrirskipað að halda til í klefum sínum til að reyna að draga úr útbreiðslunni um borð. Klefarnir voru margir hverjir litlir, gluggalausir og loftræsting og náttúruleg birta því lítil sem engin. Enda dvelja farþegar skemmtiferðaskipa alla jafna lítið í klefum sínum nema yfir blánóttina.

Einhverjir úr áhöfninni náðu bata en fleiri farþegar, aðallega þeir sem eldri voru, fóru að finna fyrir flensulíkum einkennum.

Einn daginn, er skipið var statt utan Panama, flutti skipstjórinn tilkynningu í hátalarakerfinu. „Því miður þá eru fjórir farþegar okkar látnir,“ sagði hann. „Einn í nótt, tveir í gær og einn fyrir nokkrum dögum. Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sýna ástvinum þeirra stuðning á þessum erfiðu tímum.“

Hann sagði í sömu tilkynningu að tekin hefðu verið sýni af nokkrum farþegum og að tveir hefðu greinst með COVID-19. 

Ótti greip um sig meðal margra farþeganna og ekki síður ástvina þeirra í landi sem fylgdust með fréttum af málinu í fjölmiðlum.

Annað skip til aðstoðar

Skipafélagið ákvað þegar þarna var komið sögu að stefna öðru skipi sínu, Rotterdam, til móts við Zaandam. Það hafði legið við bryggju í Mexíkó og eftir þriggja daga siglingu var það, með rúmlega 600 manna áhöfn, komið að hlið Zaandam. Þá kom önnur tilkynning frá skipstjóranum, ekki minna ógnvekjandi fyrir marga en sú fyrri: „Við byrjum á því í dag að færa lítinn hóp gesta yfir í Rotterdam,“ sagði hann. Fyrst áttu allir að gangast undir heilsufarsskoðun því það átti aðeins að leyfa heilbrigðum farþegum að yfirgefa hið sýkta skip. Um 800 manns voru að endingu flutt um borð í Rotterdam. 

Strandgæslan í Panama fylgdist með Zaandam úti fyrir ströndum landsins.
EPA

Eftir að ljóst var að skipið fengi hvergi að koma í höfn í Suður-Ameríku, og efasemdir höfðu vaknað um að ríkisstjóri Flórída myndi heimila því að koma, gerðust farþegarnir órólegir.  Og þegar stjórnvöld í Panama bönnuðu skipinu að sigla í gegnum Panamaskurðinn greip ótti um sig.

 Einn farþeganna sendi breska blaðinu Guardian skilaboð um að hann hefði verið inni í klefa sínum í marga daga. Matarbakkar væru settir fyrir utan dyrnar þrisvar á dag. Í fyrstu var boðið upp á eina heita máltíð daglega en það átti eftir að breytast.

Laura Gabaroni Huergo, sem einnig var farþegi í skipinu, greindi frá því á Facebook að enginn vissi hvað nú tæki við. „Við erum að bíða og vona að yfirvöld geri hið rétta, bæði fyrir þá sem eru veikir og okkur hin.“

Skiptu um skoðun

Yfirvöld í Panama sögðu í yfirlýsingu að þau gætu ekki heimilað ferðir skipa þar sem grunur væri um COVID-smit um Panamaskurðinn því senda þyrfti fulltrúa yfirvalda um borð. Í landinu höfðu þá greinst tæplega 800 smit og fjórtán höfðu látist.

Fyrir rúmri viku skiptu þau þó um skoðun og gerðu undanþágu frá banninu af „mannúðarástæðum“. Zaandam sigldi um skurðinn og hélt för sinni til Fort Lauderdale í Flórída áfram. 

Auglýsing

Yfirvöld þar voru hins vegar langt í frá spennt fyrir því að taka á móti skipinu. Þau sögðust eiga nóg með sitt, margir væru veikir og sjúkrahús að fyllast af sjúklingum.

Ríkisstjórinn Ron DeSantis var mótfallinn því að fá skipið að landi í Flórída. Hann taldi áhættuna of mikla. Það þurfti forseta landsins, Donald Trump, til að fá hann til að skipta um skoðun. Og þá staðreynd að hann frétti að margir sem voru um borð voru Bandaríkjamenn og um fimmtíu voru frá hans ríki.

Á laugardaginn komu svo bæði Zaandam og Rotterdam til hafnar í Fort Lauderdale. Þeir sem ekki voru sýktir og höfðu engin einkenni sýnt fengu að fara frá borði og til síns heima þar sem þeir dvelja nú í sóttkví. Aðrir verða í sóttkví í skipinu þar til þeim batnar. 

Rúmlega tíu farþegar voru fluttir veikir á sjúkrahús.

Farþegar um borð í Zaandam að bíða eftir að komast í land í Flórída.
EPA

En fleiri skemmtiferðaskip, með samtals um tíu þúsund farþega innanborðs, eru í sömu stöðu víðs vegar um heiminn. Af þessu hefur Dean Trantalis, borgarstjóri í Fort Lauderdale, áhyggjur. „Við höfum engar upplýsingar um ástand farþeganna [í hinum skipunum]. Þetta eru ekki síðustu skipin [sem vilja koma til hafnar í borginni]. Það eru fleiri skip þarna úti, svo að við erum enn í þessari klemmu.“

Í þessari viku höfnuðu yfirvöld í Fort Lauderdale beiðni skemmtiferðaskipsins Coral Princess að koma þar til hafnar. Skipið endaði á því að fara til Miami. Einn hafði þá dáið um borð og margir veikst.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar