EPA

Harmsaga Hart-eyju

Einu sinni hét hún Hjartaeyja. En svo féll einn stafur niður og nafnið Hart-eyja festist við hana. Þetta er að minnsta kosti ein kenningin um nafnið á eyjunni sem á sér svo átakanlega sögu að flestir íbúar New York vilja ekki vita að hún sé til.

Langur og djúpur skurður. Tugir kista úr krossviði liggja hver ofan á annarri í tveimur samhliða röðum. Skurðurinn var grafinn með stórri gröfu en yfir kisturnar moka menn í hvítum hlífðarfatnaði með grímur. Álengdar standa svartklæddir menn, einnig með grímur fyrir vitunum, og fylgjast með aðgerðum.

Velkomin á Hart-eyju. Eyju fyrir utan Bronx-hverfið í New York-borg þar sem fátækir hafa verið lagðir til hinstu hvílu í nafnlausum gröfum frá því um miðja nítjándu öld. Þar hvíla einnig þeir sem enginn vitjaði eftir andlátið. Og líka þeir sem urðu fórnarlömb farsótta á borð við spænsku veikina. Meira en ein milljón Bandaríkjamanna hefur verið jarðsett þarna og oftast í fjöldagröfum. Síðustu árin hefur greftrunum á eyjunni reyndar fækkað og þær verið innan við 1.500 á ári.

Athyglin hefur nú beinst að þessu svæði á ný því til greina kemur að jarða þar fórnarlömb faraldurs COVID-19, þau sem ekki er vitjað í líkhúsum borgarinnar innan tveggja vikna frá andláti.

Auglýsing

Í byrjun mánaðarins fóru að birtast í fjölmiðlum vestanhafs loftmyndir af því sem lýst er hér í upphafi. Hvítklæddum og svartklæddum mönnum við opna fjöldagröf. Borgaryfirvöld í New York neituðu að þar væri verið að jarða þá sem látist hefðu vegna farsóttarinnar sem nú geisar en nokkru síðar viðurkenndu þau að til greina komi að gera það.

Líkhúsin í New York eru að verða yfirfull og flutningabílum með stórum frystigámum er lagt fyrir utan sjúkrahúsin. Sjúkratjöld eru í tugatali við spítalana. Þau má meðal annars sjá í almenningsgarðinum Central Park. Margir deyja svo heima.

Íbúar New York, borgarinnar sem aldrei sefur, hafa orðið harkalega úti í faraldrinum. Í ríkinu hafa fleiri greinst með kórónuveiruna en í öðrum löndum heimsins utan Bandaríkjanna. Og yfir 8.600 hafa dáið vegna COVID-19 að því er fram kemur í New York Times. Um 2.000 hinna látnu eru íbúar hjúkrunarheimila og í gær létust yfir 2.000 manns í ríkinu á einum sólarhring. Á Hart-eyju hefur verið mokað yfir um 25 líkkistur daglega að undanförnu í stað sama fjölda á viku áður. 

Eyjan utan við Bronx á sér langa og oft á tíðum skuggalega og átakanlega sögu. Hún hefur í áratugi heyrt undir fangelsismálayfirvöld New York-borgar og fangar af Rikers-eyju hafa haft það starf að taka grafir. Það hefur ekki alltaf þótt manneskjuleg meðferð. Og fangarnir hafa ekki allir viljað þá vinnu. Áður fyrr gátu þeir ekki skorast undan því. Gerðu þeir það var þeim refsað með einangrunarvist. En núna eru þeir sagðir hafa val. Og lýsa dvöl sinni á Hart-eyju jafnvel með eftirsjá. Þar hafi ríkt friður þrátt fyrir að vinnan hafi ekki verið upplífgandi.

Fyrir landnám Evrópubúa bjó fólk af Siwanoy-þjóðinni, frumbyggjum Norður-Ameríku, á eyjunni. Árið 1654 keypti enski læknirinn Thomas Pell hana og var hún í eigu Pell-fjölskyldunnar í yfir hundrað ár. Hún var áfram í einkaeigu í áratugi eftir það og í byrjun nítjándu aldar var hún þekkt fyrir grófar hnefaleikakeppnir sem þúsundir áhorfenda sóttu í hvert sinn.

Á Hart-eyju standa enn mörg hús sem hafa í gegnum tíðina þjónað margvíslegri starfsemi. Þar var eitt sinn geðveikrahæli fyrir konur.
Wikipedia

Í byrjun sjöunda áratugar nítjándu aldar var komið upp þjálfunarbúðum fyrir hermenn á eyjunni og næstu árin voru yfir 50 þúsund hermenn þjálfaðir þar. Hús voru byggð, m.a. hermannaskálar og bókasafn.

Á sama tíma voru þar reistar búðir fyrir stríðsfanga þrælastríðsins. Rúmlega 3.400 hermenn Suðurríkjasambandsins voru þar í haldi. Fyrstu grafirnar sem teknar voru á eyjunni eftir að Siwanoy-fólkið yfirgaf hana voru fyrir tuttugu hermenn sambandsstjórnarinnar í þrælastríðinu.

Árið 1868 keypti New York-borg stærsta hluta eyjunnar og fljótlega var farið að jarða þar fátækt fólk og  þá sem áttu engan að.

Hart-eyja hefur gegnt mörgum öðrum hlutverkum. Árið 1870 var þar einangrunarstöð vegna faraldurs gulusóttar. Á svipuðum tíma voru þar einnig geðveikrahæli fyrir konur, The Pavilion, og berklahæli. 

Hart-eyja er fremst á myndinni.

Í lok nítjándu aldar var þar opnað drengjaheimili og einnig fangelsi fyrir fullorðna karlmenn. Bæði voru rekin í áratugi með hléum.

Á þriðja áratug síðustu aldar voru uppi hugmyndir um að opna skemmtigarð á Hart-eyju fyrir svarta íbúa Manhattan. Á þeim tíma var svörtum bannað að ferðast með ferjum til annarra skemmtigarða borgarinnar. Hluti eyjunnar var þá enn í einkaeigu en borgaryfirvöldum fannst ekki viðeigandi að hafa skemmtigarð í nágrenni fangelsis og geðsjúkrahúss og tóku því restina af eyjunni eignarnámi.

Kjarnaflaugar og utangarðsfólk

Í síðari heimsstyrjöldinni var fangelsið á Hart-eyju flutt á aðra eyju, Rikers, þar sem það er enn í dag. Í staðinn var þar opnað heimili fyrir utangarðsfólk og síðar meðferðarhæli fyrir áfengissjúka og enn síðar stofnun fyrir eiturlyfjafíkla. Aftur áttu þó fangar eftir að dvelja þar á ýmsum tímum.

Hart-eyja gegndi enn fleiri hlutverkum í gegnum tíðina. Þar voru meðal annars gerð neðanjarðarbyrgi fyrir kjarnaflaugar sem voru starfrækt þar til um miðjan áttunda áratug síðustu aldar.

Hér hefur verið stiklað á stóru um þau mörgu hlutverk sem Hart-eyja hefur þjónað. Enn standa þar margar þeirra bygginga sem áður hýstu sjúka og þurfandi. Þær eru flestar í niðurníðslu.

Fangar hafa í marga áratugi verið látnir grafa kisturnar á Hart-eyju. Myndin er tekin fyrir miðja síðustu öld.
Ljósmyndasafn New York

Allan tímann hefur fólk verið fært þar til grafar. Fyrst var nyrsti og syðsti oddi eyjunnar lagður undir kirkjugarða. Garðarnir eru kallaðir „potter‘s fields“ á ensku – fátæktargrafreitir á íslensku – og eru þeir stærstu sinnar tegundar í heiminum. Síðustu áratugi hafa meðal annars mörg ungbörn verið grafin þar og börn sem fæðst hafa andvana. Úr slíkum greftrunum hefur dregið verulega síðustu ár eftir að sérstakur sjóður var settur á stofn til að standa straum af kostnaði foreldra sem ekki hafa efni á jarðsetningu barna sinna.

Kisturnar eru grafnar í stórum skurðum, fimm kistum barna er raðað hver ofan á aðra og þremur kistum fullorðinna. Kisturnar eru merktar með númeri og aldri þess látna. Stundum stendur á kistunum hvar líkin fundust. Í skrá hjá dánardómsstjóra eru svo frekari upplýsingar, ef þær eru tiltækar, fingraför og síðustu ár DNA-sýni. Ef ættingjar eða aðrir aðstandendur gefa sig svo fram eru jarðneskar leifar hinna látnu færðar í aðra kirkjugarða. Á hverju ári eru tugir kista grafnar upp af þessum sökum.

Auglýsing

Enginn hefur verið jarðsunginn með viðhöfn á Hart-eyju frá því um miðja síðustu öld. Og svo óheppilega vildi til á áttunda áratugnum að stór hluti gagna um þá sem þar hvíla tapaðist í eldsvoða.

En það eru fleiri en fátækir og vandalausir sem hvíla á eyjunni. Í skæðum farsóttum hafa fjöldagrafir verið teknar. Er HIV-faraldurinn geisaði á níunda áratugnum voru lík fyrstu sjúklinganna sem létust grafin hvert í sinni gröfinni. Fangarnir sem sáu um verkið voru klæddir varnarbúnaði.

Er í ljós kom að engin hætta var á að smitast af HIV af líkunum var farið að grafa þau í fjöldagröf. Þúsundir fórnarlamba HIV hafa síðan þá verið grafin þar. Árið 2008, er sérlega slæmur faraldur inflúensu geisaði, voru margir hinna látnu einnig fluttir til Hart-eyju.

Kisturnar eru merktar með nöfnum hinna látnu ef vitað er hver þau eru. Myndin er tekin á níunda áratug síðustu aldar.

Hart-eyja hefur verið lokuð almenningi í áratugi. Þangað fá aðeins fáir að koma. Það var ekki fyrr en árið 2015 að ættingjum og öðrum aðstandendum þeirra sem grafnir eru á eyjunni var heimilt að koma þangað eina helgi í mánuði en aðeins fimmtíu samtals í hvert sinn.

Núna er búið að grafa stóra skurði á Hart-eyju og setja í þá margar kistur. Það er ekki ljóst hvort að um sé að ræða fólk sem dáið hefur vegna COVID-19 en borgaryfirvöld segja að til þess geti vissulega komið.

Gríðarlegt álag vegna COVID-19

Um 150 manns deyja daglega í New York-borg undir venjulegum kringumstæðum. Sá fjöldi hefur margfaldast vegna faraldurs kórónuveirunnar og álag á líkhús og útfararstofur sömuleiðis. Hermenn hafa verið fengnir til þess að aka um borgina og sækja lík þeirra sem deyja heima.

Það eru hins vegar ekki fangar sem munu grafa kisturnar á Hart-eyju á næstunni. Borgaryfirvöld tilkynntu fyrr í vikunni að verktakar hefðu verið ráðnir til verksins. Skýringin er sú að meira en 275 fangar á Rikers-eyju hafa greinst með kórónuveirusmit og hætta er á frekari útbreiðslu. 

Í hugum margra New York-búa eru fjöldagrafirnar smánarblettur í sögu borgarinnar. Aðrir segja að í faröldrum sé nauðsynlegt að nýta þetta úrræði, að minnsta kosti tímabundið.

Samtök voru stofnuð fyrir nokkrum árum sérstaklega til að berjast fyrir því að opna eyjuna fyrir almenningi og gera gögn um þá sem þar eru grafnir aðgengilegri. Formaður heilbrigðisnefndar New York-borgar, Mark Levine, segir að mögulega sé hægt að breyta ásýnd eyjunnar svo að eitthvað gott taki við af langri og sársaukafullri sögu hennar. „Ef margir eiga einhvern nákominn sem hvílir þar þá getum við gert gott úr þessu,“ segir Levine. Kirkjugarðar þjappi fólki saman. „Hart-eyja er varla til í hugum New York-búa. Þetta gæti orðið augnablikið þar sem borgin áttar sig loks á því að við höfum þarna grafreit og það er okkar allra að breyta rétt gagnvart þeim sem þar hvíla.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar