Breyttar ferðavenjur eitt lykilatriðið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
Aukin grænmetisframleiðsla, breyttar ferðavenjur, vistvænir bílaleigubílar og aðgerðir til að draga úr ropi búfénaðar eru meðal þeirra aðgerða sem munu verða til þess að Ísland nái alþjóðlegum markmiðum í losun gróðurhúsalofttegunda – og gott betur.
Framleiðsla á íslensku grænmeti verður aukin um 25 prósent á þremur árum, urðunarskattur settur á og tíu milljörðum króna veitt í hjóla- og göngustíga á fimmtán ára tímabili. Breyttar ferðavenjur, vistvænni landbúnaður, úrgangsmál og sóun hvers konar eru meðal þeirra þátta sem fá aukið vægi í nýrri útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem ríkisstjórnin kynnti í dag. Í henni er að finna 48 aðgerðir – þar af fimmtán nýjar. Með þeim á Ísland að ná að draga saman losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð landsins um ríflega eina milljón tonna CO2-ígilda árið 2030 miðað við árið 2005. Samdrátturinn yrði þá 35 prósent sem er töluvert meiri en alþjóðlegar skuldbindingar segja til um.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum snýst um mótvægisaðgerðir Íslands gegn loftslagsvánni. Parísarsamningurinn gengur út á að halda hnattrænni hlýnun innan 2°C og eins nálægt 1,5°C og hægt er. Til að það geti gerst þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eins hratt og mögulegt er og ná hnattrænu kolefnishlutleysi upp úr 2050. Íslensk stjórnvöld setja hins vegar markið enn hærra og ætla sér að ná kolefnishluthleysi tíu árum fyrr. Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda og er lykilmarkmið í Parísarsamningnum.
Að reikna út losun gróðurhúsalofttegunda og sömuleiðis að reikna út ávinning af aðgerðum til samdráttar er nokkuð flókið en þó misjafnlega eftir því hvaðan losunin kemur.
Í áætluninni sem kynnt var í dag er aðgerðunum 48 skipt niður í þrjá hluta eftir því hvering þær tengjast skuldbindingum Íslands: Bein ábyrgð Íslands, viðskiptakerfi með losunarheimildir og landnotkun.
Árið 2005 var losun á beinni ábyrgð Íslands tæplega 3,2 milljónir tonna CO2-ígilda en miðað við sett markmið þarf hún að vera komin niður í 1,9 milljónir tonna árið 2030.
Losun sem tengist viðskiptakerfinu var 1,3 milljónir tonna af CO2-ígildum árið 2005 en árið 2018 var hún komin yfir þrjár milljónir. Ekki er innan kerfisins tilgreint einstakt markmið fyrir hvert ríki heldur mun heimildum innan þess fækka um 43 prósent milli áranna 2005 og 2030. Umrætt viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS-kerfið) er helsta stjórntæki Evrópusambandsins til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Þessu til viðbótar er unnið að því að koma upp nýju kerfi til að draga úr losun frá alþjóðaflugi og ber það heitið CORSIA. Í upphafi er um að ræða sjálfviljuga þátttöku ríkja og tekur Ísland þátt í kerfinu frá byrjun. Kerfið verður innleitt í Evrópu með breytingum á regluverki ETS-kerfisins.
Dæmi um nýjar aðgerðir sem rötuðu inn í áætlunina í kjölfar samráðs eru aðgerðir til þess að auka innlenda grænmetisframleiðslu, fjölga vistvænum bílaleigubílum, styðja við orkuskipti í þungaflutningum, fanga kolefni frá stóriðju, bæta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun og draga úr losun frá byggingariðnaði.
Vegasamgöngur: Úr 979 þúsund tonnum í 615
Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum stafar af bruna jarðefnaeldsneytis í ökutækjum á landi og telur stærstan einstaka hluta þeirrar losunar sem tilheyrir beinni ábyrgð Íslands. Losunin var 776 þúsund tonn árið 2005 en var komin upp í 979 þúsund tonn 2018, fyrst og fremst vegna stórfelldrar fjölgunar bílaleigubíla. Með aðgerðum í aðgerðaáætlun og þróun samkvæmt grunnsviðsmynd er áætlað að losun árið 2030 verði komin niður í 615 þúsund tonn. Það er 21 prósent samdráttur miðað við 2005 og 37 prósent miðað við árið 2018.
Í skýrslunni kemur fram að losun frá vegasamgöngum jókst frá 1990 til 2007 og dróst svo saman í hruninu og árin þar á eftir. Losunin í þessum flokki var árið 2018 alls 33 prósent af heildarlosun á ábyrgð Íslands. Frá 2014 hefur hún aukist verulega og raunar aldrei verið meiri.
Þótt hreinorkubílar og aðrar vistvænar bifreiðar hafi verið 46 prósent af nýskráðum bifreiðum fyrstu fimm mánuði ársins 2020 þá eru hins vegar þegar í umferð á Íslandi um 200 þúsund bensín- og dísilfólksbílar auk fjölda flutningabifreiða, hópbifreiða og ýmissa stærri ökutækja, sem skýrir af hverju samdráttur verður ekki samstundis í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum.
Til að draga úr losun frá vegasamgöngum eru þegar komnar til sögunnar ýmsar aðgerðir og enn aðrar eru í vinnslu. Má þar nefna skattaívilnanir á ökutækjum sem nýta vistvæna orkugjafa sem og á reiðhjólum og uppsetningu hraðhleðlustöðva.
Ein stærsta aðgerðin er svo efling innviða fyrir „virka ferðamáta“ (hjólreiðar og göngur) sem og almenningssamgangna, m.a. með Borgarlínu. Framlag ríkisins til uppbyggingar Borgarlínu, stofnvega og hjóla- og göngustíga á höfuðborgarsvæðinu er að lágmarki 45 milljarðar króna frá 2020-2033.
Skip og hafnir: Úr 769 þúsund tonnum í 449
Langstærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá skipum og höfnum er frá fiskiskipum og á sér stað vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Losunin í þessum flokki var 769 þúsund tonn árið 2005 og 596 þúsund tonn árið 2018. Með er aðgerðunum er áætlað að losun árið 2030 verði komin niður í 449 þúsund tonn CO2-ígilda. Það er 42 prósent samdráttur.
Í skýrslunni kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum og strandsiglingum hafi dregist verulega saman frá því að hún náði hámarki árið 1996, eða um 40 prósent. Þessi samdráttur er sagður skýrast af ýmsum þáttum – ekki síst betri sóknarstýringu og að dregið hefur úr veiðum á fjarlægum miðum. Umrædd losun er enda tæplega fimmtungur af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Landbúnaður: Úr 605 þúsund tonnum í 575
Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði kemur einkum frá búfé og notkun áburðar. Mest er hún í formi metans (CH4) og hláturgass (N2O) fremur en CO2. Losunin hefur verið nær óbreytt síðastliðna áratugi, var 605 þúsund tonn árið 2005 og 635 þúsund tonn árið 2018. Verkefnið fram undan er að því er fram kemur í skýrslunni að hreyfa við þessari kyrrstöðu. Með aðgerðum er áætlað að losunin verði árið 2030 komin niður í 575 þúsund tonn CO2-ígilda. Samkvæmt losunarbókhaldi Íslands verður stærsti hluti losunarinnar við iðragerjun búfjár, og tengist þá sér í lagi sauðfjár- og nautgriparækt.
Meginþorra þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem kemur frá búfjárrækt má rekja til gerjunarinnar sem á sér stað í iðrum búfjár. Þegar skepnurnar jórtra ropa þær upp metani sem er öflug gróðurhúsalofttegund, raunar meira en tuttugu sinnum öflugri en CO2.
Rannsóknir erlendis benda til að hægt sé að draga úr framleiðslu metans í meltingarvegi búfjár með ýmsum leiðum, svo sem með því að nota efni úr þörungum. Kannað verður hvort hægt sé að draga úr slíkri losun hér á landi og stuðla að rannsóknum og þróun innanlands.
Aukin innlend grænmetisframleiðsla er sömuleiðis ný aðgerð sem kynnt er til sögunnar í uppfærðri aðgerðaáætlun. Hún miðar að því að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25 prósent á næstu þremur árum, styðja við lífræna grænmetisframleiðslu og stefna að því markmiði að íslensk garðyrkja verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040.
Úrgangur og sóun
Að urða úrgang er versti kosturinn í úrgangsmálum fyrir loftslagið. Við urðunina myndast gróðurhúsalofttegundir, þar á meðal metan, sem losnar út í andrúmsloftið. Bein losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs stafar fyrst og fremst frá urðun hans.
Losun frá meðhöndlun úrgangs jókst frá 1990 til ársins 2007 þegar hún náði hámarki. Magn úrgangs hefur svo aftur aukist síðustu ár með auknum efnahagsvexti. Loftslagsáhrif neyslu og sóunar birtast meðal annars í úrgangsmálum – í einnota hlutum sem hent er eftir notkun, matvælum sem fleygt er í ruslið og á urðunarstöðum.
Aðgerðir í þessum flokki eru ýmist komnar vel af stað eða í undirbúningi. Unnið er að útfærslu urðunarskatts og stefnt er að því að umhverfis- og auðlindaráðherra mæli á haustþingi 2020 fyrir frumvarpi á Alþingi sem gerir meðal annars ráð fyrir banni við urðun lífræns úrgangs, í samræmi við aðgerðaáætlun í drögum að nýrri stefnu um meðhöndlun úrgangs. Skattinum er ætlað að virka sem hvati til að draga úr því mikla magni af úrgangi sem daglega er urðað hér á landi.
Kröfur til framleiðenda munu aukast
Þá hefur verið ráðist í verkefni til að draga úr matarsóun og starfshópur sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði vinnur auk þess að tillögum um aðgerðir sem geta dregið úr matarsóun.
„Fram undan er ærið verkefni þar sem ríki heims verða að hætta að henda hráefni og fleygja hlutum – en hugsa hagkerfið heldur í hring,“ segir í skýrslunni. Tilkynnt var árið 2019 um hálfan milljarð króna aukalega í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til að efla hringrásarhagkerfið hér á landi. „Búast má við að kröfur til framleiðenda muni aukast, svo sem um nýtingu á endurunnu hráefni til framleiðslu og að framleiða endingargóðar vörur með orkunýtni að leiðarljósi.“
Í fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum var boðað að urðunarskatti yrði komið á. Unnið hefur verið að útfærslu skattsins og lagt til að upphæð hans verði 15 krónur á hvert kílógramm af urðuðum almennum úrgangi, að undanskildum óvirkum úrgangi, og 0,5 krónur á hvert kílógramm af urðuðum óvirkum úrgangi. Óvirkur úrgangur er til dæmis jarðefni, steypa, flísar, keramik og gler.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið vinnur nú í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðuneytið að frumvarpi til breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta þar sem innheimta urðunarskatts verður lögfest. Haft verður samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tveir milljarðar í urðunarskatt
Að teknu tilliti til þess magns sem hefur verið urðað undanfarin ár er áætlað að tekjur ríkissjóðs af urðunarskatti gætu numið um 2.000 milljónum króna á ári fyrst í stað. Þess er vænst að tekjur af skattinum dragist síðan saman, enda er honum ætlað að leiða til minni urðunar.
Ráðist verður í fjölda verkefna sem miða að því að minnka matarsóun hér á landi. Annars vegar er um að ræða verkefni til skemmri tíma og hins vegar aðgerðir til næstu ára. Talið er að um þriðjungi matvæla í heiminum sé sóað og gróðurhúsaloft- tegundir myndast við meðhöndlun þeirra.
Losun frá stóriðju hér á landi og flugi fellur samkvæmt skilgreiningu ekki undir beina ábyrgð Íslands heldur undir viðskiptakerfi með losunarheimilid, ETS-kerfið. Kerfið er helsta stjórntæki Evrópusambandsins til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og á að skila 43 prósent samdrætti í losun á Evrópuvísu til 2030 miðað við 2005. Innan kerfisins er ábyrgðin á samdrættinum færð á um 11.000 fyrirtæki og um 4.000 flugrekstaraðila sem þurfa að eiga heimildir fyrir allri sinni losun. Hluta þeirra er úthlutað endurgjaldslaust en ef fyrirtækin losa meira af gróðurhúsalofttegundum en sem því nemur þurfa þau að kaupa heimildir vegna þess.
Álverin þrjú sem starfa á Íslandi falla undir ETS-kerfið, sömuleiðis járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga og kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka. Losun frá stóriðju var um 39 prósent af heildarlosnun Íslands árið 2018.
Í annarri útgáfu aðgerðaáætlunarinnar er nýjum aðgerðum sem snúa að losun stóriðju bætt við, m.a.aðgerð sem felur í sér að kanna hvort stóriðjufyrirtæki geti dregið úr losun CO2 frá starfsemi sinni með því að dæla því niður í berg eða nýta það til dæmis til eldsneytisframleiðslu. Þar sem niðurdælingin er tilraunaverkefni er ekki hægt að segja til um hver mögulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda gæti orðið. „Þó er ljóst að gangi verkefnið vel mun það marka vatnaskil við að draga úr losun frá stóriðju hér á landi,“ segir í skýrslunni.
Fjármögnun áætlunarinnar
Þegar fyrsta útgáfa aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum var kynnt kom fram að henni fylgdu 6,8 milljarðar króna og var þar miðað við fjármálaáætlun 2019-2023. Með fjármálaáætlun 2020-2024 jukust enn framlög til málaflokksins og í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar árið 2020 vegna efnahagsáhrifa COVID-19 var síðan gert ráð fyrir 600 milljónum króna aukalega til orkuskipta og grænna lausna. Útfærsla þeirra verkefna stendur yfir en gert er ráð fyrir 550 milljónum króna vegna orkuskipta og kolefnisbindingar á árinu 2020 og 50 milljónum króna aukalega í nýsköpun í gegnum Loftslagssjóð.
Fjármagn sem sérstaklega er eyrnamerkt loftslagsmálum rennur til dæmis til uppbyggingar hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið, kolefnisbindingar, endurheimt votlendis og rannsókna og vöktunar vegna loftslagsbreytinga. Það fer einnig í aðgerðir gegn matarsóun, ýmiss konar úttektir og greiningar, fræðslu og eflingu stjórnsýslu til að takast á við auknar skuldbindingar í loftslagsmálum, svo dæmi séu tekin.
Kostnaður ríkissjóðs vegna loftslagsmála er einnig í formi skattastyrkja. Síðastliðin ár hefur ríkissjóður gefið eftir hluta af virðisaukaskatti vegna kaupa á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum. Bara á árinu 2019 námu slíkir skattastyrkir tæplega 2,7 milljörðum króna. Ívilnanirnar hafa nú verið framlengdar og útvíkkaðar og ýmsir skattastyrkir bæst við, meðal annars vegna vistvænna hópbifreiða í almenningsakstri, rafmagnshjóla og reiðhjóla. Áætlað er að með þessu verði skattastyrkirnir ríflega 3,4 milljarðar króna á árinu 2020.
Gildandi fjármálaáætlun tekur til áranna 2020-2024. Þegar einungis er miðað við þau ár sést að á fimm ára tímabili renna að lágmarki 46 milljarðar króna til stærstu verkefna í loftslagsmálum.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verður til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda í þrjá mánuði frá birtingu hennar. Öllum sem vilja gefst kostur á að veita umsögn og koma með ábendingar. Frestur til að skila þeim er til 20. september 2020.